Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.

+ Hulda Valtýsdóttir +

Hulda Valtýsdóttir var eiginlega alls staðar – og hafði áhrif á okkur. Hún var fjölhæf, dugmikil og hrífandi. Hún bar í sér þroskaða menningu, beitti sér með dug og vinsemd og kom afar mörgu til leiðar. Líf hennar var heillandi. Þegar við stöldrum við og hugsum um Huldu er eins og hún hafi snert öll – og líka öll okkar æfiskeið og lífsvíddir. Hún kom svo víða við sögu. Flest íslensk börn hafa notið hennar í leikverkunum og barnabókunum, sem hún þýddi. Þýðingar hennar eru orðnar klassík og hluti þjóðmenningar, sem ekki rýrnar heldur er sívirk. Hulda stýrði ásamt systur sinni afar vinsælum barnaþætti í útvarpi og gaf út barnabækur. Eldra fólkinu þjónaði hún með skrifum sínum, ekki síst í Morgunblaðinu. Hún var vörður hinna stóru málefna, gilda, gæða og lista sem vörðuðu allt samfélag þjóðarinnar. Reykvíkingar njóta verka hennar og vökullar íhygli í stjórn borgarinnar. Og margt eigum við henni að þakka í þeim efnum. Hún fleytti framtíðinni inn í samfélag sitt með því að þora að ræða opinberlega stóru málin með hispurslausum hætti og þar eru umhverfismál – og þar með talin skógrækt – í öndvegi. Og eldri borgarar nutu hennar. Henni treyst fyrir úthlutun fálkaorðunnar sem formanni orðunefndar. Hulda kom við sögu allra.

Þjónað í þágu lífsins

Af hverju var var áhugi hennar svo víðfeðmur? Mér þótti merkilegt að koma í stórkostlegt Sólheimahús þeirra Gunnars og Huldu, sem hann teiknaði, þau hönnuðu og byggðu sér. Þar hlustaði ég á dætur Huldu segja frá móður þeirra og öðrum ástvinum segja litríkar og elskulegar sögur. Þá skildi ég að það voru gæðin í foreldrum hennar og fjölskyldu sem skiluðu Huldu menningu, mannsýn, ást til náttúrunnar og samhengi í tilverunni. Hún var hæfileikarík og vann vel úr.

Hvað gerir okkur gott? Það er spurning hefur fylgt okkur mönnum frá upphafi. Viturt fólk hefur alla tíð vitað að við höfum áhrif. Grískt spakmæli kennir að friður og velsæld ríki þegar gamalt fólk sáir trjáfræum þrátt fyrir að það muni aldrei njóta skugga þeirra trjáa, sem það sáir til. Marteinn Lúther var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði á morgun. Svarið var einfalt – fara út og planta eplatré í dag. Skógræktarmenn hugsa ekki um skyndigróða heldur hugsa eins og kristinn maður – í öldum. Hin eiginlegu gæði varða ekki aðeins augnabliksfullnægju, heldur eru í hinu stóra og mikla, fagra og víðfeðma, langa og lífseiga. Mannlíf í auðn er ekki gæfulegt, en ríkulega klætt land og iðandi lífheimur er til góðs fyrir fólk. Lífríki er gott en lífleysa vond. Þá klassík, mannsýn og heimssýn fékk hún í arf í foreldrahúsum. Hún hafði í sér gæðin til að miðla áfram. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ – segir í Fjallræðunni.

