Hanna Ingólfsdóttir Johannessen – minningarorð

Hanna Johannessen var mér og starfsfólki Neskirkju sem besta móðir.  Hún var dugmikil sóknarnefndarkona og kom flesta daga í kirkjuna til að leggja lið og efla fólk til starfa. Hún lést vorið 2009. Ég var að leita að minningarorðum mínum um Hönnu og sá þá að þau höfðu horfið með gamalli vefsíðu. Set þau hér inn til minningar um stórkostlega konu og mannvin. Blessuð sé minning Hönnu. 

Minningarorð um Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen

Hanna og Matthías voru á Hólsfjöllum. Þau voru komin heim í fang fjallanna hennar Hönnu, heim í Víðirhól. Ilmur gróðurs kitlaði, blómin brostu og augu heiðarinnar horfðu á þau úr öllum áttum. Kvika Matthíasar var snortin. Hann skynjaði helgi augnabliksins, þykkni sögunnar, dansandi stúlkubarnið í konunni sem laut niður á hlaðinu á Víðirhóli og gældi við gróðurinn. Svo rétti hún úr sér, brúnu augun ljómuðu og hún lagði í lófa hans fíngert blóm. Hann sá hvað það var – og að það var alsett hjörtum, sláandi ástartjáning Hönnu, sem gaf honum ekki einfalda ást sína, heldur hjörtu lífs, gleði, styrks, trúar, vonar, hláturs og ljóða. Hún varð honum póesía, verðandi – og líka okkur hinum. Og Matthías hreifst af þessu smáblómi ástarinnar, tákni um líf lands og fólks. Lífið lifir.

Ungur maður sem hefur sótt Neskirkju í mörg ár og kynntist því Hönnu sagði í vikunni: „Það er óhugsandi að Hanna sé dáin. Hún hefur alltaf verið óháð tíma, eiginlega ofar tímanum og eins og hún gæti ekki dáið.”

En höggið kom snöggt og skjótt. Hvernig verður hjá Matthíasi? Hvernig er hægt að hugsa sér aðfangadagskvöld á Hernum án Hönnu? Hvernig getur kirkjulíf í Vesturbænum lifað af, svo við tölum nú ekki um pólitík, góðvild, fermingarbörnin hér í kirkjunni og mömmumorgnana? Stórfjölskyldan í Neskirkju kveður “kirkjumömmu” sína – eða “kirkjuömmu” eins og sum börnin í sunnudagaskólanum sögðu. Þú og þessi stóri kærleikshópur Hönnu sem kveður í dag hefur tapað vökukonu elskunnar.

Elskið – elskið hvert annað – sagði Jesús við brottför sína af heimi. Fólkið á Hólsfjöllum, fjallræðufólkið, iðkaði boðskap Jesú. Elskið, gætið að líðan fólks og dýra, eflið hvert annað, dansið á góðum dögunum, syngið þegar söngs er þörf og ljóð kvikna. Meitlið mál, elskið hvert annað – gefið hjartablóm til lífs.

Æviágripið

Jóhanna Kristveig fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóvember árið 1929. Foreldrar hennar voru Ingólfur Kristjánsson og Katrín María Magnúsdóttir. Barnalán þeirra var mikið og eignuðust þau hjón fimmtán börn. Hanna lærði því á fólk strax í bernsku.

Heimilislífið var fjörugt og bókelskt. Foreldrarnir voru samstiga í uppeldi, glaðværð, ögun og menntunaráherslu. Á vökum var lesið, ljóð hljómuðu, mál var vandað og pabbinn brást hart við þegar texti var brotinn eða mál brenglað. Um pabbann var sagt að hann væri Gullna reglan holdi klædd. Ingólfur var tilfinningamaður og spyrja má hvort Hanna fann ekki í Matthíasi síðar ýmsa djúpstrengi, sem hún þekkti úr fíngerðum lífsþorsta pabbans. Svo erfði hún spilandi glaðværð hinnar hálffæreysku mömmu, sem var berdreymin, fjölskynug, fagurkeri og söngvin. Börn Ingólfs og Katrínar fengu stóra meðgjöf sjálfsvirðingar til ferðarinnar út í lífið. Í þeim býr mannvirðing og fjölþættar gáfur. Því voru þeim margir vegir færir og “þau áttu að gera eitthvað úr sér” sagði Katrín.

