Þorsteinn Bjarnason – minningarorð

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?

Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.

Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.

Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.

Upphaf og fjölskylda

Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í  Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.

Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.

Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.

Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.

Hjúskapur og strákarnir

„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.

Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.

Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.

Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.

En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna  Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.

Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.

Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.

Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.

Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.

Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.

Spínat og eggaldin lasagna

 

Þetta er afbragðsgóður réttur fyrir þau sem kunna að meta góða grænmetisrétti. Eggaldin notuð í stað pastablaðanna og fyllingin er mjög góð. Eins og myndin sýnir er búið að marinera tómatana með basilíku og rétturinn skreyttur þegar hann er borinn fram. Fagur og góður matur.

3-4 stk eggaldin

Fylling

400 gr ferskt spínat

400 ml kókosmjólk

1 rifin múskathneta

1 tsk broddkúmenduft (cumin)

1 tsk karrí

1 tsk salt

500 gr soðnar sætar kartöflur

Ofan á

1 dl rifinn parmesan (ef fólk er ekki að fasta)

1 dl malaðar hnetur/möndlur

smá maldonsalt og malaður pipar

Blanda í skál

Undursamlegt með góðum tómötum, basilíku, ólófuolíu og salti.

Langskera eggaldin í ½ cm þunnar sneiðar. Pensla með ólífuolíu og krydda með salti og pipar. Stilla ofninn á 200 °C. Eggaldinsneiðarnar á bökunarpappír í ofnskúffu og baka þar til þær hafa náð gullinbrúnum lit. Taka út úr ofni og leyfa að kólna. Spínatið saxað fremur smátt í matvinnsluvél og síðan blandað öllu sem á að fara í fyllinguna – hrært í skál eða hrærivél.

Setja til skiptis í ofnfast fat: Fylling, eggaldin, kókosmjól, fylling, eggaldin og kókosmjólk. Strá ost/hnetublöndu yfir lasagnað og baka í 30 mín við 180°C.

Upplyftan: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Verði öllum að góðu.

Til lífs

Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Minnstu þeirrar kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk, án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja, sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Í því er blessun fólgin í brigðulli gæfu tímans.

Vertu varkár í viðskiptum, því veröldin er full af vélráðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á engi tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það, er tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum, svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjáflsstjórn, en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð, hver sem verk þín hafa verið

eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

(Snörun sáþ á heilræðabálki. Heimildir greinir á um aldur og uppruna)

Myndir úr lífi Þórhöllu Gunnlaugsdóttur

ThorhallaGunnlaugsdottir-1 copyHér að neðan eru minningarorð í útför Þórhöllu Gunnlaugsdóttur 7. október, 2013. Hljóðskrá upptöku ræðunnar er að baki þessari smellu

Þórhalla vann fram á sjötugasta og fyrsta aldursár. Þá safnaðist starfsfólkið á Landspítalanum saman til að kveðja hana. Læknarnir héldu ræður og kaka var á borði. Þórhalla, sem aldrei hikaði við að segja skoðun sína, var hrókur alls fagnaðar, naut virðingar – og samstarfsfólkið vissi að þegar hún sagði skoðun sína var eins gott að hlusta því hún var frjáls, óháð og skörp.

Í viðbót við spítalamyndina eru allar hinar myndirnar. Þegar hún var læra að ganga austur á Bakkafirði. Svo þegar hún valhoppaði á Munkaþverárstræti á Akureyri eða sat hjá mömmu við orgelið og söng. Svo stóð hún við sjúkrabeð pabbans þegar hann lá banaleguna og hún var á barnsaldri. Kvennaskólastúlkan fyrir sunnan, félagslega kunnáttusöm þar sem fólk kom saman. Svo bráðung með barn á armi og mann við hlið. Örfáum árum síðar ekkja með þrjú börn.

