Ólafía S. Ólafsdóttir – minningarorð

Hvernig minnist þú Ólafíu? Hvernig var hún þér? Gaf hún þér eitthvað? Tók hún til hendinni þegar þér lá á? Sá hún ef þú varst þreyttur eða lúin og vildi veita þér næðisstund og hvíld? Gaf hún ekki þeim sem þörfnuðust? Var gjafmildi Ólafíu nokkuð einskorðuð við mannheima? Nutu ekki fuglar og jafnvel mýs elsku hennar?

Hugsaðu til baka. Brosandi birtist hún í huga mínum. Þessi glæsilega kona, alltaf hrífandi, með svo elskulega návist að öllum leið vel, vissu að allt var gott og allt yrði gott þar sem hún var. Hún umvafði fólkið sitt með hlýju og glaðværð, var hjálpsöm og gjafmild.

Við kveðjum Ólafíu Sigurbjörgu Ólafsdóttur á síðasta degi jóla. Þrettándi dagur jóla er forn stórhátíð í kirkjunni, þrunginn merkingu sem við megum gjarnan vitja og setja í samhengi Ólafia. Þrettándinn passar vel við líf hennar, lífsafstöðu og verk.

Þrettándinn og gjafir fyrir lífið

Í guðspjalli dagsins, sem ég las áðan, segir frá helgisögunni um vitringa sem voru að leita að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Leit þeirra spurðist út, kóngur vildi fá að vita um leitina og svo fóru þeir og fundu barnið í Betlehem. Þar gengu þeir fram og veittu barninu lotningu og færðu því gjafir. Ekki vitum við hvað þeir voru margir eða hvaðan vitringarnir komu. Ekkert er sagt um að þeir hafi aðeins verið þrír eins og helgileikir barnanna sýna gjarnan. Ekkert segir Biblían nöfn þeirra og ekki heldur kyn þeirra. Því hefur löngum verið haldið fram, að þetta geti ekki hafa verið konur því ef svo hefði verið hefðu þær verið komnar á undan Maríu og hefðu verið búnar að skúra húsið og undirbúa fæðinguna og gefið nytsamar gjafir eins og mat og bleyjur. En hvað gáfu þessir vitringar? Börnin í sunnudagaskólanum hafa skemmt sér við að þeir hafi gefið bull, ergelsi og pirru. Nei þeir gáfu ekki slíkar gjafir, og ekki heldur ráðleysi, skuldir og firru. Gjafir vitringanna voru gjafir konungs, prests og læknis – gull, reykelsi og myrra voru gjafir til að efla Jesúbarnið til hinnar altæku þjónustu við líf fólks og líf heims. Vitringarnir komu til að votta lífinu virðingu og blessa starf í þágu lífsins. Við menn erum í sömu stöðu og vitringarnir, kölluð til hins sama, kölluð til að efla aðra, votta því besta virðingu okkar og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að allir megi þroskast og eflast.

 

Mér sýnist við hæfi, að við fylgjum Ólafíu í hinstu ferð á þessum degi vitringanna, sem gefa gjafir. Hún var gjöful, hún var vitringur í lífinu. Hún er okkur skínandi fyrirmynd um afstöðu þjónustu, gáska, jákvæðni, raunveruleikatengingar og blessunar.

Uppruni og fjölskylda

Ólafía Sigurbjörg Ólafsdóttir fæddist undir stórum vetrarhimni austur í Landeyjum, þann 25. febrúar árið 1927. Ólafía fæddist á Álftarhóli og bjó þar fram á unglingsár er hún hleypti heimdraganum. Foreldar hennar voru Sigurbjörg Árnadóttir (f. 27. ágúst 1885 d. 28. október 1975), og Ólafur Halldórsson (f. 16. ágúst 1874  d. 5. júlí 1963). Ólafía var þriðja yngst í hópi 12 barna hjónanna  á Álftarhóli. Systkini Ólafíu eru:

Óskar (f. 1911 d. 1989),

Jónína Geirlaug (f. 1913),

Engilbert Maríus (f. 1914 d. 1989),

Laufey (f. 1915 d. 1999),

Björgvin Árni (f. 1917),

Unnur (f. 1919),

Katrín (f. 1921 d. 1994),

Rósa (f. 1922),

Júlía (f. 1924),

Kristín (f. 1928) og

Ágúst (f. 1930).

Blessun og langlífi einkennir þennan systkinahóp og sjö þeirra lifa. Tólf börn á 19 árum. Oftast var kátt í kotinu, en barátta var mikil og sístæð við að hafa í þennan hóp og á. Heimilisbragurinn var myndarlegur og góður. Samheldni var með áægtum. Menntun fengu börnin í farskóla, sem stundum var heima í Álftarhóli. Allir lærðu að vinna og leggja til heimilis. Í því voru foreldrar fyrirmynd. Sigurbjörg mamma Ólafíu fór gjarnan milli bæja prjónandi á göngu sinni. Í vel iðjandi stórfjölskyldusamhengi, sem var orðvart um utalsfrómt, námfúst og fróðleiksleitandi mótaðist Ólafía. Í ljósi uppvaxtar hennar er hægt að skilja af hverju hún var svo kunnáttusöm í samskiptum, umhyggjusöm og eflandi.

Sextán ára fór Ólafía að heiman til að vinna og sjá sér farborða. fyrst fór hún út í Eyjar og síðan til Reykjavíkur, sem varð hennar reitur allar götur síðan. Systurnar voru kunnar fyrir glæsileik, minntu helst á kvikmyndastjörnur, var sagt, smart og elegant. Það var ekkert einkennilegt að ungir menn festu augun á Ólafíu.

Árið 1947 giftist Ólafía Jósef Björnssyni skrifstofmanni (f. 15. desember 1927). Þau voru ung, nutu hjúskapar í blóma lífsins, en Jósef lést hins vegar fyrir aldur fram, aðeins 37 ára gamall (1965). Þau eignust fyrsta barn sitt í ársbyrjun 1948, stúlkubarn sem skírð var Ásta (f. 8. janúar 1948 d. 1. apríl 1948). Hún lést tæpra þriggja mánaða úr heilahimnubólgu. Alla tíða síðan var Ólafía varkár gagnvart veikindum í börnum og árvekni hennar skilaði góðu. Önnur börn þeirra Jósefs eru:

Svanhvít Ásta (f. 14. janúar 1949). Hennar maður er Ásgeir Ólafsson.

Björn Ingi (f. 8. mars 1950). Kona hans er Dóra Ásgeirsdóttir

Yngstur er Ólafur (f. 30. október 1963) og hans kona er Steinunn Svanborg. Afkomendur eru samtals 18

Eftir að fyrsta barnið fæddist var Ólafía heimavinnandi húsmóðir. Þau Ólafía og Jósef bjuggu ásamt Ingibjörgu móður Jósefs nokkur ár í Skerjafirði. Það voru hamingjuár. Árið 1960 fluttist fjölskyldan á Sólvallagötu 28. Þegar Jósef lést fimm árum seinna flutti Ólafía ásamt börnum og tengdamóður í Skipholt 45. Hún fór síðan að vinna utan heimilis. Fyrst hjá Flugfélagi Íslands, í hlaðdeild við þrif á flugvélum en síðan í mötuneyti á Reykjavíkurflugvelli. Í vinnu og afstöðu var Ólafía bæði góður starfsmaður og trygg sínum vinnuveitanda. Á Reykjavíkurvelli vann hún samfellt yfir þrjátíu ár þar til hún lét af störfum vegna aldurs, fyrst hjá Flugfélagi Íslands, síðar Flugleiðum.