Fyrstu árin bjó stækkandi fjölskyldan á Grímsstöðum. Svo fluttu þau út í kirkjustaðinn Víðirhól. Hvers konar fólk verður til í mæra-aðstæðum? Fjalla Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar var einn. Uppeldiskrafan var um lífsleikni en líka elskuiðkun, traust og víðsýni. Svo líka að elska Herðubreið, sem “leit best út um eldhúsgluggan,” eins og Hanna sagði, læra að meta kyrrðina, sem var svo djúp að hægt var að heyra fótatak göngumanns í margra kílómetra fjarlægð, heillast af ofsaþokka dansandi norðurljósa. Í slíkri náttúru verður til ljóðræna og skynjun, að hið smáa getur verið ofurstórt og hið gríðarlega hverfist í smáblóm. Sandkornin á Hólssandi eru mörg, sporin inn í Öskju óteljandi, droparnir margir í fljótinu og foksandur nagaði gróður.

Gegn eyðingunni brosti fjallið Eilífur himnesku brosi – maður mundu köllun þína. Já hvað er mennskan – er hún bara til dauða? Var lífið aðeins tíbrá heits dags? Mökkur daga, æðandi stórhríð, brosandi hjartablóm stæla æðruleysi, kenna samsend alls sem er, opna æðar lands, sögu, Guðs. Og hið mikla fæðist í hinu smáa, Hanna tók í sig land, stóru spurningarnar, fortíð og ást til fólks. Arfur úr foreldrahúsum varð heimamundur, sem hún naut og gat veitt af alla tíð. Elskið.

Suðurferð og fjölskyldusaga

Svo fór Hanna Ingólfsdóttir suður og í Iðnskólann. Hún varð hágreiðslumeistari og rak eigin stofu í Skólastræti. Hún hafði fljótt mikið að gera og rífandi tekjur. Enginn, sem henni kynntist, efaðist um færni hennar.

Þegar Matthías lenti í brasi með félaga sína í samkvæmi á þeim örlagadegi 1. október 1949 var nærri honum nett stúlka sem gerði sér grein fyrir vanda hans, færði sig til á stól sínum og sagði við hann. “Þú getur setið hér á stólnum hjá mér.” Og þaðan í frá sat hann hjá henni. Svo fóru þau að búa. Hanna var hrifin af Matthíasi sínum og sagði sínu fólki stolt að hann væri verulega vel hagmæltur! Svo fæddist þeim Haraldur. Matthías stökk út í lönd skömmu eftir fæðingu. Fjarri konu og nýfæddum syni uppgötvaði hann hversu Hönnulaus tilveran var honum óbærileg. Hann tók ákvörðun sem ekki varð hnikað að fara aldrei bæjarleið í veröldinni án hennar. Svo varð.

Hanna vann fyrir þeim hjónum fyrstu árin. Danmerkurárin urðu þeim dýrðartími. Þegar þau sneru heim hélt Hanna áfram hárgreiðslunni. Bóndi hennar þjónaði Morgunblaðinu og annirnar urðu svo miklar, að Ingólfur varð ekki til fyrr en áratug á eftir bróður hans kom í heiminn. Þá hætti Hanna sínum atvinnurekstri en hélt vel um sína menn og hafði að auki tíma til allra þeirra ómetanlegu félagsstarfa, sem hún varð kunn fyrir og hlaut síðar viðurkenningu fyrir með veitingu Fálkaorðunnar.

