Guð söngsins

endurnýjunGef að við mættum syngja þér nýjan söng.
Þú hefur gert dásemdarverk – gef okkur rödd, mál og söng í lífi okkar.
Gef að söngur um ást þína megi hljóma í öllu því sem við iðjum. Þökk fyrir öll þau sem hjálpa okkur að syngja um þig og til eflingar gleði í heimi.

Blessa samfélag okkar Íslendinga.
Legg þú verndarhendi á forseta, ráðherra, þingmenn og dómara.
Gef þeim réttlæti og þjónustuanda og vit til að greina milli eigin hags og almannahags.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Guð frelsis og lækningar
Þökk fyrir páska – fyrir að lífið lifir – að þú lifir.
Vitja allra þeirra er þjást og syrgja, sakna og gráta.
Styrk þau öll og veit þeim von.
Gef þeim trú, traust, björg og blessun.

Við biðjum fyrir öllum þeims sem eiga um sárt að binda í Nepal.
Vitja allra þeirra sem eru ofsóttir fyrir trú á þig í þessum heimi.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Góði Guð
Blessa þú heimili okkar.
Gef okkur vit til að viðurkenna mistök okkar
og kraft til að biðjast fyrirgefningar þegar við höfum brotið af okkur,
mátt til að styðja heimilisfólk okkar til góðra starfa.

Gef að heimili okkar mættu vera vaxtarreitir til hamingju,
iðkunarstaðir góðra gilda og glaðvær vettvangur fyrir fólk.
Opnir staðir söngsins og faðmar fyrir hina grátandi.

Gef að við mættum lifa með þér og vera farvegir þínir.

Gef að við megum lifa í ástarsögu þinni og miðla henni í lífi okkar.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Amen.

Bæn á söngdegi, cantate, 4. sd. eftir páska, 3. maí, 2015

Sigríður Steinunn Lúðvígsdóttir – minningarorð

Sigga Steina valdi alltaf lífið og elskaði skilyrðislaust. Mér þótti hrífandi að hlusta á ástvini hennar lýsa hve fast hún hélt í allt sem gladdi og blessaði. Sögurnar sem þau sögðu um hana voru í mínum eyrum páskasögur – að lífið lifir – sögur um að lífið er sterkari en dauðinn. Sigríður Steinunn var lífs megin og fer inn í líf himinsins.

Páskar

Biblíutextarnir, sem lesnir eru í kirkjum heimsins á páskum, segja frá sorgbitnum konum. Þær höfðu ekki aðeins misst vin í blóma lífsins, heldur líka málstað. Konurnar á leið til grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf. Á þeirri sorgargöngu voru þær fulltrúar alls mannkyns. Við missum, veikjumst, óttumst og lendum í ógöngum. Í lífi allra manna verða áföll – við erum öll föstudagsfólk.

Að baki löngum föstudegi er sunnudagur og páskar. Þegar harmþrungnar konurnar komu í garðinn var steinninn frá og gröfin tóm. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan hefur verið sögð og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Gröfin sleppti feng sínum og lífið lifir. Páskaboðskapinn breytir veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi tilveru til dauða. Ekkert er svo slæmt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Við megum vera sunnudagsfólk, páskafólk, lifa í því ljósi og deyja til þess bjarta og góða lífs. Sigga Steina fer inn í ljósið.

Upphaf og ætt

Sigríður Steinnunn fæddist 18. ágúst árið 1933. Hún átti sama afmælisdag og Reykjavíkurborg og þótti ljómandi gott að flaggað var í Reykjavík á þeim degi, henni til heiðurs – en borginni einnig.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Hallgrímsdóttir (1899-1992) og Lúðvíg Guðmundsson (1897-1966). Sigga Steina var yngsta barn þeirra. Eldri voru Hallgrímur sem fæddist árið 1927. Ingveldur Gröndal fæddist árið 1929 og Guðmundur Áki fæddist árið 1931. Ingveldur og Guðmundur lifa systkini sín.

