Ég er búinn að bjóða fólkinu mínu, konu minni, börnum og tengdasyni til Ísraels á næsta ári. Við förum til Betlehem, Nasaret, að Genesaretvatni, til Masada og einnig til Jeríkó. Við munum skoða liljur vallarins sem verða væntanlega í öllum regnbogans litum í Galíleu og upp á Golanhæðum. Við munum busla í Dauðahafinu og ganga píslarveg – via Dolorosa – Jesú í Jerúsalem. Lesa áfram Guð hvað?
Magnea Dóra Magnúsdóttir – 100
Tengdamóðir mín, Magnea Dóra, hefði orðið eitt hundrað ára í dag. Hún fæddist 25. nóvember árið 1920. Hún lést í árslok árið 2003, 31. desember. Minningarorðin sem ég flutti við útför hennar í Hallgrímskirkju 9. janúar 2004 eru hér á eftir.
Þegar líf hennar kviknaði slokknaði lífsljós pabbans
Báturinn hans Magnúsar hentist til í öldurótinu við Bjarnarey og hvolfdi. Allir bátsverjar fóru í hafið. Sigrún stórasystir stóð við gluggann heima og beið eftir pabba, sem aldrei kom. Sjórinn rændi hamingju, ástinni, fyrirvinnu og föður. Missir eiginmanns og föður var skuggi fjölskyldunnar á Jaðri, svo langur að hann teygði hramm sinn yfir allt líf Magneu Dóru Magnúsdóttur. Þegar myrkrið læðist að verða lífsljósin björt og sjást – jafnvel úr fjarska – og duga þegar bródera skal lífslistaverk.
“Drottinn gekk fram hjá … og kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.” (2. Mósebók 34:6)
Líf Magneu var nánast aðeins draumur Guðs þegar líf föður hennar hvarf í faðm Guðs. Líf hennar var nýkviknað þegar líf pabba hennar slokknaði. Hvaða gæska er það að skilja eftir ekkju með ómegð og nývakið fóstur? Hvaða tilfinningar til Guðs og manna hafa brotist um í þeim sem eftir lifðu? Hvers konar Guð ertu? Ertu miskunnsamur og harla trúfastur? Úr angistardjúpi er hrópað upp í myrkan himininn. Af hverju var ekki einu sinni hægt að fá að jarða hinn horfna? Hver kallar og til hvers?
Lífsstiklur
Magnea Dóra Magnúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 25. nóvember 1920. Foreldrar hennar voru Kristjana Þórey Jóhannsdóttir og Magnús Hjörleifsson. Kristjana var fædd í Holtum í Rangárvallasýslu, en Magnús var ættaður að austan, fæddist í Norðfirði. Hann lést í mannskaðaveðri 2. mars 1920. Hann var sjómaður og formaður á mótorbátnum Ceres. Þau Kristjana áttu tvö börn er Magnús féll frá. Kristinn er látinn en Sigrún lifir systir sína. Magnea Dóra fæddist tæpum níu mánuðum eftir að faðir hennar lést. Magnús hvarf en Magnea kom. Og hún hlaut líka Dórunafnið. Það er íhugunarvirði, að nafnið hennar merkir: Hin mikla gjöf! Enda sagði ljósan við móður hennar að hún yrði henni lífgjöf síðar. Það gekk eftir.
Kristjönu var vandi á höndum þegar hún var orðin ekkja. Henni var ráðlagt að selja Jaðarinn, sem hún gerði og sá eftir. Hún fékk að vera með börnin sín um tíma í einu herbergi í húsinu, en fluttist svo til skyldfólks í Vestmannaeyjum. Venslafólk og vinir studdu, en þó fóru í hönd áratugir basls og búferlaflutninga. Kristjana hélt fast í börnin sín, en samt slitnuðu þau frá henni henni á ýmsum tímum. Fjölskyldumyndirnar segja sláandi sögu. Það er glöð mamma á myndum áður en Magnús hvarf, en döpur augu sem stara í kalda linsu myndavélarinnar þegar Magnea var fædd. Kristinn fór að lokum til afa og ömmu í Sandgerði. Sigrún var í vist víða og stundum með mömmu. Kristjana var forkur, sleit sér út við vinnu, þrælaði til að koma börnunum til manns. Stritið og hinn horfni faðir var samhengi og ógnardjúpið sem Magnea Dóra ólst upp við. Hlutverk lífsins var að vinna úr.
