Vitringar á mörkunum

Íslenskir fjölmiðlar, m.a. tvo dagblöð, höfðu einu sinni eftir Rowan Williams, sem þá var erkibiskup í Kantararborg, að biblíusagan um vitringana væri goðsaga. Mér þótti ótrúlegt að hann hefði notað það hugtak um þessa frásögu um  ferðalangana úr Austurvegi. Að mér læddist að blaðamennirnir hefðu ruglast á hugtökum. Ég þekki erkibiskupinn, sat marga fundi með honum og vissi því vel hve nákvæmur og hnífskarpur greinandi hann var. Forystumaður risakirkjusamfélags getur ekki leyft sér fræðilega lausung eða trúarlegan stráksskap. Ég fletti því upp í bresku pressunni á netinu og í ljós kom að erkibiskupinn hafði sagt, að þetta væri helgisögn, hann notaði orðið legend en ekki orðið myth sem merkir goðsaga og er allt annað bókmenntaform en helgisögn. Blaðamenn og íslenska pressan ruglaði hugtökum og fréttin varð því misvísandi, villandi og röng. 

Það skiptir máli hvernig við lesum. Við eigum að lesa bókmenntaformið rétt. Það skiptir t.d. öllu máli að gera sér grein fyrir að sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð en ekki grein í alfræðiriti um þróun vetrarbrautarinnar. Goðsaga lýsir tilurð heimsins og yfirskilvitlegum verum, en legendur eru helgisögur á mörkum raunveruleikans, sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á söguferlið sjálft eða ytra form atburðanna, heldur dýpri merkingu og táknmál. Þetta skiptir máli og svona saga tekur sér mynd í samræmi við inntak. Inntakið kallar á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa spekinga? Hvað voru þeir margir? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hugsanlega ímyndum við okkur eitthvað um þá sem Biblían segir ekki og gerum okkur ranga mynd? Hvað voru vitringarnir margir? Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist, að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir allt að tólf karlar. Ekkert er heldur í guðspjöllunum um nöfn þeirra. Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna að vitringur frá Kína hafi vottað Jesú virðingu sína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið kunnáttumenn í stjörnuspeki og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna, hugsanlega af væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu.

Mattheus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli, en segir hins vegar þessa vitringasögu. Og af hverju sagði hann hana? Í guðspjalli Matteusar er opnun, vitund um að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmálið og útvíkkað söguna. Þegar konungar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt að menn færu að telja að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, sem hafi fært konunglegar gjafir, en ekki aðeins (ein kenningin er að þetta hafi verið læknistæki eða lækningavörur) tákngjafir presta eða spekinga. Íslenska hómilíubókin segir berlega að þeir hafi verið Austurvegskonungar. En hins vegar þýddi Guðbrandur orðið magos sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar í nýjustu Biblíuþýðingum.

Helgisagan og töfraraunsæið

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir. En helgisagan er sleip, ekkert er sagt í guðspjallinu um að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.

Hvað eigum við að gera við þessa skemmtilegu sögu og hvernig nýtist hún okkur? Það er gaman að segja hana og hún kitlar ímyndunaraflið. En sagan um vitringana er á mörkum raunveruleikans. Hún er vissulega helgisaga. Henni er ekki ætlað að tjá sögulega framvindu heldur merkingu eða inntak. Við leitum flest hins myndræna, dramatíska og sögulega fremur en skilgreininga, hugtaka og formlegrar framsetningar. Við notum sögur til að kenna börnum okkar góða siði, frekar en þylja yfir þeim siðfræðiformúlur. Við segjum smábörnum að diskurinn gráti og meiði sig ef hann dettur í stað þess að skýra hvað brotthætt merkir eða eðli þyngdarlögmálsins.

Birtingarhátíð, þrettándinn birtir hvað? Jú, að í Jesú Kristi opinberar Guð veru sína, kemur í krafti sínum, gerir þennan einstakling að farvegi hjálpar sinnar. Og af því að gagnvirkni er alltaf í guðsríkinu þá er hann leið okkar til himins, farvegur okkar til lífsins, og vettvangur og viðfang vona manna. Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að við eigum að nota vitringana sem fyrirmyndir og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki en þó hefur hún merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.