Upphaf og fjölskylda

Hulda Steinunn Valtýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september árið 1925. Hún var dóttir hjónanna Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Kristínar Jónsdóttur, listmálara. Þau voru bæði frumkvöðlar og risar á sínum sviðum. Um bæði hafa verið skrifaðar glæsilegar og upplýsandi bækur.[1]Þau voru eyfirsk að uppruna. Kristín fæddist á því fallega Arnarnesi við Eyjafjörð. Þar var menningarheimili. Valtýr bjó bernskuárin á Möðruvöllum – þar sem faðir hans kenndi við Möðruvallaskóla. Skemmtilegar sögur eru um bernskutengsl Kristínar og Valtýs því Arnarnesfólkið átti kirkjusókn til Möðruvalla og sótti þangað messur. Valtýr var ungur þegar hann hreifst af Kristínu. En sagt var að hann hefði einu sinni hrint henni niður af öskuhaug. Hann var þó kurteis ungsveinn og bauð henni upp í dans og dansaði við hana á sokkaleistunum. Ekki af eftirsjá vegna gjörningsins á öskuhaugnum heldur fremur vegna hrifningar á stúlkunni. Dansinn var ávísun á síðari kynni. Þau Kristín og Valtýr fóru um veröldina í sitt hvoru lagi en endurnýjuðu kynnin í Kaupmannahöfn, töluðu sig til ástar, gengu í hjónaband og urðu og voru afar náin og samhent alla tíð. Kristín og Valtýr byggðu húsið á Laufásvegi 69 og þar átti Hulda heima til fullorðinsára. Og í bókunum um þau Valtý og Kristínu, í minningargreinum og minningum vina er skýrt tjáð að heimilislífið á Laufásveginum var skemmtilegt og heimilið var opið. Listamenn þjóðarinnar áttu í þeim vinsemd og frábæran skilning – eins og Gunnlaugur Scheving orðaði það. Áhugafólk um stjórnmál kom þar og ólíkar skoðanir voru ekki aðeins leyfðar heldur óskað eftir öflugum skoðanaskiptum. Þar var hressilega rætt um listir og stjórnmál, jarðrækt og bókmenntir, blaðamennsku, búskaparhætti og þjóðsögur. Þetta var klassík heimilisins en nútíminn bankaði líka sá dyr. Pólitíkin varð stundum sem aðalkrydd máltíða og Hulda lærði að lesa í flóknar aðstæður, hlusta á gagnstæð viðhorf, horfa á mál frá mörgum hliðum, íhuga næmt og túlka skýrt.

Systurnar voru tvær. Helga var eldri og var kunn fyrir leikhússtörf sín. Huldunafnið kom upprunalega úr vitrun Stefáns á Möðruvöllum, afa Huldu.[2]Þegar Hulda fæddist tók eldri systirin hinni nýju systur með gleði. Af myndum úr fjölskyldualbúmunum má sjá að þær systur voru nánar og deildu kjörum. Þær áttu hægt með að vinna saman alla tíð og útvarpsþættir þeirra á sjötta og sjöunda tug liðinnar aldar eru mörgum í fersku minni. Helga lést árið 1968, aðeins 44 ára gömul.

Skóli, störf og baráttumál

Hulda hóf skólagöngu í Landakotsskóla og þaðan fór hún í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1945. Strax í bernsku hafði Hulda mikinn áhuga á lífinu á ritstjórn Morgnblaðsins. Hún byrjaði að sendast fyrir blaðið meðan hún var enn í grunnskóla. Síðar varð hún ritari föður síns og varð svo blaðamaður á Morgunblaðinu. Hulda skrifaðium margvísleg efni fyrir Morgunblaðið, þ.m.t. Lesbókina, og ritaði fasta pistla. Umhverfis- og menningar-mál voru henni hugleikinn. Frá 1989 til 2005 sat Hulda í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og var varaformaður stjórnar frá 1989 til 1995. 

Hulda var afkastamikil í þýðingarstörfum og verk hennar höfðu mikil áhrif. Hún þýddi barnasögur og leikrit, m.a. sögurnar um Bangsímonog leikritin Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus,auk fleiri sígildra verka sem Helga systir hennar las í útvarpi.

Í foreldrahúsum lærði Hulda að pólitík gat verið harðvítug og orðið ágeng fjölskyldulífinu. En hún brást vel við kalli til starfa í borgarmálum þegar eftir var leitað. Hulda sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1982 til 1986. Og það er gaman að sjá mynd af fyrsta borgarstjórnarfundinum eftir kjörið. Hulda var í flottum kjól og bar af öllum að glæsileik. Umhverfis- og menningarmál voru Huldu hugleikin sem og málefni ungu kynslóðarinnar. Hún vildi að hagsmunir barna væru virtir og rödd þeirra fengi að hljóma. Hulda var formaður umhverfismálaráðs og fyrsti formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur. Í þeim störfum tengdist hún mörgum erlendum gestum. Og Yoko Ono og Erró urðu vinir hennar sem og ýmsir umhverfisverndarsinnar. Hulda leit á þessa málaflokka hafna yfir flokkspólítík. Og það er merkilegt að sjá hve skeleggar greinar hennar voru um þau mál og hve ákveðið hún lyfti umræðu um stóru málin og siðferðisgildin á æðra plan.