Þegar Magnea Dóra var um tíu ára gömul fór hún til Sandgerðis, var nokkur ár hjá frændfóki sínu í Hjarðarholti og síðan í Sandvík. Hún sótti grunnskóla í Sandgerði bjó þar fram undir tvítugt. Öll stríðsárin bjó hún í Reykjavík, hér nærri Skólavörðuholtinu, þá kirkjulausu. Eins og mörg ungmenni á þeirri tíð fór Magnea Dóra á síld og var með systur sinni í fjörinu, slorinu og stritinu á Siglufirði. Veturinn 1942 –43 sótti Magnea Dóra Húsmæðraskóla Reykjavíkur og eignaðist þá lífsvini í vistarsystrum sínum. Vegna hannyrðahæfni var hún síðan ráðin að Hattabúð Soffíu Pálmadóttur og vann þar við sauma á árunum 1943 – 50, lærði að meta efni, snið og handbragð. Það reyndist henni síðan vel þegar hún rak eigið stórheimili.
Magnea Dóra vissi af Jóni Kr. Jónssyni. Hún hafði séð hann í Sandgerði þegar hún var unglingur, heyrði af krafti hans og dugnaði. Jón kom ofan af Skaga 1934 til að vinna hjá bróður sínum í þjónustu útgerðar þeirrar, sem síðar varð Miðnes og var forsenda allrar uppbyggingar í Sandgerði. Jón varð síðar útgerðarstjóri þess fyrirtækis. Þau Jón Kr. og Magnea Dóra gengu í hjónaband árið 1950. Hjúskapur þeirra var ást- og gæsku-ríkur. Þau báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru og voru vinir. Þó Jón væri öflugur stjórnandi á sínum reit virti hann skipstjórann í brúnni heima. Hann var natinn faðir, taldi aldrei eftir sér að sendast eftir efni, húsmunum, skoða og kaupa kjóla á allar konurnar sínar. Fyrsta barn þeirra var stúlkubarn, andvana fætt. Síðan komu þrjár systur, þær Ingunn Guðlaug, Kristjana og Elín Sigrún.
Húsmóðirin
Það kom sér vel á heimili, sem var opin félagsmiðstöð, að Magnea Dóra var húsmæðraskólagengin. Hún hafði gaman af verkum. Hún sneið og saumaði, stagaði vinnuföt af fólkinu sínu. Magnea Dóra var góður kokkur og vön mikilli matarumsýslu. Á meðan börnin voru heima og Jón Kr. vann erfiðisvinnu bakaði hún fyrir tíukaffi og síðdegiskaffi og svo fimmkaffi líka. Hún eldaði svo bæði fyrir hádegi og kvöldmat, saltaði, sultaði og saftaði eins og íslenskar konur gerðu á þeim tíma. En hún staðnaði aldrei, var alltaf tilbúin að skoða eitthvað nýtt. Það var ævintýri líkast að fylgjast með hversu snögg hún var þegar hún sá skemmtilega uppskrift í dagblaði að morgni. Þessi kona á níræðisaldri var oft búinn að kaupa hráefni og annað hvort baka eða elda réttinn um hádegið. Svo skannaði hún Gestgjafann og var alltaf til viðræðu um krydd og kokkarí. Hún fagnaði öllum sem þjóðhöfðingjum og þegar hún var búin að drekkhlaða borð með ótrúlega mörgum tegundum af mat lauk hún verkinu með setningunni: “Þið ruglist víst ekki á sortunum” og hló svo við.
Þau Magnea Dóra og Jón Kr. bjuggu allan sinn búskap, nær fjóra áratugi, í húsinu sem þau byggðu og stendur við Tjarnargötu í Sandgerði. Jón Kr. ætlaði að láta af störfum í árslok 1990 og þau hugðust flytja í bæinn. Áður en af því varð féll Jón með landfestakaðalinn í höndum á kæjann, aðeins sjötugur að aldri. Hann féll og dó í miðju verki á sínum stað. Magnea Dóra fór því ein frá Sandgerði. Hún bjó á Seltjarnarnesi í þrjú ár og flutti síðan á Grandaveg 47. Magnea Dóra Magnúsdóttir veiktist 29. desember og lést á gamlaársdag. Árið var liðið og lífi lokið.