Lúðvíg var fjölmenntaður maður, lærði m.a. náttúrufræði, læknisfræði, heimspeki og guðfræði og var vel að sér í þýsku og þýskum bókmenntum og menningu. Hann var einn af kröftugstu skólamönnum þjóðarinnar um miðbik tuttugustu aldar. Hann starfaði við kennslu og skólastjórn – á Ísafirði, við Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði og síðast í Reykjavík.

Móðir Sigríðar Steinunnar hafði lært tónlist í Danmörk og var hinum dugmikla Lúðvíg, manni sínum, jafnoki. Þau bjuggu á Ísafirði þegar Sigríður Steinunn fæddist. Hallgrímur, elsta barn þeirra, veiktist alvarlega í æsku og foreldrarnir leituðu honum lækninga erlendis. Það varð til þess að börnunum var komið um tíma fyrir hjá ættingjum. Sigga Steina fór til Soffíu, móðursystur í Borgarnesi. Hún var aðeins fjögurra ára þegar hún fór af heimili sínu fyrir vestan og fólkið hennar í Borgarnesi var henni gott. Henni þótti afar vænt um það alla tíð síðan.

Í Reykjavík

Þegar Sigríður kom aftur heim til Íslands með Hallgrím sameinaðist fjölskyldan að nýju og þá í Reykjavík. Það var þeim öllum mikill fagnaðartími. Árið 1939 stofnaði Lúðvíg Handíða- og myndlistaskólann sem síðar var nafnbreyttur í samræmi við breyttar áherslur og varð Myndlista- og handíðaskólinn. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Reykjavík en frá árinu 1942 var skólinn til húsa á Grundarstíg 2a. Á efstu hæð hússins bjó stórfjölskylda skólastjórans, naut aðstöðunnar en varð líka að sinna kröfum skólans utan hefðbundins vinnutíma.

Tíminn á Grundarstígnum var “gloríus” sagði afkomandi Siggu Steinu. Mannlífið í húsinu var mjög fjölbreytilegt og fjölskyldan öll sprelllifandi og lífsglöð. Margt skemmtilegt fólk sótti skólann og andríkið og menningarlífið liðaðist um allt húsið. Þekking og viska læddist inn í börnin ekki síður en gesti. Rætt var um samfélagsmál, tilraunir voru gerðar í listum og menntum og skólastjórahjónin vöktu yfir velferð barna sinna en einnig fjölda annarra, nemenda og ástvina.

Systkinin notuðu skólahúsið til leikja og menningariðju. Margt var brallað og gleðin fann sér farveg. Meira að segja beinagrindin sem notuð var fyrir teiknikennsluna kom að gagni í leikjum barnanna.

Sigríður Steinunn naut borgarlífsins. Hún sótti skóla fyrst í Miðbæjarskólanum og fór svo eins og systkini hennar í Menntaskólann í Reykjavík. Hún eignaðist góðan og tryggan félagahóp í Miðbæjarskólanum og síðan annan í MR. Tengslin við þessa hópa ræktaði Sigríður Steinunn alla tíð og vinirnir voru henni afar mikilvægir. Jafnvel sárlasin fór hún til funda við vinahópana. Lífið á menntaskólaárunum var henni mikill gleðitími. Og eins og margra menntskælinga er háttur stundaði hún kaffihúsin, ekki til að eyða þar stórfé heldur til að tala, gleðjast og þroskast.

Sigríður-Steinunn-Lúðvígsdóttir_ungSigríður Steinunn lauk stúdentsprófi árið 1953. Hún var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands á árunum 1952-54. Sigga Steina var vön því að fólk kom til föður hennar til að fá fyrirgreiðslu með nám erlendis og því var henni næsta eðlilegt að fara utan líka. Hún tók stefnuna á Vín og Lúðvíg hafði mikil og góð sambönd í hinum þýskumælandi heimi. Sigríður Steinunn stundaði svo þýsku- og bókmenntanám í Vín 1954-55. Og þar sem Sigga Steina var vön lista-sellunum og spírunum á Íslandi var henni ekkert sjálfsagðara en að umgangast listamenn heimsins í Vín. Og þó stóra herbergið hennar Sigríðar í Vín hafi verið kalt var listalífið fjölbreytlegt og háskólalífið hvetjandi. Vínarárið var hlýr tími í minningum Siggu Steinu.