Georg Sighvatur Sigurðsson varð vinur Ólafíu og sambýlismaður frá árinu 1977. Þau bjuggu saman í 24 ár þar til hann lést árið 2001. Börn Georgs eru: Sigurður Ingi – hans kona er Anna Sigríður Sigurðardóttir. Róshildur Agla, Anna Þuríður – hennar maður er Haraldur Stefánssonar, Jóna Margrét og hennar maður Kristinn Magnússon. Samtals eiga Georg og fyrri kona hans sem einnig heitir Ólafía og er Egilsdóttir 36 afkomendur. Börnin hans Georgs urðu fólkið hennar Ólafíu Sigurbjargar og þau reyndust henni hið besta. Þökk sé þeim fyrir elskusemi þeirra. Ríkidæmi þeirra Georgs var því mikið í fjölskyldunni. Og þar er mesti auður lífsins, í fólki, í elskunni og því sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Ólafía bjó í Skipholti 45 í 40 ár en fluttist árið 2006 í Lækjasmára 21 þar sem hún bjó til dauðadags. Hún lést 21. desember s.l. á Líknardeild Landsspítalans í Kópavogi. 

Eigindir

Hvernig var hún? Hvaða minningar áttu um Ólafíu. Hvað gaf hún þér? Ef fuglar gætu talað yrði magt skemmtilegt sagt. Ólafía var mikill vinur málleysingjanna, gaf ekki aðeins krummum, spörfuglum og gæsum. Hún mátti ekkert aumt sjá og var eins og hetja úr Deisneymynd og sá aumur á mús um miðjan vetur og kom til lífs. Flestar líflitlar plöntur lifnuðu hjá ólafíu. Hún var eins og Frans frá Assisi, tengd lífinu og lífríkinu, sköpun Guðs með þeim hætti að allt dafnaði og gladdist.

Og hún umvafði samferðafólk sitt. Hún hafði tamið sér þá undursamlegu afstöðu að lifa í nútíðinni. Henni hugaðist ekki að horfa bara til forstíðar. Hún vildi ekki ganga afturábak inn í framtíðina, heldur með fullri vitund. Hún var sér vel meðvituð um að það skiptir máli að hafa jákvæða afstöðu í lífinu. Því forðaist hún allar langlokur um sjúkdóma og sneyddi hjá barlóm, neikvæði, svarts´ni og öllu því sem gat gert daprað lífið. Hún hafði hins vegar gaman af því sem gladdi, gerði lífið skemmtilegra, litskrúðugt, betra. Hún var okkur hinum lýsandi fyrimynd um að fjör lífsins er íokkar eigin hendi, á okkar ábyrgð. Okkar er að spila vel úr því sem er gefið. Já, hún hafði þessa frumafstöðu trúarinnar að manni leggist eitthvað gott til, ef maður er opinn og jákvæður. eins og allir reyna, sem temja sér slíka afstöðu þá lagðist henni gott til, líf hennar spannst vel þrátt fyrir mikil áföll. hún naut elsku og blessunar og var sér með vituðuð um það. H´n fylgdist vel með því sem var á döfinni. Já, þegar sonardóttir mundi ekki dægurlagatexta var hægt að hringja í ömmu. Hún var upplýst. Hún vissi hvað var að gerast í heimi barnabarna sinna. Hún fylgdist einfallega afar vel með og var því fær um að tala við fólk á öllum aldursskeiðum. Ólafía hóf sig því yfir aldur og varð aldrei gömul.

Vitringarnir gáfu gjafir til lífs. Ólafia gaf mönnum og málleysingjum. Hvað viltu með líf þitt. Viltu fylla það af eignum eða fjármunum, sem svo kannski sogast í brut í einhvern svelginn? Eða viltu þiggja fordæmi Ólafíu, gefa af ríkidæmi lífsins, gefa af ríkidæminu hið innra? viltu verða vitur og gefa gjafir viskunnar?

Á þessum degi við jólalok og lífslok Ólafíu skaltu staldra við og hugsa um til hvers við lifum – já til hvers þú lifir. hvað var best í henni og það skaltu temja þér, þá fá gjafir hennar að ávaxtast vel, nýtast vel og verða öðrum til góðs.

Fossvogur, 6. janúar, 2009.

Guðspjall:  Matt 2.1-12

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Ingibjörg Einarsdóttir

Útför Ingibjargar Einarsdóttur var gerð frá Neskirkju 23. júní 2008. Minningarorðin eru hér á eftir. 

Hvernig var Ingibjörg? Það er hrífandi að hlusta á sögur barna hennar og ástvina. Og minningar fjölskyldunnar um Ingibjörgu eru allar á einn veg. Það, sem ég hef einkum staldrað við í þessum sögum, er hversu vel Ingibjörg lifði í núinu. Hún var ekki að sýta fortíðina, var ekki reyrð við muni eða hluti sögunnar. Hún hafði tamið sér stóískt æðruleysi gagnvart framíðinni, hafði engar áhyggjur af því sem verða myndi, forðaðist nöldur um tímann eða tíðir. Hún hafði tamið sér að lifa í núinu, hvíla í trausti til þess sem er, að vera til staðar fyrir fólk núna en ekki síðar, njóta þess nú sem hún upplifði en ekki með einhverri fortíðarbindingu. Hún var tengd sér, umhverfi sínu, fólkinu sínu og fegurðinni.  

Þegar svo margir tapa sjálfum sér og leita athvarfs í einhverri fortíðarminningu er svo merkilegt og hrífandi að heyra sögurnar af Ingibjörgu. Þegar svo margir tapa glórunni á hlaupum á eftir fé og forgengilegum eignum er eflandi að hlusta á núhæfni Ingibjargar. Listin að lifa í núinu er fágæt og slíkt dýrmæti, að þið sem ástvinir og fjölskylda ættuð að staldra við, íhuga og meta hvort Ingibjörg sé ekki í þessu mikilvæg fyrirmynd. Var hún engill, boðberi, núafstöðunnar. Og er það að lifa í núinu ekki mikilvæg forsenda hamingjunnar, lífsþroskans og gleðinnar? 

Þegar sögurnar hljómuðu um Ingibjörgu rifjaðist upp í huga mínum speki í Gamla testamentinu. Þegar sú kunna biblíuhetja Móses var að reyna að gera sér grein fyrir hlutverki sínu í lífinu spurði hann Guð hvað guð héti. Og svarið sem hann fékk var: „Ég er…” (2. Mósebók 3.14). Það merkir ekki, að Guð skorti nafn heldur hverjar eigindir Guðs birtast gagnvart veröldinni. Guð er ekki nafnið tómt – Guð er. Margir hafa fyrr og síðar staldrað við og hugsað merkingu þessa, listamenn, rithöfundar, heimspekingar, guðfræðingar, fólk aldanna í viskuleit. Guð er ekki hlutur, sem við göngum að, fullþekkt staðreynd, sem við höfum uppá vasann. Guð var ekki bara einhvern tíma eða verður einhvern tíma í þeirri tilveru sem við köllum eilíft líf, handan sorgar og grafar. Guð er, já núna, máttur alls sem er, inntakið í því sem heitir líf, orkugjafinn sem veitir forsendu þess að þú lifir, finnur til, hrífst, elskar, syrgir, berð umhyggju gagnvart fólkinu þínu, já líka Ingibjörgu. Guð var ekki og verður ekki – heldur er. Guð er hið eilífa nú í tíma. Og þegar við mannfólkið, veröldin hrynjum inn í sjálf okkur er Guð, kemur alltaf, umlykur og blessar og veitir okkur að nýju möguleika þess að vera í núinu og höndla líf og hamingju. Guð er og þar með hin eilífa návist í tíma.

Upphaf og fjölskylda

Ingibjörg Einarsdóttir fæddist á Unnarstíg í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Hróbjartsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir. Barnahópurinn var stór, Ingibjörg var elst átta systkina. Sex þeirra komust á legg en tvo létust ung. Systkini Ingibjargar eru: Ásgeir, Ásta, Sveinbjörn, Haukur, Agnes, Sigrún og Hróbjartur. Haukur og Agnes létust ung en Sveinbjörn og Sigrún lifa systkini sín.