Drottinn kallar og sólarsýn
„Drottinn … kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”
Mannvænlegt stúlkubarn dó í fæðingu, fæðingarskugginn settist að sálinni. Skuggi bernskunnar og föðursorgar og margflókins móðurmissis lengdist. Í Magneu Dóru var rifið og henni var skellt á jaðarinn, jaðar lífsins og gleðinnar. Hvorum megin myndi hún verða? Missir reynir stálið í fólki og þegar eldur sálarinnar geisar hrópar hún? Er tilveran gæskurík? Hver ertu Guð? Af hverju þessi áraun? Hafið þrumaði við ströndina, trommaði dauðans alvöru og nálægð voðans. Þegar óveðrin voru sem mest fór Jón Kr. niður að höfn og var oft einn að slaka og strekkja landfestar. Stundum skolaði honum jafnvel út í höfnina en náði að krafla sig upp og kom holdvotur – en lífs – heim. Magnea Dóra var stundum döpur og hrædd en móðir líknaði, systir studdi, eiginmaður hvikaði aldrei, vinkonurnar glöddu og hleyptu upp kátínunni. Lífskallið var að ofan frá þeim, sem ekki lætur sér nægja að hrópa til mannsins, heldur kemur sjálfur, fer alla leið í öldudjúp mennskunnar og sópar með sér öllu lífi inn í birtuna á ný. Í þeirri miklu sveiflu er allur geimurinn og líka einstaklingarnir. Magnea Dóra var hrifin með, fór frá jaðrinum á ný og inn í lífið með góðum manni og tápmiklum stelpum. Á Grandaveginum var hún sæl en sagði: „Mér er sama þótt ég sjái aldrei sjó, er búinn að fá nóg af honum!” Hún var þar sunnanmegin og hafði engan áhuga á öldunum, hafði algerlega snúið við þeim baki. Líf hennar var mót sólu og íbúar á Grandaveginum voru henni dásamlegir nágrannar.
Lífssamhengið og ríkidæmið innra
Þetta er hið stóra lífssamhengi Magneu Dóru. Hvað þýddu þessi köll um missi en þó gæsku? Þegar að fólki er þrengt verða kostirnir jafnvel aðeins tveir, líf eða dauði. Magnea Dóra valdi lífið og hún hafði líka bæði þroska, greind, visku og stuðning til að velja andleg lífsgæði og því varð hún bæði rismeiri, dýpri og skemmtilegri en flestir – og einnig áhugasamari um líf í nútíma en einhverri fortíð. Hún lærði að það er ekki gott að draga trossurnar á eftir sér þegar maður er búin að draga um borð. Þegar svo er komið siglir maður. Lífssigling Magneu var ekki síst fólgin í jákvæðri lífsafstöðu. Henni leiddist því barlómur og neikvæðni. Hún tamdi sér lífsgleði og forðaðist þumbara. Hún tamdi sér hlýju og sneiddi hjá kuldabolum í mannheimi. Hún gerði sér snemma grein fyrir að lífshamingjan er ekki fólgin í að fá og ná, heldur að gefa. Aldrei fór hún í heimsókn til vina eða ættingja án þess að koma færandi hendi. Servíettur, vettlingar, blóm, heimagerð sulta, brauð, kökur og súkkulaði í litla munna fóru í löngum og óslitnum röðum á heimili og í hús vina, ættingja og þeirra sem henni var annt um. Fyrsta hugsun hennar var að gefa og önnur hugsun að gefa meira. Hún átt ekki í sér snefil af neysluafstöðu sem reynir að bæta sér upp elskuskort og sálarsársauka með því að taka til sín, sölsa undir sig, kaupa eða hrifsa. Magnea Dóra hafði ríkidæmið innan sér og því gaf hún. Hann hafði þroskað með sér lífslán og lífsfyllingu. Og hún var spilandi orðhnittinn húmoristi. Hún lagði vel til allra og bætti úr hræðilegum uppákomum með því að kveða upp úr: „Það er best sem vitlausast.” Ungviðið fékk svo sitt uppeldi og lærði fljótt hvað gleypugangur væri og gerði sig ekki sekt um slíkt nema einu sinni. Orðin hennar Magneu og atferli var allt í þágu þess að gera gott, gefa fólki. Hún var með afbrigðum gjafmild og það var einn meginstofn persónu hennar.