Í uppvexti lærði Hulda að meta gildi skógræktar. Foreldrar hennar vildu klæða land og efla lýð. Hulda beitti sér í málefnum skógræktar og var formaður Skógræktarfélags Íslands frá 1981 til 1999. Hún var einnig formaður framkvæmdanefndar um landgræðsluskógaátakið Ár trésins, sat í stjórn Landgræðslusjóðs og í stjórn Rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Hulda var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún var sæmd stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að skógræktarmálum. Í öllum störfum og stjórnum var Hulda styrk, velviljuð og framfarasinnuð.

Gunnar og fjölskyldan

Svo var það Gunnar Hansson. Hann var á leið austur Laufásveginn, hafði fengið bíl lánaðan og var á rúntinum. Gunnar var með glöggt auga, sá glæsilega unga menntaskólastúlku ganga vestur Laufásveginn. Og hann var snöggur, tók u-beygju og sveigði upp að gangstéttinni þar sem Hulda var. Renndi rúðunni niður og sagði: „Going my way?“ Hulda hafði húmor fyrir svona öflugum herramanni, settist inn í bílinn – og hann ók hennar leið. „Going my way!“ Síðan var hans vegur hennar vegur og hennar leið hans leið. Þau áttu erindi saman allt lífið. Þau voru bráðung er þau kynntust en ástin logaði og lifði. Gunnar fór vestur um haf til að læra arkitektúr enda var ekki annað í boði á stríðsárunum en Ameríkuför. Þau settu upp hringana í sitt hvorri heimsálfuni og kunnu alveg að stilla klukkurnar – en uppsetningarhátturinn var skondinn. Svo kom Gunnar til baka þegar hann hafði lokið áfanganum sem hann ætlaði sér. Þau Hulda gengu í hjónaband, hann fékk vinnu í sínu fagi og hún vann á Morgunblaðinu. En svo vildu þau fara utan saman og Gunnar vildi bæta við sig. Þau voru í Kaupmannahöfn um tíma og síðar í Þrándheimi í tvö ár. Gunnar stúderaði, Hulda sá um ungviði og kynnti sér norræna menningu, viðmið, skógrækt og umhverfisvitund ytra. Hún fór heim og Gunnar varð eftir, lauk náminu og kom svo.

Hulda og Gunnar eignuðust þrjár dætur: Kristínu, Helgu og Hildigunni. Hulda lætur einnig eftir sig tvo tengdasyni, Michael Dal, eiginmann Helgu og Ásgeir Haraldsson, eiginmann Hildigunnar, en eiginmaður Kristínar var Stefán Pétur Eggertsson og lést árið 2013. Barnabörnin eru sex; Hulda, Gunnar, Eggert, Eva Kristín, Gunnar Steinn og Ragnheiður Steinunn. Langömmubörnin eru fimm; Stefán, Pétur, Steinunn Hildur, Jón Grétar og Birkir Michael. Mikill samgangur var einnig við börn Helgu – Kjartan, Kristín, Stefán og Björn voru heimagangar í Sólheimum.

Þau Hulda og Gunnar héldu saman veg lífsins. Það var jafnræði með þeim. Þau voru samrýmd, töluðu og hlógu saman. Þau deildu áhugamálum, náttúru Íslands, fjölmiðlun, menningarmálum og laxveiðar. Þau ferðuðust víða og veiddu saman.  Gunnari þótti nóg um hve fiskin Hulda var og hélt fram að hún þyrfti ekki annað en skrúfa frá krana þá væri kominn lax á færi hjá henni! En hann lagaði maðkinn fyrir Huldu sína – og taldi ekki eftir sér. Gunnar lést fyrir aldur fram árið 1989.

