Oddný Ólafsdóttir – minningarorð

Tvær myndir af Oddnýju Ólafsdóttur eru á sálmaskránni, önnur nýleg, en hin af henni ungri. Myndaalbúm fjölskyldu Oddnýjar sýna marga þætti í sögu hennar og veita innsýn. Svo átt þú líka í huga þér minningar og myndir – og ástvinir, ættmenni og vinir geyma í sínu hugskoti enn aðrar.

Hver er mynd þín af Oddnýju? Er það mynd af hannyrðakonu við að prjóna perlusettar handstúkur? Er hún gáskafull til augna? Er það af Oddnýju í eldhúsinu við að drífa fram mat til að næra fjölda manns, sem Kristján bóndi hennar kom óvænt með úr ævintýri dagsins? Eða sastu kannski einhvern tíma fyrir framan Oddnýju á örlagatíma og sagðir henni frá sálarangist eða raunum í ástalífinu? Staldraðu við og leyfðu huga að vitja myndanna hið innra og það verður þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar, myndir daganna. Oddný og hennar fólk hefur notið mynda, sótt í myndverk, skapað myndir og látið frá sér myndir. Kristján, bóndi Oddnýjar, gaf út merka myndlistarbók fyrir nær sjö áratugum síðan, fyrstu bók sinnar tegundar á Íslandi. Ólafur, faðir Oddnýjar var ekki aðeins kaupfélagsstjóri heldur líka myndasmiður. Móðir hennar var hannyrðakona og bjó til eigin myndverk með höndum sínum.

Mannheimar eru myndheimar. Sá lýsti menningararfur túlkar, mótar og skilgreinir líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla hennar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Við erum því í mynd Guðs – og það er engin afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar sálargáfur, dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs kemur síðan fram í biblíuefninu og þar er líka sagt frá skemmd mennskunnar. Myndin flekkaðist. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er listagallerí heimsins skaddað. Sú veröld þarfnaðist bóta. Þess vegna tjáðu höfundar Nýja testamentisins, að Jesús Kristur hafi fullkomnað mynd manna. Og það er síðan verkefni allra, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti Guðs – lifa þannig að lífinu sé vel lifað og til samræmis við fegurð og mynstur Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Oddný gengdi því kalli að vera mynd Guðs í veröldinni.

Ætt og uppruni

Oddný Ólafsdóttir fæddist á sögustaðnum Bustarfelli í Vopnafirði 6. janúar árið 1920. Faðir hennar, Ólafur Methúsalemsson, var af því fólki kominn, sem búið hefur í Bustarfelli frá kaþólskri tíð eða frá árinu 1532, dugnaðar- og lærdómsfólki. Bæjarhúsin á þessu höfuðbóli eru líka gömul, elsti hlutinn er frá því um 1770 svo Oddný átti upphaf sitt í fangi kynslóða og sögu. Móðir Oddnýjar var Ásrún Jörgensdóttir frá Krossavík í Vopnafirði og þar mætum við annarri mikilli fjölskyldumynd og sögu líka. Fjórtán ára aldursmunur var á þeim foreldrum Oddnýjar. Þau eignuðust fimm dætur og var Oddný sú þriðja í röðinni og því í miðið. Systur hennar voru Elín, sem fæddist 1916, Margrét fæddist 1917, Guðrún árið 1923 og Ingibjörg fæddist árið 1926. Oddný er sú síðasta, sem féll frá. Hvernig var að alast upp í hópi  fimm systra og hvaða áhrif hafði það á sögu dætra Oddnýjar? Hvernig miðlast mynstrin?

Þegar Oddný var tveggja ára fluttu foreldrar hennar út á Tanga og settust að í Kaupvangshúsinu. Þar var kaupfélagið og Ólafur, faðir hennar, stýrði því. Kauptúnið á Tanga var við ysta haf, en hinum megin við hafið voru hafnir og borgir, útlönd. Því var Tangi enginn endir, ekki Últíma heimsins. Kaupskipin báru með sér varning, lykt, efni til hannyrða, nýja tækni, skilirí og líka fólk.

