Björn Guðjónsson – minningarorð

Hann var sem einn af postulunum, einn af lífsins höfðingjum, sem hafa litað líf okkar hinna og gert það skemmtilegra og betra.  Minningarorð um Björn Guðjónsson eru hér að neðan.

Jólagjöfin 1940

Björn og Inga hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér. Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að þau Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og rífandi gamansamaur, sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin eru, að Björn vildi það sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Hann mat það, sem henni hugnaðist og Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband í desember 1942 og hafa því notið hjúskapar í 66 ár. Þeirra saga hefur verið gæfusaga. Oft hefur Björn róið, en nú fer hann sína hinstu ferð frá Ægisíðu á eftir. Fáni verður dreginn að hún við húsið nr 66 og drottningin hans Björns sér á eftir bónda sínum og út á himinsjóinn.

Fiskveiðar

Ég las áðan úr sjómannaguðspjallinu. Björn þekkti þreytuna, sem fylgdi gæftaleysi og aflaþurrð. Hún er söm við Genesaretvatn, sem er álíka stórt og veiðsvæði Björns og helmingi stærra en Þingvallavatn, sem hann unni líka. Björn hefði alveg skilið hik manns, sem hafði farið snemma en komið fisklaus til baka. Svo kom þar að maður ofan af landi og vildi annan róður strax. En Símon Pétur lét sig hafa það og líf hans breyttist og allur heimurinn með.

Björn var líkur Símoni Pétri um margt, fastur fyrir, traustsins verður, skynugur og fullkomlega yfirvegaður í sókn sinni. Hann kunni sitt fag. Báðir vissu hvernig leggja ætti net og hvenær maður opnaði fyrir innri skynjun, tók mark á innri rödd og hinu sérstæða.

Björn var vel gerður og hann samþætti vel gáfur sínar. Hann naut þekkingar síns fólks á nátttúru umhverfisins í marga ættliði, fékk í arf veðurvit kynslóðanna, þekkingu á botni, straumum og fiskgöngum við Skerjafjörð. Hann varð kunnáttumaður í sínu fagi og sækóngur Ægisíðunnar. Útgerðin dugði ekki til framfærslu allt árið og Björn leitaði því annarra vinnumiða meðfram. Á yngri árum veiddi hann síld í Hvalfirðinum og fyrir norðan, vann hjá Eimskip um tíma og síðan í Sindra Stáli.

Grímsstaðavörin og mannlífið

Vegna útgerðar hans könnuðust íbúar í Vesturbænum við Björn Guðjónsson. Og allir krakkar á Grímsstaðaholtinu þekktu Bjössa. Smáfólkið sótti í fjölbreytilegt lífið við ströndina, skoðaði kuðunga og veiddi síli og marhnúta. Um tíma herti Björn grásleppu á trönum við klöppuðu ástasteinana hjá brautarteinum hans. Þar kom stundum torfa af stórufsa, sem rikkti vel í og gaman var að veiða á stöng. Bátakarlarnir skildu veiðihug barnanna og gáfu beitu. Þeir voru flestir vinsamlegir en Björn var þeirra fremstur. Hann var sæhöfðinginn í heimi okkar barnanna, glæsilegur, eins og Hollywoodstjarna, og hélt sig vel, sómi sinnar stéttar. Báturinn hans var alltaf hreinn. Kofinn hans var snyrtilegur eins og fjöldi mynda í blöðum og tímaritum sýna vel.

Sjógangurinn krafði eigendur um stöðugt teinaviðhald og alltaf var brautin hans Björns best. Hann gætti tóla og tækja sinna. Björn var mildur höfðingi í sinni verstöð. Hann var glettinn og elskulegur við yngri sem eldri, var sannur mannvirðingarmaður. Og geðlaus var hann ekki og skapfestan kom vel í ljós þegar á einhvern var hallað, þá var Björn strax kominn við hlið hins minni máttar. Einu gilti hvort til hans komu börn, útigangsmenn eða þjóðhöfðingi. Allir nutu sömu ljúflyndisglettninnnar, en hinir fátæku nutu hins vegar uppbóta og verðið til þeirra var stundum talsvert neðan við þekkt kílóverð.