Minningarnar

Hvaða minningar koma upp í huga þinn þegar þú minnist Huldu. Manstu brosið hennar? Hvernig hún horfði á þig og fólk? Manstu hve vel hún las átök og hve laginn hún var að leysa hnúta? Manstu að hún var varkár? Kvaddi hún þig einhvern tíma og bað þig að fara varlega? Manstu að Hulda vildi gjarnan, að fólk hefði skoðun, þyrði að tjá hana og tæki sér stöðu í baráttumálum? En hún vildi þó ekki að neinn byggði sitt mál á sleggjudómum eða hæpnum forsendum. Manstu hve vel Hulda mat börn og að hagur þeirra væri metinn? Manstu eftir Huldu í landgræðsluferð upp á hálendi Íslands? Fórstu einhvern tíma á menningarviðburð með henni – jafnvel til að hlusta á Derrida? Manstu gæða- og gæsku-siðfræði og mannsýn Huldu?

Skil og eilífð

Og nú er komið að skilum. Hulda skrifar ekki framar á Olivetti-ritvélina sína kraftmikinn pistil um náttúrvernd, menningarverðmæti eða mikilvægi listar. Hún þýðir ekki framar erlend gæðastykki fyrir íslenskar fjalir. Hún tekur ekki þátt í annarri bylgju skógræktar á íslandi, kolefnisbindingarbylgjunni. Hún les ekki framar Kierkegård og spáir hvernig tilvistarspekin rann inn í afbyggingaraðferð póst-modernismans. Hún býður ekki framar erlenda listamenn velkomna inn í menningarheim Íslendinga. Eða laumar að okkur, að enginn viti hvað býflugurnar hugsa! Hún gefur ekki pólitíkinni framar mennska ásýnd, hlý augu og góða dómgreind. Hún brosir ekki framar við börnum fjölskyldunnar, blómum vallarins, fiskfullum veiðihyl eða birtu daganna. Hún er farin inn í ljósheim eilífðar. Sólheimarnir eru enn til, minningarnar varpa birtu yfir líf okkar hinna. Hulda var alls staðar, hafði mikil áhrif. En svo heldur lífið áfram. Guð er alls staðar og Hulda er engill þess lífmagns. Og það er svo okkar að lifa vel, varðveita gildin, berjast fyrir öllu því mikla og góða sem Hulda vissi að skipti máli. „Dvel ég í draumahöll og dagana lofa … “ Guð geymi Huldu Steinunni dóttur Valtýs og Kristínar. Guð geymi ykkur öll og styrki.

Amen.

Útför frá Dómkirkjunni 16. maí kl. 13. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Iðnó.

Ágrip

Foreldrar Huldu voru Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins og Kristín Jónsdóttir, listmálari. Systir Huldu var Helga, leikkona, d. 1968. Hulda giftist 27. júlí 1946 Gunnari Hanssyni, arkitekt, f. 19. febrúar 1925, d. 6. janúar 1989. Foreldrar Gunnars voru Hans Þórðarson, stórkaupmaður, og Guðrún Sveinsdóttir, húsfreyja, í Reykjavík. Hulda og Gunnar bjuggu að Sólheimum 5, í húsi sem Gunnar teiknaði. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Kristín, f. 4. mars 1947. Hennar maður var Stefán Pétur Eggertsson, d. 8. janúar 2013. Þeirra börn eru: Hulda, f. 1972, gift Pétri Þ. Óskarssyni. Börn þeirra eru Stefán, f. 2002, og Steinunn Hildur, f. 2007. Dóttir Péturs er Aðalheiður Ósk, f.1993. Gunnar, f. 1976, kvæntur Örnu Björk Jónsdóttur. Þeirra synir eru Pétur, f. 2007, og Jón Grétar, f. 2010. Eggert, f. 1977, kvæntur Anabel Baxter. 2) Helga, f. 31. ágúst 1953. Hennar maður er Michael Dal. Dóttir þeirra er Eva Kristín, f.1985, gift Atla Erni Sverrissyni. Þeirra sonur er Birkir Michael, f. 2015. 3) Hildigunnur, f. 18. apríl 1957. Hennar maður er Ásgeir Haraldsson. Þeirra börn eru: Gunnar Steinn, f. 1986, sambýliskona hans er Sara Sigurlásdóttir. Ragnheiður Steinunn, f. 1990, sambýlismaður hennar er Brynjar Þór Guðbjörnsson. Dóttir Ásgeirs er Tinna Laufey, f.1975, gift Sigurði Gylfa Magnússyni. Hennar sonur er Pétur Bjarni Einarsson, f.  2002.