Einar, börn og afkomendur

Og svo kom Einar Árnason, lögfræðingur, sem vann lengstum hjá Vinnuveitendasambandinu. Þau höfðu kynnst heima og Einar kom til Vínar, bað hennar og þau Sigga Steina féllu í faðma og gengu í hjónaband. Og sumarið 1955 fóru þau Einar og Sigríður Steinunn í mikla brúðkaupsreisu um Evrópu, m.a. til Ítalíu. Þau kunnu ekki ítölsku en í ljós kom að skólalatínan kom að góðum notum. Piazza á Ítalíu er latnesk, þar lifa fornar tungur og sagan er þykk.

Um tíma bjuggu þau Sigga Steina og Einar í London þar sem hann stundaði framhaldsnám og þar fæddist Berljót Sigríður vorið 1956. Þrenningin flutti heim í maímánuði það ár. Árið 1959 fæddist Páll Lúðvík og fjölskyldan leigði í Eskihlíð og við Ægisíðu. Þau festu svo kaup á íbúð í Grænuhlíð og þar fæddist Svanbjörg Hróðný árið 1964. Í Grænuhlíðinni bjó fjölskyldan árum saman.

Vinir barna Siggu Steinu minnast þess að heimili hennar var opið heimili og alltaf tókst henni að töfra fram nægan mat handa hálfu Hlíðahverfinu. Allir voru velkomnir. Við alla talaði hún með hlýju. Svo virtist Sigga Steina alltaf eiga nógan mat. Gjöful og elskuleg í samskiptum og smitaði frá sér mannvirðingu. Ekki einkennilegt að Sigga Steina var ekki aðeins mikils metin af vinum og jafnöldrum heldur urðu vinir barna hennar vinir hennar einnig.

Þau Einar og Sigríður Steinunn skildu árið 1972 og hann lést árið 1992. Bergljót eignaðist tvíburana Hákon og Steinunni Soffíu árið 1983 með Tore Skjenstad, fyrri manni sínum. Eiginmaður Bergljótar er Magnús Guðmundsson. Bergljót er arkitekt.

Páll er matvælafræðingur og bókasafnsfræðingur.

Eiginmaður Svanbjargar er Kristinn Örn Jóhannesson og þau eiga þrjár dætur, Ólöfu Sigríði (2003) og tvíburana Bergljótu Júlíönu og Laufeyju Steinunni (2005). Svanbjörg er fjölmiðlafræðingur og leiðsögumaður.

Atvinna og frelsi

Þegar börnin voru komin í skóla fór Sigríður Steinunn að vinna utan heimilis að nýju. Hún vann um tíma í Háaleitisapóteki, fannst vinnan skemmtileg og velti vöngum yfir að skella sér í nám í greininni. En hún færði sig svo yfir í bankaheiminn. Um tíma vann hún í Útvegsbankanum og síðan hjá Íslandsbanka og gegndi ýmsum störfum innan bankans. Sigga Steina fór á eftirlaun þegar hún var 66 ára gömul og eftir það fór allt á verri veg í bankaheiminum en hún bar enga ábyrð á þeim málum.

Sigga Steina nýtti aukið frelsi vel. Hún ferðaðist innan lands sem utan, sótti sýningar og tók þátt í viðburðum samfélagsins. Hún var með fastamiða í leihúsinu, sótti námskeið og fylgdist afar vel með listalífinu. Í því naut hún menntunar og mótunar á bernskuheimili sínu og alla tíð hafði Sigríður Steinunn vakandi áhuga á því sem efst var á baugi í menningu þjóðarinnar. Svo hafði hún mikla gleði af fólkinu sínu, gladdist og skemmti sér með börnum sínum, barnabörnum, ásvinum og vinum. Og þjónaði sínu fólki með natni.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju Bergljótar Sveinsdóttur sem er utan lands. Sömuleiðis biðja fyrir kveðju: Þorvaldur H. Gröndal, Lára Sveinsdóttir og Þórunn Þ. Gröndal sem eru einnig erlendis og koma því ekki til þessarar athafnar. Systurnar Katrín Lilja Ólafsdóttir sem er búsett í London og Inga Lára Ólafsdóttir, sem eignaðist dreng í fyrradag, senda kveðjur og þakka frænku þeirra fyrir samfylgdina.

