Sóley Tómasdóttir – minningarorð

Brekkusóley, jurtadjásn í íslenskri náttúru. Söngur þessa ljóðs Jónasar Hallgrímssonar kveikir liti í huganum, færir jafnvel lykt úr móa sumarsins í vit okkar. Og það er gott að hugsa um blóm þegar hvítt ríki vetrarins heldur fast, að leyfa unaðinum að koma til okkar og vinna gegn kulda, svörtum og hvítum litum þessa tíma.

Smávinir fagrir, smávinir sem eru foldarskart. Og svo sprettur fram hin þokkafulla og elskulega bæn Jónasar fyrir þessum reit. Við getum skilið með okkar skilningi, verið náttúruverndarsinnar, menningarsinnar, lífsinnar – og samþykkt þessa umhyggjusömu tjáningu. Faðir og vinur alls sem er, annastu þennan græna reit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Íslensk sumur eru björt, dásamleg og mjúkfingruð, fullkomin andhverfa vetrarins. Trúmenn allra alda hafa séð í vetrinum myndhverfingu eða líkingu fyrir dauða. Allar lífverur eru markaðar endi, mæta lokum sínum, sem er táknaður með svefni. En vonarmenn vænta vors og sumars – eilífðar. Þessi nátturunæma afstaða kemur fram í versunum í 90. Davíðssálmi. Þar segir:

„Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” (Úr 90. Davíðssálmi).

Þetta las fólk í baðstofum þjóðarinnar á sinni tíð, afar og ömmur Sóleyjar. Þennan texta þekkti Matthías Jochumsson líka þegar hann tók til við að semja lofsöng sinn fyrir þúsund ára afmælishátíð Íslandsbyggðar árið 1874, söngur sem varð síðan þjóðsöngur Íslendinga.

Kannski hefur þú aldrei hugsað um að Sóley er í þjóðsöngnum þar sem segir: „…eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr….” Vissulega eru það blóm merkurinnar, sem þarna er talað um, en það er líka allt líf, stórt og smátt, lífríkið, sem skáldið felldi inn í textann. Sóley líka… öll erum við seld undir sömu lög, sama himinn, sól, líf, gleði og sorgir. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – „hverfið aftur.” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og lærum að biðja bænina: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sóley fæddist í Viðey 25. nóvember á Alþingishátíðarárinu, 1930. Foreldrar hennar voru Elísabet Elíasdóttir – ættuð að vestan – og Tómas Tómasson – en hann var frá Vík í Mýrdal. Systkinin sem lifðu voru sjö. Sóley var tvíburi, tvær smáar stúlkur komu saman í heiminn. Systirin var 8 merkur en Sóley aðeins fimm. Það má teljast furðulegt að Sóley skyldi lifa en stærri systirin, sem var skírð Fjóla, dó. En svo fæddist önnur stúlka síðar og hún fékk að bera þetta fallega nafn – Fjóla – og gekk nánast inn í hlutverk tvíburasystur Sóleyjar. Saman voru þær jurtir á akri umhyggju og hjálpsemi og urðu nánar. Fjögur systkinanna eru á lífi, Jens, Margrét, Haukur og Fjóla.

Fjölskyldulífið var fjörlegt og foreldrarnir voru samhentir. Tómas var skemmtilegur, róttækur og yndislegur – var sagt í mín eyru – og Elísabet öflug, grínisti og lífskát. Það var oft mikið fjör og hlegið í bænum. Barnahópurinn stækkaði og Tómas vildi í land og hætti sjómennsku á togurum. Þau fluttu líka úr Viðey og fóru á Ránargötu og síðan í Skerjafjörð. Tómas gegndi ýmsum störfum og meðal annars verslunarstörfum. Börnin fóru í Skildinganesskóla. Þegar skólinn var fluttur í Grimsby-húsið á Grímsstaðaholti fóru þau af börnunum þangað, sem enn voru í skóla. Svo flutti öll fjölskyldan frá sjónum og norður fyrir Hringbraut, síðan áfram austur í bæ, í Blönduhlíð, í Hraunbæ og síðan á Langholtsveg.

Sóley fór í Skildinganesskólann. Eitt árið var hún líka í heimavist í Laugarnesskóla því einhver í heilsufarseftirlitinu taldi að það væri staðurinn til að þyngja hana, en sóleyjar eru nú jafnan nettar. Seinna fór hún og átti samleið með Fjólu – í Ingimarsskóla sem var við Lindargötu. Hún fór svo að vinna, afla sér tekna, bar út blöð, vann í KRON-útibúinu í Skerjafirði og jós væntanlega mjólk í brúsa.

Svo dansaði Sóley sig eiginlega inn í hjónaband. Danshópur ungs fólks, sem hugsaði róttækt í stjórnmálum, var myndaður til að dansa á heimsmóti æskufólks í Búkarest, árið 1954. Sóley var lipur og Magnús Sigurjónsson líka. Hann var úr Reykjavík. Stemming æsku á heimsmóti var ljómandi rammi um hjúskap þeirra. Þau gengu í hjónaband og eignuðust drengi sína. Hallgrímur Gunnar fæddist fyrst og síðan kom Hrafn fjórum árum síðar. Magnús var bifvélavirki, vann hjá Reykjavíkurhöfn, Sambandinu, Togaraafgreiðslunni og Albert Guðmundssyni. Hann lést fyrir aldur fram árið 1970.

Sóley var heimavinnandi meðan Magnús lifði. Þau bjuggu á Rauðarárstíg, en síðan flutti hún með syni sína upp í Hraunbæ og bjó í sömu blokk og foreldrar hennar og Fjóla. Þaðan lá leið alls hópsins á Langholtsveg 165. Sóley byrjaði að vinna á Borgarspítalanum, lærði til sjúkraliða, hafði unun af að þjóna sjúklingum og var þeim hin besta Florence, svo um var talað. Hún lagði á sig að læra nudd og notaði síðan til að bæta lífsgæði sjúklinga. Í spítalavinnu var hún þar til heilsan gaf sig og líkamskraftur leyfði ekki lengur álag umhyggjunnar.

Á þessum árum Borgarspítalavinnu birtist Ólafur Ólafsson allt í einu við eldhúsborðið á Langholtsvegi. Það var eins og hann hefði þekkt fjölskyldu Sóleyjar alla tíð. Reyndar hafði hann búið á Grímsstaðaholtinu og séð til systkinanna og heyrt hvað var sagt og hverjir voru hvers. Hann var ekkjumaður, átti unga menn á heimili og sá um þá og velferð þeirra. Synir hans eru: Jakob, Jón, Jóhannes og Borgar.

Ólafur var rennismiður og vann löngum hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Þegar Sóley og Ólafur ákváðu að rugla reitum seldi hann íbúð sína og þau fluttu saman í Álfheima. Ólafur lést árið 2000.

Sóley bjó um tíma í íbúð þeirra áfram, en síðustu árin var hún á Foldabæ og síðast á Droplaugarstöðum.

Hallgrímur Gunnar, sonur Sóleyjar, er húsgagnasmiður. Hans kona er Anna Ástþórsdóttir. Þau eiga tvö börn, Halldóru Ósk og Ástþór Óla. Halldóra og Davíð, maður hennar, eiga Gunnar Þór og Guðmund Óla.

Hrafn er vélstjóri og verktaki. Hann á fjögur börn, tvær dætur og tvo syni. Þau eru Magnús Már, Ólöf Anna, Kolbeinn Máni og Steingerður Sunna. Ólöf Anna á síðan börnin Emelíu Svölu og Erlu Dís.

Eigindir

Hvernig manstu Sóleyju – hver er mynd hennar í huga þínum? Manstu eftir saumaskapnum hennar?

Manstu eftir tónlistaráhuganum? Sálmskrá þessarar athafnar vísar í afstöðu hennar. Hún sótti ekki aðeins kirkjutónleika og hafði nautn af. Með systrum sínum fór hún á sinfóníutónleika og þær fóru jafnvel á þrjár raðir tónleika eða 23 tónleika yfir veturinn. Það var ekki aðeins klassík tónlist, sem Sóley heillaðist af, heldur líka þjóðleg tónlist og músík fyrir dansandi fætur. Hún gat alveg haft gaman af nútímatónlist, bara lokaði augum, leyfði tónlistinni að flæða inn í sig og kveikja neista í sér. Tónlistin gat lyft henni upp úr skuggum og lýst upp í huga hennar. Og svo brosti hún með systrum sínum að þeim undrum sem tónlistin gaf þeim.

Manstu eftir brosinu hennar? Manstu að það var ekki skynsamlegt að reyna að skipa Sóleyju fyrir verkum, hún var ekkert hrifin af slíku! 

Manstu eftir pólítískum áhuga hennar? Sóley vildi stjórnmál með róttækni eða var það rótsækni, sem jurtin þurfti?

Svo var það stjörnuspekin sem hún sökkti sér í og gerði stjörnukort fyrir þau af hennar fólki, sem hafði nef og húmor fyrir slíku. Í þeim málum varð Sóley kunnáttusöm og aflaði sér þekkingar á þessum fornu fræðum.

Sóley var langförul ferðakona. Hún ferðaðist um Ísland og síðan um víða veröld. Það urðu ekki aðeins dansferðir, sem hún fór. Hún kannaði landið, elskaði það og naut þess. Var tilbúin að vera sem brekkusóley í dýrðarríki Íslands. En svo var hún til í að skoða fjarlægar slóðir og fjölbreytilegt líf, menningu fólks þessarar jarðarkúlu. Fjóla fór stundum með þeim Ólafi en síðan fóru þær saman eða með hóp á síðustu árum. Og það voru fá mörk sem hindruðu. Þær voru saman í Concert Gebouw í Amsterdam og hlustu á Beethoven og síðan voru þær á Kúbu og Kínamúrnum.

