Kökur af himnum

photoÍ lok messunnar í Neskirkju 21. júlí hvatti ég söfnuðinn að venju að staldra við á Torginu eftir messu. Ég lét þess einnig getið að kosturinn yrði horandi því kirkjuvörðurinn, Valdimar Tómasson, hafði sagt mér að hann hefði ekkert annað en saltstangir til að setja fram með kaffinu! Svo fóru flestir úr kirkju í messukaffið. En sjá, kökukraftaverkið mikla varð.

 

 

photo_2Caroline býr í London og var í heimsókn hjá systur sinni sem býr á Hjarðarhaga. Þær systur komu í kirkju og þeirra fólk. Hún kom óvænt með þrjár tertur í kirkju söfnuðinum til mikillar gleði.

Droplaug Guðnadóttir sóknarnefndarformaður var í kirkju og þakkaði Caroline kraftaverkið og allir klöppuðu. En þar sem presturinn lofaði horandi fæði voru flestir sammála um að þetta væru slim-cakes sem hefðu bara heilsusamleg áhrif.

Caroline dreymir um að flytjast til Íslands og stofnsetja bakarí og mig dreymir um að hún geti selt kökurnar sínar í Neskirkju. Enn lifir bragðið í munni mér og gleðin yfir kökundrinu hríslast um mig hið innra. “Þú þjónar til borðs” sagði hún – “og ég líka” bætti hún við og brosti hógværðarlega. Timi kraftaverkanna er ekki liðinn!

Guð varðveiti Caroline alla daga og Guð laun fyrir þetta brauð frá himni.