Oddný lærði að ganga í torfbæ, en lærði svo að dansa með erlendum takti strax á barnsárum og skilja veröldina með útsýn. Þessa naut hún allar götur síðan og tamdi sér víðsýni. Ýmsar myndir eru til af Oddnýju frá þessum árum, bæði ljósmyndir og sögur. Mér finnst skemmtileg sagan af stúlkubarninu Oddnýju, sem hafði svo rautt og fallegt hár, að erlendum laxveiðimönnum varð starsýnt á hana. Engum sögum fer af því hvort þeir komu frá ánni fisklausir eða hvort þeir voru á leið til veiða. En þeir föluðust eftir hárlokk af höfði hennar. Oddný var því sett upp á borð og svo var hár hennar klippt – veiðmenn gátu því bætt flugur sínar, notað hár hennar til að lokka laxa. Flugurnar urðu auðvitað til góðs, en ég hef ekki getað lokkað Google til að sýna rauðu veiðfluguna Oddnýju. En ég get alveg ímyndað mér fegurð hennar, litríki og virkni.

Uppvöxtur

Oddný naut uppvaxtarins á Tanga og hin vopnfirska uppvaxtartíð var sveipuð ljóma ævintýra. Systrahópurinn stækkaði, mamman sinnti hannyrðum af kúnst, pabbinn var ötull, kannski svolítið strangur, en dugandi menningarmaður.

Oddný var sextán ára þegar fjölskyldan fluttist til Akureyrar. Hún var þá og æ síðan bóksækin, fór í Menntaskólann og lauk gagnfræðaprófi. Fór svo að vinna í versluninni Godman á Akureyri og naut þess í störfum, að hannyrðir voru stundaðar heima og verkmenning var mikils metin í fjölskyldu hennar. Um tíma vann hún hjá KEA og fór síðan til Svíþjóðar, lærði sænsku og skrifstofustörf. Oddný hafði þegar aflað sér bæði starfsreynslu og menntunar þegar hún fór á húsmæðraskólann á Laugalandi. Þar var Svanhvít Friðriksdóttir skólastýra. Hún kunni að meta skerpu Oddnýjar og handverk. Og Svana dró upp svo glæsilega mynd fyrir bróður sínum Kristjáni að hann vildi kynnast þessari konu. Hann dreif í því og þau Kristján Friðriksson gengu í hjónaband í júní árið 1948.

Fjölskyldumyndin

Og þá er það fjölskyldumyndin. Oddný og Kristján eignuðust fjórar dætur. Ásrún er elst og börn hennar eru Darri og Una. Guðrún er næst í röðinni og hennar maður er Ævar Kjartansson. Börn þeirra eru Oddný Eir og Uggi. Þriðja dóttir Oddnýjar og Kristjáns er Heiðrún og börn hennar eru Börkur, Arnþrúður og Sunna. Yngst í sytrahópnum er svo Sigrún. Maður hennar er Völundur Óskarsson og börn þeirra eru Sunnefa og Óskar. Börn Kristjáns af fyrra hjónabandi eru Sigurveig og Karl Friðrik, sem er látinn. Oddný hafði mikið af þeim að segja og tengdist þeim og fjölskyldum þeirra. Kristján átti líka soninn Friðrik Stein, sem fluttist inn í kvennaríki þeirra Oddnýjar og dætra hennar þegar hann var sautján ára. Fyrst höfðu þær systur og móðir þeirra kynnst honum um helgar, en svo varð hann lukkuauki á heimilinu og þær tala um hve heppnar þær voru, að hann varð hluti fjölskyldu þeirra.