Hver er minning þín? Veldu þér minningu. Veldu það sem gerir þér gott og leyfðu svo hinu að fara, slepptu til að þú haldir ekki í það sem verður þér til trafala í þínu lífi. Við megum sleppa sorgarefnum, eftirsjá – öllu því sem letur líf þitt nú eða í framtíð. Fortíðarefni og dauðamál verða okkur ekki hvatar eða tilefni fyrir lífsgæði. Skilvís sorgarvinna stefnir að gleði  – og ánægju með fólki og fyrir fólk, sem lifir og er í okkar ranni.

Viturt hjarta

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, náttúrunni og tónlist. Það er viturlegt að endurmeta lífið, endurskoða og taka nýja stefnu, láta ekki hugfallast og ákveða að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar. Svo þegar lífið er gert upp þá kemur í ljós að við vorum sem jurtir í mörkinni, titrandi blóm sem lifum um stund, gleðjumst, verðum fyrir hretum og þolum alls konar álögur. Svo roðnar brekkan, lífið fjarar út, en lífið lifir áfram í kynslóðum sem koma. Kynslóðir halda áfram og eru sem lífkeðja, sem góð speki úr stjörnubúi Guðs knýr með elskusemi sinni.

Sóley fer ekki aftur á tónleika, en fær að njóta tónaflóðs úr himneskri hljómsveit. Hún brosir ekki aftur á risamúr í Kína en fær að skoða hin himnesku mannvirki. Hún nuddar ekki fleiri iljar eða strýkur hár, heldur fær að njóta ástríkis sem er æðri öllum skilningi. Sóley hefur nú sprungið út í himnaríkisbrekkunni.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Guð blessi minningu Sóleyjar. Guð geymi hana um alla eilífð.

Minningarorð í Fossvogskirkju 4. febrúar 2011.

Bjarni Ólafsson – Minningarorð

Útför Bjarna Ólafssonar, lektors, var gerð frá Neskirkju fimmtudaginn 19. maí, 2011. Minningarorðin eru hér að neðan. 

 Bjarni Ólafsson brosti alltaf fallega og horfði á fólk með áhuga. Hann hafði sterka návist, var ræðinn, skarpur, næmur og einnig kvika tilfinninga. Hann var félagslyndur en gat líka farið einförum, ljúflingur og leiðtogi. Fagurkerinn Bjarni nýttist handverksmanninum vel í kennslu en líka í uppbyggingu. Hann fór víða, lagði á ráðin um viðgerðir á kirkjum, byggði hús og byggði upp fólk til átaka við líf og til velferðar undir stórum himni blessandi Guðs. Er þetta myndin, sem þú átt í huga þér og hjarta af Bjarna? Hver var hann? Hvað mótaði hann og af hverju var hann eins og hann var?

Lífsstefna og mótun

Ekki fór milli mála að trú Bjarna setti kúrs hans. Hann vildi lifa í samræmi við ramma trúar og kristins siðar. Því meir sem ég hugsa um Bjarna því áleitnari verður að skilja líf og lífshætti hans í ljósi mannmótunar iðnmeistarans en líka listamannsins. Í klassískri iðnmótun kennir meistarinn nemanum ekki aðeins handverk heldur afstöðu til iðnar, viðskiptavina, gildis og menningar. Í nútíma köllum við þetta fagmótun og fagvitund. Handverkið var aldrei skilið frá hinu andlega, hið andlega var aldrei fjarri lífinu heldur var lífið ein heild og mönnum var ætlað að lifa vel og með ábyrgð. Í lífi Bjarna má sjá þessa heildarafstöðu og mótun. Það var innra samræmi í því, sem hann var ungur og gamall, handverksmaður og Kristsvinur, andans maður og kennari. Hugur, hönd og hjarta voru eitt í Bjarna Ólafssyni.

Í heimi Biblíunnar, og þar með á smíðaverkstæðinu sem Jesús ólst upp í, var handverk fólks aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Hin dýpsta speki er til lítils nema hún eigi sér skírskotun í lífi einstaklinga og samfélags. Handverk við tölvu, í eldhúsi, við sög, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, og trúmaðurinn veit að lífið er Guðs og verk manna eru ekki aðeins í eigin þágu heldur í þágu lífsins. Það var í þeim heimi, sem Bjarni lifði og hrærðist. Það var í þeim anda, sem hann tók til sín erindi kristninnar, skírnarskipunina sem var lesin fyrr í þessari athöfn. Þess vegna fræddi hann og kenndi. Og hann vissi um nánd Guðs, talaði við Jesú sem vin sinn og félaga og vildi miðla visku meistarans áfram í þágu allra og til blessunar mönnum og lífi. „Sjá ég er með yður…” sagði Jesús.

Ætt og uppruni

Bjarni Ólafsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst, árið 1923. Foreldrar hans voru Hallfríður Bjarnadóttir og Ólafur Guðmundsson, hún Reykvíkingur og hann fæddur á Eyrarbakka. Bjarni var næst-elstur fjögurra sona þeirra hjóna. Elstur var Friðrik, sem lést aðeins tvítugur að aldri. Fráfall hans breytti lífi allrar fjölskyldunnar. Guðmundur Óli var þriðji í röðinni og Felix yngstur og lifir hann bræður sína.

Heimilislífið var „dásamlegt” sagði Felix og bernskan var góð. Þegar Bjarni hafði aldur til fór hann í Austurbæjarskólann, sem var ekki aðeins splunkunýr heldur líka framsækinn skóli. Þegar Bjarni hafði lokið þar námi hóf hann smíðanám hjá föður sínum. Til að bæta atvinnnumöguleika sína fór Bjarni svo í Kennaraskólann og lauk sveinsprófi í smíðum og kennaraprófi á sama ári. Kennsla og smíðar héldust í hendur á blómaskeiði Bjarna.

Friðrik stóribróðir var alla tíð heilsuveill. Bjarni deildi áhyggjum með foreldrum um velferð hans. Friðrik var efnismaður, kennari að mennt. Hann var einnig brautryðjandi í KFUM og hafði m.a. hafið starf í þágu félagsins í Laugarneshverfi. En þessi ungi maður framtíðar var skyndilega allur. Fjölskyldan var skekinn og leitaði styrks í trú. Bjarni axlaði ábyrgð á skyldum hins elsta í bræðrahópnum. Bjarni hafði þegar hafið smíðanám en ákvað að fara í kennaranám einnig. Hann vildi ekki gera drengina hans Friðriks, bróður, munaðarlausa í kristindómsmálum. Bjarni axlaði því líka ábyrgð á KFUM deildinni í Laugarnesi og varð hinn öflugasti leiðtogi stórs hóps drengja, sem áttu í honum fyrirmynd, kennara, leiðbeinanda og vin. Þegar á árunum um tvítugt voru eigindir Bjarna skírðar í eldi reynslu, sorgar, trúar, baráttu og ábyrgðar. Áskorunin var mikil, áraunin sömuleiðis, en Bjarni stóðst prófið. Hann var fullveðja dugmenni.

Heimili og afkomendur

Einhverju sinni sáu drengirnir hans Bjarna að dama var komin í Víponinn við hlið hans. Þeir hlupu á eftir trukknum til að fylgjast með og kanna stöðuna. Bjarni hafði kynnst Hönnu Arnlaugsdóttur og svo hófst skeið, sem ekki aðeins náði til þeirra tveggja og ættingja heldur varðaði fjölda fólks, líka KFUM drengina í Laugarnesinu. Hanna var röntgentæknir og vann á Landspítalanum. Bjarni sagðist hafa orðið ástfanginn af fallegusu konunni. Allir sem þekktu Hönnu vissu líka að hún var valmenni. Ökuferðirnar gengu vel, drengir og unglingarnir voru ekki mótfallnir og Bjarni var hrifinn. Svo gengur þau Hanna í hjónaband í janúar árið 1948. Þau bjuggu fyrst á Laugateig, fóru síðan í  Gullteig 18. Þaðan lá leiðin í Sigtún 27 og síðan í Bauganes í Skerjafirði þar sem Bjarni og þau fjölskyldan byggðu sér glæsilegt hús.

Hanna og Bjarni eignuðust þrjú börn. Gunnar, húsasmíðameistari, er elstur. Kona hans er Kristín Sverrisdóttir. Þau eiga Sverri. Ólafur er miðbarn þeirra Hönnu og Bjarna. Hann er lærður bifreiðasmiður og börn hans eru Fríða, Óskar og Minna. Yngst er Hallfríður, iðjuþjálfari og kennari. Hennar börn eru Hanna, Jón og Lísa og maður hennar er Terje Fjermestad.

Heimilislífið var gjöfult og glaðsinna. Pabbinn var virkur í félagsstarfi svo Hanna stóð vaktina heima og opnaði heimilið. Unglingarnir rötuðu þangað úr hverfi og kirkjustarfi. Pabbinn breiddi vængi sína yfir unglingana og mamman bætti útlendingum við svo heimilið var gestkvæmt. En svo varð Hanna og þau öll fyrir áfalli. Hún fékk heilamein þegar hún var aðeins 27 ára gömul og fór í uppskurð í Danmörk. Skurðurinn tókst og hún náði heilsu. Bjarni hafði alla tíð búið við heilsuleysi eldri bróður og nú hafði kona hans orðið fyrir áfalli. Bjarni beit á jaxlinn, vann eins vel úr og hann mátti, var duglegur og kraftmikill í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, kenndi á vetrum, byggði á sumrin og þjónaði Guði með margvíslegu móti. Svo vildi hann vera börnum sínum góður og skilvís uppalandi. Börnin uxu upp en svo reið annað áfall yfir. Heilasjúkdómur Hönnu tók sig upp að nýju. Hún fór í margar aðgerðir en henni fór aftur. Heimilislífið leið því fyrir veika mömmu. Að lokum missti Hanna sjón, henni hrakaði og lést svo í ársbyrjun 1984. Þá urðu alger skil í lífi Bjarna og vík ég síðar að næsta lífskafla hans. En fyrst um verkefni og störf hans. 