Lífsmyndir Þórhöllu eru áleitnar. Og svo er myndin af stórfjölskyldunni, sumar helgimyndir, ættboginn – hópur af vænu og þroskuðu fólki sem gat, vildi og megnaði að opna fangið og vernda þau sem þurftu. Ættmóðirin Oktavía blessaði allt sem hún mátti og gat, Þórhalla speglaði og naut, og börnin hennar áttu alltaf bæði nærumhverfi og athvarf, sem varð þeim til góðs og eflingar. Að ala upp börn er aldrei eins manns verk heldur samfélagsverkefni.

Ætt og upphaf

Þórhalla Gunnlaugsdóttir fæddist austur á Bakkafirði – á bænum Höfn – þann 17. nóvember árið 1928. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaugur Andreas Jónsson og Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir. Þau áttu fimm börn og var Þórhalla yngst þeirra. Guðrún var elst, síðan kom Jón, þá Karl og Ottó var næstyngstur. Nú eru þau öll farin „upp til englanna.“

Gunnlaugur hafði mikið umleikis, stundaði verslun og innkoman var góð. Hann var ekki aðeins maður hins efnislega heldur opnaði huga mót menningu heimsins. Hann meira að segja talaði frönsku. Og Oktavía hafði notið þeirrar blessunar að fara suður á unga aldri og nam orgelleik hjá dómorganistanum í Reykjavík um tveggja ára skeið. Hún varð organisti fyrir austan og spilaði og söng alla tíð síðan. Þau hjón voru hinar bestu aðveituæðar menningar og mennta. En svo missti Gunnlaugur heilsu, hjónin brugðu búi og fluttu til Akureyrar þegar Þórhalla var fjögurra ára. Einu ári síðar, árið 1933, var Gunnlaugur allur, Oktavía ekkja með fimm börn á framfæri. Í nær áratug bjuggu þau nyrðra, hún kom börnum sínum til náms, vinnu, þroska og manns.

Þórhalla sótti grunnskóla á Akureyri. Og þegar hún – sú yngsta í barnahópnum – var fermd, kastaði Oktavía tengingum sínum, seldi húsið nyrðra og flutti suður. Þórhalla fór svo í Kennó eins og Gunna systir og fór síðan að vinna, leggja til heimilis og einnig grunn að eigin sjálfstæði. Hún vann um tíma í Reykjavíkurapóteki. Svo stundaði hún handbolta, naut lífsins og eignaðist vini. Meðal þeirra er Inga sem býr í Washington, lifir vinkonu sína og biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Fjölskylda og börn

Svo kom Guðmundur Þórir Elíasson inn á sjónsvið Þórhöllu. Hann hefur eflaust tekið eftir hve skemmtileg Þórhalla var. Hún sá líka hve glæsilegur hann var og hefur vafalaust fregnað um ógnarstyrk hans enda var hann kallaður Tarzan. Þau Þórhalla gengu í hjónaband árið 1923 og fóru að búa upp á Akranesi og nutu fjölskyldu Guðmundar á Skaganum. Svo komu börnin þrjú í heiminn. Guðmundur var netagerðarmaður og hafði líka atvinnu af að vera vélstjóri. Svo fór hann í afleysingaferð með togaranum Júlí frá Hafnarfirði en skipið sökk við Nýfundnaland í febrúar 1959. Áhöfnin hvarf í hafið og 39 börn urðu föðurlaus. Börnin hans voru þá 7, 4 og 2 ára.

Þau Þórhalla og Guðmundur eignuðust þrjú börn:

1. Elst er Oktavía, fædd í september árið 1951. Hún er félagsráðgjafi. Eiginmaður hennar er Ólafur Torfason. Synir hennar og Kristins Karl Guðmundssonar eru Davíð Guðmundur og Gunnar Andreas. Sonur hennar og Ólafs er Torfi Karl.

2. Gunnlaugur Guðmundsson fæddist í apríl árið 1954. Hann er stjörnuspekingur og rithöfundur. Eiginkona hans er Svanborg Marta Óskarsdóttir og uppeldisdóttir Birgitta Ósk.

3) Yngstur er Elías Þórður, júnídrengur sem fæddist árið 1957. Hann er atvinnubílstjóri. Kona hans er Hafdís Ólafsdóttir. Börn hans eru, Eva Björk Naji, Rakel og Bjartur.