Það var drift í fjölskyldulífinu. Einar, pabbinn, var starfsmaður Pósts og síma. Hann hafði dug til að búa fjölskyldu sinni góða umgerð. Þau Ágústa byggðu fjölskylduhús á Brekkustíg 19. Meðan það var í byggingu bjuggu þau um tíma út á Seltjarnarnesi og voru svo eitt sumar í tjaldi í Elliðaárdal. Það er heillandi að hugsa um stóra fjölskylduna í þvílíkum landnemaaðstæðum. Fólk í tjaldi.

Einar var maður hinna mörgu vídda. Hann sinnti andlegum fræðum og hafði áhuga á ýmsum spekivíddum veraldar, hafði augun hjá sér og augu á gerð veraldar. Hann hefur vísast verið vísindahneigður að upplagi og svo hafði hann skilning á líkamsrækt og hreyfingu og skilaði heilsuræktaráhuga til barna sinna. Og Einar fór gjarnan með hópinn sinn upp í Öskjuhlíð, sem ekki var sjálfsagt á þeim tíma. Kannski hefur ferðafúsleiki Ingibjargar orðið til í þessari útrás og ævintýraferðum. Ágústa, mamma hennar, var glöð og gjafmild og frá henni lærði Ingibjörg: “Mér leggst eitthvað til”. Ágústa gat alveg gefið frá sér allt til að styðja aðra og Ingibjörg tók eftir, að mömmu hennar lagðist alltaf eitthvað til. Að lifa í núinu er styrkleiki, sem skilar ávöxtum og elsku. Og kært hefur verið með systkinunum á Brekkustígnum alla tíð. 

Júlíus

Elsta barnið á stórum barnaheimilum lærir jafnan að skipuleggja tíma, þjálfar stjórnunareiginleika sína og verður oft mjög hæft í lestri á líðan og skilningi á fólki. Ingibjörg fékk talsvert frelsi og lærði að axla ábyrgð. Hún mat það og vildi að börn hennar nytu hins sama síðar. Svo byrjaði skólinn með gleði og verkum námsins. Hún fór í Miðbæjarbarnaskólann og síðan Ingimarsskóla. Svo byrjaði hún að vinna. M.a. fór hún í hótelvinnu norður á Blönduós. Þar kom fallegur maður til að heimsækja systur sína. Það var Júlíus Jónsson, Norðfirðingur. Hann átti leið um og ástin átti leið um huga Ingibjargar þar með. Þau kynntust og svo ákváðu þau að rugla reitum og ganga í hjónaband. Júlíus vann um áratugaskeið hjá ÁTVR, var þar verkstjóri, auk þess að aka leigubíl þegar næði gafst til. Hann var dugmikill og útsjónarsamur. Hjúskapur þeirra Ingibjargar var afar farsæll og það sem var kannski mikilvægast í sambúð þeirra: Hann mat konu sína mikils. Og jafnan hefur virðingin verið slitsterkasta veganesti farsæls hjúskapar. Þegar Júlíus féll frá árið 1985 missti Ingibjörg ekki aðeins traustan eiginmann, dugmikinn heimilismann og öflugan ferðafélaga, heldur dyggan vin og félaga.

Þau Ingibjörg og Júlíus áttu barnaláni að fagna. Börn þeirra fæddust öll á Brekkustígnum, en ólust síðan upp á Kvisthaga 1, en þar bjó fjölskyldan frá árinu 1952. Þegar börnin voru flogin úr heimahreiðrinu og Júlíus fallinn frá seldi Ingibjörg og fór síðan á Hagamel 23 og var á Grund síðasta árið sem hún lifði. Aðstandendur vilja þakka starfsfólki Grundar fyrir þá góðu umönnun sem Ingibjörg naut þar.  

Börn Ingibjargar og Júlíusar eru.

Einar. Kona hans er Valfríður Gísladóttir.

Sigríður og hennar maður er Rögnvaldur Ólafsson.

Jón og er kvæntur Jónínu Zophóníasdóttur,

Síðan kom Áslaug og

yngstur er Björn og hans kona er Rannveig Einarsdóttir.

Mér telst til að börn og aðrir afkomendur séu 26 talsins. Þau voru gleðigjafar ömmu sinnar og ættmóður. Flest eru hér samankomin og vinir sem vilja kveðja. En ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðju Ágústu og Gunnlaugs í Boston, sem ekki gátu komið til þessarar útfarar. Alnafnan Ingibjörg Einarsdóttir, sem er tengdamóðir Jóns, biður einnig fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Eigindir, afstaða og störf

Ingibjörg var vel af Guði gerð og hafði unnið vel úr gáfum sínum. Hún stýrði stórum systkinahóp með átakalausri reisn. Og svo þegar hún átti öll sín börn naut hún þeirrar þjálfunar. Hún hafði góða reiðu á öllum málum, var ljúf og skýr í samskiptum. Hafði góða stjórn á tíma og vildi enga óstundvísi. Hún var umtalsfróm og samtalsljúf. Hún lagði gott til fólks og einskis ills. Hún virti einkalíf fólks og mat mikils að menn þekktu mörk í samskiptum. Hún var hógvær og vildi öllum gott gera. Ingibjörg var óhnýsin gagnvart ókunnugum en hún var vandfýsin á þjónustu við sína nánustu. Hún var vakin og sofin yfir velferð sinna, lét sér annt um hið innra sem ytra. Hún átti jafnvel til að halda hreinsivatni að strákafkomendum sínum til að þeir hirtu um húð og útlit sitt. Hún kunni og innrætti sínu fólki formfestu og góð samskipti. Börnin hennar vita vel, að þegar maður hefur notið einhvers í annarra húsum, hringir maður og þakkar fyrir sig. Hún hafði skýrar reglur um borðhald og mataratferli og það hefur verið hagnýtt þegar sjö voru í heimili, allt kraftmikið fólk.

 Ingibjörg var bókhneigð og námsfús. Hún fylgdist vel með börnum sínum í námi og las með þeim til styrktar og stuðnings og naut þar með sjálf. Hún lagði upp úr menntun og smitaði opinni afstöðu til barna sinna. Þegar börnin uxu svo úr grasi fór Ingibjörg að vinna utan heimilis að nýju. Í nær tvo áratugi vann hún hjá ÁTVR upp í Borgartúni.

 Músík og ferðir

Ingibjörg var afar músíkölsk. Hún söng fagurlega og hástöfum í syngjandi samkvæmum og varð afkomendum og ættingjum fyrirmynd. Og börnin hennar lærðu að syngja. Júlíus var bílstjóri að atvinnu og Ingibjörg ferðafús. Þau voru samhent og lögðu í langferðir, bæði austur í Norðfjörð og um land allt. Og á þeim ferðum var hægt að syngja. Og kannski hefur það nú verið praktísk kunnátta þegar lengi var setið. Einu sinni fór fjölskyldan frá Reykjavík á laugardegi, vestur um, alla Vestfirðina og svo til Reykjavíkur þegar á sunnudegi! Þá hefur nú verið hagnýtt að geta sungið! Já, Ingibjörg hafði fallega rödd og naut tónlistar alla tíð. Fjölskylda hennar átti sumarbústað austur við Álftavatn og síðar byggðu þau Júlíus hús við hliðina. Sú veröld hefur gert stórfjölskyldunni gott og tengt saman ættliði og tengda í leik og gleði.