[1]Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði um list og æfi Kristínar Jónsdóttur og gerir grein fyrir upphafi, bernskuheimili hennar í Arnarnesi, fjölskyldubrag og heimilislífi, tengslum við Möðruvallaheimilið og síðan menntun Kristínar heima og erlendis. Svo skrifar hann ítarlega um list hennar. Bókin gefur gott samhengi fyrir list og líf Kristínar og tengir vel við bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson. Það er mjög ítarleg og vönduð heimildavinna sem Jakob hefur unnið. Ég á Aðalsteini og Jakobi þökk að gjalda fyrir þeirra merku rit sem ríma ágætlega.

[2]Frá þessu segir Jakob F. Ásgeirsson mjög skemmtilega í bókinni um Valtý Stefánsson.

Allir fingur upp til Guðs

Hvernig eru hendur þínar? Snúðu þeim og horfðu á þær. Þú þekkir handarbökin, sem blasa við þér og þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo eru lófarnir. Kannski hefur þú spáð í líflínu og myndagátu lófa þíns. Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handabandið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Hendur eru starfstæki okkar. En þegar við leggjum hendur saman er það gjarnan til að kyrra huga. En hendurnar þurfa ekki að vera alveg kyrrar eða ónytsamlegar þegar við tölum við Guð. Við getum notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Í dag er bænadagur og við íhugum bæn og bænahætti. Og mig langar til að kenna ykkur að nota hendur til bænaiðju.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðir þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Fingurinn gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Ef börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal getum við notað hann til að skófla upp trúarlegri merkingu líka.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á þau sem liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur baugur, hringur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er á flestum kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum. Vitja þeirra Guð, sem hafa verið umkringd af hinu rangláta. Og svo biðjum við fyrir syrjandi, deyjandi og þeim sem líður illa.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið. Er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú borðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að léttalitla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niðurí erli daganna, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Jákvæð lífsiðja

Jesús minnti fólk á mikilvægi bænarinnar. Hann sagði gjarnan: “Biðjið ...”Já við ættum að biðja, biðja mikið. Bænir eru eðlilegur þáttur í kirkjulífi og á afmörkuðum stundum dags og æfinnar. En bæn má verða eins eðlilegur þáttur lífsins og andardráttur. Það er ekki einkennilegt, að bænin er nefnd andardráttur trúarinnar. Og þar sem bænin má vefjast inn í allt lífið, verða meginþáttur í lífi okkar megum við gjarnan leyfa okkur skapandi bænaafstöðu. Við megum bæði draga lærdóm af bænafólki í eigin trúarhefðen líka öðrum trúarhefðum. Margt í íhugunarstellingumhinna miklu trúarhefðamá nota til eflingar eigin bænaiðju. Við megum gjarnan nota það sem höfðar til fegurðarskyns okkar og vefja inn í bænagerðina. Ljós skiptir trú og trúartúlkunmáli, notið kerti – en gætið að eldinum!

Bænaiðja er atferli sem er eins og allt annað í lífinu. Stundum er auðvelt að biðja, stundum erfitt. Stundum er eins og himininn sé tómur og stundum verðum við hrifin í sjöunda himinn og öllu er svarað greiðlega sem við ræðum við Guð. Oflæti í bænaiðju er kannski ekki það sem reynist best. Hið smáa er bæði fallegt og farsælt. Góðir hlutir gerast hægt. En engin bæn er sóun, engin bæn fellur óheyrð, ekkert orð týnist í hávaða veraldar. Guð heyrir ofurvel. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.”Spáðu í handverk bænarinnar og mundu líka að bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

 

+ Inga Jóelsdóttir +

Við erum komin saman til að kveðja Ingu – og þakka fyrir líf hennar,gott líf. Hún var kærleiksríkur og umhyggjusamur kvenskörungur. Hún fagnaði fólki, lífi og láni. Við þessi skil getum við þakkað – eins og eitt barna hennar sagði: Við getum þakkað fyrir gott líf hennar. Og við megum gjarnan lifa í þakklæti fyrir það sem við fáum að njóta. Lífið er fullt af undrum Skaparans sem gefur veröld – og líf. Okkar er að bregðast við og bera okkar ávexti í lífinu. Inga tók á móti því sem henni var rétt, vann fallega úr, bar ríkulega ávexti á langri ævi. Við þökkum og megum leyfa því sem Inga var og tjáði okkur að hvetja okkur til að lifa vel.