Lífið og störfin

Hvað gerir 29 ára gömul ekkja með þrjú börn? Kostir í þeirri stöðu eru líklega aðeins tveir, að bjarga sér eða bíða ósigur gagnvart aðstæðum. Og Þórhalla valdi betri kostinn og naut tilstyrks sinna. Hún fór að vinna á slökkvistöðinni á Keflavíkurflugvelli og börnin nutu skjóls hjá ömmum og afa. Elías og Oktavía voru fyrst um sinn á Skaganum í skjóli Ólínu ömmu og afans Elíasar, en Gunnlaugur fékk að fara í fjölskylduhúsið á Lynghaga til Oktavíu ömmu, Gunnu, Karls og Ottós. Oktavía vildi gjarnan í bæinn líka og eftir ítrekuð strok af Skaganum fékk hún vilja sínum framgengt og fór á Lyngahagann og byrjaði í Melaskóla þar sem Gunnlaugur var fyrir.

Þórhalla var þá orðin búsett á Lynghaga og þar voru eldri systkinin en Elías ílentist á Skaganum en kom síðar suður í mömmuskjólið.

Þegar Þórhalla hætti vinnu í Keflavík fór hún að vinna í Laugavegsapóteki og síðar á Ríkisspítölum. Hún kom sér vel, var glögg, fljót að skilja og snögg til verka. Og hún naut félagsfærni sinnar þar sem hún fór og þar sem hún vann. Ein lífsmyndin af Þórhöllu að vélrita miða á meðalaglös og afhenda lyfin yfir skenkinn. Svo önnur þar sem hún var á Landspítalanum að tala skýrt við spítalalækni sem vissi að Þórhalla stóð með fólki, kunni til verka og vissi hvenær læknir misskildi. Hún var fljót, talaði ekki mikið um tilfinningar en átti ekki í neinum erfiðleikum að tala skiljanlega þegar þörf var á.

Um tíma bjó Þórhalla á Ægisíðu með börn sín. Svo flutti hún upp í Breiðholt og var á Teigaseli. Þegar hún lét af störfum var hún vel á sig komin en langaði ekki að hætta að vinna. Svo þegar heilsan brást fór hún á Landakot og síðan á Droplaugarstaði. Þar lést hún þann 26. september síðastliðinn. Þeim er þakkað sem þjónuðu henni fyrr og síðar og hjúkruðu.

Eigindir

Myndirnar úr lífsgöngu Þórhöllu eru merkilegar. Og svo hafið þið, ástvinir, minningar í huga, myndir úr lífssögu hennar og af tengslum við hana. Hvernig var hún, hvernig manstu hana?

Manstu augnsvipinn? Tilsvörin kannski? Manstu hversu öguð Þórhalla var? Hún kvartaði ekki, ekki út af peningum, fólki, heilsu eða öðru. Hún bað aldrei um neitt. Hún tók ekki lán og skuldaði því engum neitt. Hún var stolt, sjálfstæð og vammlaus.

Þórhalla gat verið ein og var sjálfri sér nóg og engum háð. Hún hafði húmor og skemmti sér við ef einhver toppaði hennar eigin. Hún var fróðleiksfús og gefin til bókar – og hafði áhuga á gagnverki lífsins og sálarferlum fólks sem m.a. kom fram í að hún hafði gaman af og las bækur um fólk og flækjur mannssálarinnar, krimmar meðtaldir. Og hún átti jafnvel til að lesa ekki aðeins íslensku útgáfu bóka Arnaldar Indriðasonar heldur þá ensku líka. Geri aðrir betur.

Hún var heiðarleg og hreinskilin og pakkaði skoðun sinni ekki í óþarfa umbúðir og klisjur voru henni fjarri skapi. Hún sagði óhikað sannleika eða skoðun við viðmælendur sína og svo smitaði þögn hennar hljóðlátum kærleika. Þórhalla kom eins fram við alla og ávann sér virðingu fólks sem mátu manngildi og jöfnuð mikils. Hún hafði sterka nærveru og var flestum eftirminnileg í samskiptum. Hún bjó að smitandi kærleika fjölskyldu sinnar og vandamanna og ræktaði með sér þakklæti til þeirra sem sneru góðu að henni, studdu hana og börn hennar fyrr og síðar.