Stiklur vinnu og verkefna Bjarna

Starfs- og félagsmálaferill Bjarna er víðfeðmur og fjölbreytilegur. Afköst hans voru mikil, hann þjónaði mörgum, leiðbeindi, benti til vegar, beitti sér fyrir nýungum af ýmsu tagi og var forystumaður hvar sem hann fór og var. Bjarni var kennari í Laugarnesskóla á árunum 1944-70. Hann vann fyrir Þjóðminjasafnið að viðgerðum og ráðgjöf á árunum 1959-76. Hann fór um landið og var eftirlitsmaður prestsestra og kirkna 1959-60. Bjarni var námsstjóri í smíðum á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og síðan var hann lektor við Kennaraháskólann á árunum 1976-87.

Bjarni vildi nýta það, sem best var í smíðakennslu á Norðurlöndum og hikaði ekki að beita sér fyrir nýungum. Hann fór á námskeið og ferðaðist um til að afla hugmynda, aðferða, stefnu, tækja og efnis. Hann horfði opineygur á það, sem efst var á baugi í hans greinum og fræðum erlendis, flutti t.d. inn efni og aðferðir við smelt í handavinnukennslu. Bjarni hafði sjálfur áhuga á flugmódelsmíði og svifflugvélum og naut auðvitað hrifinnar lotningar drengja, sem fengu að upplifa undrin sem hann smíðaði og sýndi. Ekki var verra, að drengirnir fengu svo sjálfir að smíða þessa fleygu furðugripi.  

Bjarni þjónaði KFUM hreyfingunni lengi, fyrst með deildastarfinu í Laugarnesinu en síðan í stærra samhengi sem leiðtogi, fræðari, frumkvöðull. Hann stofnaði m.a. kristniboðsflokkinn Kátir drengir og eru kátir allt til þessa og þakka gleðigjafaranum. Kristniboð var áhugaefni alla tíð og Bjarni var um tíma í stjórn kristniboðs meðal Gyðinga ásamt með bróðurnum Guðmundi Óla í Skálholti. Allt starf Bjarna var sjálfboðið og alveg ljóst, að Hanna studdi við bak hans og hún og börnin sáu á eftir honum að loknum vinnudegi til félagsstarfa á kvöldin og um helgar.

Stöðugt var verið að byggja hús guðsríkisins, bæði í bænum og líka í sumarbúðum. Oft kom Bjarni við sögu, var ræstur út og ræsti aðra út til átaka. Smíðaþekking, verksvit og fegurðarskyn hans naut sín sjaldan betur en þegar gera þurfti við eða byggja kirkjuhús. Eyrarbakkakirkja, Skeggjastaðakirkja, Viðeyjarkirkja og Breiðabólstaðakirkja á Skógaströnd bera Bjarna fagurt vitni. Kapellan í Vatnaskógi er dýrgripur, sem Bjarni skapaði og hafði lag á að kalla til verka fagmenn, sem gátu unnið til fullnustu einstaka verkþætti. Bjarni var einnig áhugasamur um uppbyggingu sumarbúðanna í Vindháshlíð og varð um tíma n.k. framkvæmdastjóri bygginga. Íþróttahúsið naut krafta hans ríkulega.

Bjarni og Gunnar, sonur hans, urðu samverkamenn við byggingu þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Auk viðgerða á gömlum byggingum, kirkjulegum og borgarlegum, byggði Bjarni fjölda húsa, m.a. í uppsveitum Árnessýslu. Í tengslum við smíðarnar stofnaði Bjarni ýmis fyrirtæki, m.a. einingahúsaverksmiðu og innflutnigsfyrirtæki í þágu handavinnukennslu og svo flutti hann inn hátalara og m.a.s. spænsk mótorhjól!

Já, Bjarni var áræðinn og hugmyndaríkur. Hann var höfðingi í samskiptum, gestrisinn, veitull, stefnufastur, rásfastur, rausnarlegur, hugmaður, fylginn sér, söngvin og músíkalskur. Hann var óhræddur að brjóta nýjan akur og skoða nýja möguleika ef einhverjir opnuðust. Var jafnvel að velta vöngum yfir fiskútflutningi um tíma. Bjarni var áhugasamur um listamenn og handverksmenn og keypti muni og verk þeirra til að styrkja þá til dáða. Hann var reiðubúinn að þjóna nemendum sínum langt umfram skyldur, opnaði smiðju sína fyrir þau sem vildu smíða meira, prufa nýtt, þróa hæfni sína og halda á ný mið. Bílskúrinn hans iðaði oft að lífi hinna ungu. Bjarni var eiginlega alltaf ungur, vildi vera með ungu fólki, hreifst af krafti, dug og hispursleysi æskunnar.

Svo var hann útivistarmaður, hljóp á fjöll og fór á skíði. Áður en hann fór til messu var hann jafnvel búinn að ganga á Esjuna. Bjarni var því fram á gamals aldur afar vel á sig kominn líkamlega og fór eiginlega ekki að gamlast fyrr en hann hætti að hlaupa á fjöll. Ég mætti honum einu sinni á haustdegi þar sem hann kom stormandi upp Almannagjá. Þá var hann einn á för og fór hratt yfir upp brattann í átt að Hakinu. Upp kom hann á spretti og blés ekki úr nös en augun leiftruðu. Hann naut átaka í útivistinni.

Svo var hann fagurkeri á tæki og hafði t.a.m. yndi af fallegum bílum. Bjarni var vel ritfær og skrifaði fjörlegar greinar sem hann kallaði “Smiðjan” og birti í Morgunblaðinu. Margir þorðu að smíða vegna þess að Bjarni skrifaði svo hvetjandi texta. Hann var drátthagur og málaði gjarnan vatnslitamyndir og teiknaði mikið.

Bjarni kom líka við sögu þessarar kirkju. Hann var varamaður í sóknarnefnd kirkjunnar um árabil og m.a. formaður Bræðfélags Nesssóknar. Vil ég fyrir hönd Neskirkju þakka honum þjónustu hans. Ég vil líka fyrir hönd kristinnar kirkju þakka Bjarna alla þjónstustu hans í þágu kristni og kristniboðs. Þá skulu þakkaðar viðgerðir hans á kirkjuhúsum og kirkjuleg menningarþjónstu hans um land allt.

Nýtt líf

Heilsuleysi Hönnu og dauðastríð gekk nærri Bjarna. Hann var komin að lokum opinberra starfa og skil urðu í lífi hans þegar Hanna féll frá. Dyr lokuðust og aðrar opnuðust. Bjarni kynntist Sigrúnu Steingrímsdóttur austur í Skálholti. Hún var á þröskuldi nýs tíma í eigin lífi og var á leið í orgelnám í Danmörk. Sigrún og viðfangsefni hennar heilluðu Bjarna. Hann seldi húsið sitt í Skerjafirðinum, pakkaði saman og fór með henni. Þau voru svo í Danmörk í fjögur ár. Bjarni hafði áhuga á kirkjutónlistinni og samhengi hennar, studdi organistanemann og Völu dóttur Sigrúnar. Öll höfðu þau styrk og hag af þessu þríbýli og opnuðu dyr og glugga hverju öðru í fjölbreytilegum skilningi. Þau stunduðu útivist og fjallaferðir af miklum krafti. Þessi tími var Bjarna endurnýjunar- og lærdómstími. Eftir sjö ár slitu Bjarni og Sigrún sambúð, en héldu í vinskap til lokadægurs. Þau Vala ræktuðu sömuleiðis samband og Bjarni fylgdist með börnum hennar.

Akademían

Síðasta skeið Bjarna var hafið. Hann hafði aldrei elst, heldur varðveitt lífsmátt æskunnar. En nú leið að skilum tíma og eilífðar. Kannski er stórkostlegasti þáttur þessa lokaskeiðs vináttan, sem hann átti í Bjarna Bjarnasyni og Gunnari Árnasyni. Þeir voru kollegar hans í Kennaraháskólanum og náðu svo vel saman, að þeir urðu sem þrenning. Þeir hittust flesta virka daga, voru hinir frjálsu andar, nutu listar orðræðunnar og trausts. Þennan þrennufélagsskap kölluðu þeir akademíuna. Lof og þökk sé þeim Bjarna og Gunnari.  

Guð völundur

Nú er komið að lokum. Nú gleður Bjarni ekki lengur ástvini sína og vini. Nú beitir hann sér ekki í þágu framkvæmda. Líf hans er farið inn í himininn. Þar er góð smiðja, þar verður örugglega smíðað, rætt frjálst, hlegið og glaðst. Þar er vináttan rækt, elskan dýpkuð og gleðin aukin. Þar verður gildi meistarans mikla fullkomnað og allir sveinar og nemar fullnuma. Og fagnaðarerindið er hinn mikli gjörningur Guðs, lífið er vettvangur elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi völdundur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Í þeirri smiðju má Bjarni Ólafsson vera og iðja og í þeirri akademíu má hann ná öllum sínum markmiðum og vonarefnum. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Líf Bjarna var endurskin undursins. Guð geymi hann um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Minningarorð flutt við útför í Neskirkju 19. maí 2011. Myndina tók ég af Bjarna í ágúst við húsbyggingu 2002. Að baki sést í Gunnar, son Bjarna. 

