Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið

 

Lambaskankar

Lambakjöt er stundum á borðum í mínum bæ. En skankar eru almennt vannýtt hráefni og hér er góð og auðveld uppskrift. Þetta er matarmikill réttur fyrir kalda vetrardaga og á að vera stórskorinn! Skanka má alltaf fá í Melabúðinni.

Hráefni

1-2 kíló skankar eða magurt súpukjöt

4-5 eða fleiri hvítlauksrif stungin í kjötið

salt og pipar eftir smekk

2 eggaldin

3 paprikur, í mismunandi litum

vorlaukur

rauðlaukur

púrrulaukur

3-4 stilkar sellerí

1 fennikel

allt saxað mjög gróft / 3-5 cm bitar – alls ekki í smábita 

Tómatsósa:

1-2 fínhakkaður laukur – steiktur í ólífuolíu

2 dósir niðursoðnir tómatar

hunangssletta

2 lárviðarlauf

Tímían

1/2 dós ansjósur

2 hvítlauksrif

1 bolli rauðvín

salt og pipar

látið malla

 Saxaða grænmetið fer á botn á  stóru olíusmurðu ofnfati (lokanlegu). Tómatsósan fer síðan yfir og kjötið þar yfir. Lokið á og fatið síðan sett í ofninn. Bakað fyrst í 15 mínútur við 250 gráður en hitinn síðan lækkaður í 200 gráður og bakað áfram í 1-1 1/2  tíma.

 Borið fram með kúskús eða byggi.

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður / og miskunn hans varir að eilífu. Amen

 

Uppskriftabók að hamingjuríku lífi

Sr. Elínborg Sturludóttir er afburðaprédikari og einn öflugasti prestur okkar Íslendinga. Elínborg hélt tölu á örþingi í Neskirkju 11.11. um Ástin, trú og tilgangur lífsins. Ræðan birtist hér að neðan og svo birti hún ritdóm í Kirkjublaðinu 29.11. Greinin er að baki þessari smellu

Það eru þrjátíu ár frá því að það tókust kynni með okkur Sigurði Árna. Það var hending að ég fór með félagi guðfræðinema í heimsókn í Þjóðgarðinn á Þingvöllum vorið 1993, því á þeim tíma var ég  heimspekinemi sem sótti tíma í guðfræði en ég svindlaði mér með. Þar hitti ég Sigga Árna fyrst og heimsóknin var svo ánægjuleg að ég sótti um vinnu á Þingvöllum í kjölfarið og næstu sjö sumur var ég viðloðandi staðinn og eignaðist vináttu Sigurðar Árna.

Oft sátum við á skrifstofunni í Þingvallabænum snemma morguns, drukkum ofsasterkt kaffi og heimspekilegar samræður áttu sér stað í hnausþykkum vindlareyk.

Ég kynntist því strax þarna fyrir þrjátíu árum hve Sigurður Árni býr yfir ríkri frásagnargáfu, hve auðvelt hann á með að gera hversdagslega hluti að ævintýrum í frásögn sinni og hve gaman hann hefur af því að eiga samtal við fólk og spyrja áleitinna spurninga.

Sigurður Árni gaf ekki aðeins uppskrift að því hvernig mætti fara með fólk um Þingvelli, heldur að því hvernig hægt væri að fanga athygli á nýstárlegan hátt, beina sjónum að litlum og hversdagslegum hlutum en vera á sama tíma skemmtilegur og ögrandi.

Einmitt þessir hæfileikar Sigurðar Árna njóta sín svo vel í þessari fallegu postillu.  

Frásagnargáfan, hverdagslegu ævintýrin og áleitnu spurningarnar einkenna prédikanir Sigurðar Árna og gera þær einmitt svo innihaldsríkar. 

Stíll hans er persónulegur án þess að vera sjálfhverfur. Hann deilir af örlæti af eigin lífsreynslu ef það getur varpað ljósi á efnið sem hann er að fjalla um og margar sögur er hér að finna sem eru undursamlegar, eins og um barnið sem féll í gjótu á Þingvöllum en var bjargað og um bróðurinn frá Kvískerjum sem söng sig út úr íshellinum.  