Í Suður-Amerískum bókmenntum er stundum talað um töfraraunsæi. Bækur  Gabriel GarciaMarquez og Isabel Allende og ég vil bæta við Paulo Coelho líka, lifa á mörkum. Þessar bækur fjalla ekki aðeins um raunveruleikann heldur útvíkkaðan veruleika sem leyfir hið dásamlega, upphafna, undursamlega, teygir ímyndunaraflið og lífið svo að hægt er að opna fyrir viðbótarmerkingu sem síðan bætir lífsskilyrði. Legendur eiga að efla lífsgæði og hæfni fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Við mannfólkið erum ferðalangar á leið til fundar við barnið, til að mæta manninum Jesú. Okkar köllun er að gefa það sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf, og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Því þarftu ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi – allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú verður einn af vitringunum þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, manninum, veruleika Jesú Krists. Þá verður lífið töfrandi.

KUL – Sunna Dís Másdóttir

Ég er í aðdáendaklúbbi Sunnu Dísar Másdóttur. Ég setti því ekki upp stóru gagnrýnisgleraugun þegar ég byrjaði að lesa KUL-bókina hennar. Málgaldur bókarinnar kitlaði og sagan byrjaði blíðlega. En svo undraðist ég hægaganginn og velti vöngum yfir hvort lopinn væri teygður um of. En tökin voru hert, hraðinn jókst og í ljós kom við lokin að engu var ofaukið. Vefnaður Sunnu Dísar var nostursamlega unninn, efnistökin voru snilldarleg og heillandi mynd birtist. 

Já, KUL er um kulnun. Örmögnun fólks er ömurleg og engum eftirsóknarvert skemmtiefni. En flækjan, kaldranaleg náttúruöfl, litríkt vestfirskt sjávarþorp, alls konar íslenskir víkingar í innrás og útrás upplýsa myrkrið, veita drunga líf, endurbata lit og slæma fálmurum og spurningum inn í okkur sem lesum. Við bókarlok uppgötvaði ég að KUL er ekki sértæk bók sem hentar fáum og drungasæknum. Hún er raunar um okkur öll, tengist atburðum í öllum fjölskyldum og byggðum. Ekkert okkar hefur sloppið við að glíma við einhvern þeirra þátta sem KUL dregur svo vel fram. Góðar bækur vitja manns aftur og aftur, sækja á og varpa ljósi á atburði og fólk sem maður hefur hitt og jafnvel átt í erfiðleikum með. Þannig er KUL. Hún er ekki sjálfshjálparbók heldur vel skrifuð skáldsaga en persónur sögunnar verða eins og lyklar að mörgum samferðamönnum okkar og ástvinum sem við höfum glímt við. Hún er því viskubók líka. 

KUL er glæsileg skáldsaga á litríkri, ilmandi íslensku. Hún er full af kímni, gráglettni og skemmtir kostulega og oft um óskemmtileg mál. Hún segir frá skondnum uppátækjum, fjölvíddum íslenskrar menningar og byggða, sýnir manneskjurnar að baki hlutverkum og baráttu fólks sem elskar. Ábyrgð er dýr og kremur oft. KUL er snilldarbók um lífsflækjur sem má leysa og að lífið getur verið sterkara en dauðinn, bók um lífssókn en ekki dauðadjúpar sprungur. Í bókinni er unnið með stóru stef menningar okkar, myrkur, ásókn, depurð, missi og dauða en líka um hitasókn, rými, lykt, þrá, tengsl, sátt og virðingu. Og kannski dýpst um ást og líf. KUL er heitasta bókin sem ég las á árinu og einu gildir hvaða gleraugu voru á nebbanum.  

Andalæri á blini eða lummum

Þetta er undursamlegur smáréttur. Ég byrja á því að baka blini eða lummur. Ef rétturinn á að vera fingrafæði er hægt að hafa blinistærðina og einfalda áleggið en lummustærðin með öllu dýrðarálegginu er hentugri fyrir dögurð-bröns. Þegar búið er að baka er farið í að undirbúa áleggið, sem auðvitað er hægt að breyta að smekk. Ég nota wasabiþykkni til að blanda út í léttmajones. En hægt er að fara aðrar leiðir, jafnvel nota chili-majó eða aðra uppáhaldssósu.