Það var skemmtilegt að sjá blikið í augum sona hennar þegar spurt var um mömmuhlutverkið. Þeir voru sammála um, að móðir þeirra hafi sett skýr mörk, klára stefnu, skiljanlegar leikreglur og hún hafi ekki þurft að skella hurðum til að þeim yrði hlýtt. Hún vildi að karlarnir hennar héldu sínu striki í verkum, stæðu fast og hvikuðu ekki meðan stætt væri. Hanna stýrði vel og eflaust hefur Haraldur líka notið Hönnureglu og lagaspeki til sinna starfa. Hann er lögfræðingur og ríkislögreglustjóri. Ingólfur lagði stund á læknisfræði og er tvöfaldur doktor í veirufræði. Hann kennir við læknadeild Edinborgarháskóla.

Börnin í fjölskyldunni urðu Hönnu gleðigjafar. Kona Haraldar er Brynhildur Ingimundardóttir og eiga þau fjögur börn: Matthías, Kristján, Önnu og Svövu. Líf sona, fjölskyldunnar, barnabarna og langömmubörnin, börn Matthíasar yngri urðu tilefni margra sagna, sem Hanna gladdi okkur vini sína með. Hún vakti yfir velferð og gæfu þessa fólks, allra sem henni tengdust, fagnaði happi og sigrum og svo bað hún fyrir þeim sem þörfnuðust, og virkjaði bænahópinn í kirkjunni, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Eigindir

Hanna var ekki einnar víddar? Var það fæðing á fjalli sem olli, fósturfjórðungurinn, arfur eða mótun? Líkast til allt þetta samtvinnað. Uppistaðan í henni var sterk, hún var einbeitt og stefnuföst, hafði þegið góðar og fjölþættar gáfur í vöggugjöf. Hún var eins og björkin og brotnaði ekki við álag. Hún var æðrulaus og hafði tamið sér að bera ekki sorgir á torg. Hún var dul, en trúði þó prestunum sínum fyrir flestu og svo átti hún líflínu í greiðu himinsambandi.

Hanna hafði ekki aðeins skoðanir á heimsmálum og stjórnmálum Íslands, heldur líka helgileikjum í Oberammergau, ítölskum kúltúr og ótrúlegt nokk – Formúlunni. Michael Schumacher var hennar kappi. Þó hún væri ekki sjálf í spyrnunni, sá hún til að bílarnir þeirra Matthíasar væru hreinir. Hanna var flott í stígvélum á þvottaplaninu og með slæðu á höfði. Hanna vildi hafa allt fallegt og vandað í kringum sig. Og gæði vildi hún einnig í starfsháttum og samskiptum. Hanna heyrði aldrei slúður og miðlaði því ekki. En hún var hins vegar glögg á fólk, sagði frá til góðs og eflingar. Hún lagði alltaf vel til annarra og stóð svo ákveðin með þeim sem á var hallað. Hanna var trygglynd, glaðlynd, kímin og vönduð til orðs og æðis. Hún átti enga óvildarmenn. Allt frá bernsku var hún ákveðin að lifa sólarmegin í lífinu og snúa örðugleikum til góðs og var alltaf lipur við að leyfa öðrum að njóta birtunnar.

Félagsþjónusta Hönnu

Elskið – elskið – það var boðskapur Jesú. Og í Hönnu bjó virðisauki elskunnar. Hún brást vel við kalli frá stuðningssamtökum fanga. Á aðfangadagskvöldum – yfir fjörutíu ár – var Hanna sem engill af himni í veröld Verndarfólks. Fyrst fór hún niður á Hjálpræðisher, efndi þar til veislu og svo kom hún þreytt en sæl í miðnæturmessuna í Neskirkju. Hanna starfaði einnig að barnaverndarmálum og var í Barnarverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár.