Heilsurækt

Ingibjörg var glæsileg kona, kunni vel að fara vel með heilsu sína og bar virðingu fyrir henni. Þegar læknir á Grund leitaði að gamalli konu fæddri 1914 fann hann hana ekki því aldur hennar var ekki í neinu samhengi við útlit hennar. Hún var sem kona á besta aldri, húðin falleg og persónuskerpan var líka óbrengluð. Hún naut andlegs atgerfis síns og reisnar til loka, sem er mikil blessun og þakkarverð.

Listfengi

Öll fjölskyldan tjáir sterklega hve fegurðarskyn og listfengi Ingibjargar hafi einkennt hana. Þegar utanbæjarmaður keypti sér jakkaföt vildi hann, að hún kvæði uppúr hvort þau væru góð eða ekki. Fyrr var hann ekki í rónni. Ingibjörg var ljómandi hannyrðakona, en hún hafði í sér löngun til einhvers meira en rútínuiðju sokkagerðarinnar. Hún hafði þörf til skapandi iðju. Hún hafði í sér eigindir húsameistarans og fékk útrás fyrir þær með íhugun og umræðum um híbýli og hús. Hún hafði mikinn áhuga á gerð húsnæðis, var ekki sátt nema hún fengi nákvæmt yfirlit yfir rými, jafnvel uppá sentimetra. Rýmisgreind hafði hún öfluga, næmi fyrir samspili forma og lita. Hún rissaði ekki aðeins ásjónur á blað, heldur líka húsaplön. Hin opna afstaða og núlifun hennar var þessu ágætlega samfara. Hún hafði gaman af að fylgjast með öllum byggingarmálum síns fólks, skoða teikningar, ræða þær og svo fannst henni bara gaman að fara í Ikea, jafnvel þegar sjónin var brostin, þá sá hún nægilega mikið til að skynja rými og samspil.

Lífsræktin

Ingibjörg er farin. Nú horfir þú á bak yndislegri, þroskaðri og fágaðri konu, sem er þér hjartfólgin. Hvað ætlar þú að gera með minningu hennar? Ingibjörg kunni að vera. Í því er hún vitnisburður um lífið, viskuna, gleðina og fegurðina. Hvernig lifir þú? Ertu með eitthvað í baksætinu eða skottinu sem þú þarft að losa þig við? Ertu kvíðinn eða hrædd við framtíðina? Getur verið, að þú þurfir að temja þér æðruleysi, stóíska afstöðu Ingibjargar, þora að vera, þora að sleppa, þora að treysta, þora að lifa í því núi, sem Guð hefur gefið þessari veröld. Ekkert okkar er án róta, ekkert okkar má lifa eins og við þurfum ekki að mæta framtíð og með ábyrgð. Ingibjörg gat alveg lifað fullkomlega í núinu af því hún átti sér gildi, ramma, reglur og vit. Hún gat alveg verið af því hún var úr þroskuðu samhengi og var óttalaus um áframhaldið.

Hvað verður? Guð er. Treystu Guði, treystu í lífinu, opnaðu fyrir fegurðinni, skipuleggðu núið af festu, fögnuði, gleði og til að leyfa hamingjunni að ríkja. Gríptu daginn hefur löngum verið sagt. Gríptu núið sem gleðilegt fagnaðarefni. Lærðu að þakka Ingibjörgu allt sem hún gaf þér, var þér, virtu minningarnar með því að gæla við þær og draga lærdóm af, til að efla þitt líf. Þér leggst eitthvað til!

Þegar Ingibjörg var lítil kenndi Einar, faðirinn, henni að heyra orð í kalli kirkjuklukkunnar í Landakoti: Æ síðan heyrði hún í þeim huggun: „Ekki gráta, ekki gráta” fannst henni klukkurnar kalla. Jú, þú mátt gráta Ingibjörgu. En kall lífsins, kall klukkna kirknanna, kall sumarsins, kall vindsins er alls staðar hið sama. Lífið er, lífið lifir, lífið er gott og það er núna – Ingibjörg er – því Guð er. Hún má lifa í því eilífa núi. Í þeirri trú er fullkomin fegurð, hrein músík og góð rýmisgreind sálarinnar.

Minningarorð í útför Ingibjargar Einarsdóttur, Neskirkju, 23. júní 2008.

Laufey S Guðjónsdóttir – minningarorð

Laufeyjartraustið stórkostlegur vitnisburður, sem við megum hrífast af og læra af. Nú sefur hún ekki aðeins undir myndinni af Jesú, heldur vakir glöð í Jesúhimninum. Útför Laufeyjar var gerð frá Neskirkju, 10. desember. Minningarorðin eru hér á eftir.

Festan í lífinu

Hvað er traustins vert í lífinu? Hvað veldur öryggi hið innra? Þeir tímar, sem við lifum þessar vikurnar, reyna á einstaklinga og þjóð okkar. Ein auglýsingin sem hljómaði í nokkur ár varðaði: “…öruggan stað til að vera á.” Já, í hvaða stöðu erum við, ert þú?

Laufey Guðjónsdóttir vissi alveg hver hennar öruggi staður var, í hvaða samhengi hún lifði og í hvaða aðstæðum hún vildi vera. Flest í lífinu var bundið við festu, lífsskoðanir, húshald, tengslin við fólk, hjúskapur og stjórnmálaskoðanir. Hún gat ekki hugsað sér að sofna á kvöldin annars staðar en undir myndinni af Jesú á bæn í garðinum Gesemane. Þar gat hún örugg hvílst, endurnærst og vaknað til nýs dags, til nýs lífs, nýrrar og góðrar tilveru.

Laufey var ekki ein um að líða vel í Jesúskjólinu. Mennska okkar er m.a. fólgin í, að við þörfnumst ramma um lífið, við leitum lífsskýringa til að gefa óreiðu lífsins merkingu, við þörfnumst samhengis tímans í þessum stóra faðmi eilífðar, haldreipis gagnvart skammæji alls sem er, faðms sem grípur okkur þegar sjúkdómar og áföll dynja yfir – já við þörfnumst Guðs í lífinu, bæði fyrir gleði- og sorgarstundir, til að vera örugg um ástvini okkar, sem eru slitnir frá okkur, til að festa tryggð við þegar eignirnar sviptast til og hverfa í svelg eyðingarinnar. Fólk aldanna opnar og biður og Biblían svarar með því sem traustins vert, orðum sem hugga syrgjandi – orði Guðs, sem er persónan Jesú, sem var svo fullkomlega opinn gagnvart Guði, að lífið spratt fram í gerðum hans, tali og elsku og hefur spannað tilveru mannabarna allar götur síðan. Undir mynd Jesú – þar sofnaði Laufey, þar leið henni vel. Í þeim veruleika lifir hún nú.

Í Jobsbók segir: „Guð veitir þeim öryggi og þeir fá stuðning og augu hans vaka yfir vegum þeirra” (24:23).

Æviágrip og stiklur

Laufey Sæbjörg Líndal Guðjónsdóttir fæddist 3. september árið 1917 og lést 28. nóvember, 91 árs að aldri. Foreldrar hennar voru Guðjón Líndal Jónsson og Guðrún Þorsteinsdóttir, hann úr Flóanum og hún fædd í Stokkseyrarhreppi. Laufey var næst-yngst 6 systra. Tvær hálfsystur sammæðra voru elstar. Þær eru Ingibjörg og Þórlaug Símonardætur. Alsystur Laufeyjar voru Margrét, Guðrún Ingibjörg var næst og yngst var Þorsteina Svanlaug. Laufey lifði lengst og nú eru allar systurnar látnar. Guð geymi þær og verndi.

Þrátt fyrir sunnlenskan uppruna foreldranna kom Laufey í heiminn norður á Siglufirði, en fór ung suður með fjölskyldunni til Reykjavíkur, ólst þar upp, sótti skóla, naut bæjarlífsins, en þurfti líka bæði fyrir lífi og þroska að hafa.