Félagsþjónusta
Vegna þess að Magneu var umhugað um fólk og velferð þess axlaði hún meira en henni bar skylda til. Kona útgerðarstjórans hafði engar skyldur aðrar en þær borgaralegu við samfélag og atvinnulíf. En viðgerðarmenn í bátum, við vélar og hús komu heim í kaffi og mat fyrirvaralaust með Jóni því enginnn var veitingastaðurinn í Sandgerði. Magnea Dóra svaraði í símann allan sólarhringinn, hlustaði á talstöðina og miðlaði til síns manns. Hún miðlaði málum í hjúskapardeilum sjómanna og kvenna þeirra, gekk í sálgæslu gagnvart eiginkonum sem áttu í vandkvæðum, skaut skjólshúsi yfir þau sem áttu í útistöðum, var athvarf fyrir máttlitla og leyfði þeim sem voru í vanda að vera meðan þurfti. Hún var í fullri en launalausri vinnu við að stjórna félagsþjónustu Miðnes. Hennar hvati var að sinna kalli að innan.
Lífsvernd
Magnea hélt ákveðinn vörð um menntun og uppeldi dætra sinna, gætti að námi þeirra og hvatti þær til námsdáða. Og hún elskaði smáfólkið sem henni bættist smátt og smátt. Hún naut þess að bera það inn í lífsljósið og styðja við þroska þeirra. Þegar dóttirdóttir hennar, Tinna, fæddist fékk Magnea nýtt hlutverk í lífinu sem hún tók fagnandi. Hún varð amma. Tinna var langdvölum á heimilinu í bernsku. Síðan kom Magnús og þau urðu bæði ömmunni augasteinar. Þegar hún fluttist í bæinn varð samgangurinn enn meiri. Magnea Dóra var barnagæla og elsk að ungviði stórfjölskyldunnar.
Menningargleðin – að lifa í núinu
Magnea Dóra var óbangin við Reykjavíkurbraginn þegar hún flutti í bæinn. Hún var fullkomlega opin eins og ungmenni gagnvart hvers konar hræringum í menningarlífinu. Hún ræddi um nýjustu myndböndin á Popptíví við unglinga, sló þeim við í yfirsýn varðandi nýjustu myndirnar í bíó. Henni fannst gaman í óperunni, var næm á tónlist og sá efni í tenóra á löngu færi meðan þeir voru enn blautir á bak við eyrun. Það var hrein upplifun að fara með henni í leikhús, hún þekkti alla leikara, gat áreynslulaust rakið leiksögu þjóðarinnar. Henni var sama um þó hún missti af sumu af því, sem við bulluðum í kringum hana, en þegar hún heyrði ekki lengur hvað leikararnir sögðu fékk hún sér heyrnartæki. Hún vildi ekki fara á mis við þau gæði. Þegar hún dó átti hún að sjálfsögðu miða á sýningu í Borgarleikhúsinu. Hún stoppaði í Kringlunni fyrir framan tískuverslanirnar, skannaði efni og sniðin. Og gerði sér nákvæma grein hvernig skvísufatnaður hvers tíma var. Það var svo hressandi að upplifa endurvinnslu hennar í lífinu og hve síung hún var. Hún var vitur nútímakona og óhrædd við framtíðina. Hún átti traustið í grunni sálarinnar og það er systir trúarinnar. Af því hún var svo félagslynd sótti hún út til fólks, sótti að vera með fólki þar sem verið var að skapa, iðja eitthvað merkingarfullt.
Hvað ætlum við með sögu Magneu Dóru?