Hanna var rásföst í pólitík eins og í öðrum málum. Í tengslum við fólk spurði hún ekki um flokksskírteini en hún beitti sér í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði heillandi sögur af litríkum vinum sínum í pólitíkinni. Hanna var í trúnaðarráði Hvatar, félagi Sjálfstæðiskvenna, og var formaður um skeið.

Það var Neskirkju og starfi þjóðkirkjnnnar blessun og happ þegar sr. Guðmundur Óskar kom á fund Hönnu árið 1988 og bað hana að koma til starfa í sóknarnefnd Nessafnaðar. Hún sagði já og þjónaði svo kirkjunni óhvikul, lengstum sem varaformaður sóknarnefndar. Hún var safnaðarfulltrúi og sótti því héraðsfundi prófastsdæmisins, var í héraðsnefnd og í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar.

Aldrei þáði Hanna laun fyrir en starfsdagur hennar í kirkjunni var oft langur eins og hún væri í meira en fullu starfi. Hún vakti yfir flestum starfsþáttum ekki síst mömmumorgnum og barna- og unglinga-starfi. Hún gætti að velferð starfsfólks kirkjunnar, tók á móti öllum, sem komu í kirkjuna, með þeim hætti að allir urðu heimamenn. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri kirkjunnar í mörg ár. Allir fóru upplitsdjarfari frá hennar fundi. Við, prestarnir, áttum alltaf stuðning vísan og ráðhollt mat hennar.

Það var gaman að spyrja hana hvað maður ætti nú að tala um næsta sunnudag. Hún skautaði með klerkinum yfir viðfangsefnið. Sjaldan vildi hún efna til herferða eða stórudóma. En eitt sinn var henni alveg lokið og þótti mál og menning þjóðarinnar vera að blása upp og trosna. “Nú þarf presturinn að tala um tungumálið,” sagði hún. Og svo gerði presturinn það auðvitað. Þá fékk ég innsýn í hvernig hún hefur verið Matthíasi stuðningur í gustmiklu starfi hans.

Hanna hlustaði og fyldist með öllu frá Hönnusætinu í kirkjunni, í þriðju röð við ganginn, og stýrði messustandi safnaðarins – nú er sætið hennar autt – hvít rós í því tjáir missinn.

Matthías hefur haft mikil áhrif með störfum sínum. En ég þori að fullyrða að fleiri hafa staðið og setið í samræmi við forskrift Hönnu en forskrift Matthíasar. Í áratugi stóð söfnuðurinn og sat í samræmi við hennar stjórn.

Í mörg ár útdeildi hún í altarisgöngum með prestum. Þeirri þjónustu lauk ekki fyrr en við dauða hennar. Fyrir liðlega mánuði síðan útdeildi Hanna við bænamessu. Hún gekk með bikarinn, bar lífstáknið – sagði hin helgu orð: Blóð Krists – bikar lífsins. Sú útdeiling í hinstu altarisgöngu hennar var á nákvæmlega sama stað og kista hennar er nú. Ekki óraði mig fyrir þegar ég útdeildi henni, að það væri nestun til eilífðar.

Hanna er farin en táknmálið lifir, lífið lifir, trúin sem hún þjónaði er lífsstrengur og orðin sem hún sagði eru áhrínsorð.

Kærleikur þinn hafið

Síðustu daga höfum við, vinir Hönnu, verið að reyna að að æfa okkur í staðreynd dauða hennar. Hanna er ekki lengur nærri. En svo koma ljóðin hans Matthíasar upp í fangið og huga og við uppgötvum að hún er víða í ljóðum hans.

Í hinum magnaða ljóðabálki Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið
á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,
kærleikur þinn hafið.

Myndin tjáir guðsnánd. Vatn er alls staðar þar sem líf er, og myndhverfingin miðlar að elskan hríslast um æðar þínar og er í sál þinni. Elskan til maka og barna, ástalíf þitt allt er hræring hinnar miklu Guðsnándar. En getur verið að Hanna sé þarna líka í þessu ljóði, sem ásjóna Guðs, birting hins guðlega?