Það er íhugunarvirði, að Margrét, systir hennar, varð ekki nema sjö ára. Hún lést á aðventunni 1921 þegar Laufey var fjögurra ár. Fráfall eldri systur á viðkvæmum aldri hefur vitaskuld skotið skugga yfir fjölskylduna og þar með Laufeyju. Hvert er öryggið, hvar er það? Svo varð hún sjálf fárveik, fékk lungnabólgu á svipuðum aldri og Margrét hafði dáið.

Í fjölskyldu Laufeyjar hefur varðveist saga um kraftaverkið, bænir lækningakonunnar Margrétar frá Öxnafelli, vitjun læknis að handan og furðulegan viðsnúning þegar sóttin var að buga ungan líkama. Hvað er skjól, hvar er hjálp og lækning? Laufey lifði en systir dó. Var nema eðlilegt, að Laufey væri næm á hverfulleika lífsins og vissi hversu þunnur lífsþráðurinn er? Hún las gjarnan bækur með trúarlegu vonarívafi og var ekki verra ef einhver jákvæð skilaboð handan yfir mærin miklu bárust lifendum hérna megin grafar. En þar sem Laufey mat hin æðri gildi varð hún einnig næm á hið fagra og bjarta, hneigðist til uppheima ljóðlistar og hafði mætur á góðmeti sr. Matthíasar Jochumssonar og Jónasar Hallgrímssonar. Eins og hennar kynslóð lærði hún ljóð í bernsku. Síðasta ljóðið, sem hún ræddi um við Guðjón, son sinn, var kvæði Vatsnendarrósu um augun mín og augun þín  – og þú veist hvað ég meina.

Laufey var námfús og bókelsk alla tíð og nýtti vel bókasafnið á Nesinu. Hún var áhugakona um nám og skóla, fylgdist vel með sínu fólki og hvað það lærði og hvert það fór. Hún kunni jafnvel að gæðagreina háskóla.

Laufey var ekki aðeins bókneigð heldur líka tónelsk. Hún lærði á orgel í æsku hjá meistaranum Páli Ísólfssyni og hélt við kunnáttu sinni. Í fjölskylduskírn í Dómkirkjunni kom organisti ekki og þá skaut Laufey sér inn á bekkinn við orgelið og spilaði. Í fjölskyldusamkvæmum söng hún gjarnan og rödd hennar hljómaði svo fagurlega, að minningin festist í huga barnanna. Raddgæðin hafa erfst Sigurður Már, sonarsonur Laufeyjar hefur þessa miklu og fallegu rödd, eins og við höfum heyrt í þessari athöfn.

Gísli og heimilið

Alla tíð var Laufey glæsileg kona, líka þegar hún var tæplega níræð þegar ég hitti hana fyrst. Hún sinnti heilsurækt sinni vel og gætti að því að eldast ekki framúr sjálfri sér! Hún gekk bein baki í lífinu og smekkvísin bilaði ekki.

Það var ekki undarlegt, að Gísli S. Magnússon frá Bíldudal skyldi festa augu á henni. Þau kynntust á miklum umbrotatímum, heilluðust af hvoru öðru og gengu í hjónaband í ársbyrjun 1941. Hjúskapur þeirra var góður, þau héldu hvoru öðru ungu, höfðu einarða lífsafstöðu, voru drífandi, hugumstór, kát og eflandi.

Fyrstu árin bjuggu þau fyrir vestan, á Bíldudal, á heimaslóð Gísla þar, sem þau byggðu sér hús og gerðu sér heimili.

Synir – afkomendur

Þau eignuðust tvo syni, Magnús Heimi og Guðjón Má. Magnús lést fyrir tveimur og hálfu ári. Hann átti tvö börn, Gísla Þór og Sif Eir. Synir Guðjóns Más og Elnu Sigrúnar, konu hans, eru Sigurður Már og Birgir Þór. Langömmubörnin eru fimm. Allt þetta fólk hefur gefið Laufeyju ramma öryggis og tilgangs í lífinu. Þökk sé ykkur fyrir allt það, sem þið hafið verið henni. Þökk sé einnig þeim, sem hafa lagt Laufeyju gott til fyrr og síðar, einnig á síðustu Grundarárum hennar.

Breytingar og lífshættir

Styjaldarárin voru Íslendingum erfið. Íslendingar misstu hlutfallslega fleiri í sjósköðum en flestar þjóðir í stríðum. Margir vinir þeirra Laufeyjar og Gísla fórust þegar Þormóður frá Bíldudal fór niður. Áfallið var til að losa um þau fyrir vestan og þau slitu upp rætur. Þau fóru suður í lok stríðsins og byggðu á Grenimel 14 með bróður Gísla og fjölskyldu hans. Þar bjuggu þau hátt í fjóra áratugi, en fluttu þá vestur í Granaskjól.

Laufey var alla tíð drífandi forkur. Heimilið bar vitni um natni hennar, nákvæmni og alúð. Laufey fór vel með það, sem hún átti, og vildi hafa heimili með gæðum og þokka. Gísli var dverghagur og henni samstiga og þau hjón lögðu saman til góðs höfðinglegs heimilsbrags.

Gísli hafði ofan af fyrir ungviðinu með skemmtisögum og stundum glenntu þau upp augun yfir öllum furðunum, sem komu upp úr honum. Svo lagði Laufey gott til, sagði sannar sögur, en skemmtisögur líka, las jafnvel kónga- og drottningasögur úr dönsku blöðunum á rúmstokknum. Svo kenndi hún börnunum bænir til að stemma lífið og gefa því gott samband.

Vinna og eigindir

Laufey vann utan heimilis þegar tími gafst til. Á yngri árum afgreiddi hún í verslunum og eftir miðjan aldur vann hún t.d. hjá BÚR.

Laufey var hreinskiptin, hún var stefnuföst í samskiptum og ákveðin í lífsmálum. Eins vel og hún var tengd veröldinni í hinu ytra var hún jafnopin gagnvart hinu innra. Hún var berdreymnin og átti ekki í neinum erfiðleikum að tengjast dýpri víddum og handanverunni. Næm var hún og um sumt dul.

Fráfall Gísla hafði mikil áhrif á hana og sonarmissir var henni annað reiðarslag. Eftir það fór að halla undan hjá henni, hún flutti á Grund og fannst eins og lífi sínu væri að ljúka. Hún gerði sér fulla grein fyrir skilunum, sem voru að verða, og hún óttaðist ekki framhaldið. Hún kvaðst hafa lifað góðu lífi og gjöfulu. Hún var þakklát fyrir það, sem hún hafði notið og hennar þakklæti er mætt með þökk sonar, afkomenda, tengdafólks og vina.

Vakir yfir vegum þeirra

Vitringurinn Job, margreyndur og prófaður, vissi og tjáði að: “Guð veitir þeim öryggi og þeir fá stuðning og augu hans vaka yfir vegum þeirra.” Öryggi Laufeyjar var algert, hún átti sína festu, bakland og framland, veruleika og von í Guði. Hún hafði misst eins og Job, hún hafði skynjað samhengi sitt í veröldinni og sál hennar var hert í eldi reynslunnar. Hún var örugg undir myndinni af Jesú.

Laufey hefur lifað, þjónað þér og þínum, verið þér gæfukona. Dragðu heim til þín minningar um það, sem varð þér til gleði og gæfu. Og íhugaðu vendilega hennar visku, hennar svör við grunnálagi lífsins. Hvað er þitt öryggi? Þegar traust í samfélagi Íslendinga er rofið á svo mörgum póstum í nútíðinni er Laufeyjartraustið stórkostlegur vitnisburður, sem við megum ekki aðeins hrífast af heldur læra af.

Nú sefur hún ekki aðeins undir myndinni af Jesú, heldur vakir glöð í Jesúhimninum. Hún vissi, að hún myndi finna þar fyrir fólkið sitt, Gísla, Magnús, systurnar allar, pabba og mömmu, stórfjölskylduna. Trúin gefur samhengi, stækkar veröldina og veitir öryggi.