Drottinn kallaði! Hvað kallar Guð á langri ævi, í missi og gjöf, þjáningu og gleði? Kall Guðs er:
“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”
Magnea hafði heyrt þetta kall. Hún valdi að lifa, hún hafði orðið endurómur þess hróps í lífinu. Hún var miskunsöm og líknsöm, þolinmóð og gjafmild. Trúföst í öllum tengslum við fólk. Guð kallaði – hún heyrði og svaraði með þvi að lifa vel. Undarlegt er að hugsa um bernskuhúsið hennar í Vestmannaeyjum. Í Heimaeyjargosinu geisaði hraunið fram og stefndi beint á það. Eyðingarflóðið náði þó aldrei að hremma húsið hennar. Það stendur enn – og við hraunfótinn. Svo var lífið hennar Magneu Dóru. Hraunelfur sorgarinnar sótti að henni. Hún var um tíma á jaðrinum, en lifði og lifði síðan stórkostlega. Svo lifir hún með fullum lífskrafti til enda árs og deyr svo fullkomlega óvænt á gamlaársdag. Alveg í samræmi við lífshátt, skopskyn og lífsafstöðu.
Hvað getum við lært og gert? Við eigum í Magneu Dóru fyrirmynd um að heyra kall miskunnsemi og gæskunnar, snúa okkur að ljósinu og lífinu, draga ekki fortíð með okkur í tíma, heldur lifa í krafti upprisu og að lífið er gott – því Guð er gæskuríkur.
Magnea Dóra lifði ríkulega meðan hún var á lífi og svo dó hún algerlega, en við jaðar ársins. Hún elskaði hið nýja og óflekkaða ár, fór alltaf í kirkju til að fá að syngja sálmana á nýja árinu. Nú fer hún af jaðrinum sínum, alla leið, inn í miðju lífsgleðinnar, inn í miðju jákvæninnar, huggunarinnar, inn í miðjuna þar sem ástirnar hennar eru, dóttir, maðurinn hennar, pabbi, mamma og öll hin sem hún elskaði svo heitt. Þar er Guð, sem safnar öllu lífi saman í einn mikinn lofsöng. Þar er ekki aðeins kallað heldur sungið hástöfum:
“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”
Minningarorð við útför frá Hallgrímskirkju 9. janúar 2004. Myndina af Magneu Dóru og Elínu Sigrúnu tók ég í Hamraborg í Árnessýslu sumarið 2001. Það var svo gaman hjá þeim mæðgum í lautarferðinni að læknum.
Móðir, faðir, vinur – Guð
Vertu Guð faðir, faðir minn / í Frelsarans Jesú nafni / Hönd þín leiði mig út og inn, / svo allri synd ég hafni.
Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað þýðir það og hvernig getur slíkt orðið? Jesús tala um föðurtengsl í guðspjalli dagsins. Hallgrímur Pétursson ljóðar svo fallega bænaversið, sem við biðjum gjarnan í messum, einnig í heimahúsum, með börnum og fullorðnum, gamalmennum og deyjandi. Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað merkir það?
Hvaða minningar áttu um mömmu og pabba? Staldraðu við og hugsaðu til baka. Hvaða mynd kemur strax í hugann af móður þinni? Hver er mynd þín af honum pabba þínum? Hugsaðu aftur um viðbrögð þín núna. Hvað tilfinningar vakna? Eru það hlýjar elskutilfinningar eða blendnar tilfinningar, jafnvel kuldi í garð annars þeirra eða beggja? Er einhver biturleiki eða sorg í þeirra garð, kannski líka hræðsla? Eða vanknar innan í þér sumarbjört gleðitilfinning, heit gleði og þakklæti?
Afstaða til foreldra er margþátta flétta af ýmis konar og jafnvel ólíkum tilfinningum mennskunnar. Og foreldrafstaða hefur mjög mikil áhrif á afstöðu fólks til Guðs. Ef þú átt vonda reynslu af öðru foreldrinu áttu vísast í erfiðleikum með Guðsímynd þína og tengslin við Guð. Það er þekkt að ef foreldrar hafa beitt börn og maka ofbeldi þá eiga börn ofbeldisfólksins í erfiðleikum með að hugsa um og ímynda sér Guð sem föður eða móður. Mæður rétt eins og feður geta lemstrað og marið tengsl. Þegar svo er komið er nauðsynlegt að nýta sér elskuímyndir einhverra annarra til að tákna hið guðlega í lífinu – t.d. ömmu, afa, fóstra eða stjúpu.