Vegabréfið

Myndir úr lífinu – margvíslegar og litríkar. Þegar Þórhalla Gunnlaugsdóttir flutti frá Akureyri, fjórtán ára gömul, suður til Reykjavíkur fékk hún vegabréf. Hún þurfti vegabréf í eigin landi enda landið hernumið. Þetta vegabréf er enn til og hægt að skoða það í safnaðarheimilinu í erfidrykkjunni á eftir.

Og nú eru orðin skil – hún fer úr ríki tímans inn í ríki eilífðar. Vegabréf hennar í eilífðarförinni er í fullu gildi – í fjölskyldu hennar hefur trú aldrei verið launungarmál og traust til Guðs verið jafn sjálfsagt og að anda og vera. Nú er hún farin inn í himininn, ríki gleðinnar, þar sem allt er gott.

Myndir úr lífinu – áhrifaríkar Þórhöllumyndir. Hún var færð úr fæðingarsveit bernskunnar og í nýtt byggðarlag. Hún missti föður í æsku, síðan uppeldisreit fyrir norðan, svo mann úr fangi og frá ungum börnum. Hún varð að beita öllu sínu til að sjá sér og sínum farborða – en aldrei brotnaði hún – vann sín verk, beitti kunnáttu og var til fyrir börnin sín.

Nú verða engar myndir lengur til af Þórhöllu – þær eru allar innan í þér, í ástvinum og samferðafólki. Og mynd hennar er varðveitt – hún sjálf – í faðmi Guðs, sem ekki lætur sér nægja eftirgerð heldur aðeins frumgerð, elskar og sættir sig ekki við nema það besta. Þar má hún vera, þar má hún búa og þú mátt treysta að þar ríkir listrænn gleði Bakkafjarðar-Akureyrar-Lynghaga-fjölskyldunnar. Þar á hún heima – eftir æviferð hefur hún náð höfn eilífðar.

Guð geymi Þórhöllu að eilífu – og Guð geymi þig.

Amen

Þórhalla Gunnlaugsdóttir. Fædd í Höfn í Bakkafirði, N-Múl. 17. nóvember 1928.

Andaðist í Reykjavík 26. september 2013.

Maki:

Guðmundur Þórir Elíasson

Fæddur í Hafnarfirði 27. júlí 1928

Vélvirki, netagerðameistari, sjómaður

Látinn 8. febrúar 1959. Fórst með togaranum Júlí frá Hafnarfirði, við Nýfundnaland.

Börn:

Oktavía Guðmundsdóttir

Fædd í Reykjavík 9. september 1951

Fyrrum eiginmaður:

Kristinn Karl Guðmundsson 1951

Davíð Guðmundur Kristinsson 1971

Gunnar Andreas Kristinsson 1976
Núverandi eiginmaður:

Ólafur Torfason 1951

Torfi Karl Ólafsson 1992

Gunnlaugur Guðmundsson

Fæddur í Njarðvík 28. apríl 1954

Eiginkona:

Svanborg Marta Óskarsdóttir 1953

Birgitta Ósk Anderson 1974 (uppeldisdóttir)

Elías Þórður Guðmundsson

Fæddur á Akranesi 9. júní 1957

Núverandi eiginkona:

Hafdís Ólafsdóttir

Halla Ólöf Kristmundsdóttir 1957 Barnsmóðir

Eva Björk Naji Elíasdóttir 1978

Ásta Jóna Guðjónsdóttir 1961 Barnsmóðir

Rakel Elíasdóttir 1981

Kristín Valgerður Gísladóttir 1960

Foreldrar

Gunnlaugur Andreas Jónsson

Fæddur í Höfn, Skeggjastaðahreppi, N.-Múlasýslu. 23. október 1876

Látinn á Akureyri 13. maí 1933

Verslunarstjóri í Kaupmannshúsi, Bakkafirði. Bóndi í Höfn og Dalhúsum í Bakkafirði og Vopnafirði.

Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir

Fædd í Dalhúsum, N.Múlasýslu 21. desember 1889

Látin í Reykjavík 2. ágúst 1969

Systkini: 

Guðrún Gunnlaugsdóttir 14. febrúar 1913 – 20. febrúar 1977.

verslunarmaður

Jón Gunnlaugsson 08. maí 1914 – 14. apríl 1997

læknir á Reykhólum, Selfoss og Reykjavík.

Karl Gunnlaugsson 17. desember 1915 – 10. apríl 1989.

klæðskeri og bókavörður

Ottó Gunnlaugsson 24. júní 1922 – 20. maí 1991

myndlistamaður

Er Guð að leika sér að veröldinni?

augaHaustfasta er að hefjast í Neskirkju. Annað kvöld byrjar fjörutíu manna hópur föstu og mun breyta lífsrútínunni í tíu daga. Þeirra bíður merkileg vegferð, sem mun hafa áhrif á innra líf þessa fólks ekki síður en maga og húð. Þau axla ábyrgð á sjálfum sér, borða grænmeti og ávexti, hreyfa sig, neyta áfengis áfengis né drekka kaffi og njóta lífsins. Svo setur fólk sér markmið og býr til venjur sem má síðan nota áfram. Þátttakendur láta ekki aðra skilgreina líf sitt, hamingju, mat, drykk og verk, heldur axla ábyrgð á eigin velferð, rækta fólkið sitt og hið góða líf. Og þessi haustfasta Neskirkju er í samræmi við svonefndan meistaramánuð sem líka er hafinn og miðar að hollustu. Við erum kölluð til að vera meistarar í eigin lífi.

Já, það er hollt fyrir okkur að fara yfir forgangsmálin, endurraða og jafnvel endurræsa. Hvernig er með ástamálin þín og ástvini? Hefur þú tíma fyrir þau? Hvernig gengur þér að rækta sambandið við þann sem alltaf elskar þig – Guð? Svo er það líðan í vinnunni. Þarf eitthvað að gera í þeim málum? Hvernig er með heilsuræktina? Hver ber ábyrgð á næringunni þinni, fæðunni? Þú mátt gjarnan axla ábyrgð á þér og því sem til þíns friðar heyrir.

En svo eru það stærstu málin. Hver ber ábyrgð á þeim og heiminum? Hverjum er það að kenna þegar flóðbylgjur bana þúsundum? Er Guði að kenna þegar snjóflóð falla á bæ og margir deyja? Hver ber ábyrgð á blóðbaðinu í Sýrlandi, dauða sjö þúsund barna og hundrað þúsund almennra borgara? Er Guð kannski líka dólgur?

Fyrr í haust sat ég með fermingarungmennum hér í Neskirkju og ræddi við þau um ábyrgð manna og eðli Guðs. Skoðanir þeirra eru um margt ólíkar hugmyndum foreldra þeirra, hvað þá hugmyndum afa og ömmu. Unglingarnir í Vesturbænum hafa heilnæman skilning á mörkum ábyrgðar og þau kenna ekki Guði lengur um sjúkdóma, slys, hamfarir og hrylling. En hvaða hlutverki gegnir Guð þá?

Guðsafstaða á Íslandi er að breytast, hvernig fólk hugsar um Guð og áhrif Guðs og tengsl við heiminn. Eldri kynslóð Íslendinga er líklegri til að trúa, að almætti Guðs merki að ekkert verði án þess að Guð ákveði og framkvæmi. En yngri guðstrúarmenn hafa aðrar hugmyndir. Hvað gerir Guð og hvað ekki?

Dramatexti


Guðspjallstexti dagsins er um ábyrgð en líka um óvænta útkomu. Hann er dramatískur, nánast eins og plot eða grunngerð kvikmyndar. Þarna eru nægilega margar persónur til að mynda fléttu; blindur maður og svo hópur, sem yfirheyrir meistarann frá Nasaret. Þeir vilja fá hann til benda á sökudólginn, sem hafi valdið blindu mannsins sem hafði ekkert séð frá fæðingu.