Nú hefur Eílífur vitjað Hönnu. Í vikunni kom ég heim til Matthíasar. Hann opnaði bókina Mörg eru dags augu og benti á ljóðið um Víðirhól og Hönnu. Þar segir:

Hún beygir sig niður

eftir blómi

og réttir mér hjarta

úr grænu blaði,

réttir mér hjarta

vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin

horfir á okkur

úr öllum áttum.

Á þessari bókaropnu var líka þurrkuð jurt límd í bókina. Matthías hafði varðveitt hjartablómið og skrifað svo í bókina hvar Hanna hafði gefið honum þessa ástargjöf. Blómið í bókinni við hlið ljóðsins er tákn um allar hjartans gjafir hennar til hans, en líka ástvina, vina, samferðafólks, gjafir til lífs, bikar lífsins. Elskið – Saga Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen er saga um hafstærð kærleikans sem nú hefur opnast henni.

Guð geymi hana, Guð geymi þig.

Amen

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen 28. nóvember 1929 – 25. apríl 2009. Minningarorð í útför í Neskirkju 8. maí 2009.

Ljósverk Sigurðar Guðjónssonar

Vetrarhátíð 2023 var sett við Hallgrímskirkju 2. febrúar. Að venju var hátíðin opnuð með ljósverki á kirkjuveggnum. Í ár er það Fuser, verk listamannsins Sigurðar Guðjónssonar, sem liðast eftir vegg kirkjunnar. Sigurður var fulltrúi Íslands á Feneyjabienalnum á síðasta ári. Hann hefur einnig sýnt í Hallgrímskirkju. Í janúar-mars 2015 sýndi hann magnþrungin vídeoverk í forkirkjunni sem nefndist Tenging. Nöfn sýninga Sigurðar í og við kirkjuna tjá laðandi og kitlandi framvindu. Tenging sem var hefur nú – átta árum seinna – orðið að einingu – Fuser! Ljós á kirkju og ljós í kirkju.

RÚV gerði opnun vetrarhátíðar góð skil. En vegna veðurs guðuðu sjónvarpsmenn á glugga kirkjunnar og óskuðu eftir að fá að sjónvarpa beint innan úr kirkjuskipinu. Leyfið var veitt og hópur dansara voru að baki Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur, Kastljósi, sem kynnti dagskrá vetrarhátíðar. Það er gott kirkjuskjólið í Hallgrímskirkju.

 

Manngildi útlendinga

Í Biblíunni eru ekki aðeins sögur um fólk sem lifði fyrir tvö þúsund árum. Sögur Biblíunnar eru ekki bara gamlar sögur heldur sögur fyrir framtíð og nútíð. Þær eru sögur um okkur. Þær eru ekki úreltar – eins og grunnhyggnir halda – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta. Biblíusögurnar eru klassískar, þær eru erkisögur. Ein þeirra er saga Rutar í Gamla testamentinu. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, gildi, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef úrelt? Nei, þau varða vanda og val í nútíma.

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að hebresk kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér fyrir og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu í hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu. Konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Krísan var alger. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim á gömlu slóðirnar í Ísrael. Og ungu konurnar sem voru barnlausar urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir en hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu. Sú unga gekk í verkin til að bjarga sér og tengdamóður sinni. Hún var svo öflug í framgöngu að hún hreif fólk í nágrenni Jerúsalem. Svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar sem var síðan endursögð og væntanlega endurunnin í þágu framvindu sögu Hebrea. Það var þessi kona sem varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins, formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega gjörnings, blessun elskunnar.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks með alls konar og ólíka kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru hefðarminni sem raungerast og rata til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist og bjargar heiminum. Það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða – heimsljósið sjálft.