Litríkar minningarnar

Hvaða minningar áttu um Siggu Steinu? Manstu hve glæsileg hún var? Ég mun ávallt muna augnatillit hennar og íhugul en glettnisleg augun. Manstu eftir Sigríði Steinunni á fjöllum, á hálendinu?

Manstu eftir lífsgleði hennar – að hún var gleðigjafi? Að hún var fólki svo elskuleg og glöð að allir hrifust og löðuðust að henni. Manstu hve natin hún var, skilningsrík og umburðarlynd?

Manstu eftir henni í jafnréttisbaráttu og hve viljug hún var að beita sér í þágu réttláts þjóðfélags? Jafnvel lífshættulega veik fór hún á fjöldafund til að standa með mikilvægum málstað og samfélagslegri sanngirni.

Manstu eftir seiglu Sigríðar Steinunnar? Að hún hélt áfram og lét ekki bugast? Manstu göngukonuna sem var á ferð um bæinn, setti svip á bæinn sjálf og naut ferðanna um borgina?

Manstu eftir konunni með espressókaffið í litlum bolla og kökubita á kaffihúsum borgarinnar?

Manstu eftir ömunni sem hlustaði í andakt á barnabörnin spila á tónleikum í barnamúsíkskólum og skólalúðrahljómsveitartónleikum?

Manstu eftir henni hoppandi og hrópandi „áfram Valur, áfram Valur“ á fótboltaleikjum ömmustelpna sinna?

Manstu kímni Sigríðar Steinunnar? Hve laginn og jákvæð hún var og gat sett saman hnyttnar setningar sem rímuðu fullkomlega við aðstæður, vilja hennar en særðu þó engan?

Manstu eftir sumarbústaðafrúnni í Hvammi á Grímsstöðum? Hve vel henni leið og hve hún blómstraði á yndisreit hennar í sveitinni?

Nú er hún farin. Þú færð ekki fleiri símtöl frá Siggu Steinu. Hún gefur þér ekki gott að borða eða kaffi í litlum bolla á fallegu heimili. Hún heldur ekki út í gönguferð dagsins. Hún fer ekki á fleiri sýningar í leikhúsinu. Hún er farin inn í ljósheim Guðs, sem elskar takmarkalaust og skilyrðislaust.

Guð geymi Sigríði Steinunni Lúðvígsdóttur. Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð 9. apríl, 2015. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Bálför og jarðsett síðar í Fossvogskirkjugarði.

Sr. Birgir Ásgeirsson kveður Hallgrímssöfnuð

BirgirPrestaskipti verða í Hallgrímskirkju á næstunni. Sr. Birgir Ásgeirsson varð sjötugur 9. mars síðastliðinn og kveður Hallgrímssöfnuð í messu 22. mars. Birgir hefur þjónað sem prestur Hallgrímskirkju frá árinu 2006 og verið prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra síðustu fjögur ár. Birgir var vígður til Siglufjarðar árið 1973 og varð sóknarprestur í Mosfellsprestakalli árið 1976. Frá 1990 og í fimm ár var hann sjúkrahúsprestur og frá 1996 prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn og þjónaði einnig Íslendingum í Svíþjóð um tíma frá 1997. Birgir var sjúkrahúsprestur frá árinu 2002 þar til hann varð prestur Hallgrímskirkju.

Sr. Birgir á að baki afar farsælan feril sem prestur þjóðkirkjunnar. Að auki hefur hann starfað hjá ýmsum félögum, samtökum og fyrirtækjum og verið kallaður til ábyrgðarstarfa. Birgir er kunnur fyrir sálgæslufærni og nýtur virðingar fyrir lagni í stjórn kirkjumála í Reykjavík. Í Hallgrímskirkju hafa prédikanir hans og hugleiðingar vakið verðskuldaða athygli.