Það væri aldrei hægt að ræna ræðu frá Sigurði Árna án þess að það kæmist upp um mann.  Það væri eins og að fara með ómerkta mynd eftir Kjarval í Fold og halda því fram að maður hefði sjálfur málað hana. Fingraför hans í textanum og sérkennin eru svo skýr.

Siggi Árni leikur sér listilega með tungumálið og býr til ný orð og ný hugtök, hann er orðasmiður.  Á sama tíma eru orðin gegnsæ og auðskiljanleg og oft mjög guðfræðileg.

Við fáum að heyra um  „smyrslakonuna“ og  „fótaþvottamennina“. Við fáum líka að heyra um  „föstudagsfólk“ og „sunnudagsfólk“. og svo er það „páskafólkið“ sem sér sólina dansa,

Oft nálgast Sigurður Árni umfjöllunarefnin úr óvæntri átt þannig að áheyrandinn kemst ekki upp með að dotta undir ræðunni og við það fær maður óvænt nýja sýn. Gott dæmi um þetta er setningin: „Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir.“

Hafði einhver áður hugsað um sr. Hallgrím sem poppara? Eða um Passíusálmana sem „guðspjall Íslands“ og „vegabréf“ fyrir himinhlið? Og er hægt að vera með meira lýsandi fræðslu um bæinn Betaníu en að hann sé n.k. Garðabær í nágrenni Jerúsalem? Og hver annar en dr. Sigurður Árni Þórðarson hrífur okkur með sér  frá mettunarfrásögninni á Fjallinu  og vekur hugrenningatengsl við útihátið norður í landi?

Hann vefur listilega vel saman túlkun og heimfærslu inn í ræður sínar þannig að okkur finnst sjálfsagt að Jesús sé kominn norður í land með fiskana og brauðin og allir eru saddir og sælir og við bíðum bara eftir að Stuðmenn byrji að spila.

Það er ekki óalgengt að fólk spyrji: Hvaða erindi eiga eldgamlir textar við nútímafólk? Góð og gild spurning. Í Biblíunni er fullt af forneskju og þar birtist stundum heimsmynd sem er liðin undir lok. Sigurður Árni forðast ekki óþægilegu textana sem stuða okkur og við vildum helst fela, heldur tekst á við þá af hugrekki og einlægni. – Og hafnar líka þeim Guði sem stundum er að þvælast um á síðum biblíunnar og er dyntóttur og geðstirður. Guð Sigurðar er ástríkur, nærandi og skilningríkur Guð sem byggir upp lífið og sá Guð er á miklu fleiri blaðsíðum í Biblíunni. 

Siggi Árni talar beint við áheyrandann. Spyr hann spurninga sem snerta prédikunarefnið og hvetur þannig til ígrundunar. Hann færir manni ekki endilega svörin því þau geta verið persónubundin en það að spyrja spurninganna og leitast við að svara þeim gæti ýtt undir framfarir í lífsleikni og aukið lífsgleði.

Ég hlakka til að handfjatla þessa veglegu postillu, grípa í hana mér til uppbyggingar og lesa mér til gagns.

Ég sé hana eins og góða matreiðslubók sem gaman er að skoða, fá nýjar hugmyndir að réttum og hlakka svo til góðs samfélags við vini og vandamenn við borðið.

Ástin, trúin og tilgangur lífsins er uppskriftabók að hamingjuríku lífi. Njótið hennar, lesið og látið boðskapinn auðga dagana. 

Til hamingju Siggi Árni!

Meðfylgjandi mynd tók ég af sr. Elínborgu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á tuttugu ára vígsluafmæli hennar í september 2023.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

Stríð, börn, eldgos og ást

Ávarp dr. Sigurvins Lárusar Jónssonar á örþingi í Neskirkju 11. nóvember 2023. Mynd/sáþ var tekin á vígsludegi Sigurvins 11. maí 2011. 

Góðu vinir, það er mér heiður að fá að tala hér í dag um ástina. Sigurvin Lárus Jónsson heiti ég og er vinur Sigurðar Árna, áhugamaður um ástina, prestur og fræðimaður á sviði Nýja Testamentisins.