Æviágrip Bjarna Ólafssonar

Bjarni Ólafsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund þriðjudaginn 10. maí s.l. Foreldrar Bjarna voru Hallfríður Bjarnadóttir húsfreyja frá Eskihlíð í Reykjavík f. 16. 8. 1901, d. 3.7. 1973, og Ólafur Guðmundsson frá Ægissíðu í Holtum, húsgagna- og húsasmíðameistari í Reykjavík, f. 24.7. 1894, d. 2.5. 1976. Bræður: Friðrik, kennari f. 17.7. 1921, d. 18.12. 1942, Guðmundur Óli, prestur, f. 5.12. 1927, d. 12. 5. 2007, Felix, prestur, f. 20.11. 1929. 9. janúar 1948 kvæntist Bjarni Hönnu Arnlaugsdóttur frá Reykjavík, röntgentækni og húsfreyju, f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984. Foreldrar hennar voru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1884, d. 1943 og Arnlaugur Ólafsson f. 1888, d. 1971.

Börn Hönnu og Bjarna eru: 1. Gunnar f. 1949, húsamíðameistari, kvæntur Kristínu Sverrisdóttur. Sonur þeirra er Sverrir f. 1982. 2. Ólafur f. 1953, bifreiðasmiður, búsettur í Svíþjóð. Börn hans eru: Fríða f. 1987, Óskar f. 1990, Minna f. 1996. 3. Hallfríður f. 1957, iðjuþjálfari og kennari, búsett í Noregi, gift Terje Fjermestad. Börn hennar eru: Hanna f. 1985, Jón f. 1987, Lísa f. 1989.

Bjarni tók sveinspróf í húsasmíði 1944 frá Iðnskólanum í Reykjavík og handíðakennarapróf sama ár. Kennari í Laugarnesskóla 1944-1970, námsstjóri í smíðum á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og síðan lektor í handmennt við K.H.Í. 1976-‘87. Hann kynnti sér nýjungar í smíðakennslu á Norðurlöndum og var brautryðjandi í handmenntum. Hann stofnaði heildverslun og flutti inn efni fyrir m.a. handmennt. Einnig stofnaði hann byggingarfyrirtækið „Stokkahús“ ásamt öðrum sem flutti inn og framleiddi timburhús. Vann fyrir Þjóðminjasafnið 1959-76 við ýmsar viðgerðir og ráðgjöf.Eftirlitsmaður prestssetra og kirkna 1959-60. Sat í skipulagsnefnd kirkjugarða 1964-’88.  Var í sóknarnefnd og formaður Bræðrafélags Nessóknar 1976-82.

Hann tók mikinn þátt í starfi KFUM og KFUK. Hann var forstöðumaður KFUM í Laugarnesi frá 1943, brautryðjandi og forystumaður í drengja- og unglingastarfi félagsins. Söng í Blönduðum kór KFUM og KFUK. Sat í stjórn Skógarmann nokkur ár. Teiknaði og hannaði kapellu í Vatnaskógi. Var sæmdur gullmerki Skógarmanna. Hann sá um byggingu íþróttahússins í Vindáshlíð ásamt margvíslegum framkvæmdum þar.

Hann naut þess að ganga um landið og var oft leiðsögumaður. Hann hélt áhuga sínum fyrir söng og tónlist allt sitt líf sem leiddi m.a. til búsetu í Danmörku um árabil. Í mörg ár skrifaði Bjarni greinar í Morgunblaðið undir heitinu „Smiðjan“ sem fjölluðu aðallega um viðhald húsa og muna. Bjarni var fjölhæfur listamaður, einstakur fagurkeri, sérlega uppörvandi og hvetjandi maður.

 

Þórunn Friðriksdóttir – minningarorð

Hverjir eru bestir? Þannig hljóma köllin meðal stuðningsmanna og svarið kemur viðstöðulaust – KR – alla vega í vesturbænum. Og þannig er stemmingin oft á vellinum – ekki bara hér, heldur um land allt og reyndar um allan heim. Lið og einstaklingar fara út á völl til að skemmta sér, gera sem best, skila sínu og auðvitað til að vinna. Og það er hluti af þjálfuninni, að láta ekki jafntefli eða tap eyðileggja móralinn og reyna að gera betur næst, láta mótlætið bara styrkja og magna til átaka og sigurs.

Líf hvers fullorðins manns er vissulega langur leikur, með varnarbaráttu, sóknum, miðjumoði, áföllum, gulum spjöldum og svo stórkostlegum augnablikum þegar boltinn fer í netið og þegar flautað er til sigurloka í úrslitaleik.

Saga Þórunnar Friðriksdóttur er mikil – og um sumt einstök – saga um merkilega konu. Og það er gleði, birta og happ í sögu hennar, en líka áföll sem nísta. Undir lok lífsleiks hennar varð hún fyrir áföllum. Hún missti mikið – en ekki allt því hún átti börnin sín áfram, lífsandann í brjóstinu – en samt var hún slegin það illa að hún var sár síðan. Og þegar maður hefur meiðst verður leikgleðin ekki söm. En við megum gjarnan muna að skilgreina leikslok rétt og huga að raunverulegum úrslitum.

Biblían er ekki upphafið ritasafn um goð í fjarheimum, heldur fjallar hún um baráttu og líf raunverulegs fólks – eins baráttu og við öll lifum í vinnu, á heimilum, í leikjum okkar og núningi og átökum í samfélagi fólks. Í Jobsbók segir frá manni, sem naut lífsins. Honum var flest vel gefið, en svo missti hann sem næst allt, sem hægt var að missa í lífinu, börnin sín, eigur sínar og allt samhengi sitt. Og hann lenti í miklum blús, þungri hugarraun.

Af hverju eru svona álögur lagðar á fólk? Raun Jobs hið innra lauk með því að hann gerði sér grein fyrir, að Guð er góður þrátt fyrir mótlætið og öllum erfiðleikum var snúið til góðs. Við vitum svo sem, að það er enginn sigur til án þess að haft sér fyrir honum. Og sama hugsun er í grunnsögu kristninnnar. Hinn góði Jesús Kristur, sem ekkert hafði gert nema gott, lenti í mestu hremmingum, að honum var vegið, hann var ranglega dæmdur og að lokum hert að honum í þröngri gröf. En boðskapur kristnninnar er að leik er ekki lokið fyrr en flautað er. Og ef menn eru í liði Krists, sem á sér skammstöfunina Kr framan á altari þessarar kirkju, ja þá eru menn í sigurliði. Tapi er ekki í unað, ekki hætt fyrr en sigur er unnin. Það er í því stóra, djúpa og lífgefandi samhengi sem við megum íhuga og blessa líf Þórunnar Friðriksdóttur.

Æfi og stiklur

Tóta, eins og hún var kölluð, var vorkona og fæddist 9. apríl árið 1947. Foreldrar hennar voru Friðrik Einarsson og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir. Þau bjuggu börnum sínum heimili í Framfarafélagshúsinu á Vesturgötu 51c. Tóta var yngst fjögurra systkina. Strákarnir voru elstir, Þorbjörn var fyrstur í röðinni. Hann fæddist árið 1934 og svo kom Friðrik fjórum árum seinna. Guðbjörg fæddist í miðju stríðinu árið 1943 og svo kom Tóta fjórum árum þar á eftir.

Heimilislífið var gott og gjöfult. Mamman var heima og nærði og passaði hópinn sinn. Þótt pabbinn ynni mikið var vinnustaður hans, lýsisvinnslan, nærri heimili svo hann var nálægur pabbi og sá til þess að börnin hans fengju margt gott og þar með talið heimsins besta lýsi.

Allir tóku þátt í lífsbaráttunni og byrjuðu snemma að afla tekna. Friðrik fór til sjós en Þorbjörn var í landi á fullu í puði en líka í boltanum. Mannlífið var fjörugt á Vesturgötunni, umhverfið var gjöfult fyrir uppvaxandi börn, leiksvæðin allt í kring, mikið af ungviði til að leika sér með. Þetta var örvandi og hvetjandi samfélag, kraumandi af lífi. Tóta sótti skóla fyrst í Melaskóla en svo tók við Gaggó vest, sem hún var stolt að hafa sótt.

Tóta var bráðþroska og eins og lífsklukka hennar gengi hraðar en annars fólks. Hún var hraðlifandi og bráðlifandi, fljót til barneigna. Hún varð með yngstu ömmum í landinu, var fljót í förum, fór víða og svo fer hún inn í himininn fyrir aldur fram. Þegar aðrar stúlkur voru bara að byrja skoða stráka var Tóta búin að eignast sitt fyrsta barn. Hún varð ástfanginn af Kristjáni Ólafssyni og þau fengu, þrátt fyrir æsku, opinbert leyfi til að ganga í hjúskap. Þau giftu sig 1966. Þetta var þegar ungt fólk bar langa svarta trefla um hálsinn, skipti sér í fylkingar með Rolling Stones eða Bítlunum, og Stevie Wonder, Simon og Garfunkel, the Supremes og Jimi Hendrix börðust um toppsætin á poplistunum. Þetta var árið sem England vann Þjóðverja í dramatískum úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í fótbolta.

Fullorðinslífið og fjölskylda

Tóta fór snemma að vinna eins og allt dugnaðarfólkið í kringum hana. Fyrst fór hún að vinna í Sveinsbakaríi eins og margar vinkonur hennar á Vesturgötunni.

Ástin blómstraði og Tóta var tilbúin að taka við ungu lífi og annast börn. Hún var barnagæla, elskaði börn og vann við alla tíð við að efla börn til lífs.