Guð geymi Laufeyju S. Guðjónsdóttir um alla eilífð. Guð geymi þig.

Minningarorð, 10. desember, 2008. Útför fór fram frá Neskirkju og jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Æviágrip

Laufey Sæbjörg Líndal Guðjónsdóttir fæddist á Siglufirði 3. september 1917 en fluttist ung að árum með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hún ólst upp. Hún lést föstudaginn 28. nóvember síðastliðinn á Dvalarheimilinu Grund í Reykjavík. Síðustu tvö árin dvaldi hún á Grund en lengst af bjó hún á Grenimel 14  og síðar í Granaskjóli 80 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Líndal Jónsson, f. 20. september 1883 í Oddgeirshóla-Austurkoti í Flóa, d. 19. desember 1960, og Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 6. janúar 1883 í Breiðumýrarholti í Stokkseyrarhreppi, d. 15. mars 1962. Hálfsystur Laufeyjar voru Ingibjörg Símonardóttir, f. 23. nóvember 1906 á Sauðárkróki, d. 27. mars 1975 og Þórlaug Símonardóttir, f. 6. mars 1909 á Siglufirði, d. 3.nóvember 1972. Alsysturnar voru Margrét, f. 15.nóvember 1914 í Reykjavík, d. 19. desember 1921 á Siglufirði, Guðrún Ingibjörg, f. 6. janúar 1916 á Siglufirði, d. 11. júli 1999 og Þorsteina Svanlaug, f. 12. ágúst 1919 á Siglufirði, d. 21. mai 2001.

Hinn 11. janúar 1941 giftist Laufey Gísla S. Magnússyni, f. 10. desember 1912 á Bíldudal, d. 25.mars 2001. Þau bjuggu á Bíldudal og í Reykjavík. Gísli og Laufey eignuðust tvo syni. Þeir eru: 1) Magnús Heimir Gíslason, f. 17. apríl 1941 á Bíldudal, d. 3. mars 2006. Sonur hans og Rósu Sigvaldadóttur, f.11.janúar 1947 er Gísli Þór, f.11.október 1969. Magnús kvæntist Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur, f. 24.mars 1945 og er dóttir þeirra Sif Eir, f.5.nóvember 1971. 2) Guðjón Már Gíslason, f.8.nóvember 1950 í Reykjavík, kvæntur Elnu Sigrúnu Sigurðardóttur, f. 27. mai 1945. Synir þeirra eru: Sigurður Már, f. 14. janúar 1976 og Birgir Þór, f. 5. Júlí 1982.

Langömmubörnin eru Alexander Leonard, f. 10. október 1997, Urður Helga, f. 15. júní 1999, Mikael Máni, f. 26.júní 2000, Hákon Orri, f. 27. febrúar 2003 og Sóllilja Andrá, f. 30. apríl 2008.

 

Hanna Soffía Blöndal – minningarorð

Hanna hlær ekki lengur en gleðin hennar lifir. Hanna horfir ekki lengur ástaraugum á þig en elskan lifir samt í þér, í veröldinni.

Gleðin

Hanna Soffía Blöndal. Hvernig var hún? Hvernig minnistu hennar? Mannstu eftir henni í mannfögnuði, þegar útgeislun hennar var slík, að hún var sem segull og dró að sér glatt fólk. Hanna var ekki fyrr komin en gáskinn jókst, sögur flugu og hlátur hljómaði. Hanna var svo skemmtileg, hún sagði svo vel frá, hún var svo fyndin eru umsagnirnar sem berast mér. Það er merkilegt, að hlusta á sögurnar um Hönnu og vermir hve mikil hlýja býr að baki. Sammerkt er öllu hennar fólki, að þegar það talar um Hönnu fæðist bros, augun þeirra lifna, svo kemur skemmtileg saga, og svo kannski elskutár sem fylgja. Já Hanna Soffía Blöndal var sem engill gáska og elsku í lífi sinna og þeirra mörgu, sem kynntust henni. Hennar hringur spannaði lífsgleði, lífsgæði og hlátur.

Svo hittir sorgin, hið skyndilega fráfall er ykkur þungbært. En þegar við missum sækja að áleitnar spurningar um til hvers við lifum. Er ekki sú gleði, sem Hanna tjáði og miðlaði mikilvæg lífinu? Jú, svo sannarlega, slík gæði eru alltaf nauðsyn en lífsnauðsyn þegar saumað er að okkur og hriktir í hring og vörn mannfélags.

Hvernig viljum við lifa? Enginn sleppur við áraun og erfiðleika. En það tekur heldur enginn frá okkur réttinn til að ákveða hvernig við bregðumst við. Við getum tekið ákvörðun um að lifa með hamingjuna að förunaut, að ganga ljóssins megin á götu lífsins en ekki “fortóinu” skuggamegin.

Biblían er lífsbók

Hvað um lífsskoðanir og trú? Frá fyrstu blaðsíðu staldrar Biblían við hið jákvæða og bregst við hinu neikvæða. Táknmálið er allt um að gleðin sé mál Guðs. Ljós skín í myrkri, líf rís upp af dauða, grösin spretta upp úr auðn, elskan er sterkari en hatrið. Guð berst alltaf gegn eyðingunni. Í Biblíunni er hláturinn tákn lífsins. Kátínan hljómar jafnvel í nöfnum blíuhetjunnar Ísak, sem þýðir Guð hló. Og gegn voða heimsins elskar Guð. Saga Jesú Krists er ástarsaga, – það er saga um að Guði þykir svo vænt um þig, um veröldina. Og nafnið Hanna þýðir Guðs elskaða og blessaða. Soffía er viska og hin mesta viska lífsins er að þekkja Guð.

Getur verið að hugsanir þínar um Hönnu, minningar um gæði, vinsemd, elsku og fögnuð séu rödd Guðs, hvísl Guðs til þín? Var ekki líf hennar ljósbrot himinsins, eitthvað dásamlegt við gjafir hennar, hispursleysi og kátínu?

Upphaf og fjölskylda                

Hanna Soffía Blöndal fæddist í Reykjavík 13. september árið 1933. Hún lést á heimili sínu 31. október síðastliðinn, aðeins 75 ára. Foreldrar hennar voru Ragnar Blöndal og Ilse Blöndal Luchterhand. Hún var af íslenskum og þýskum ættum komin, heimur hennar var stór þegar í kynfylgju hennar.

Hanna ólst upp í fjölskylduhúsinu á Túngötu 51. Systkini hennar eru Valdís og Kjartan Blöndal. Fjölskyldan varð fyrir þungu áfalli þegar Ragnar lést liðlega fertugur. Börnin voru ung en amman sterk og naut stuðnings fjölskyldunnar, Valtýr, bróðir Ragnars, reyndist þeim mikill stuðningur og Rósa, vinnukonan á heimilinu, umvafði ungviðið.

Þegar Hanna var útskrifuð úr Kvennaskólanum opnaðist veröldin henni. Hún ákvað að fara á góðan húsmæðraskóla í Holte í Danmörk. Addý systir hennar og Birgir, maður hennar, höfðu verið í námi ytra og Birgir bað bróður sinn, Hörð Frímannsson, sem var byrjaður í verkfræðinámi á Danmarks Tekniske, að líta eftir Hönnu. Já, Hörður hefur alla tíð vandað sig í lífinu og svo vel leit hann eftir Hönnu, að þau gengu í hjónaband 11. apríl 1953.