Ástin er það eina sem skiptir máli í lífinu, svo einfalt er það. Ást er það sem skapar okkur; án ástar kemst ekkert ungabarn til eðlilegs líkamlegs þroska, það hefur sár reynsla kennt okkur; án ástar kemst enginn unglingur til manns; og án ástar er engin fullorðin manneskja farsæl. Ástin er okkur allt.

Þetta orðar Sigurður Árni í þessari nýútkomu bók í umfjöllun sinni um trúarjátningu, kjarna þess sem kristnir menn deila og miðla, er hann segir „Trúarjátning … tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og safnaðarsöng í helgihaldi er trú játuð með tjáningu sem er svipuð og tjáningar ástfangins fólks sem hvíslar ástarorð í eyra hins elskaða. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hver annan með orðum elskunnar. Almætti snýst ekki um mátt heldur ást. Í trúarjátningunni mætti því allt eins orða: Ég trúi á alelskandi Guð.“ (bls. 73).

Sem prestur hef ég aldrei upplifað ástvini í sorgarhúsi leggja áherslu á það sem við höldum á lofti sem forgangsatriðum í fjölmiðlum, að græða fé, finna frægð eða öðlast frama. Nei, fólkið sem stendur næst, þeim sem kveður, ræðir einungis ást, og því miður á stundum skorti á ást. Ástin er okkur allt, annað er eftirsókn eftir vindi.

Ég er þakklátur fyrir þessa bók, kæri Sigurður Árni; sem vinur, en ég samgleðst þér að hafa kjarnað og miðlað þá prédikun um ástina sem þú hefur haldið á lofti í starfi þínu og lífi; sem prestur, því hér er komið út verkfæri sem prestar geta sótt í, nýtt skapalón fyrir prédikun inn í samtímann; og síðast en ekki síst sem fræðimaður.

Og nú langar mig að setja bókina í fræðilegt samhengi þess fags sem ég tilheyri, ritskýringu. Sigurður Árni er eins og þið vitið trúfræðingur, menntaður við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna, Vanderbilt, en hann skrifaði doktorsritgerð um það sem okkur liggur á hjarta sem Íslendingar, Líf og mæri: Liminality in Icelandic religious tradition. Þar er á ferðinni greining á íslenskri guðfræði, sem mótast af því að búa í og á síkviku landi. Trúfræði sem er ekki einungis akademískar æfingar, heldur guðfræði sem getur gagnast með beinum hætti við þessa atburði sem nú eiga sér stað við Grindavík. Hagnýt guðfræði þjóðar sem býr á eldfjallaeyju, þar sem er allra veðra von.

Bókin þín núna er að sama skapi hagnýt guðfræði, guðfræði ástarinnar annarsvegar og aðferðafræði prédikunarinnar hinsvegar. Það sem ég vil sem biblíufræðingur minna á er að öll hagnýt guðfræði byrjar á lestri Biblíunnar.

Það orðar Sigurður Árni undir yfirskriftinni „Að lífga heiminn“; er hann segir: „Þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja helga texta. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita.“ (bls. 96).

Þessi deigla Biblíunnar birtist með beinum hætti í orðræðu Biblíunnar um ástina. Jesús sagði „elska skaltu“, og er þar að vinna með hefðina, Þriðju Mósebók: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (3M 19.18). Páll hinsvegar setur ástina, agape, á oddinn og endurskilgreinir hugtakið sem útgangspunkt sinnar guðfræði. Sá kærleikur sem við hittum fyrir í óði Páls til kærleikans er nýr í hugmyndasögunni, þó hann byggi sannarlega á hefðum Biblíunnar og arfleifð Krists.

Öllum fræðilegum erindum ber að hafa rannsóknarsögu og þar legg ég til, Nygren, Wischmeyer og Sigurð Árna Þórðarson.