Eftir kveðjumessuna, sem hefst kl. 11 eins og barnastarf kirkjunnar, verður kaffi á könnu og kaka á borði í Suðursal kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Hallgrímssöfnuður þakkar sr. Birgi Ásgeirssyni frábæra þjónustu.

Ég er Guð

storstavalt_logo_NY_130Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur urðum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.

God’s chosen – God’s frozen

Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.

Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.

Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!

Orðin tíu

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.

Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.

Lögin verða til

Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!

Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.

Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.

Íslensk saga og orðin tíu

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?

Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.

Óskar S. Gíslason – minningarorð

Óskar hafði áhuga á lífinu, studdi lífið sem honum var falið og stuðlaði að lífi. Hann hafði ekki aðeins áhuga á lífi fólks heldur líka lífinu í náttúrunni. Hann bar virðingu fyrir lífsundrinu og gerði það sem hann gat til að það líf sem að honum sneri mætti njóta næringar og verndar.

Útungun og líf

Óskar var líklega sautján ára gamall þegar hann var ábyrgur fyrir útungunarvél á Sólheimum í Grímsnesi. Í vélinni var fjöldi frjóvgaðra eggja sem lágu í ylnum. Lífið var í gerðinni og Óskar fylgdist vel með að hitinn væri jafn. En Óskar þurfti í skreppa til Reykjavíkur og þá bað hann fólk á Sólheimum að passa eggjaflokkinn og útungunarvélina. Svo fór hann, sinnti sínum erindum og kom svo austur aftur og vænti þess að smálífin í eggjunum væru heil innan skurnar. En Óskari til sorgar og skapraunar hafði eitthvað misfarist í vöktuninni. Eggin höfðu kólnað og lífið hafði fjarað út. Þá lauk bernsku Óskars og fullorðinslíf hans hófst. Hann ákvað að flytja frá Sólheimum. Hann fór suður, fór að vinna og leit hans hófst að samhengi, fólkinu hans og lífsláninu. Útungunarvélin og lítil egg voru sem táknmynd um lífssókn Óskars Svan Gíslasonar.

Upphaf og lífsstiklur

Það var heillandi að hlusta á sögur ástvina og sonarins Snorra. Ævi Óskars var aldrei nein sigling í logni. Upphaf hans var flókið, fyrstu árin reyndu á, hann bjó við fjölbreytilegar uppeldisaðstæður, missti tengslin við foreldra ungur og einnig flest systkini sín. En hann hafði döngun í sér og mátt af sjálfum sér að leita fólkið sitt uppi síðar. Svo tengdi hann þau saman, raðaði saman púslum fjöskyldu og eigin sjálfs og lifði merkilegu lífi og er kvaddur af mörgum sem þakka honum fyrir samskipti og stórfjölskyldu.

Það er brot af boðskap himinsins um að það sem var rofið og brotið skuli verða heilt. Óskar var lærisveinn Jesú Krists í því að leiða saman hin aðskildu, gera sitt til að hjálpa fólki að finna samhengi sitt og sátt.

Óskar fæddist að hausti, 22. september árið 1927. Móðir hans var Bjargey Hólmfríður Eyjólfsdóttir (1891-1990) og Gísli Jóhannes Jónsson (1891- 1984)

Systkini Óskars sammæðra eru: Dagný Hansen, Guðrún Soffía Hansen, Sigríður Tómasdóttir, Ásdís Ásgeirsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson og Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir. Systkini Óskars samfeðra eru Kristjana Sigrún Gísladóttir, Steinunn Gísladóttir og Guðmundur Steinsson Gíslason. Þetta er stór hópur – tíu systkin.