Þeim, Hönnu og Herði varð fjögurra barna auðið. Elsa er elst. Hennar maður er Pietro Schneider. Þau eiga tvö börn. Næst kom Hjördís, gift Guðmundi Tómassyni. Börn þeirra eru þrjú. Björn er þriðji í röðinni, kvæntur Bryndísi Ólafsdóttur og þau eiga fjögur börn. Kristín Erla er yngst, gift Stefáni Erlingi Helgasyni. Þeirra börn eru tvö. Afkomendur þeirra Hönnu og Harðar eru sautján og þar af tvö langömmubörn, sem glöddu ömmuna ósegjanlega. Þau Hanna og Hörður nutu því barnaláns, fjölskylduláns en líka fjölskyldufagnaðar.

Lífsstiklur

Fyrstu árin bjuggu þau í Kaupmannahöfn. Hörður lauk námi og Hanna fór að vinna. Svo fóru þau heim. Meira nám var í vændum, MIT, sem Hörður kallaði reyndar hnyttilega Almighty, var í sikti. En Elsa var á leiðinni og hún skipti sér ekkert af þótt pabbinn ætti að vera mættur í skóla vestur í Ameríku og kom með sínum hætti. Engar fortölur dugðu á hana og ekkert þýddi að hristast með hana í bíl yfir þvottabrettin. Hún kom í heiminn eftir upphafsdaga pabbaskólans í ágúst 55. Glaður pabbinn gat svo drifið sig vestur og farið að reikna. En Hanna var heima, en fór svo á eftir bónda sínum. Svo komu þau aftur, börnin komu í heiminn eitt af öðru, lífið varð skemmtilegra og fjölbreytilegra – og auðvitað annaríkara.

Ýmis störf

Þau Hanna hugsuðu vel um bú og börn. Hún var glaðsinna, kraftmikil, fús til samskipta, skapaði kjöraðstæður fyrir sína, veitti tilfinninganánd og hlýju. Börnin uxu svo úr grasi, Hanna fór að vinna utan heimilis. Vegna félagsfærni hennar var eftir kröftum hennar leitað. Rauði krossinn og góðgerðafélagið Hringurinn nutu starfa hennar. Um tíma afgreiddi Hanna í sölubúðinni á Landspítalanum og tók þátt í söfnunum með krafti. Fólkið hennar lærði takt Hringsins og heyrir kallið þótt Hanna sé fallin frá. Hringskonur sjá á eftir styrkum félaga og þakka þjónustu hennar.

Í Sóltún

Þegar Hörður missti heilsu sína á besta aldri var Hanna honum stoð og styrkur. Svo fluttist hann á hjúkrunarheimilið Sóltún. Þar hefur honum liðið vel og notið aukinna lífsgæða. Íbúar og starfsfólk á þriðju hæð hjúkrunarheimilisins hafa beðið fyrir kveðjur og þakka samfylgdina. Hanna bjó um tíma áfram í Skaftahlíðinni þar sem hún var í 45 ár, en flutti svo í Sóltún til að geta verið nær Herði, sem nú sér á bak konu sinni eftir meira en hálfrar aldar gæfuríkan og góðan hjúskap.

Blöndalssystur

Þáttur Valdísar og Hönnu er sérstakur kafli í lifi beggja sem og fjölskyldna þeirra. Þær systur giftust bræðrum. Samgangur fjölskyldnanna var ætíð mikill, samvinnan góð og kraftur systranna duldist engum. Þær systur nutu gleðisóknar bernskuheimilisins, lífmikillar móður, kunnáttu til að hleypa heimdraga og hæfni í samskiptum. Þær fóru að ferðast meira saman á síðari árum og höfðu styrk af hvor annarri. Blöndalssysturnar voru í uppáhaldi, hrókar fagnaðar, alltaf glæsilegar. Þær voru svo  nánar að þær notuðu jafnvel vísakort hvor annarrar. En ekki hafa þær átt I neinum erfiðleikum með að gera upp! Missir Addýjar er mikill og margþættur.

Dýrmæti lífsins

Hanna var fagurkeri og heimili þeirra Harðar var glæsilegt og allt gott í umhverfi Hönnu. En mestur auður hennar var í fólkinu hennar. Hennar gæfa og gleði var í börnum, velferð þeirra, að styðja þau til manns, benda þeim til vegar, segja þeim skoðanir sínar með lagni og gera það sem hún gæti til að tryggja hamingju þeirra. Hanna gat meira segja sagt ástföngnum karli kosti og lesti á dóttur sinni, en það hindraði hann ekki í að sækja enn fastar. Og svo þegar barnarbörnin komu var Hanna alla tíð reiðubúin að þjóna þeim með sömu lífsgleðinni og foreldrum þeirra. Og alltaf átti hún eitthvað handa þeim, til að gefa, gleðja eða næra með. Fyrir það allt þakka þau og stórkostlegt er það að eiga svona mömmu, tengdamömmu og ömmu, sem tjáir með lífi sínu hver verðmætin í veröldinni eru og hvernig skal með þau farið. Lífið er til að njóta og rækta hamingjuna. Hanna var boðberi, sendiboði, já engill gleðinnar.

Fólkið hennar þakkar Hönnu samfylgdina. Kveðjur hafa borist frá ættingjum og vinum, sem ekki geta verið við þessa athöfn. Frímann Ólafsson og Margrét Þórarinsdóttir, sem eru í Perú, biðja fyrir kveðjur. Og kveðjur hafa borist frá Fríðu, Gunnari og fjölskyldu í Ástralíu.

Hringurinn lokast

Hringurinn er lífs- og eilífðartákn. Nú er hringur lífs Hönnu lokaður. Nú er líf hennar innrammað og himlað eins og sagt var á heimilinu. Hanna var stolt og vildi ekki vera öðrum háð. Hennar háttur var fremur að gleðja, þjóna og fagna. Hennar verklag var að ljúka sínu með fegurð og stíl. Æfi hennar lauk skyndilega, án fyrirvara en með skýrleik. Hispurleysi var Hönnu eiginleg alla tíð og líka í dauðanum. Kvöldið fyrir dauðann fagnaði hún haustinu með Herði í veislu á hjúkrunarheimilinu, svo fór hún heim og á morngi nýs dags mót vetri fór hún inn í ljósið.

Hanna hlær ekki lengur en gleðin hennar lifir. Hanna horfir ekki lengur ástaraugum á þig en elskan lifir samt í þér, í veröldinni. Hanna skutlar þér ekki lengur neitt, en þú veist hvernig á að þjóna fólki. Hanna miðlar ekki lengur upplýsingum um fjöslkylduna, en þú veist að lekaliður og miðlun um lífið er nauðsynleg til að fólk sé meðvitað og geti líknað. Hanna styður ekki Hringinn lengur en allt hennar fólk veit um mikilvægi sjálfboðastarfa og að heimurinn þarfnast hlýrra handa og nándar. Hanna spanar ekki ættbogann með elsku sinni, ekki Hörð, ekki Addý, ekki börnin sín og tengdafólkið en elskan lifir. Miðvikudagsboðin verða skrýtin án Hönnu en viskan rikír áfram um að maður er manns gaman og enginn lifir sem eyland og einstæðingur. Hanna, Guðs elskaða, hin blessaða, er farin í sína hinstu ferð. Lífið hennar var gott og ferðirnar hennar góðar. Þessi ferð er líka góð því það er ferðin inn í hið stóra samhengi himinsins. Og þar ríkir gleðin hrein. Í því sóltúni himsins á þessi engill gleði og elsku heima.

Guð geymi Hönnu Soffiu Blöndal. Guð geymi þig.

Nóvember 2008.

