Fréttablaðið spyr um afstöðu biskupsefna. Spurningar og mín svör eru þessi:
Hverju er mikilvægast að breyta innan kirkjunnar?
Kirkjan er að nútímavæðast. Góðar breytingar hafa orðið á skipulagi þjóðkirkjunnar. Ég vil kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna því börnin eru mestu dýrmætin. Ég vil líka hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að efla samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Glatt fólk þjónar vel.
Hver er þín afstaða til fulls aðskilnaðar ríkis og kirkju?
Aðskilnaðurinn er að mestu orðinn, en þjóðarsamtalið um framtíðarsamskipti þjóðar, ríkis og kirkju er varla byrjað. Kirkjan hefur ekki og sækist ekki eftir forréttindum, heldur að þjóna fólki. Þjóðkirkjan vill frið til þess að þjóna fólki vel og um allt land.
Mundir þú taka þátt í Gleðigöngunni (e. Gay Pride)?
Já. ég tek mér stöðu þar sem ég held, að Jesús Kristur hefði viljað vera. Hann stóð alltaf með fólki. Gleðigangan er í þágu réttlætis í samfélagi okkar. Mínar göngur eru göngur til gleði og Gay Pride er ganga til góðs.
Sigurður Árni Þórðarson útskrifaðist úr Guðfræðideild Háskóla Íslands um leið og ég. Hann kynnti sig strax sem skarpur námsmaður, mikill trúmaður og góður félagi.
Það er mér sönn ánægja að lýsa yfir stuðningi mínum við dr. Sigurð Árna Þórðarson vegna framboðs hans til biskups Íslands.
Ég hef starfað með Sigurði Árna í Neskirkju í sjö ár og vinnur hann allt af fagmennsku og hlýju. Hann hefur afskaplega góða nærveru og mikla hæfileika í að miðla málum og það tel ég að séu þeir eiginleikar sem biskup Þjóðkirkjunnar þarf að skarta til að takast á við ný og brýn verkefni.