Hentar fyrir 6 og jafnvel fleirum ef margir smáréttir fylgja með.

4 stk. anda­læri úr dós

200 gr hois­insósa

1 dl kjúk­linga­soð

sítr­ónusafi

graslauk­ur eða vorlaukur

stein­selja

langskornar gulrótarflísar og agúrkustrimlar

sesamfræ

Aðferð

Ég set andalærisdós­ina í heitt vatnsbað (vask eða stóran pott) til að bræða vel andafituna. Taka anda­lærin úr fit­unni, hreinsa skinn og bein frá og merja með puttunum kjötvöðvana sundur. Geyma andafit­una (t.d. frysta) og nota til steik­ing­ar síðar. Setja hois­in-sósu í pott með kjúk­linga­soði, hita upp ró­lega og bæta kjötinu svo út í og leyfa því að hitna og taka til sín sósuna.

Blini – lummur

1 bolli hveiti

1/2 tsk salt

1 egg

2 msk góð olía

2/3 bolli mjólk

1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu saman og steikið blinis eða lummurnar á pönnu. Látið kólna. Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.

Wasa­bimajo­nes

1msk wasa­bipaste

3 dl léttmaj­o­nes

Öllu blandað sam­an og sett í sprautu­poka

Á blini-lummurnar eru settir gulrótar- og ágúrkustrimlarnir. Þá kemur hrúga af andalærinu. Wasabimajonesinu sprautað yfir og síðan kemur graslaukur eða vorlaukur yfir og svo sesamfræ. 

Bliniuppskriftin frá Albert eldar og andalærisuppskriftin af mbl. Takk fyrir. 

Jólasveinar meðal okkar

Jólasveinarnir eru á leiðinni og svo koma jólin. Sveinarnir eru af ýmsum sauðahúsum. Kanski spegla þeir menningargerðir? Til eru skandinavískir nissar, sem eru gjarnan stríðnispúkar. Ameríska kláusa sjáum við í draumamyndum Disney. Síðan eru til íslensku leppalúðarnir, sem eru áhugaverðastir þegar grannt er skoðað. Jólasveinaímyndir fyrri tíðar skemmta, en þær eru líka gluggi að veruleikatúlkun og trúarlífi, sem ástæða er til staldra við.

Norrænir sveinar

Upphaf íslensku jólasveinanna má líklega rekja til vana, sem urðu undir í baráttu við heiðin goð og þá löngu fyrir kristni. Þeir eru því leifar trúarbreytingar. Tröllin í þjóðtrúnni eru náskyld jólasveinum og Grýla var móðir þeirra. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um, að íslensku sveinarnir eru með öllu óskyldir hinum hollenska biskup og gjafara, sem varð að heilögum Kláusi. Þann fjólubláa og síðan skrærrauða, hvítskeggjaða biskup hafa amerískir sölumenn magnað með dyggri hjálp höndlara margra þjóða. Íslenskir jólasveinarnir gáfu aldrei neitt og voru ekki í neinu sambandi við kristilegt siðgæði, samfélagsábyrgð og gjafmildi. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kanski skuggsælni, sem gerir þá svo merkilegt íhugunarefni.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta” eins og segir í kvæði, sem sungið er á jólaböllum barna. Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Til samanburðar má minna á, að lærisveinar Jesú fóru tveir og tveir saman, sem er tákn hins góða og samstöðu manna. Maður styrkir mann og heldur að heilbrigði, þetta að gæta bróður síns. En einfararnir, jólasveinarnir, komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda.