Íslenskar fjölskyldur eru ekki einfalt kjarnakerfi heldur oft raðfjölskyldur og þar koma við sögu svo margir, sum sem efla vöxt og þroska, en önnur sem hindra eða særa. Því er mikilvægt að við stöldrum við til að skoða hver við erum og undir hvaða áhrifum.
Pabbi
Hvað er minn faðir? Hver er mín móðir? Eiginlega eru þær spurningarnar um hvað ég er – hvað þú ert.
Í guðspjalli dagsins talar Jesús um samskipti sín og föðurins himneska. Við fáum ofurlitla innsýn í hvernig hann upplifir Guð föður – og hvernig hann er eða bregst við sem sonur. Allt er mér falið af föður mínum – sem sé þeir deila öllu … enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn. Gagnkvæmnin er bæði alger og eðlileg á milli þeirra.
Þessi tilfærðu orð Jesú standa í samhengi bænahalds. Jesús talaði við Guð og var ekki hljóður eða bíðandi í þeirri samveru. Jesús ræktaði sambandið við þann sem hann þekkti að því einu að vera honum góður og gjöfull faðir. Alla ævi tamdi Jesús opinská tengsl og tal við Guð, talaði frá hjarta til hjarta. Allt sem kom upp í lífsbaráttu Jesú – sem jafnframt var glíma hans við ógnvænlegt hlutverk – bar hann fram fyrir föður sinn, talaði hjartans mál sín. Jesús vissi vel til hvers orð og verk gætu leitt. Hvert orð hans var vegið og gæti leitt til dauða hans sjálfs og þeirra, sem fylgdu honum í fullkomnu trausti. Samtal Jesú var því mjög þrungið.
Jesús ávarpaði föðurinn með heitinu Abba. Það er sama nafnið og börn alls heimsins umla í frumtilraunum til að ávarpa heiminn og þau nánustu heima. Þegar Jesús talar við Guð er hann ekki aðeins að tala við frumkraft himingeimsins eða lífsmátt jarðar, heldur að tala við sinn besta vin sem er stórkoslega góður: Elsku, góði pabbi minn!
Afstaða barnsins
Jesús gerði ekki lítið úr viti, dómgreind og andlegri skerpu þegar hann segir að faðirinn himneski hafi ekki opinberað spekingum og hyggindamönnum viskuna, heldur smælingjum. Það er upplýsandi og hollt að skoða gríska textann að baki guðspjallinu. Það sem þýtt er með smælingjum er sama orðið og notað er um börn. Sem sé Guð kemur til barnanna, til þeirra sem eru minni máttar – til þeirra sem eru tilbúin að opna huga og líf fyrir undri lífsins. Jesús hafði reynsluna af að hyggindamennirnir báru fyrir sig alls konar fyrirvörum og undanslætti. Klókar konur og karlar munu alltaf finna sér undanbrögð og sjálfhverfar leiðir. En Jesús leggur áherslu á að við menn erum manneskjur, að við þörfnumst hlýju, trausts og erum nándarverur. Við erum börn inn í okkur – í því er fegurð okkar fólgin og möguleikar einnig. Við ættum að viðurkenna það eðli okkar og gæta að því að láta ekki klókindi afvegaleiða okkur.
Og svo snýr Jesús sér til allra mannabarna og segir: „Komið til mín, ég mun veita ykkur hvíld.“ Þessu kalli hans hafa menn hlýtt um aldir, fallið í faðm hins góða sonar, hins góða föður, horfið í hinn hlýja fjölskyldufaðm himinsins.
Móðir, faðir, vinur og lífgjafi
Í guðspjalli dagsins er talað um föðursamband Jesú. En Biblían er ekki kynlega einsýn! Mótunarlíf og reynsla fólks er ekki aðeins bundin hinu föðurlega, heldur einnig hinu móðurlega. Á þessum degi þegar kirkjan íhugar frumtengslin og faðerni þar með – er móðerni ennfremur til skoðunar. Lexía dagsins er í spádómsbók Jesaja. Þar eru brjóst til að sjúga og hvíla við í velsæld. Þar er hossað á hnjám og boðið til burðar á mjöðminni. Það er hið kvenlega myndmál sem einnig er notað til að virkja tilfinningar og skilning fólks á guðlegum veruleika. Samhengi fólks í öllum myndum verður til að menn skilji samhengi sitt og tengsl við Guð betur.