Ólafur, elsta barn þeirra Kristjáns, kom í heiminn árið 1964. Kona hans er Katrín Snæhólm Baldursdóttir og þau eiga fjögur börn og fyrir hjónaband átti Ólafur einn son.

Hannes fæddist árið 1968. Hans kona er Hulda Bergrós Stefánsdóttir og þau eiga tvo syni.

Eygló fæddist 1974 og hennar maður er Bjarki Þór Magnússon og þeirra börn eru þrjú.

Björn er yngstur. Hann fæddist árið 1979 og kona hans er Silvía Björk Birkisdóttir.

Tóta bjó við mikið ríkidæmi í fólkinu sínu. Börnin hennar eru fjögur, barnabörnin tíu og langömmubörnin fjögur.

Með tvö ung börn var ljóst að fjölskyldan þurfti stöðugar tekjur. Þau Tóta réðu af að fara vestur í Stórholt í Saurbæ þar sem bróðir Kristjáns bjó. Það var heilmikil reynsla fyrir unga konu úr margmenninu á Vesturgötunni að kom í fásinnið í sveit. Kristján fór svo að smíða og spila en Tóta sá um heimilið. Svo fóru þau í Búðardal – ekki undir áhrif frá Lónlí Blú Bojs – því þetta var áður en allir fóru að syngja um staðinn. Þau leigðu hús í miðju þorpinu. Það var kannski ekki flottasta húsið þegar þau komu þangað og mestu spaugararnir í fjölskyldunni meina að á moldargólfinu hafi allir vanist að vera í skóm og haldið þeim sið síðan hversu flott og bónuð sem gólfin eru! Ungu hjónin tóku snarlega til hendi, löguðu húsið, keyptu og byggðu við. Tóta fór að vinna, lagði símstöðinni lið um tíma sem og vann einnig í mjólkurstöðinni. Hún hlúði að börnum í leikskóla og var líka dagmamma. Í Búðardal var fjölskyldan til 1983 þegar Hveragerði kallaði.

Eigindir og hæfni

Þó Tóta byggi lengstum langt utan KR hverfis Vesturbæjarins var hún þó á aldrei á útivelli í samskitpum. Hún var alls staðar á heimavelli þar sem hún bjó því hún var félagslynd og hæf í samskiptum. Hún beitti sér gjarnan í samfélagi sínu. Hún hafði ákveðnar skoðanir í stjórnmálum, hvað heyrði til framfara, hvað væri börnum best, hvernig þyrfti að skipa málum svo fólki liði vel. Í Búðardal tók Tóta þátt í mannlífinu með fjölbreytilegum hætti og var meðal annars í leikfélaginu. Í Hveragerði vann hún fyrst á pósthúsinu en for síðan að hlúa að börnum. Hún vann í leikskólanum Undralandi og síðan var hún stuðningsfulltrúi í grunnskólanum í Hveragerði og naut vinnu sinnar svo mjög að hún lagði á sig að fara í Fjölbraut á Selfossi til að læra greinar sem kæmu henni að gagni við kennsluna. Tóta tók þátt í pólitíkinni og henni voru falin trúnaðarstörf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Helstu hugðarefni Tótu lutu að þörfum barnanna. Hún var skýrmælt um þeirra hag og reiðubúin að leggja mikið á sig í þeirra þágu, hvort sem það var að standa að leikfangaátaki eða hlúa að lúðrasveitinni. Tóta var virk í foreldrafélögum og beitti sér þar sem hún taldi að hún gæti orðið að liði. Hún var vinmörg og lífsglöð og var alls staðar þar sem hún fór gleðigjafi.

Tóta bjó fjölskyldu sinni gæfulegt umhverfi. Hún hafði mikið umburðarlyndi gagnvart leikja- og hreyfiþörf barna, sinna eigin og annarra. Hún skildi að börn þyrftu bolta en vildi síður að gluggarúður væru brotnar reglulega, hvort sem það var nú að innan frá eða utan. Það er skiljanlegt! Og svo átti hún leikföng sem öll heimsins börn höfðu gaman af og hún gat dregið stóran kassa með legókubbum undan rúmi eða galdrað fram púsl, leiki, spil eða gestaþrautir sem heilluðu. Alltaf gerði Tóta ráð fyrir börnum, leikþörf þeirra og leikgetu. Og það var fjör þar sem Tóta var.

Í Hveragerði bjó fjölskyldan til 1990 þegar Kristján fór að kenna tónlist í Mýrdal. Þau Tóta fluttu austur, fyrst í Sólheimatungu og síðan í Vík. Tóta hélt sér við unga fólkið og fór að vinna í leikskólanum í Vík. Börnin hennar flugu úr hreiðrinu og lífið einfaldaðist um tíma. En svo dundu áföllin yfir eitt af öðru.

Tóta missti bæði mann og heilsuna. Kristján og hún skildu og hún greindist með hvítblæði árið 1995. Á blóðkrabbanum vann hún sigur á með hjálp systur sinnar Guðbjargar, sem gaf henni það sem hún þurfti til endurnýjunar blóðs. Oft hafði Tóta hlaupið á eftir Göggu í bernsku og viljað njóta allra félagsgæða hennar og athygli. Og svo gaf Gagga henni lífsmátt. Þær fóru til Svíþjóðar og sátu svo við skiljurnar til að Tóta næði bata. Það tókst og Tóta á Guðbjörgu og manni hennar mikið að þakka fyrir aðstoð og lífgjöf. Vert er að þakka á þessari stundu fórnfýsi og óhvikulan stuðning. Þá skal minnt á að sr. Haraldur Kristjánsson í Vík fór með Tótu til að veita henni stuðning og lagði á sig erfiði umfram allar skyldur. Svo kom Tóta heim til að jafna sig, fór austur í Vík. Hún náði ekki heilsu til að halda fullum dampi í leikskólanum. Árið 2001 flutti hún út í Hveragerði og bjó þar uns hún fluttist í hús Sjálfsbjargar í Hátúni 12 árið 2008. Á stuttum tíma varð Tóta fyrir fjölþættu áfalli. Hún náði í kjölfar þess aldrei fullri heilsu. Blæðingar og lyf veikluðu einnig og heilsu Tótu hrakaði. Hún lést 22. ágúst.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðjur frá: Sunnevu Sirrý Ólafsdóttur og fjölskyldu í Englandi, Hannesi Þór Sigurðssyni og fjölskyldu í Danmörk og Einari Vigni í Noregi.

Nú eru skil orðin og hvernig á að gera upp líf og leið? Gleðistundirnar hafa margar verið stórkostlegar, margar sendingarnar flottar, en svo varð margt erfitt. Og liðið hennar Tótu, fólkið hennar hefur staðið saman öll sem eitt. Og hvenær er flautað til loka? Þá er komið að því hvernig skipulagið er. Þau, sem vilja bara vera í einfalda boltanum heyra bara flautið í lok seinni hálfleiks. En hin sem hafa trú á að lífið sé stórt en ekki smátt – hafa heyrt að sagan um Job endaði vel. Og hvernig var aftur sagan um Jesú? Ekki endaði hún í gröf heldur í lífi og gleði hinum megin við deauða. Og það er boðskapurinn, sem Tóta innrætti börnum sínum og kenndi þeim að reikna með, að lífið er stórt og gott, mikið og framhald, þrátt fyrir erfiðleika og áföll. Og það er í því samhengi, sem við megum vita að það verður flautað til framhalds í eilífð himinsins. Og hvað kemur út úr þeim leik er aðalatriðið. Þeim leik lýkur með að allir eru bestir og allir fá að vera með í því liði sem lyftir bikarnum. Valitorbikarinn er góður og meistaratitlarnir líka, bestir eru þessir himnesku, guðlegu ofurbikarar sem gefa hamingju. Þeir eru vegna lífsins.

Tóta hefur lokið sínu. Hún kennir ekki lengur að klappa fyrir KR, dregur ekki fram spil og kubba og skipuleggur ekki söfnun eða átak eða sýnir snilldartakta í þágu barna. Enginn hlátur lengur. Hún er farin inn í himin Guðs. Og þú mátt leyfa henni að fara en leyfa minningunni að lifa í hjarta þér um staðfestu hennar, gleði, elskusemi og umhyggju. Þú mátt leyfa því öllu að verða þér til að eflast í lífi en líka trúa, að Tótu líði vel í hinum himneska leik, þar sem öll ná þroska, allir eru glaðir og allt er verulega gott og skemmtilegt.

Útför frá Neskirkju 30. ágúst 2011.  Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Sigrún Inga Magnúsdóttir – minningarorð

Tókstu eftir að það er engin mynd af Sigrúnu Ingu Magnúsdóttur á sálmaskránni? Bara kross – fallegur gylltur kross. Frænkuhópurinn sat í vikunni og talaði um Sigrúnu, líf hennar, ræddi um útförina og líka um sálmaskrána. Þær veltu vöngum yfir hvaða mynd ætti að setja á forsíðuna. Og eftir nokkrar umræður ákváðu þær að setja enga, heldur aðeins krossmarkið. Ábendingin kom frá einni, að þá gætu allir í kirkjunni kallað fram í hugann eigin mynd af Sigrúnu.

Hvernig minnist þú hennar? Eru það fallegu og íhugulu augun hennar, sem þú manst? Er það fína hárgreiðslan? Getur þú samþykkt að hún var alltaf snyrtilega og fallega klædd, flott Reykjavíkurdama? Eða koma fyrst í huga þinn eigindir eða það sem hún gerði þér til góðs? Minnistu þess hve Sigrún var á þönum við að þjóna þér til að þú fengir örugglega nóg – hvort sem það var nú kaffi, kökur, myndakex, cherioos, bland í poka, nú eða appelsín og snakk með andrésblöðunum!

