50 ár – Heimaeyjargosið

Mamma sagði mér þegar ég vaknaði 23. janúar að gos væri hafið í Vestmannaeyjum. Við vorum öll skekin og fylgdumst með fréttum dagsins og gifturíkum flutningi fólksins í land. Við strákarnir í 6R MR fórum austur á Kambabrún til að sjá gosið og mökkinn með eigin augum. Á vegum þjóðkirkjunnar var farin skoðunarferð út í Eyjar til að skipuleggja hjálparstarf. Guðmundur Einarsson æskulýðsfulltrúi og Páll Bragi Kristjónsson hjá Hjálparstofnun kirkjunnar buðu mér að koma með. Það var skelfilegt að horfa yfir svarta Heimaey úr lofti. Þegar við lentum og komum út úr flugvélinni heyrðum við ekki aðeins gosdrunur heldur fundum þær með líkamanum. Við fórum að austurhluta gossprungunnar, sáum glóandi hraun og gosgufur voru í lægðum. Svo var farið inn í bæ og alls staðar var fólk að björgunarstörfum. Ösku var mokað af þökum og munum var bjargað. Ég var yfirkominn af undrinu að íbúarnir höfðu bjargast, hve eldjallið var nálægt og rosalegt, hve lífi var ógnað en lífshvötin fann sér farveg við margvísleg björgunarstörf. Í dag er ekki hátíðadagur heldur minningardagur. En saga Vestmannaeyja og íbúanna er upprisusaga – undursamleg blessunarsaga. 

Meðfylgjandi eru myndir sem ég tók í Heimaey í mars  fyrir nær hálfri öld. Guðmundur Einarsson, velgerðarmaður minn, fyrir framan kaupfélagið og mér sýnist sr. Ingólfur Guðmundsson vera þarna á einni myndinni.