Mamma og pabbi
Ég var svo lánsamur að eiga góða foreldra og jákvæð tengsl við þau. Þau höfðu bæði mikil áhrif á mig og lögðu bæði vel til míns þroska og persónumótunar.
Þegar móðir mín var var orðin háöldruð gerðist eitthvað í höfði hennar. Skerpan fór og það sem hún sagði var ruglingslegt. Rannsóknir sýndu að tappi hafði farið í heilann og skammtímaminnið brenglaðist. Það var átakanlegur tími að horfa á bak góðri dómgreind hennar, uppgötva að hún mundi ekki lengur hvað var hvað og hver var hvurs. Ár og áratugir verptust og brengluðust í gríðarlegum tímagraut. Ég sat hjá henni, hlustaði og hugsaði um þessa konu og hvað væri einkenni persónu hennar. Hún var ekki lengur aðeins þessi yndislega mamma, einbeitt í uppeldi, staðföst í lífinu og rismikil í skoðunum. Varnir hennar voru farnar og dómgreindin gölluð en þá fengum við, ástvinir, að sjá betur kjarna hennar. Þegar við misstum hana frá okkur sem persónu, þá sáum við betur persónudýpt hennar. Þegar varnarhættir hennar voru farnir og ættingjarnir komu í heimsókn breiddi hún út faðminn og fagnaði svo innilega að við upplifðum óflekkaða og hreina elsku. Þegar minni og varnir hurfu – hvað var þá eftir? Það var ástin hrein. Þá uppgötvaðist hve ævirækt hennar í samskiptum við Guð skilaði henni ást ellinnar. Bænir hennar um að hún mætti vera Guðs barn var svarað með undursamlegri elsku líka í elli hennar. Þegar sorgin nísti okkur vegna þess að persóna hennar brenglaðist var gott að upplifa að kjarni hennar, innræti hennar var elska – af því að hún ræktaði elskuna alla ævi, kunni að biðja: Vertu Guð faðir, faðir minn…og naut þess síðan sjálf á ævikvöldi.
Guðstengsl þín
Hver er mynd þín af pabba og mömmu? Það eru myndir sem hafa mótast af reynslu þinni af þeim, góðri eða vondri. Ef þú átt bága reynslu af öðru hvoru þeirra muntu draga hana með þér allt lífið og inn í samskipti þín við Guð. Ef þú hefur átt trausta bernsku, traust í foreldrum í hvívetna áttu festu í þér til að ganga inn í Guðssambandið. Ef faðir eða móðir voru fjarlæg þér í bernsku verður Guð þér fjarlægur og erfiður. Ef þú naust elsku getur þú betur skilið elsku himinsins.
Hver er minning þín um tengsl við foreldra? Svarið við þeirri spurningu áttu innan í þér. En lyftu þessum minningum upp, vegna þess að nú er þér boðið til nýrra tengsla, nýrra samskipta. Jesús býður þér að ganga inn í Guðstengsl sín, læra að tala við Guð sem elskuveru, Guð sem föður, Guð sem móður, Guð sem vin. Þú mátt fella klókindi þín og fordóma um Guð, gera upp við reynslu fortíðar og bernsku og ganga algerlega inn í nýtt samband við Guð. Þú mátt vera barn Guðs. Þar er aðeins elska sem stendur þér til boða – en aðeins ef þú vilt.
Lof sé þér sem ert Guð faðir, móðir og elska. Amen.
Neskirkja, 17. nóvember, 2013
Textaröð: B
Lexía: Jes 66.10-13
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.
Pistill: Opb. 15.2-4
Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.
Guðspjall: Matt. 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
Málmhaus
„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”
Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.
Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.
Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?
Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.
Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.
Sorgarvinna
Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.
Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.
Traust
Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.
Kirkjubruninn
Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.
En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.
Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.
Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?
Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.
Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.
Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.
Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.
Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013
21. sd. eftir þrenningarhátíð – B
Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.
Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.
Guðspjallið: Jh. 4. 34-38
Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.
Þorsteinn Bjarnason – minningarorð
Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?
Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.
Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.
Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.
Upphaf og fjölskylda
Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.
Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.
Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.
Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.
Hjúskapur og strákarnir
„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.
Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.
Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.
Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.
Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.
Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.
Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.
En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.
Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.
Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.
Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.
Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.
Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.
Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.
Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.