Það var erfitt að stinga upp í Jesú en nú gerði hann hlé á orðum sínum og tók til gerða sinna. Og þá var útkoman yfirleitt önnur en fólk átti von á. Jesús var ekki handalaus orðabelgur. Orð og atferli fóru saman í lífi hans. Textinn lýsir drullumallaranum Jesú, sem bleytti leir með munnvatni og klíndi svo í hamin augu mannsins. Svo fór hinn blindi til að þvo sér – og þetta er allt eins og í góðu handriti.

Vantrúa vildu ekki trúa að blindur gæti séð – og Jesús notaði tækifærið til að lýsa yfir að hann væri sjálfur heimsljósið – sá sem skilur á milli lífs og dauða, sjónar og blindu. Fléttan er skýr varðandi tilgang mannlífs og ferla heims. Að Jesús laut að leir jarðar vísar til sköpunar varaldar. Í gjörningnum fólst að máttur Jesú er guðsmáttur sköpunar heimsins. Orð hans og verk hafa áhrif – til hvers? Til góðs.

Hver veldur?


En slysin, áföll og hamfarir? Hver ber ábyrgð á þeim? Margir samtímamanna Jesú álitu að ef einhver væri fatlaður, ætti í erfiðleikum eða byggi við fátækt mætti sjá í því refsingu Guðs vegna einhvers brots.

Viðræðufélagar Jesú notuðu dæmi af hinum blinda til að hanka Jesú: „Hver veldur blindu mannsins?“ Þeir gera ráð fyrir aðeins tveimur kostum. Að maðurinn hafi sjálfur gert eitthvað rangt og því orðið blindur. Eða að foreldrar hans væru sek í einhverju og því hafi refsingin komið niður á afkvæmi þeirra.

En Jesús neitar svo lokuðu orsakakerfi og einföldu guðsstraffi – tilveran sé flóknari og Guðstengslin djúptækari og merkilegri en svo. Guð hegðar sér ekki eins og handrukkari. Og Guð er ekki heldur eins og meðvirkur pabbi veifandi vísakorti til að redda unglingi úr klúðri.

Jesús einbeitti sér ávallt að því að hjálpa mönnum að endurræsa, öðlast betri tengsl við Guð og menn. Ég held, að við þurfum að henda burtu fordómum okkar og vitja þessar Jesúspeki. Það gerir unga fólkið í íslensku samfélagi – snýr frá úreltri trúarkenningu og túlkar vel og skynsamlega. Og þau miðla okkur mikilvægum skilningi á tengslum Guðs og manna, skapara og heims.

Vísindin og trúarskýringar


Hvernig eigum við að skýra böl og áföll? Jú, slys verða og mörg hafa af slysni valdið blindu – sinni eða annarra – eða af vangá öðrum örkumlun. Við erum ábyrg og gerðir okkar hafa afleiðingar. Við þekkjum líka flest harmsögur um gáleysi sem valdið hefur þjáningu og slysum. En það er ekki það sem Jesús vildi benda á í texta dagsins, heldur að Guð sprengir eða opnar kerfi orsaka og afleiðinga. Guð er ekki leppur í ferli og við eigum ekki að nota Guð sem vísindalega skýringu. Það eru aðeins bókstafstrúarmenn af forvísindalegu tagi sem einfalda svo barnalega. Og það er í raun guðlast að smætta Guð. Það eru hættulegir menn sem nota Guð til að lemja fólk og kremja og slíkir menn eru ekki á Guðs vegum.

Nei, Guð setur ekki fingur á hengjur svo snjóflóð æði af stað og valda dauða fjölda fólks. Guð pikkar ekki í frumur í fólki svo krabbamein myndast. Það er ekki Guð, sem sendir engil á vöggudeildina til að taka nýfædd og ómálga kornabörn.