Fjölskylda og upphaf

Inga fæddist á Stokkseyri 24. apríl árið 1922. Foreldrar hennar voru Guðríður Ingvarsdóttir og Jóel Jónasson, bæði Árnesingar. Þau eignuðust fimm börn. Inga var elst og svo komu Ásgeir, Jóel Bachman, Guðríður og Jónasína. Þau eru nú öll látin, og sú elsta fór síðust inn í heiðríkju himinsins.

Guðríður og Jóel, foreldrar Ingu, héldu sig við ströndina. Þau fluttu frá Stokkseyri og í Leiruna suður með sjó. Mamman sá um heimilireksturinn og pabbinn var útvegsbóndi og sinnti ýmsum öðrum störfum og var m.a. kyndari á skipum. Inga ólst upp við stóran himinn, stórt land og stórt haf. Hún lærði á hinar miklu víddir. Þegar hún hóf skólagöngu voru engir skólabílar til að létta börnunum lífið. Inga gekk fimn kílómetra leið yfir móa og mela í skóla í Garði í Gerðum. Engu skipti hvort það var í blíðu eða stríðum stórviðrum – börnin fóru í skóla. Og auðvitað óku stundum bílar á milli og börnin lærðu fljótt að greina á milli hvort það væru góðu mennirnir eða hinir sem fóru hjá. Því góðu mennirnir leyfðu göngugörpunum að fljóta með, tóku þau upp í og óku þeim áleiðis.

Inga lærði snemma að lesa og var til fyrirmyndar í námi og tengslum. Þær voru nánar móðir hennar og hún. Mamman treysti henni og meðal annars ábyrgð á stækkandi systkinahóp. Hún var elsta barnið alla tíð og getan og kunnáttan skilaði sér í rekstri heimilis þeirra Björns síðar meir. Inga var vön að gera gagn og fór fljótt að vinna fyrir sér og sínum utan heimilis. Hún var um tíma í Keflavík en fór svo til Reykjavíkur og bjó á Hverfisgötu.

Björn og hjúskapurinn

Svo var það Björn Guðjónsson. Saga Ingu og Bjössa var og er hrífandi saga. Þau hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér! Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og gamansamaur. Hann sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin voru, að Björn vildi sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið. Og alla tíð vissi hann að besti maturinn var heima – hjá henni Ingu hans. Í Ingu átti hann sálufélaga.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð úr Fjallræðu Jesú áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband 11. desember 1942 – tæplega tveimur árum eftir appelsínuviðburðinn – og nutu hjúskapar næstu 66 árin – eða þar til Björn lést 30. nóvember árið 2008. Þeirra saga var gæfusaga. Þau voru gott par, góð hjón og báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru, tóku tillit til hins, skoðana, hugðarefna og gleðiefna. Á heimili þeirra átti hamingjan heima. Og við megum gjarnan hugsa um hvað þau gerðu í samskiptum til að rækta gleði og lán daganna. Þegar þau greindi á gerðu þau upp sín mál og sólin settist ekki á ágreining þeirra. Hjúskapur þeirra var hreinskiptin og gleðilegur. Og börnin þeirra höfðu það veganesti í eigin hjúskap og fjölskyldulíf.

Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur húsið á Ægisíðu 66. Þau fluttu inn fyrir jólin árið 1956 og þar bjuggu þau Inga síðan og með sama fólki alla tíð. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.

Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert var elstur og hans kona Steingerður Steindórsdóttir. Þorvarður lést í desember 2013. Fyrri maki hans var Hrafnhildur Marinósdóttir. Næst í barnaröð Ingu og Björns var Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar maður er Jóhann Hafþór Þórarinsson, fyrri maki hennar var Þórður Eiríksson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.Inga og Björn vissu að þau voru lukkufólk. Afkomendur þeirra eru 41 og Inga talaði opinskátt um barnlán sitt og fjölskyldugleði sína.