Staldraðu við og leyfðu huganum að fara til baka, vitjaðu þinna eigin tilfinninga, þinna eigin mynda og leyfðu þeim að vinna djúpvinnu í sálinni þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar. Menningin er sneisafull af myndum sem túka, móta, hafa áhrif og skilgreina líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla þeirrar merkustu bókar veraldar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Mennirnir eru því í mynd Guðs – og sú mynd er ekki eins og afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs, tenglar hins guðlega, kemur síðan fram í biblíuefninu. Að menn stóðu sig ekki, fóru villur vega, var túlkað sem skemmd þeirrar myndar Guðs, sem menn væru kallaðir til að vera.

Harmsaga manna, það sem kallast líka synd á máli trúarinnar, var myndbrot og saurgun þeirrar fegurðar, sem Skaparinn hafði gert af smekkvísri visku. Þessi myndaspuni verður áleitin þegar við hugsum um hvern mann sem listaverk, stórbrotið djásn sem fagurkerinn Guð hefur gert til að gæða veröldina fegurð, gleði og lífi. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er þetta listagallerí heimsins flekkað og saurgað. Inn í þá veröld kom síðan hinn hreini og fallegi Jesús Kristur, sem stókostleg ímynd og fegurð, Guð í heimi. Þess vegna töluðu höfundar Nýja testamenntisins um að Jesús Kristur hafi fullkomnað myndina, sem menn voru skapaðir í. Jesús hafi ekki flekkað neitt heldur endurspeglað alla himneskuna með þeim hætti sem honum var ætlað. Því segir postulinn:  “…dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar” (2. Kor. 3:18). Og sami postuli, Páll, segir um Jesú líka: “Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.” (Fil. 2.6.) Og það er síðan verkefni allra manna, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, frá Vestmannaeyjum eða Japan að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti, mynd Guðs, lifa þannig að lífinu sé vel lifað og í samræmi við fegurð og verkefni Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Við erum kölluð til að vera falleg mynd Guðs í veröldinni.

Hver er mynd þín af Sigrúnu Ingu Magnúsdóttir? Og hver er þín eigin mynd? Ertu sáttur eða sátt við myndina, sem þú hefur af þér? Er það í samræmi við hvernig þú gætir lifað vel og með visku og fegurð? Myndin af Sigrúnu kallar á að þú hugsir um þína eigin mynd. Þín mynd á að vera góð bæði gagnvart þér og Guði.

Upphaf og fjölskylda

Sigrún Inga Magnúsdóttir fæddist á Jaðri í Vestmannaeyjum 28. febrúar árið 1916. Foreldrar hennar voru hjónin Kristjana Þórey Jóhannsdóttir og Magnús Hjörleifsson. Sigrún var elst þriggja systkina. Kristinn Hjörleifur fæddist liðlega tveimur árum á eftir Sigrúnu og Magnea Dóra vær tæpum fjórum árum yngri en eldri systirin.

Fjölskyldulífið var hamingjuríkt og foreldrarnir dugmikið mannkostafólk. Magnús sótti sjó og Sigrún litla stóð við gluggann heima til að bíða eftir að pabbi kæmi úr róðrum. Hún mundi alla tíð þessa hræðilegu marsdaga árið 1920 þegar pabbi kom ekki til baka. Magnús fórst, Sigrún beið, mamma hennar var ófrísk að Magneu Dóru og áfallið var þungt. Kannski var Sigrún og þau systkini alla ævi að bíða eftir pabba? Á þessum árum var ekki unnið með sorg og sorgarviðbrögð og missirinn settist því að í sálardjúpum. Þau voru öll á jaðri lífsins í margvíslegum skilningi.

Næsti áratugur og raunar áratugir urðu baráttu- og átakatími þessar litlu fjölskyldu við að lifa –  fyrst að lifa af og síðan að lifa til þroska og góðs. Eftir dauða Magnúsar var fjölskyldan í Eyjum en flutti, skömmu eftir að Sigrún var fermd í Sandgerði þar sem þau áttu ættingja og frændgarð. Kristjana fór víða til vinnu og var m.a. ráðskona á Suðurlandi. Stundum var Sigrún með henni og stundum var hún send í vist fjarri sínu fólki. Þetta var því flókinn tími, sem reyndi á móður og börn. Eftir að skóla lauk fór Sigrún að vinna og var alla tíð dugnaðarforkur. Hún var ráðskona um tíma og var líka á síld í Djúpuvík og norður á Sigló, sem var auðvitað heilmikil reynsla.

Vinnuþrenna

Í lok fjórða áratugarins flutti fjölskyldan í bæinn og fékk inni hjá frændfólki í Bergstaðastræti. Kristinn byrjaði stýrimannanám en Kristjana og Sigrún fóru að vinna á saumastofunni Últímu. Sigrún handlék falleg efni, lærði að meta gæði, saumaði flott hnappagöt, efldist sem fagurkeri og hafði áhuga á fegurð lífsins alla tíð síðan. Skömmu fyrir andlát sitt gat hún enn dáðst að fallegum fötum og hafði orð á.

Þær mægður voru í þjónustu Últímu saman, en síðan færði Sigrún sig yfir í prentsmiðjuna Odda og vann við bókagerð, stóð í áratugi 12 tíma vaktir, saumaði bækur, batt inn, vakti yfir að allt væri vandað og gott sem frá Odda kæmi, hvort sem það var nú á íslensku eða færeysku. Sigrún hætti í Odda 67 ára gömul og vildi ekki lengur vinna svo langan vinnudag og annað var ekki í boði í þann tíð.

Þar á eftir vann hún um tíma hjá Sláturfélagi Suðurlands. Vinnuferill Sigrúnar er sem spegilmynd íslenskrar sögu – föt, bækur, matur. Þetta er mikilvæg og miðlæg þrenna menningar Íslendinga.

Stiklur

Sigrún eignaðist hvorki börn né maka. En hún var aldrei einstæðingur í lífinu, sem ég sá best síðustu æviár hennar á Skjóli. Þá kom hennar fólk – ekki síst frænkur hennar – til hennar til að njóta samvista með henni og efla gæði hennar. Þökk sé ykkur. Sigrún var alla tíð afar næm á fólk og lagði sig eftir að fylgjast með líðan, átökum og sigrum fólks. Hún var einstaklega barngóð og hafði í sér hina fágætu gáfu nándar. Henni var hægt að treysta fyrir börnum og þegar hún tók að sér að passa var barninu ekki parkerað fyrir framan sjónvarpsskjá, heldur átti Sigrún allan þann tíma, sem barnið þarfnaðist og gaf þar með af sér ómælda blessun – þetta sem börn meta og muna.

Sigrúnu var gefið óvenju traust minni og skarpskygni. Hún mundi allt það sem hún vildi muna, en hafði ekki á orði það sem var þungbært og sorglegt. Hún var umtalsfróm, talaði vel um, lagði gott til, lyfti hinu góða og hreifst af hinu fallega. Sigrún breiddi út faðminn gagnvart öllum, sem vildu henni vel og hún átti orðastað við. Henni var í mun að efla líf og gæði annarra. Hún hugði að þörfum fólksins síns og rétti hjálparhönd.

Það var merkilegt að verða vitni að hvernig starfsfólk Skjóls vildi kveðja Sigrúnu þegar komið var að leiðarlokum. Það kvaddi hana ekki sem sjúkling, heldur sem náin vin. Og þá vitnaðist að Sigrún fylgdist grannt með fjölskylduhögum starfsfólks, var þeim sumum jafnvel sem ráðgefandi mamma og sálfræðingur, þekkti nöfn maka og barna og hafði geymt í hjarta og huga áhuga og umhyggju gagnvart öllu þessu fólki.

Sigrún var ekki aðeins bókhneigð, heldur líka Danahneigð. Og það var ekki bara Familie Journal og tískublöðin sem hún las, heldur var hún afar vel að sér í kóngahúsum Danaveldis. Það var skemmtilegt að geta sagt henni frá sumarhöll Margrétar Þórhildar sem fjölskylda mín sá í Árósum fyrir liðlega ári. Og Sigrún fyldist eins vel með fjölskyldugleði og fjölskylduraunum í Amalienborg sem sinni eigin fjölskyldu. Það sem hún hafði fest hug við það stóð og hún var ekkert hvikul í sínum málum.

Myndir og bækur

Flestir ættingjar Sigrúnar, sem komnir eru til manns, vita að hún var kortasérfræðingur og kortaconnoisseur. Þegar komið var að afmæli, viðburði eða jólum var Sigrún tilbúin með sérvalið kort til að gefa. Hún vandaði valið handa hverjum og einum og vildi að kortin yrðu til upplifunar og miðlaði einhverju hvort sem það var nú myndefni, glimmer eða stíll. Sigrún hafði fullkomið yfirlit yfir kortasölur og hvað var í boði og allt var vendilega valið og áritað.

Og þekkingin á prentgripum var söm. Hún miðlaði bókum til frændfólksins. Sigrún var ljóðelsk bókmenntakona og vildi gjarnan deila fegurðinni með öðrum. Svo kom hún með bókmenntir heimsins, líka færeyskar, inn á heimili síns fólks. Þannig miðlaði hún menningunni áfram. Fólkið hennar minnist þess þegar Sigrún og Kristjana amma komu í Sandgerði. Þær voru með brúna tösku, sem geymdi gull og djásn veraldar, stórkostlega pakka og falleg kort. Þær urðu því boðberar eða englar  Reykjavíkurmenningar og heimsmenningar.