Ríkidæmi gjafmildinnar

Samheldni hefur löngum ríkt á Íslandi, siðfræði samstöðunnar er inngreypt í fólk og kemur í ljós í heilbrigðu fólki og ekki síst þegar að kreppir. Björn þekkti ekki aðeins umhyggjusiðfræði kristninnar, heldur iðkaði hana í lífinu og í samskiptum við fólk. Í honum var gæfuleg blanda heiðarleika, umhyggjusemi, örlætis, hugrekkis og vilja til hins besta í öllum efnum. Hann var “grand” í lífinu en stærstur í samskiptum. Börnin hans vita, að þurfandi fólk á að njóta uppbóta og aukafiska, að ríkidæmi í lífinu verður ekki til vegna þess að maður nær öllum krónunum, heldur þegar fólk fær notið lífs og umhyggju. Sá er ríkur, sem sem gefur af sjálfum sér, sá einn verður auðugur sem veit að fjármunir eru þjónar en ekki húsbóndi.

Ungviðið og þroskakostir

Fólk á Grímsstaðaholti naut ekki aðeins nýmetis úr bátnum hjá Bjössa, heldur líka þeirrar gleði sem lífið á ströndinni gaf tilefni til. Það var gaman á góðum dögum, þegar húsmæðurnar komu til að fá nýmeti. Björn lék á alls oddi. Krakkarnir nutu gleðinnar. Hann var ábyrgur sjómaður og það var ekkert sjálfgefið að fá að fara á sjó með honum. En hann tók því ljúflega þegar ég stundi upp, að ég vildi gjarnan munstra mig á Guðjón Bjarnason RE 324 og vera háseti í einni ferð. Hann lofaði engu fyrr en foreldraleyfið var veitt. Róðurinn með Bjössa var eftirminnilegur dýrðardagur. Góðmiðin við Staðarboða út af Álftanesi gáfu vel. Sjómaðurinn Björn var fumlaus og handtök hans styrk. Meðan hann dró netin og skellti inn hrognkelsum, fylgdist hann með skýjafari, blikum á lofti og lífi í sjó. Hann skýrði verkin, talaði um sker og boða, benti mér á hnísu í sjónum og sagði frá þyrsklingum, sem hann sá í djúpinu og hélt örfyrirlestur um þaralit fiskjarins.

„Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar“ sagði Jesús eitt sinn og mér finnst eins og Bjössi hafi verið einn af postulunum, einn af þessum lífsins höfðingjum, sem hafa litað líf okkar hinna og gert það skemmtilegra og betra.

Bjarnastaðafólkið og lífið á Ægisíðu 66

Björn Guðjónsson fæddist í Bjarnastaðabænum, sem var í húsaröð upp af Ægisíðunni, nærri Grímsstöðum. Hann óx upp á heimareit síns fólks og skilaði áfram mannviti, verk- og staðþekkingu svæðisins. Móðir hans var Guðrún Valgerður Guðjónsdóttir og faðir hans Guðjón Bjarnason. Systkinin voru fjögur. Björn var elstur. Hin eru Þorbjörg, Bjarni og Gunnar Ingibergur og lifa bróður sinn. Björn fæddist 11. nóvember árið 1921 og lést 30. nóvember síðastliðinn. Þökk sé öllum þeim sem þjónuðu honum fyrr og síðar og hér skal nefnt starfsfólk á Landakoti og í Sóltúni og þeim þakkað.

Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur, konu hans, húsið á Ægisíðu 66 og þar bjuggu þau hjón síðan og með sama fólki alla tíð. Það er mikil gæfa. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.

Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert er elstur og hans kona er Steingerður Steindórsdóttir. Næst kom Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar vinur er Jóhann Hafþór Þórarinsson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.