Þegar saman fer elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Heimilið var ríki Ingu. Hún bjó ekki aðeins börnum sínum og bónda öruggt skjól heldur einnig systkinum sínum, stórfjölskyldu og vinum. Allir voru alltaf velkomnir á heimili hennar. Alltaf bakaði Inga fyrir helgarnar, enginn gerði boð á undan sér og öllum voru opnar dyr. Svo var allt til enda. Fólkið þeirra Ingu sótti á heimilið við Ægisíðuna og barnabörn og afkomendur lærðu leiðina til þerra Ingu. Hún var límið í fjölskyldunni. Móðir hennar lést fyrir aldur fram árið 1957. Fráfall hennar var Ingu mikið áfall en hún stækkaði kærleiksfangið og gætti stórfjölskyldunnar.

Þegar börnin Ingu uxu úr grasi og um hægðist fór hún að vinna utan heimilis að nýju. Alls staðar var hún vel liðin og metin. Um tíma vann hún í greiningarstöðinni í Kjarvalshúsinu á Seltjarnarnesi og um tíma í mötuneyti á Raunó, Raunvísindastofnun Háskóskólans. Það voru allir ánægðir með grjónagrautinn hennar Ingu og þó fólk reyndi að líkja eftir og setti í vellinginn smjör og vanilludropa náðist aldrei hennar bragð. Inga kunni slow foodog sousvidesíns tíma og eldaði með kærleika.

Minningarnar

Hvernig manstu Ingu? Manstu tillitið hennar? Manstu hvernig saltfiskurinn entist hjá henni? Hún bara bætti fiski í pottinn ef fleiri komu en hún hafði upprunalega búist við. Manstu félagshæfni hennar? Manstu hve hún hafði gaman að ferðast, innan lands og utan? Og manstu ljóðaáhuga hennar? Hún meira að segja sótti ljóðanámskeið og las ljóð listavel fyrir margmenni. Skáldin hennar Ingu voru Jónas, Einar Ben, Davíð og svo var henni hugstæður Guðmundur skólaskáld.

Inga var varkár með eld í lífinu. Alla tíð þótti henni erfitt að horfa á brennurnar á gamlárskvöldi. Ástæðan var að fjölskylda hennar missti heimili sitt í bruna. Inga var tíu ára þegar Bakkakotshúsið í Leiru brann til grunna. Hún hafði farið inn í Keflavík með móður sinni og þegar þær komu til baka stóð fjölskyldan úti við brennandi húsið. Pabbinn hafði stokkið inn í eldinn til að tryggja að allir væru komnir út. Húsbruninn og heimilismissirinn var mikið áfall, fjárhagslega og tilfinningalega. Eldurinn settist í sál Ingu og hún gætti æ síðan vel að því að tryggt væri að eldur næði ekki að kveikja út frá sér. Húslaus fjölskylda Ingu reyndi síðan að gott fólk var tilbúið að veita þeim húsaskjól. Inga mótaðist af þessari lífsreynslu og hennar hús var ætíð opið öllum þeim er þurftu skjól, hjartahlýju og næringu. Í því sem öðru voru þau Inga og Bjössi samstiga.

Manstu hve Inga hafði góða stjórn á sjálfri sér, verkum sínum og heimili. Hún smitaði reglusemi sinni til síns fólks. Hún var kát og félagslynd og reglusöm. Hún reyndi aðeins einu sinni að keyra bíl – og það fór nærri því illa. Hún vildi ekki gera neinum skaða og valda slysum. Björn, bóndi hennar, gantaðist með að hann hefði nú misst margan sopan því Inga hafði ekki bílpróf! Börnin hennar Ingu nutu festu hennar og öryggis. Inga hvatti börnin sín til menntunar og dáða í lífinu.