Búsetustaðir

Sigrún var Reykjavíkurdaman. Hún naut borgarinnar, hafði gaman af bíóferðum, leikhúsi, fylgdist vel með búðum og verslun, fyrirtækjum og borgarþróun. Hún hafði gaman af að bjóða ungum ástvinum sínum í menningarhús og skemmtigarða borgarinnar.

Eftir veru á Bergstaðastræti fluttu þær mægður á Leifsgötu og síðan á Smiðjustíg. Síðan fóru þær í Mávahlíð. Nokkrum árum eftir að Kristjana lést keypti Sigrún síðan íbúð í Teigaseli, fór svo í Bláhamra þar sem hún bjó í áratug eða þar til hún fór á Skjól. Hún átti ekki von á mörgum árum þar en var þó á Skjóli í nær áratug. Þar lést Sigrún Inga Magnúsdóttir 13. október síðastliðinn. Hún verður jarðsett síðar í fjölskyldgrafreitnum í Fossvogskirkjugarði.

Myndin í lífinu

Hver er myndin af lífinu? Sigrún tók myndir og þó engin sé myndin á sálmaskránni verða margar myndir til sýnis í safnaðarheimilinu á eftir og meira segja myndaalbúm Sigrúnar verða þar. Hún var líka ljómandi ljósmyndari! Og myndin af henni sjálfri: Mynd Sigrúnar er falleg engilsmynd. En hún geymdi líka í sínum huga myndina af þér. Hún fylgdist vel með þér, þínu fólki, blessaði þig í huganum, ól önn fyrir þér og fylgdist vel með. Hún var fulltrúi Guðs í mannheimum.

Þegar við kveðjum góða konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka  spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin mynd. Guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd þín verður aldrei sett í myndaalbúm Guðsmynd er lifuð. Þú ert meira en það sem aðrir sjá. Þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Þér eru gefnar gjafir til að fara vel með í þína þágu, en líka annarra. Þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð.

Hvernig viltu lifa? Lærðu af Sigrúnu að lifa vel, efla aðra, brosa við börnum, tala vel um fólk, lifa með reisn, láta ekki harma og afbrot eyðileggja þig. Lærðu að lifa hvern dag í þakklæti og gleði, lærðu að láta ekki sorgir eða áföll gærdagsins skemma þig. Þú ert falleg mynd, sem Guð hefur skapað, þú ert dýrmæti sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Sigrún var það dýrmætasta, sem Guð átti og þú ert það dýrmætasta sem Guðs sér og elskar.

Í gær hitti ég hér frammi í safnaðarheimilinu hjúkrunarfræðing á Skjóli. Hún var á námskeiði í Neskirkju. Við fórum að tala saman og hún sagði mér, að þær Sigrún hefður verið vinkonur. “Það var svo gaman að tala við hana og hún var húmoristi. Hún ætlaði að hitta mig síðar – í himnaríki!” sagði þessi kona um vinkonu sína og bætti svo við: “Hún var alveg tilbúin að fara.” Sigrún var alveg tilbúin, gat rætt um dauðann og för sína og hún tók sjálf ákvörðun um að lengja ekki frekar það sem lokið var. Hún hafði horft út um Jaðargluggan heima í Vestmannaeyjum og skyngst um eftir pabba, sem aldrei kom. Hún hafði séð á eftir mömmu sinni, systur, systurdóttur, bróður og bróðurdætrum, öllu þessu fólki sem hún elskaði. Og nú var hún á leið til þeirra, þar sem allt er gott, engin neyð er til, engin kvöl og engin tár, aðeins elska, gleði, samsemd, hrein viska, himneskt kóngsríki fyrir okkur, fyrir gott líf. Þar á Sigrún heima nú – og nú þarftu að uppfæra og lagfæra myndina af Sigrúnu á himnum – á þeim himneska Jaðri. Það er falleg mynd, ekki aðeins flottasta kortamynd veraldar heldur raunmynd úr Guðsríki.  Og hvernig viltu að myndin þín verði? Farðu vel með lífið og lifðu til eilífðar eins og Sigrún. Guð geymi Sigrúnu Ingu Magnúsdóttur og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Sigrúnar Ingu Magnúsdóttur, Neskirkju 22. október, 2010.

Jón Samsonarson 1931-2010 – Minningarorð

Englar, Freyjur, Bokki í brunni, land míns föður, Jónar, nunnur, mágar og faðir minn! Það er sérstæð efnisflétta sem við höfum þegar notið í þessari athöfn: Ólíkt efni, söngur um bláan straum, auglit sem vakir og svo kveðskapur um flug til himintungla og för inn í himinn. Þessir textar minna á ríkulegan orðageim, sem Jón Samsonarson bjó í og naut á vinnustofu eða með fólkinu sínu. Maðurinn fæðist nakinn í heiminn og verður ekki að manni nema í gagnlegum spjörum menningar. Jón sat löngum við þá menningarlegu tóvinnu að greiða vel úr svo að börn framtíðar nytu sér til skjóls og manndóms. Nú eru skil. Við kveðjum æðrulausan, þolgóðan öðling, Jón Samsonarson, rifjum upp atvik, tengingar við eigið líf, vinnustað hans, áföll, fræði, fjölskyldu, samferðamenn og velgjörðarmenn. Blessum minningu hans og spyrjum gjarnan um eigin hamingjuleiðir.

Fyrir hverja eru minningarorð í kirkju? Ekki fyrir englana og ekki þarfnast Guð ræðu prests eða annars manns fyrir handritahvelfingu himinsins. Ekki verður líkræða til að staðfesta gildi hins látna – heldur er hún fyrir lífið, fyrir þig og nesti til þinnar lífsferðar – fararblessun.

Uppruni

Jón Marínó Samsonarson fæddist um miðjan vetur á Bugðustöðu í Hörðudal árið 1931. Foreldrar hans voru Margrét Kristjánsdóttir og Samson Jónsson. Hann var yngstur í systkinahópnum. Eldri voru Þórunn Laufey, Kristján, Fanney og Árni, sem öll eru látin og Árni dó í bernsku, sama ár og Jón fæddist. Kolbeinn, fóstbróðir þeirra systkina, fæddist 1944. Ómar, sonur Laufeyjar, hefur reynst frændfólki sínu vel og er honum þakkað.

Mótun

Jón ólst upp við sveitastörf, mótaðist af sveitamenningu, gildum hennar og viðmiðum en ekki höftum. Í honum bjó menntaþrá og Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar urðu til að menntavonir hans náðu flugi, hann stæltist og ákvað sókn til náms. Jón fór suður og lauk grunnskólanámi í Reykjavík. Svo tók við Menntaskólinn í Reykjavík og hann lauk stúdentsprófi árið 1953.

MR-ingar þekkja Selið og Jón fór í skólaferð þangað og þar var líka Helga Jóhannsdóttir. Þau áttu skap saman, töluðu greitt, nutu samvistanna og elskan óx. Svo keyrði faðir Helgu þau niður í bæ 31. desember 1953 og þau voru gefin saman í hjónaband. Þá var Heiðbrá í gerðinni og Helga komin þrjá mánuði á leið. Hjúskapur þeirra lánaðist vel og Helga varð hans frú Fortuna, lánið í lífi Jóns.

Þau áttu sitt fyrsta heimili á Tjarnargötunni. Jóhann Sæmundsson, tengdafaðir hans, kenndi sér meins og trúði Jóni fryer, að hann væri sjúkur og til dauða. Þeir réðust í að byggja á Melhaga 11 til að stórfjölskyldan gæti búið saman í stóru fjölskylduhúsi. Þar bjuggu síðan í nánu sambýli fólk á öllum aldri og konurnar voru í miklum meirihluta. Heimilislífið var fjörlegt á þessu stórbýli og Jón Samsonarson var aðalkarlinn í húsinu og axlaði ágætlega þá ábyrgð að veita festu og skipan, sem tengdafaðir hans hafði falið honum áður en hann lést.

Dæturnar

Í samræmi við kynjahallann í húsinu eignuðust Jón og Helga fjórar dætur og eiginlega í fyrri og seinni hálfleik.

Elst er Heiðbrá, stærðfræði-hagfræðingur. Maður hennar er Einar Baldvin Baldursson. Börn þeirra eru Soffía og Baldvin. Fjölskyldan býr í Árósum.

Næstelst systranna er Svala, myndmenntakennari. Dóttir hennar er Helga Jónsdóttir.

Þiðja er Hildur Eir, löggiltur endurskoðandi í Madrid, gift José Enrique Gómez-Gil Mira. Börn þeirra eru Jón og Rósa.

Yngst systranna er Sigrún Drífa, gæðastjóri, og maður hennar er Árni Sören Ægisson. Börn þeirra eru Íris Eir, Sóley Margrét og Eiður Ingi.

Námsár

Jón stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, var afburðanemandi og lauk námi árið 1960 og fékk ágætiseinkun, sem sætti tíðundum. Meistaraprófsritgerð fjallaði um sr. Bjarna Gissurarson í Þingmúla. Það rímaði vel við störf hans síðar í Stofnun Árna Magnússonar, að hann skilaði ritgerð sinni fagurlega handritaðri en ekki bara vélritaðri. Menningarsjóður gaf svo út árið 1960 bókina Sólarsýn, sem er byggð á ritgerð Jóns og dregur fram hið bjarta, skemmtilega og gleðilega í menningu sautjándu aldar.