Anders Nygren eiga allir guðfræðingar að þekkja en hann var sænskur prestur, trúfræðingur, prófessor í Lundi og síðar biskup. Nygren sagði grískuna eiga tvö hugtök yfir ástina og dró skörp skil á milli þeirra, eros væri hin kynferðislega, eigingjarna ást, skilyrtum háð og jafnvel duttlungum, á meðan að agape væri hinn kristni kærleikur, sem er gefandi og fórnandi og byggir á skilyrðislausri ást Guðs til mannanna. Bók hans Eros och Agape kom út í tveimur hlutum 1930 og 1936 og var tímamótaverk, en er jafnframt barn síns tíma. Mynd hans af eros endurspeglar ekki með trúverðugum hætti grísk/rómverska menningu og skilin sem hann dró á milli eros og agape er hvergi að finna í Nýja testamentinu – eros er hvergi að finna í Nýja testamentinu. Það sem hann gerði vel er að gera kærleikanum skil sem kjarnaatriði kristinnar guðfræði.

Þá að Oda Wischmeyer. Prófesorinn minn er þýsk, heitir Eva-María, og í Þýskalandi eignast maður foreldra í fræðunum, hún er mín doktormutter. Oda þessi er með sömu skilgreiningu amma mín, fyrrum prófessor í Erlangen, heiðursdoktor frá Lundi, og fyrsti biblíufræðingurinn til að skrifa bók um agape síðan Nygren, á 90 árum – hugsið ykkur. Bók hennar Love As Agape: The Early Christian Concept and Modern Discourse frá 2021 rekur hugtakið frá grikkjum og gyðingum, til Páls, og þaðan í gegnum menningarsöguna og segir tvennt: annarsvegar að Páll sé einstakur í notkun sinni á agape og hinsvegar, sem engum kemur á óvart, að Ástin, trú og tilgangur lífsins eru samofin. Það er sem er óvenjulegt við agape hugtakið hjá Páli er að ástin, kærleikurinn, er svarið við öllum spurningum okkar – bókstaflega. Þau sjö bréf sem við eigum varðveitt frá Páli eru rituð á þeim forsendum að Páll er að bregðast við vanda eða átökum sem eiga sér stað í samfélaginu. Vandanum er oft lýst með nákvæmum hætti, flokkadrættir, tilvistarótti og átök manna á milli, en svör Páls eru ekki nákvæm, hann leysir aldrei vanda, bendir einungis á kærleikann – agape.

Hvaða kærleika? Í bókinni Ástin, trú og tilgangur lífsins, segir Sigurður Árni Þórðarson „Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður.“ (bls. 26) og hann lýsir ástaróði Páls í samaburði við kónginn: „„Það er gott að elska,“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar“ (bls. 63).

Ef ég hefði byrjað þessa ræðu á orðunum, ‚við stöndum nú á tímamótum‘,væri það sígilt stef. Við stöndum alltaf á tímamótum og frammi fyrir erfiðum áskorunum, stríð, hamfarir mannleg eymd.

Hvernig leysum við stríð – með ást! Hvernig bregðumst við við eldgosi – með ást! Hvernig ölum við upp börn, höldum í maka, réttum af samfélagslegt óréttlæti, fyrirgefum misgjörðir, stöðvum hnatthlýnun og bindum enda á fátækt – með ást.

Ástin, kærleikurinn, eros og agape, eru eina leiðin áfram og eina leiðin til að lifa.

„Hver er áhersla prédikana í þessari postillu? Mér hefur þótt vestræn menning vera ástarskert. Heimspeki og mannvísindin almennt eru ekki ástarleitandi greinar. Djúpboðskapur kristninnar er um elsku Guðs og ástarsókn manna en oft kalla hörmungar, samfélagsmál, stríð og önnur stórmál á kirkjuræður um heldur ástarrýr stef. Í lífi og starfi hef ég sannfærst um að ástin er grunnstef trúar, lífs, siðferðis og Guðs. „Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. Ég hef horft í augu á fjölda fólks sem tjáir djúpa ást. Aðrir hafa talað um ástarþrá. Ástarsögur fólks hafa heillað mig. Svo eru harmsögur fólks stundum skuggalegar ástarsögur. Á bak við ástarsögur heimsins og okkur öll er ástarsaga Guðs.“ (bls. 415)

Takk Sigurður Árni fyrir að orða það og boða til þjóðarinnar með Ástin, trú og tilgangur lífsins.

Sigurvin Lárus Jónsson, vinur, prestur, fræðimaður.