Í Rutarbók segir Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust eða vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Yfir vakir Guð elskunnar sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra. Manngildi er ekki hluti af þjóðerni eða menningu. Manngildi er guðsgjöf.

50 ár – Heimaeyjargosið

Mamma sagði mér þegar ég vaknaði 23. janúar að gos væri hafið í Vestmannaeyjum. Við vorum öll skekin og fylgdumst með fréttum dagsins og gifturíkum flutningi fólksins í land. Við strákarnir í 6R MR fórum austur á Kambabrún til að sjá gosið og mökkinn með eigin augum. Á vegum þjóðkirkjunnar var farin skoðunarferð út í Eyjar til að skipuleggja hjálparstarf. Guðmundur Einarsson æskulýðsfulltrúi og Páll Bragi Kristjónsson hjá Hjálparstofnun kirkjunnar buðu mér að koma með. Það var skelfilegt að horfa yfir svarta Heimaey úr lofti. Þegar við lentum og komum út úr flugvélinni heyrðum við ekki aðeins gosdrunur heldur fundum þær með líkamanum. Við fórum að austurhluta gossprungunnar, sáum glóandi hraun og gosgufur voru í lægðum. Svo var farið inn í bæ og alls staðar var fólk að björgunarstörfum. Ösku var mokað af þökum og munum var bjargað. Ég var yfirkominn af undrinu að íbúarnir höfðu bjargast, hve eldjallið var nálægt og rosalegt, hve lífi var ógnað en lífshvötin fann sér farveg við margvísleg björgunarstörf. Í dag er ekki hátíðadagur heldur minningardagur. En saga Vestmannaeyja og íbúanna er upprisusaga – undursamleg blessunarsaga. 

Meðfylgjandi eru myndir sem ég tók í Heimaey í mars  fyrir nær hálfri öld. Guðmundur Einarsson, velgerðarmaður minn, fyrir framan kaupfélagið og mér sýnist sr. Ingólfur Guðmundsson vera þarna á einni myndinni. 

Kvöldbæn Gísla Kristjánssonar

Ég var að taka til í bókahillum mínum og meðal annars að skoða gamlar sálmabækur. Þá datt þessi kvöldbæn úr fyrstu sálmabók móður minnar. Bróðir hennar Gísli Björgvin Kristjánsson er höfundur. Hann var elstur sex Brautarhólssystkina, orðsnjall og hagyrðingur eins og þau öll voru. Móðir mín sagði mér að hann hefði oft sett saman vísur og þegar hann var farinn til náms í Hóla eða Kaupmannahafnar sendi hann systkinum sínum stundum kveðskapinn. Móður minni þótti undur vænt um Gísla og hefur líka þótt vænt þennan barnasálm fyrst hún geymdi hann í sálmabók sinni.  

Jesú breiddu þína blessun

yfir rúmið mitt.

Láttu blessað ljósið skína.

Lát mig vera barnið þitt.

 

Gef mig dreymi engla undur blíða

yfir mér sem vaka er sef ég rótt.

Veit ég þá að ég hef engu að kvíða.

Öllum bið ég góða nótt.

Á meðfylgjandi mynd er Gísli, höfundur kvöldsálmsins, annar frá vinstri í aftari röð. Thora, kona hans er honum á hægri hönd. Síðan er Sigurjón, þá Þórður og Svanfríður, foreldrar mínir. Í fremri röð frá vinstri eru Filippía (skáldkonan Hugrún), Kristín, amma og móðir þeirra Brautarhólssystkina, síðan Lilja Sólveig og lengsti til hægri Sigríður, kona Sigurjóns. Myndin er líklega tekin í afmæli Kristínar ömmu í janúar.

Hér að neðan er svo mynd af Brautarhólsbræðrum hinum fyrri. Gísli lengst til vinstri, Sigurjón í miðju og Sigurður Marinó til hægri. Myndin er afar lýsandi um skaphöfn og persónur þeirra bræðra.