Hvað þá? Ef Guð veldur ekki, hver eru þá tengsl Guðs við veröldina? Við getum talað um þau með a.m.k þrenns konar hætti.

Alveldið


Í fyrsta lagi er það alvaldskenningin, sem gerir ráð fyrir, að Guð sé orsök eða valdur alls, góðs og ills. Þessi kenning er raunar óhugnanleg og gengur sem betur fer ekki upp vegna þess að þar með er frelsi gert útlægt og tilveran – og menn þar með – verða leiksoppar einhverra geðþóttaduttlunga guðanna. Slík kenning er ekki kristindómur. Guð er ekki í rússneskri rúllettu með fólk og líf – leikur sér ekki að veröldinni.

Hönnuðurinn


Í annan stað er klukkusmiðskenningin um, að Guð hafi skapað heiminn en síðan dregið sig í hlé, sett úrverkið saman, skellt í það rafhlöðu en snúið sér svo að öðru. Þetta er hönnunarútgáfa guðsmyndarinnar. Hún er góð svo langt sem hún nær en gleymir alveg umhyggju Guðs og ástríki.

Frelsistengsl

Þriðja kenningin er frelsiskenningin um að Guð hafi vakandi áhuga á veröldinni, hafi skapað mönnum frelsi og gefið þeim vilja. Þessi Guð hafi alls ekki dregið sig í hlé, en vilji heldur ekki taka af mönnum sjálfræði.

Ég aðhyllist þessa síðustu útgáfu því hún rímar við myndina af Jesú guðspjallanna, er í samræmi við elsku hans og virðingu fyrir mönnum og lífi. Jesús var meistari í að hvetja menn til að losna við það neikvæða í lífinu, lifa í frelsi og gleði.

Mín skoðun er, að Guð valdi ekki hamförum heims en Guð sé þó nærri öllum þeim sem lifa góða daga en líka þeim sem líða og syrgja. Guð skapar forsendur gæða og reynir að hafa áhrif til góðs, ekki með því að grípa inn í þegar illa stefnir, heldur með því að leggja til góðar leiðir, gefa samhengi og benda til vegar.

Meistarinn Jesús biður um að menn hætti að láta fortíð og nútíð læsa sig inni. Hann kallar fólk úr fjötrum og til framtíðar. Hvað heftir þig? Úr hverju þarftu að losna? Hvað dreymir þig um að þú megir reyna, upplifa, verða og geta?

Erindi Jesú býr til nýjan heim fyrir þig. Þú þarft ekki að vera föst og fastur. Þú mátt, getur og nýtur styrks.

Andstæðurnar


Við, menn, spyrjum um orsakir, en Jesús um ávöxt. Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka – Jesús opnar. Menn læsast – Jesús leysir. Menn blindast en Jesús opnar lífssýn. Menn lokast í viðjum fortíðar og nútíðar en Jesús kallar úr framtíð. „Losaðu þig, slepptu, opnaðu, þorðu að vera, leyfðu þér að verða.“ Ábyrgðin er skýr en útkoman óvænt þegar Guð fær að elska.

Guð vill ekki vera brúðuleikstjóri heimsins, heldur vera vinur þinn og ástmögur veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur vill vera þér andlegt fang til hjálpar. Guð gefur þér frelsi hins elskandi vinar og skapar þér vonarveröld til framtíðar.

Hver er blinda þín? Leirkaka Jesú í nútíma megnar að opna lífið, losa höftin. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Hvernig viltu nota þennan mánuð til að vinna með stóru málin og dýptir þínar. Meistarinn kallar þig til meistara.

Amen

Upptaka RÚV á messunni í Neskirkju er að baki þessari vefslóð: http://www.ruv.is/sarpurinn/gudsthjonusta-i-neskirkju/06102013-0

B-röð 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Lexían; Sl.30.1-6


Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér
og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn,
ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju,
lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans,
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur,
en gleðisöngur að morgni.

Pistillinn: Fil 4.8-13


Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.

Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það. Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Guðspjallið: Jh 9.1-11


Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.