Minningarorð – Emil Auðunsson

Öll höfum við einhvern tíma legið á bakinu og horft upp í stjörnubjartan næturhiminn, séð stjörnufjöldann, hugsað um vegalengdir, horft svo stíft upp í hvelfinguna að okkur hefur jafnvel sundlað, eins og jarðarskelin sé ekki nægilega sterk til að þola mannkrílið sem á liggur. Og við verðum jafnan dálítið ringluð þegar við liggjum svo og hugsum um hið stóra og smáa, mannlífið og allífið. Svo bæta stjarnvísindin um betur og veita okkur ofurlitla innsýn í hvílíkt rykkorn og hjóm jörðin og þar með mannlífið er þegar við fáum að vita – hvort sem við skiljum eða ekki, að kúlan okkar er í sólkerfi og það er ótrúlegur grúi slíkra í þeim hluta geimsins sem við gistum – vetrarbrautinni. Hvað er maðurinn? Hvers virði er maðurinn, þegar jafnvel jarðarkúlan er eiginlga bara sandkorn í óravíddum. Ertu einskis virði? Er einhver sem elskar þig? Í hvaða samhengi varstu til og ert? Hvað með Guð?

Í því rismikla ljóði 8. Davíðssálmi segir:

Er ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? Þú gerðir hann litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri, lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, lagðir allt að fótum hans: Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

Skáldið sem setti fyrst fram þessa hugsun vissi vel um óravíddir og stöðu manna. En spekin er mikilvæg og hún er það sem allir ritarar biblíunnar hafa endurómað og Jesús Kristur líka og með ákveðnum hætti. Manneskjan er mesta undrið, manneskjan er óendanlega mikilvæg. Þú ert yndi Guðs, sem elskar þig, sér þig, lætur sér ant um þig og sleppir aldrei elskuauga af þér. Og það átti við Emil líka.

Emil Auðunsson fæddist austur undir Eyjafjöllum, 9 mars 1954, fjórða barn af fimm hjónanna Auðuns Braga Sveinssonar og Guðlaugar Arnórsdóttur. Hann flutti í bernsku í Þykkvabæ þar sem faðir hans varð skólastjóri. Í nátturunni – og fjaran er þar með talin – naut kraftur hans og athafnaþrá sín. Hann hafði útivistar- og leik-svæði sem hentaði orku hans. Hann varð snemma gefinn fyrir íþróttir. Og eins og Ólafur, bróðir hans, segir skemmtilega frá í minningargrein varð það sem hann fann til nota við íþróttirnar, bambusinn úr fjörunni var t.d ágætur fyrir stangarstökkið. Bullworker-græjan styrkti vöðvana. Svo þegar Emil kom í bæinn rataði hann í kraftilyftingamisðtðina Jakaból, þar sem jötnar landsins lyftu og áttu samfélag. Emil stælti líkamann og var afar atorkusamur í vinnu, lét ekki sitt eftir liggja. Hann vann alla tíð verkamannavinnu, kallaði sig gjarnan farandverkamanna, alla vega hér á Íslandi, og var eftirsóttur vegna harðfylgis. Áraun herti hann, ört skapið hvatti til verka og átaka.

Barnmargt heimilið varð honum stöðugt og gott umhverfi. Það var skelfilegt áfall öllum hópnum þegar Guðlaug féll frá aðeins fertug að aldri og Emil var nýfermdur unglingur á viðkvæmum aldri. Móðurmissirinn sat í honum – Við vitum ekki hvernig honum tókst að vinna úr og kannski bjó sorgin ávallt í honum og skýrir ferðir hans í lífinu og hvernig hann vann úr tengslum eða brást við ýmsu því sem hann lenti í. Móðurmissir er alltaf sár – móðurmissir á viðkvæmum aldri er sem tilfinningalegur heimsendir, sem ekkert einfalt era ð ráða við og vinna úr.

Breytinar á fjölskylduhögum stuðluðu að breytingu og allur hópurinn í bæinn og á Hjarðarhagann. Emil lauk skyldunáminu í Hagaskólanum og fór svo að afla sér tekna og taka fyrstu skrefin út í lífið. Hann fór svo árið 1972 á lýðháskóla í Danmörk, Lögumkloster á SuðurJótlandi. Það varð honum svo mikilvægur tími, að hann ílentist í Danmörk, var þar í um þrjátíu ár, meiri hluta ævinna. Emil bjó lengstum í Toflund þar sem hann lest 7. September sl. Í Toftlund eignaðist hann vini og samhengi. Emil átti margar hliðar og ein þeirra birtist vinum hans þar, hann átti í sér hlýhug og greiðvikni gagnvart vandalausu fólki sem naut þess að hann vildi hjálpa og kom til hjálpar þegar það mest þarfnaðist.

Á árnum 1978 og næstu ár á eftir gerði Emil tilraun til að setjast að á Íslandi en fór síðan utan alfarin og kom aldrei til baka þar nú í sinni hinstu ferð. Flest form við hringferðir í lífinu. Nú er hann kominn úr sinni reisu. Hann verður jarðsettur nú á eftir hjá Arnóri bróður og Guðlaugu, móður hans.  

Nú eruð þið komin saman hér í dag til að kveðja Emil. Hann hvarf út úr hring fjölskldunnar sumpart við það að búa í Danmörk í áratugi. Svo var líf hans oft vætusamt og flókið og það stuðlaði líka að því að hann varð enn fjarlægari.

Hvernig á að vinna úr öllum tilfinningunum? Ef þú finnur til að þú hefði kannski getað verið honum annað og meira en þú varst er mikilvægt að staldra við og íhuga þessar tilfinningar. Næsta víst er að þú gast ekki gert mikið meira, næsta víst er að þú gerðir það sem hægt var.

Þegar komið er í kirkjugarðinn skaltu leyfa sektarkennd og eftirsjá að fara með honum. Kreppa og sleppa er gott áminningarorð í þessum efnum eins og þjóðféalginu öllu. Það kreppir að, og þá þurfum við að temja okkur listina að sleppa. Sorgin og álagið kom og kemur en lærðu líka að sleppa. Kreppa og sleppa.

Emil var fjölhæfur og sérstæðu maður. Honum var margt gefið, hann var hagmæltur, músíkalskur og spilaði á Hammondorgelið sitt.

Hvaða mynd áttu í þínum huga af honum? Hvaða mynd viltu geyma í huganum? Veldu þér hugsun og festu í sinni. Það er að vinna með tilfinningar og minningar.

Í sálminum sem ég las erum við minnt á gildi manna. Er ég horfi á himinn verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar er þú hefur skapað. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess. Þó léstu hann lítið á vant á við guð. Með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Við finnum oft til smæðar, vanmáttar. Og þessi krepputið er undarlegur lægingartími. Leið Emils var ekki alltaf sólarmegin, en hann var elskaður, hann naut margs, og hann er metinn af Guði. Guð elskar. Nú hverfur hann og lagður til hinstu hvílu meðal sinna, og við megum hugsa um hann í hinu stóra fangi.

Hvernig hugsar þú um eilífð? Getur þú metið og dæmt með nokkru viti. Hvað vissir þú þegar þú varst í móður kviði um lífið utan stengds magans, Ekkert. Og svo blasti við þessi undarlega stórkostlega veröld. Og við hugsum hliðstætt: Hvað veistu um eilífiðina? Lítið annað en það sem við fáum að vita frá sjáendum. En við megum trúa að eins og lífið var fjölbreytilegt eftir fæðingu, megum við vænta undursamlegs lífs í eilífðinni. Felm góðum Guði Emil, sættumst við fráfall, hans, biðjum honum blessunar.

Það er besta huggunaraðgerð, gagnvart honum, gagnvart þínum innri manni, að leyfa honum að fara í friði, sleppa honum inn í fang eilífðar. Það er hinn besti og æðsti Þykkvibær. Þar líður honum vel og getur stokkið þau stangarstökk sem hann langar, lyft þeim ofurþngdum sem hann vill, teflt þær skákir með snilldarstíl. Allt er gott, allt er í sátt því það er eilífð Guðs.

Guði geymi Emil Auðunsson, og góður Guð geymi þig.

14.10. 2008.