Inga var fólkinu sínu fyrirmynd – líka um hvernig vinna má með áföll og bregðast við þeim. Hún fékk krabbamein fyrir tuttugu árum. Tók vandanum með æðruleysi og komst frá þeim hildarleik. Hennar stíll var ekki að gefast upp heldur mæta hinu mótstæða með skapstillingu. Og hún tapaði ekki húmornum. Þó hún þyrfti að gæta að fæði sínu vegna blóðsykurs og blóðfitu stakk hún gafli sínum í feitan kjötbita og sagði með glettni í augum: „Úr einhverju verður maður nú að deyja!“

Inga naut langrar æfi. Hún var elst í systkinahópnum en lést síðust syskinanna. Langt líf er ekki sjálfgefið og Inga lifði hátt í öld. Það er þakkarvert. Síðustu tvö árin bjó hún á Grund við Hringbraut. Hún flutti ekki dótið sitt þangað því hún var eiginlega alltaf á leiðinni heim á Ægisíðu. Ástvinir þakka fyrir umhyggju starfsfólksins á Grund.

Nú kemur Inga ekki framar heim í Ægisíðu 66. Inga verður lögð til hinstu hvílu í Gufuneskirkjugarði. Þar eru leiði manns hennar og sonar. Nú er Inga farin inn í himininn til fundar við þá. Hún var trúuð og má fagna með sínum í heiðríkjunni þar sem allt er gott. Hún þarf ekki að velja appelsínuna á undan Bjössa því þau verða samstillt efra – eins og á ströndinni við Skerjafjörð. Þar verður allt gott. Himininn stór, hafið ljúft og strönd eilífðar er góð Ægisíða.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.
Amen

Minningarorð í Neskirkju 16. mars 2018. Kistulagning kl. 9,30 og útför kl. 11. Erfidrykkja var í safnaðarheimili kirkjunnar. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Æfiágrip

Inga Jóelsdóttir fæddist á Stokkseyri 24. apr. 1924. Hún lést 3. mars síðasliðinn á nítugasta og sjötta aldurári. Foreldrar hennar voru hjónin Guðríður Ingvarsdóttir( f. Stokkseyri 30.apr. 1900 dáinn í Keflavík 2. júlí 1957) og Jóel Jónasson (f. í Hákoti í Flóa 12. sept. 1894 d. í Rvík. 8. júní 1988) bændur í Bakkakoti í Leiru og síðar í Kötluhóli í sömu sveit en bæði voru ættuð úr Árnessýslu. Inga fluttist ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur á Hverfisgötu100A og myndaði við það fólk ævilöng vinatengsl. Þaðan fluttist litla fjölskyldan suður í Leiru og ólst hún þar upp ásamt systkinum sínum. Hún var elst á eftir komu Ásgeir, Jóel Bachmann, Guðríður og Jónasína, öll látin. Hún gekk í Gerðaskóla, fimm km leið, og lauk barnaprófi þaðan. Hún var í vist í Keflavík og þar gekk hún í kvöldskóla svo tók skóli lífsins við og ýmiss konar námsskeið. Hún kom til Reykjavíkur, dvaldi hjá föðurbróður sínum  og fór að vinna á Kleppsspítala. Á þeim tíma kynntist hún mannsefni sínu sem var Björn Guðjónsson  f. 11.11 1921 d. 30. nóv. 2008 sonur hjónanna Guðrúna V. Guðjónsdóttur og Guðjóns Bjarnasonar. Þau giftu sig 11. des. 1942 og hófu búskap á Bjarnastöðum á Grímsstaðaholti og byggðu svo á Ægisíðu 66 og bjuggu þar æ síðan.

Börn þeirra 1) Þorvarður Ellert f. 5. mars 1943 d. 18. des. 2013.

 Eftirlifand maki Steingerður Steindórssdóttir.

Fyrri  maki Hrafnhildur Marinósdóttir d. 1986

Sigrún Björk f. 21. des 1945, maki Örlygur Sigurðsson

Guðrún Gerður f. 31maí 1947 sambýlismaður Jóhann Þórarinsson

Fyrri maki Þórður Eiríksson d. 2000

Guðjón Jóel f. 10. febr. 1959, maki Helena Þuríður Karlsdóttir

Ásgeir f. 25 mars 1960, maki Kristín Jónsdóttir

Barnabörnin eru tólf, langömmubörnin tuttugu og eitt og þrjú langalangömmubörn.