Þegar saman fer kynsæld, elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Kóngsríki Bjössa var stórt, heima, ströndin og hafið. Hann var hlýr fjölskyldufaðir, laginn uppalandi og glaður barnakarl. Á fjölskylduhátíðum var keppst um að komast í fangið hans afa, þar var skjól veraldar, kátlegar sögur voru sagðar, hlátrar hljómuðu og gamanið ríkti.

Barnabörnin eru 12 og þeirra börn síðan 18. Afkomendur Björns og Ingu eru þegar orðnir þrjátíu og fimm og fleiri í gerðinni.

Elskan og lífið

Í slíku ríkidæmi er lífsins auður fólginn. Inga heillaðist af Birni á jóladegi og varð síðan hans. Sagan af örlaga-appelsínunni minnir mig á bók eftir norska rithöfundinn og spekinginn Jostein Gaarder heitir Appelsínustelpan. Þetta er undursamleg ástarsaga um mann, sem heillaðist af stúlku með appelsínur. Þau áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó – fyrir litla drenginn þeirra. Þetta er grípandi saga og gerir upp við hina gömlu spurningu allt frá tímum Aristótelesar, spurningar sem ekkert okkar kemst undan að svara með einu eða öðru móti: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, á Högum og Melum lífsins og – niður við Ægisíðu, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir, öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð. Bjössi naut elsku Ingu, elskaði hana, naut þessa kraftmikla, vel gerða, skemmtilega og hlægjandi fólks, barna, tengdabarna og afkomenda. Og svo umlykur okkur öll elska himinsins. Við erum elskuð.

Björn og lífsgæðin

Lífið var og er til að lifa því. Og Björn kunni að njóta. Hann dansaði við Ingu sína. Hann átti góða vini allt frá bernsku, ræktaði vináttuna, spilaði við glaða briddsfélaga sína reglulega og í áratugi, naut þess að sækja mannfundi og njóta þess sem bæjarlífið bauð uppá, hvort sem það var í leikhúsi eða á tónleikum. Hann var ekki aðeins bundinn við Skerjafjörð heldur naut þess að fara með stöng og Ambassadorhjólið sitt austur í Þingvallasveit og þenja sig við fluguköst við fiskaskvompu í Vatnsvikinu og egna fyrir stórfisk. Hann fór líka á slóðir nafna síns Blöndals í Straumana og til veiða í stórám Húnavatnssýslna. Og eins glöggur og næmur sem hann var gat hann ekki orðið annað en mikill aflamaður í stramvatni líka. Hann var náttúruunnandi, hreifst af fallegu sólarlagi, birtu og litum. Hann var fagurkeri og naut fallegra hluta, var smekkmaður líka. Hann fróðleiksfús, sem kom vel fram á ferðum. Hann vissi um nöfn, staði, staðhætti og einu gilti hvort það var á leiðinni norður í land eða í ökuferð í Þýskalandi.

Björn tók þátt í ríkulegu félagslífi á Grímsstaðaholtinu. Ungmennafélag varð til á fjörukambinum. Svo var Dóri, síðar í fiskbúðinni á Dunhaganum, hvatamaður til stofnunar knattspyrnufélagsins Þróttar. Björn lærði strax í bernsku, að ef þröngt var í búi skildi maður eftir fisk á tröppum þurfandi. Samfélagsvitund var rík og ekki skrítið að fyrsta sella sósíalista varð til á Holtinu. Björn kom ekki við þá sögu, en honum rann eðlilega blóð til skyldunnar gagnvart trillukörlum og smábátasjómönnum þjóðarinnar. Hann var ötull stofnfélagi í Samtökum grásleppuframleiðenda, sem síðar varð Landssamband smábátaeigenda. Björn var í stjórn félagsins um árabil. Í þessu sem öðru var eftir honum sóst, hann var glöggur, skemmtin og réttsýnn.