Oddný átti fjórar dætur, níu ömmubörn og fjögur langömmubörn. En að auki eignaðist hún stórfjölskyldu í systkinum Kristjáns, bónda hennar, börnum hans og afkomendum. Kristján var ekki einhamur, hafði mörg járn í eldi, í iðnaði, verslun og menningarlífi. Sambúð þeirra Oddnýjar skilaði litríku heimilislífi. Um tíma varð fjölskyldumyndin undirlýst og dökk. Kristján hvarf burtu úr heimilishúsinu í fimm ár, en svo vildi hann koma heim að nýju og dyr og faðmar voru opnaðar. Leiðir okkar mann liggja stundum í spíralhring. Við komum til baka á upphafsstöð en þó breytt og með lífsreynslu í farteskinu. Alla tíð mat Kristján Oddnýju mikils, leitaði til hennar um ráð, vissi alltaf að það var gott, að hún gat kippt honum niður, ef henni fannst hann fara með himinskautum. “Oddný hefur góða dómgreind” sagði hann um hana.

Staðirnir og fjölbreytilegt líf

Fyrstu árin bjó fjöskyldan á Bergstaðastræti 28a. Últíma var á jarðhæðinni. Fjölskylda Oddnýjar bjó á næstu hæð. Þar ofan við voru í fyrstu Jóhann bróðir Kristjáns og fjölskylda hans og efst var svo arkitektinn góði, Ágúst Pálsson.

Listfengi, sniðsnilld og saumafærni Oddnýjar var í minnum höfð. Þar er enn ein fjölskyldumyndin. Á sunnudögum þótti eftirsóknarvert og sjón að sjá glæsilegar dæturnar koma úr húsi, í heimasauðumuðu, sem mamman hafði hannað með öguðum smekk fagurkerans.

Af Bergstaðastrætinu lá leiðin vestur fyrir læk og í Garðastræti. Heimilið var fjörmikið og fjölsótt og eins gott að húsfreyjan var dugmikil og réð við hraða og fjörbreytileika. Og hún hafði húmor fyrir fólki. Þau hjón gerðu sér engan mannamun og höfðu gaman af fólki, sem fór eigin leiðir í lífinu. Mannlífsflóran var fjölbreytileg. Við alla kom Oddný fram af sömu virðingu og með sömu natni. Hún hafði áhuga á fólki og sögu þess, samhengi og eigindum. Hún las það líka vel, sá styrkleika en lét það ekki gjalda veikleika. Hún vildi styðja þau sem höll stóðu og í því voru þau hjón einnig samhent.

Afskipti bónda hennar af fjölbreytilegu atvinnulífi, pólitík og menningarmálum lituðu heimilishald, hleyptu pólitískri orðræðu að borði, myndum upp á veggi, söng og sögum í eyru og líf. Svo var Oddný sílesandi, hlustandi og íhugandi. Menningarstíll heimilisins var fangvíður.

Dæturnar eignuðust félaga og vini. Og allir máttu koma því Oddný var óhrædd við fólk og vinir dætra hennar dróust að henni líka. Mörg ykkar, sem eruð í kirkju í dag, getið kallað fram í huga mynd af Oddnýju. Sum ykkar trúðuð henni fyrir vonum en líka ósigrum. Hún varð mörgum eyra, sálgætir og prestur. Og hún og heimili hennar var miðstöð og tengivirki fjölskyldunnar. Barnabörnin áttu í henni athvarf og samfélag og amma varðveitti upplýsingar og miðlaði eftir þörfum og óskum. Í fjölskyldualbúminu eru ævintýramyndir – heimilisfólkið litríkt og þegar horft er til baka er eins og fjölskyldusagan sé kjörin til að vinna úr kraftmikið kvikmyndahandrit.

Kristján, íslenskur iðnaður, Últíma og fyrirtæki fjölskyldunnar hefðu ekki verið mögleg án Oddnýjar. Hún tengdist rekstri með ýmsum hætti en hún var konan á bak við manninn og við hlið Kristjáns í mörgu. Austfirðingurinn í henni hafði lag á að glíma við Þingeyinginn í honum, hún hafði í sér menningarlega breidd, alþjóðlega vídd og sálargáfur til að hann átti í henni bandamann og gagnrýna samstöðu. Oddný er því á mynd af iðnsögu Íslands. Hluti af þeirri sögu er að fjölskyldan bjó í Queens í New York í eitt ár á sjöunda áratugnum og seldi íslenska hönnun og hannyrðir. Svo bregður Oddnýju fyrir á myndum við hlið listamanna þjóðarinnar og polítíkusum líka.