Tveir fyrstu jólasveinarnir, Stekkjarstaur og Giljagaur, komu ekki í hýbýli mannanna heldur réðust að skepnunum, lífsgrundvelli fólks. Búsmalinn var undirstaða atvinnulífsins, eins og nútímapólitíkusar myndu segja. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði peningi og vinnufólki illt. Fyrst var vegið að undirstöðum og ytri ramma, en síðan fóru sveinarnir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum og þeir voru sérhæfðir! Sérhæfing er engin nútímauppfinning. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin voru ekki sett hjá, því Askasleikir stal innansleikjum, sem dýrum voru ætlaðar. Hurðarskellir leitaðist við að hindra svefn vinnulúinna manna. Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkvaður táradalur heldur staður vona og þegar dýpst er skoðað, veruleiki þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Heimur hinna lágu torfbæja, þunnu þekju og ljóslitlu hýbýla er að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu, sífelldrar baráttu og aðgæslu. Aðseðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt. Með það í huga verður að skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum, í skepnuhjörðina, mat og hjálparefni fólks. Jólasveinarnir eru því ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þyrfti vel að dýrum, passa þyrfti matinn og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn, einnig í lágan bæ sem skotið var út undir ysta haf, eins og Jón Vídalín komst að orði. Táknskynug kynslóð eldri tíðar trúði ekki á jólasveinanna. Fólk vissi vel að sögurnar um þessa skrítnu sveina voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli og táknvef. Það skildi að þetta voru kennslusögur, uppeldissögur og áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra og undirbúnings í andanum.

Eru jólasveinar hér eða í þér?

Aðstæður hafa breyst. Húsakynnin eru betri en áður og atvinnulífið er með ólíku sniði. En er víst, að heimurinn sé svo breyttur, að aðeins platjólasveinar með bómullarhýjung á vélsleðum fari um? Er atvinna okkar allra gulltryggð? Er lífsbjörgin okkar án aðsóknar? Eru ferðir okkar tryggar og farkostir einnig? Hverjir eru gæslumenn hagsmuna þinna? Hvernig stjórna þeir, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er jólaundirbúningur þinn algerlega snurðulaus. Er engin streita í samlífi fjölskyldunnar þinnar? Er enginn, sem reynir að narra þig og plata á þessum sölutíma? Er alveg víst að fjárhagur þinn hinum megin við jólin verði jafntryggur og fyrir? Ef þú þarft að hafa áhyggjur af einhverjum af þesum þáttum, er sótt að þér úr einhverri átt. Staldraðu við og reyndu að gera þér grein fyrir hvað það er sem hrellir. Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér!?

Hverjum tekur þú á móti?

Íslendingar eiga merkilega spekisögu fyrir jólaundirbúninginn, skemmtilega jú jú, og jafnvel nokkuð kaldlynda líka. En fyrst og fremst er sveinasagan öll ótrúlega raunsæ. Yfir það sést okkur oft í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Alvaran er sú, að ef þú ekki staldrar við og spyrð þig hverjir séu jólasveinar samtíðarinnar, er ekki víst að þú upplifir jólin í fyllingu sinni. Hvað er að, hvað kreppir að atvinnu, heimilum og þínum innri friði og gleði? Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hvernig væri að nýta aðventuna til að undirbúa, vænta og bíða jólanna með því að tala um það sem er að baki öllu táknmálinu, sem er orðið svo verslunarvætt. Hvernig væri að nota aðventuna til aðgæslu og undirbúnings hugar og hjarta? Hverjum tekur þú á móti: Jólasveinum, sem taka frá þér ljósið, eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós?

Helgisaga sem ástarsaga

Helgisögur eru aldrei bara umbúðir heldur mun fremur inntak. Þær hafa gjarnan glit og glans eins og flottir jólapakkar en það er betra að taka utan af slíkri sögu og skoða innihaldið. Fæðingarsaga Jesú er helgisaga með inntaki. Jesúsagan er ekki um hvernig heldur til hvers, ekki um hvað heldur hvers vegna, ekki um yfirborð heldur merkingu. Jólasagan er ekki frétt í blaði heldur frétt um tilgang alls sem er. Hún tjáir að tilveran er björt og góð. Hún er ekki bisnissaga eða stjórnmálasaga, ekki spekisaga né heldur dæmisaga, skáldsaga eða ljóð. Sagan um fæðingu Jesú er fyrst og fremst ástarsaga.