Legg þú á djúpið

Og Jesús sagði. “Legg þú á djúpið og leggið net ykkar…” En sjómaðurinn sinnti kallinu til lífs þrátt fyrir ytri aðstæður og allt væri þvert á viljann. Og hlutverk sjómannsins við Galíleuvatnið var síðan það, að veiða menn eins og skýrt kemur fram í guðspjallinu. Veiða menn, já Björn Guðjónsson var hamingjumaður. Hann þjónaði lífinu og hann var maður mannbjargar í mörgu. Hann var eiginlega heil björgunarsveit í sjálfum sér, alltaf á vakt og til reiðu. Þegar hann sá, að ungmenni voru að leika sér á Hrakhólmum, skerjum við Álftanes, fór hann stóran krók til að tryggja að þau flæddi ekki á skerjum. Hann bjargaði þeim. Margoft bjargaði hann börnum á kössum og flekum á floti, sem stefndu til hafs.

Sjómenn róa helst ekki á sjómannadegi heldur gleðjast í landi. Á slíkum dögum vitjaði Björn ekki heldur neta sinna utan einu sinni. Hann var ekki í rónni, fann kallið hið innra, ræsti út son sinn sem ekkert skildi í karlinum. En í þetta sinn skyldi róið. Ekki höfðu þeir lengi farið þegar þeir komu að skútu á holfi og kaldir menn voru á kili og í bráðri lífshættu. Þeim var bjargað um borð í Guðjón Bjarnason og síðan komið til manna, í hlýju og til lífs. Engra neta var vitjað þenann dag, en sá sem heyrir kallið þvert á kerfi og reglur veit hvenær á að fara út þrátt fyrir hefðbundin mótrök. Meistarinn frá Nasaret sagði: “… Héðan í frá skaltu menn veiða.” Björn Guðjónsson kunni að veiða hamingjuna, útdeildi henni meðal sinna og samferðamanna. Hann var mannbjörgunarmaður og lukkumaður í lífinu. Hann brást við kallinu ávallt og til að efla velferð.

Nú hefur hinsta kallið hljómað, kóngur siglir og byr himins ræður. Því kalli sinnir Björn Guðjónsson, fer frá sinni Grímsstaðavör við Ægisíðu og inn á himinhafið, sem er án allra skerja. Þar er gaman, þar er góð veiðistöð, þar ríkir fegurðin ein, engar blikur og engir boðar, þar skilst glettnin, þar ríkir samheldnin því þar er Guð.

Þökk sé Birni Guðjónssyni, elsku hans, þjónustu og mannvirðingu.

Góður Guð geymi hann og verndi um alla eilífð.

Góður Guð styrki ykkur: Ingu, börn, tengdabörn, afkomendur, systkini og vini.

Amen.

Minningarorð í útfararathöfn í Neskirkju 5. desember 2008. Athöfnin var kl. 13. og jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.

Eftir útförina var hrífandi að aka Ægisíðuna í stillu, brosandi desembersólskini og góðviðri. Fáni var dreginn að hún við húsið nr. 66. Mér fannst sem ég sæi Bjössa við kofan hans og var hugsi á hinni löngu leið í kirkjugarðinn í föstudagsumferðinni. Grímsstaðavörin án Björns Guðjónssonar er hálfmunaðarlaus. Við Holtarar ættum að heiðra minningu hans og allra hinna, sem gert hafa út frá þessari vör, og öðrum í nágrenninu og gera bryggju til að auka bátaumferð á firðinum. Ég legg til að hluti Grímsstaðavararinnar þar sem Björnsbrautin var njóti nafns hans og verði Björnsvör. Kofinn hans er vel varðveittur og borgaryfirvöld ætti að gæta hans sem hluta mikilvægs menningarlandslags Reykjavíkur.

Fiskidrátturinn mikli

1Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 2Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 3Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. 4Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“ 5Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ 6Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. 7Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. 8Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ 9En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. 10Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ 11Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

Lúkasarguðspjall, 5. kafli.