Óskar var hjá móður sinni til þriggja ára aldurs. Það var fyrsti hluti bernskuskeiðs Óskars – fyrsti af þremur. Fjölskylda Óskars hafði splundrast, börnin dreifðust og í þessum fjölskylduraunum var Óskar svo lánssamur að fá vist á barnaheimili í Skerjafirði sem var kallað því fallega nafni Vorblómið. Þar réð ríkjum Þuríður Sigurðardóttir sem Óskar tengdist vel og kallaði ömmu sína. Vorblómið varð honum góður uppeldisstaður og þar var hann í skjóli, naut nándar, elsku og kennslu. Þegar hann hafði dvalið ein sjö ár sem ungi og blómstrað í þessu vorhreiðri í Skerjafirðinum urðu skil. Þuríður veiktist og dó síðan frá öllum barnahópnum. Enn á ný urðu skil í lífi Óskars. Hann fór ásamt hópi barna austur í Sólheima og þar tók Sesselja Sigmundsdóttir við þeim.

Þar með hófst þriðja bernskuskeið Óskars – annað sjö ára skeið. Á Sólheimum var meiri fjöldi en í Vorblóminu og Óskar lærði að spjara sig, fara eigin ferðir, bjarga sér sjálfur og móta stefnu sína. Hann lærði að unga út – og svo þegar ungarnir dóu í kassanum vissi Óskar að nú var komið nóg. Bernskunni væri lokið, lífið og velferðin væri á hans eigin ábyrgð. Hann tók sína stefnu. Sagan hans Óskars er eins og í þjóðsögu eða Grimmsævintýri. Óskar tók hann sitt og fór út í heiminn til að freista gæfunnar.

Atvinnusaga Óskars

Fullorðinsárin tóku við og það er merkilegt útungunarskeið í lífi Óskars. Óskar fór suður og síðan fljótlega á sjó. Sjómennskan varð meginatvinna hans síðan. Hann var á fiskibátum og einnig á varðskipum. Svo var Óskar á frökturum hjá Eimskip. Hann var á Selfossi og Dettifossi, sigldi um heiminn og skoðaði veröldina og lærði sín fræði með opnum augum og vökulum huga. Svo tók við þjónusta hjá Víkurskipum.

Óskari þótti sjómennskan góð og gaman á sjó. Og hann var – með vini sínum – jafnvel til í ferja skútuna Franz Terco frá Íslandi til Grænlands fyrir erlendan auðmann. Það varð reyndar mikil ævintýraferð í ágúst 1959 og alls ekki sjálfgefið að allt gengi áfallalaust. En á áfangastað komst fley og heilir farmenn. Óskar taldi sig gæfumann og kunni að þakka. Aðeins einu sinni varð hann fyrir alvarlegu slysi á sjó og féll ofan í tóma lest. Þá slasaðist hann talsvert en leit svo á að hann hafi verið heppinn, því bakið slapp!

Þegar Óskar kom svo í land varð hann vaktmaður og húsvörður í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og lauk vinnuferli sínum þar. En hann hafði síðan tíma fyrir fjölskyldu og vini.

Útungunarmeistari stórfjölskyldunnar

Þegar útungunarmeistarinn á Sólheimum fór suður sautján ára hafði hann misst af foreldrum og systkinum. Hann sótti ekki aðeins sjóinn heldur hóf aðra sókn einnig. Hann hafði ákveðið að leita að fólkinu sínu í mannhafinu, systkinum sem dreifst höfðu í ýmsar áttir. Og Óskar var fundvís og smátt og smátt fann hann allan hópinn. Jafnvel systurina, sem hafði farið ung til Noregs, sá hann einu sinni á götu, þekkti svip hennar og gaf sig fram. Og Óskar lét sér ekki nægja finna fólkið sitt heldur tengdi hann þau líka. Og það var eins og Óskari væri lagið að unga út nýju og nýju systkini inn í fjölskylduhópinn á hverju ári!

Það var heillandi að sitja og hlusta á kraftaverkasöguna um hvernig fjölskylda verður til úr ótengdum einstaklingum. Fólk sem ekki þekktist – en voru þó alsystkini eða hálfsystkini – voru leidd saman, tengd og ræktuð með hægð og lægni. Óskar hafði vakandi áhuga á fólki sínu, velferð þess, hugsunum og aðstæðum. Hann heimsótti þetta fólk, hélt þeim við efnið en án nokkurs eftirgangs.