Þau Jón og Helga fóru síðan utan til Kaupmannahafnar til náms. Jón var undir vængbarði Jóns Helgasonar og varð sendikennari. Helga gekkst við tónlistarhneigð sinni og hóf nám í tónlistarfræðum. Kaupmannahafnarárin urðu ríkulegur og góður tími. Allt gekk þeim í hag, lifið á Händelsvej var gott, steplurnar voru efniskonur. A þessum árum voru stelpurnar tvær, Heiðbrá og Svala og fjölskyldumynstrið allt annað en síðar varð. Þetta var góður og yndislegur tími samrýmdrar fjölskyldu. Dæturnar eignuðust dönskumælandi vini. Húsakynnin voru lítil, en lífið var þeim öllum gjöfult og lærdómsríkt.

Jón Helgason felldi þann úrskurð, að þegar nafni hans hélt einhverju fram, þyrfti hann ekki að efast um að rétt væri. Úr stórum hópi glæsifræðimanna var Jón nákvæmastur og því gat nafni hans Helgason treyst. Sú eigind einkenndi fræðimennsku hans og líf. Þegar Jón Samsonarson uppgötvaði eina stafsetningarvillu í bók, sem hann gaf út síðar varð honum að orði: “Þetta er ónýt bók.” Á Hafnarárunum gekk Jón frá riti um kvæði og dansleiki í tveimur bindum, og treysta má því sem þar er skrifað og engum sögum fer af stafsetningarvillum.

Samfélagið Árnastofnun

Handritastofnun varð til með lögum árið 1962 og fékk seinna nafnið Stofnun Árna Magnússonar. Fyrstu árin voru fastir starfsmenn aðeins þrír. Árið 1968 kom Jón Samsonarson frá Danmörk og gekk til liðs við stofnunina. Samfélag fræðinganna var ljómandi, glatt á hjalla, mikill metnaður í vísindunum og tímarnir spennandi, handritin á leið heim, ekki aðeins “Vær so god – Flatöbogen” heldur fjársjóðir til að rannsaka og sýna.

Jón Samsonarson var miðvörður í landsliði íslenskra fræða og naut sín. Sérsvið hans voru saga og bókmenntir tímans eftir siðbreytingu. Í samráði við Jónas Kristjánsson hóf hann rannsóknir og útgáfu kjarnaveka í bókmenntasögu þessa tíma. Jón vissi vel af fræðaeyðum og vildi að skipulega yrði gengið til verka og undirstaðan yrði réttleg fundin. Jöfur stóð að baki og verklagið var gæfulegt. Margir hafa síðan notið grunnvinnu Jóns. Hann átti í sér kyrru, einbeitni og æsingalausa dómgreind, sem var þörf til mótunar gjöfulla verkferla. Hann var ósínkur á tíma í þágu fræða og fólks. Jón var góður kennari, miðlaði ekki aðeins fræðum, handritasýn og samanburði, heldur kenndi nemum sínum einnig vinnubrögð agaðra útgáfufræða.

Klaustralif

Stofnun Árna Magnússonar hefur verið sérstæður heimur og minnir um sumt á klaustur. Dyr voru læstar, allir áttu sinn stað og ramma. Vissulega var engin tíðagerð en hrynjandi árs og daga var í skorðum, kaffið á ákveðnum tímum og starfsmenn áttu sér sitt communio. Í þessum heimi voru líka englar, handrit, tíma- og söguþykkni, hefðir, reglur, ritúöl og skýr hlutverk. Kannski var ekki bænagerð en unnið að kraftaverkum samt. Í þessu fyrimyndarklaustri var einlífið möguleiki en ekki skylda, bænir leyfðar en ekki boðnar. Árnastofnun var samfélag, sem iðkaði margt það besta í klaustrum en sneiddi hjá mörgu því versta.

Svo þegar áföll dundu yfir kom í ljós að félaganna, bræðranna, var vel og dyggilega gætt. Þess naut Jón Samsonarson eftir heilablóðfall árið 1984. Samfélag stofnunarinnar fangaði hann vel og studdi. Þið vinir og samstarfsmenn megið vita að verk ykkar og afstaða er bæði metin og virt. Þökk sé ykkur, þökk sé stjórn, ábótum og jöfrum Árnastofnunar. Þetta er gott og gjöfult klaustur og góð regla sem ástæða er til að styðja – Íslandi, fræðum, tungu og menningu til góðs.

Prívatlífið

Fyrir utan fræðamúrana átti Jón Samsonarson ríkulegt líf. Kvennahúsið á Melhaga 11 var gott. Tuttugu ár voru milli elstu og yngstu dætranna og því strekktist vel á barnatíma fjölskyldunnar. Og lífríki heimilisins varð bara fjölbreytilegra og Jón aðlagðist mismunandi kröfum og dætur hans og kona voru umburðarlyndar við hann. Það eru ekki margar nútímakonur, sem hafa notið glæsilegrar bókmenntakennslu á gönguferð í og úr leikskóla eða fengið hraðferð í Njálu ef gönguferðin varð löng.

Helga var þjóðlagafræðingur og var frumkvöðull í að taka upp söng og kveðskap. Þau Jón ferðuðust um Ísland og hittu fólk, sem dætrum þeirra þótti sumt skrítið, en foreldrar þeirra mátu að verðleikum, tóku upp kveðskaparefni þess og söng. Þetta upptökusafn, mikið djásnasafn, er síðan varðveitt og fræðimönnum aðgengilegt.

Þau hjón voru líka ferðagarpar, gengu á fjöll og yfir jökla. Dætur þeirra nutu þessa og fjölskyldan bjó í tjöldum jafnvel í margar vikur í senn – í Skaftafelli, í Þórsmörk og víðar. Bílleysi var engin fyrirstaða, stutt var á BSÍ og svo var haldið á vit ævintýra og allir gátu notið sín, þau eldri í göngum og þau yngri að leikjum við tjald. Jóni þótti það nánast manndómsmerki að stunda útivist og vildi að barnabörn hans lærðu að ganga á íslensk fjöll.

Öllum var hann elskulegur og umhyggja hans átti sér fá takmörk. Ef ráðalaus róni varð í vegi hans lagði hann Kristslega lykkju á leið sína til að aðstoða hann í hús og skjól.

Þau Jón og Helga voru samstiga í þjóðmálum, vildu her úr landi og oft gengu þau sunnan úr Keflavík til að hóa hernum burt úr engi íslenskrar menningar. Þau höfðu erindi sem erfiði, þó síðar yrði. Helga lagði málefnum jafnréttis og kvenfrelsis lið og Jón stóð við bak – eða gekk við hlið hennar – bæði í orði og lífi.

Jón ólst upp meðal vísugerðarmanna. Hann naut þeirrar mótunar ekki aðeins í störfum heldur hafði gaman af að vera með kvæðamönnum og fór í ferðir með þeim.

Vandaður, góður maður

Jón Samsonarson var heilsteyptur maður, vandaður, frómur, hógvær, ljúfur og agaður. Hann var maður traustsins, orðvar og umtalsfrómur. Hann tamdi sér reglu og skóp festu í lífi síns fólks. Glaðlyndur og eftirlátur, gjöfull og félagslyndur, veitull og virðingarverður. Jón var staðfastur og líka á raunastundum var hann æðrulaus um sín mál og sinna – gerði það sem í hans valdi stóð og virti mörk sín og annarra.

Nú er þessi bókfróði fræðaþulur farinn. Nú hefur hans lífsbók verið lokað. Ég mun ekki túlka hana frekar, í þeim fræðum eru aðrir mér fremri og nákvæmari, bæði þessa heims og annars. En eftir hann liggja verk, orð, blöð, ævistarf og svo lifandi fólk.

Jón Samsonarson helgaði sig lífi bóka, handrita, menningar og fræða. Kristnin vefst inn í þá veröld með ýmsum hætti og með ýmsu móti. Kristnin er bókarátrúnaður og því varð íslensk menning orðrík og bókrík. Orðið biblia þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er rætt um mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir og um bækur. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók! Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður byrjaði með orð til að tjá veruleika lífsins, forsendur þess og tilgang. Orð voru við upphaf veraldar. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar.

Lífi Jóns er nú lokið og samkvæmt Biblíunni er þar með nýtt upphaf og sólarsýn. Við megum velja sjónarhól og túlkun og mér hugnast að sjá Jón Samsonarson fyrir mér í stórkoslegri handritahvelfingu og með aðgang að handritunum – sem alltaf vantaði í heimi tímans. Danshópur er nærri og sýnir honum hvernig vikivakar voru dansaðir á fyrri öldum, og svo eru öll mál kveðskapar leyst og allir eru glaðir í þessu himneska kvæðamannafélagi. Já, og Árnastofnun himinsins er bara til í hátíðaútgáfu. Þetta er sólarsýn, kristnin er átrúnaður hins bjarta og vonarríka. Guð kannast við heiminn vel krossaðan, veröld okkar er helguð og því góð.

Á miðvikudaginn stóðu hinar glæsilegu dætur Jóns við höfðagafl kistu föður þeirra. Tvær föðmuðust, svo komu hinar tvær og föðumuðu þær sem fyrir voru – í faðmlaginu mynduðu þær kross. Átta hendur vöfðust saman og þær mynduðu elskuskúlptúr, sem var fegurrri en nokkur skúlptúristi hefði getað meitlað. Þær voru að kveðja föður, en líka líf foreldra. Líf þeirra hefur ofist saman og þær eru næsti liður í keðju kynslóða. Þeirra er að ganga hamingjuleið, leið lífsins, til elskuauka fólks. Þær mynduðu kross – börn hafa um aldir verið krossuð á bak og brjóst. Kross er strikamerki himins og tjáir elsku og vernd. Þær njóta hennar.

Blessuð veri minning Jóns Samsonarsonar. Góður Guð geymi hann um alla eilífð – og vitji þín á þinni göngu, styrki og blessi.