Svo féll Kristján frá fyrir aldur fram. Oddný var aðeins sextug. Hún fór að vinna utan heimilis. Um tíma var hún við stjórnvöl í Últímu og fór síðan að vinna á Rannsóknarstofnun uppeldismála í Kennaraskóla Íslands og vann þar til starfsloka.

Árið 1997 flutti Oddný austur fyrir læk að nýju og á Mímisveg. Þar var hún um tíma í sama húsi og Ásrún, dóttir hennar. Hún flutti á Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði í desember s.l. og lést þar 23. september.

Við leiðarlok biður fjölskylda Dúnu á Akureyri fyrir kveðjur. Kristín Axelsdóttur í Grímstungu á Fjöllum biður fyrir kveðju sömuleiðis og frá Kanada berst kveðja frá dótturdótturinni Unu Lorenzen.

Eigindir og ímyndir

Hvaða myndir áttu af Oddnýju? Já hún var dugmikil bókakona, fagurkeri, tungumálakona og hannyrðakúnstner. Oddný lærði matreiðslu af húsmæðraskólataginu og kunni því mörgum fyrr að búa til appelsínumarmelaði og aðrar matarfurður. Hún sá alltaf hverju fólk klæddist, hvernig það bjó heimili sitt, hafði gott auga, sá vel ef þurfti að hnika til myndum um einhverja millimetra. Hún skrifaði alla tíð mikið fyrir sjálfa sig og agaði dómgreind sína allt til enda. Og hún sagði kankvís undir lokin að hún hefði getað skrifað.

Fólkið hennar Oddnýjar hefur jafnan skilað sínu, stendur sína vakt á hverju sem gengur. Þannig var Oddný, í henni bjó staðfesta og seigla. Eftir að hún var orðin ein tók við nýtt skeið og svo virðist sem Oddný hafi átt í sér vaxtargetu og vilja til að breytast, að opna fyrir barnabörn, vinnufélaga og fjölskyldu. Hún hafði alla tíð verið í miklum tengslum við fólk Kristjáns og naut þess síðan á síðari árum, að systur hennar fluttu í nágrenni hennar og komu inn í myndir fjölskyldunnar.

Myndin í lífinu

Rúnir lífs Oddnýjar eru margar og myndirnar af lífinu líka. Þegar ég var búin að hlusta á ástvini Oddnýjar skýrðist mynd í huga. Þetta er ekki mynd af hæðum heldur af fólki. Svo hafði Oddný áhuga á fjölskyldu sinni, samfélagi, unaði og dýrmætum lífsins. Hún geymdi í sínum huga myndina af þér. Þegar við kveðjum merka konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin djúpmynd og hamingjuleið. Guðsmynd Oddnýjar eða guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd verður aldrei sett í myndaalbúm – Guðsmynd er lifuð. Oddný var meira en það sem aðrir sáu. Og þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Henni voru gefnar gjafir til að fara vel með. Svo er einnig um þig. Hún var fagurkeri og fór vel með það sem henni var gefið og agaði sig. Og þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð. Myndagallerí heimsins á sér mestar dýptir í djúpum mennskunnar og undri náttúru og lífs.

Oddný heyrði sögu skömmu áður en hún lést. Við enda mannlífs siglir bátur frá landi, frá Tanga mannlífs og í átt að hafbrún – hverfur sjónum þeirra er sjá á bak ástivni – en siglir síðan að strönd. Þar eru ástvinir og fagna. Ekki vitum við hvort það er stúlkan með rauðu lokkana, konan með prjónana, mamman með sokkaplögg, kankvís sögukona eða kona með bók í hendi sem siglir að strönd. En það er kona í mynd Guðs, kona sem fellur í faðm þeirra sem elska – Oddný í Últímu himinsins. Þar er gott, þar er unaður, þar er eilífð.

Guð geymi Oddnýju Ólafsdóttur og Guð geymi þig.

Minningarorð við útför í Dómkirkjunni föstudaginn, 30. september, 2011.