Afkomendur

Óskar kynntist Guðlaugu Vigfúsdóttur og þau bjuggu saman í nær áratug. Þau eignuðust soninn Snorra. Áður hafði Guðlaug eignast Sonju Ósk Jónsdóttur. Þau Óskar og Guðlaug skildu.

Snorri á tvö börn. Með Mariu Luisu Uribe eignaðist hann Christian Snorra sem er hagfræðinemi í Svíþjóð. Guðlaug Alexandra er yngra barn Snorra. Móðir hennar er Blanca Estella Cruz G. Óskarson. Guðlaug Alexandra var síðasta mannveran sem Óskar sá í þessum heimi. Hann hafði sótt hana í Ísaksskóla og fór með hana heim og svo lauk lífi hans. En þessi unga sonardóttir hans gerði sér grein fyrir að eitthvað hafði komið fyrir afa hennar. Þrátt fyrir ungan aldur kunni hún númerið 112, fór í símann og tilkynnti lögreglunni um afa sinn. Dugnaður hennar er aðdáunarverður. En hún hefur misst mikið í nærfærnum afa. Guð geymi hana, bróður hennar, föður, alla ástvini og vini.

Eigindir

Hvernig manstu Óskar? Hvernig var hann og hvað getur þú lært af honum?

Manstu hve hve vinfastur hann var? Hve áhugasamur og ræktarsamur hann var við ástvini og aðra vini sína? Manstu að hann hringdi og talaði stutt og án óþarfra málalenginga? Svo kom hann gjarnan. Manstu hve félagslyndur hann var?

Manstu vinnusemi hans? Manstu lífsást hans? Hve Óskar var ötull ræktunarmaður, plantaði ungtrjám í mold og efndi til skógræktar til framtíðar? Hann hafði áhuga á lífinu í mannheimum og náttúru.

Manstu skákáhuga Óskars?

Manstu hve umtalsfrómur Óskar var, hvað hann talaði vel um allt og alla, hvernig góðmennskan skein úr augum og orðin báru vitni góðum ásetningi hans?

Manstu hve fróður hann var og hve vel hann nýtti sér þekkinguna til að móta eigin lífsvisku?

Hvort þótti Óskari betra að gefa eða þiggja? Óskari hentaði að vera veitull í lífinu.

Manstu eftir orðfæri Óskars? Manstu hve vanvirkur hann var og gætti orða sinna? Og hann ragnaði ekki eða bölvaði – hann var svo trúaður var skýring ástvinanna.

Manstu snyrtimennið Óskar og getuna til eldamennsku? Fékkstu einhvern tíma soðningu hjá honum?

Inn í eilífðina

En nú eru orðin skil. Óskar hafði trú á lífinu, þjónaði fólkinu sínu og nú fer hann inn í líf himinsins. Í bernsku var honum stefnt inn í flókin heim. Hann tapaði tengslum við fólkið sitt, fann það aftur, tengdi saman og ræktaði síðan eins vel og hann gat.

Nú er Óskari stefnt inn í þá veröld þar sem engin tengsl tapast, allt er bundið festum kærleikans og gleðinnar.

Hver var Jesús Kristur? Hann kom inn í heim til að tengja saman brotna stórfjölskyldu manna, færa fólk saman, sætta, næra kærleika og búa til frið í splundruðum heimi. Jesús Kristur var útungunarmeistari himinsins. Óskar var hans maður og nú kallar lausnarinn mikli á útungunarmeistaran á Sólheimum til starfa í Sólheimum himinsins. Þar kólna engar vélar og ekkert líf fer forgörðum.

Leyfðu Óskari að fara. Leyfðu minningunni um hann að lifa. Hann mun lifa glaður og tengdur í eilífð himsins.

Guð geymi þig og Guð geymi Óskar S. Gíslason um alla eilífð.

Amen.

Minningarorð við útför í Grafarvogskirkju föstudaginn 6. mars, kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Grafarvogskirkju.