Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Þorbjörg Þórarinsdóttir – minningarorð

Þorbjörg Þórarinsdóttir2Þorbjörg var síðustu árin á leið heim, heim í Svarfaðardal, heim í fang þess fólks sem hafði elskað hana og hún hafði elskað. Þannig för á sér önnur rök en asaerindi daganna – og er eiginlega tákn um að lifa – gerninginn að lifa.

Ævi manns er ekki aðeins það að fara að heiman, menntast og sinna og ljúka hjúskparerindum og vinnuverkefnum lífins – heldur að lifa vel. Að fara heim er ekki aðeins að snúa til baka til bernskustöðva og vera þar við lok lífs – heldur er æviferðin leiðin heim – en svo er það lífslistarmál hvers og eins með hvaða hætti og í krafti hvers heimferðin er farin og hvernig.

Í 90. Davíssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla – eins og tjáð er í næturljóði úr Fjörðum. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Þorbjörg fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. mars árið 1914 og var elst systkina sinna. Kristján var næstur í röðinni, Hörtur sá þriðji og Petrína yngst.

Tíma má marka með ýmsu móti. Þorbjörg var nærri tíræðu þegar hún féll frá og nú þegar Tjarnarsystkinin eldri eru öll lýkur eiginlega aldarskeiði í lífi afkomenda Þórarins Eldjárn og Sigrúnar Sigurhjartardóttur á Tjörn.

Þorbjörg naut kennslu heima fyrstu árin enda pabbinn barnakennari. Svo fór hún inn á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum. Síðan fór Þorbjörg einnig á hússtjórnarnámskið austur á Hallormstað.

Heima gekk Þorbjörg í öll verk – og móðursystir mín sagði mér – að Þórarinn hafi treyst Þorbjörgu dóttur sinni sem afleysingakennara þegar hann gat ekki sinnt kennnslu. Svo fór Þorbjörg suður og fór að vinna fyrir sér.

Heimurinn var að breytast, ekki bara að lokast heldur líka að opnast, á fjórða áratugnum. Eins og jafnaldrar hennar horfði Þorbjörg löngunaraugum út fyrir landsteina. Kristján, bróðir hennar fór utan til náms og þegar Þorbjörgu bauðst að fara til Danmerkur tók hún skrefið og var um tíma vinnukona á heimili íslensks sendiráðsstarfsmanns í Kaupmannahöfn. Hún varð vitni að innrás í Dannmörk. Og þá voru góð ráð dýr og amasöm. En þá sem oftar var hún á heimleið og komst með Esjunni í síðustu ferð, sem síðar var kennd við Petsamó. Þessi ferð heim var löng og krókótt, en hún sá Þrándheim og kom við í Skotlandi einnig og naut fjörmikils þröngbýlisins á leiðinni. Og alla leið komst hún.

Áratugurinn 1940-50 var fjölbreytilegur tími í lífi Þorbjargar. Hún hafði löngum huga við nál og handverk. Hún vann um tíma á saumastofu sem bar það rismikla nafn Gullfoss. Og þegar Myndlista- og handíðaskólinn var stofnaður stundaði Þorbjörg nám þar. Og svo kenndi hún einnig um tíma í húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Engum sögum fer af samdrætti þeirra Þorbjargar og Sigurgeirs Stefánssonar. En það hefur varla spillt að hann var Eyfirðingur, frá Kambfelli í Djúpadal. Þegar þau kynntust lauk fyrri hálfleik í lífi Þorbjargar og hinn seinni hófst. Árið 1950 markaði þennan seinni hluta. Það ár gengu þau Þorbjörg og Sigurgeir í hjónaband og Þórarinn fæddist þeim einnig. Arnfríður Anna kom svo í heiminn tveimur árum síðar.

Kona Þórarins er Anna Rögnvaldsdóttir. Þeirra sonur er Ragnar.

Maður Önnu er Ellert Magnús Ólafsson. Þeirra synir eru Þorgeir, Ómar og Arnar Magnús. Kona Ómars er Lára Orsinifranca.

Þorbjög og Sigurgeir hófu búskap á Seljavegi en fluttu síðar á Sólvallagötu 50. Þau keyptu húsið og gerðu upp. Meðan börnin voru ung stundaði Þorbjörg saumavinnu heima, tók á móti fólki sem vildi nýjar flíkur eða hafði séð falleg föt í erlendum tískublöðum. Þorbjörg var listamaður á sínu sviði og kunni líka að breyta gömlu í nýtt. Hún var fengin til að kenna í Námsflokkum Reykjavíkur að sauma upp úr gömlum fötum. Það var hagnýt endurvinnsla sem hún kunni vel. Um tíma vann Þorbjörg á samastofunni Model magazin og síðustu árin nýttist hæfni hennar á saumastofunni á þvottahúsi ríkissítalanna.

Saumsporin hennar nýttust því mörgum í tæpri stöðu.

Þegar aldur færðist yfir seldu þau Þorbjörg húsið á Sólvallagötu og fluttu í Hafnarfjörð. Þau keyptu íbúð í sama húsi og Anna og Ellert og höfðu gleði og gagn af sambýlinu og nut samskipta við afkomendur sína. Þar bjuggu þau þar til Sigurgeir féll frá og Þorbjörg þar til hún flutti vegna heilsubrests í Víðines. Ævigöngunni lauk hún svo í Mörkinni þar sem hún lést.

Við þessi tímamót hafa Páll og Árni synir Stefáns og Petrinu beðið fyrir kveðju frá þeim og fjölskyndum þeirra.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Hvernig var Þorbjörg? Hvernig mannstu hana? Já, hún ar hógvær, ljúf, lítillát, traust, skörp, minnug í níutíu ár, trygg, hjálpsöm, bóngóð, skemmtileg.

Gleymdi ég einhverju? Hún var natin við fólkið sitt, ömmstrákana, umburðarlynd, tillitssöm en líka ákveðin, fróðleiksfús, söngvin, listræn.

Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má halda ræður og ykkur Tjarnarfólki verður ekki orða vant ef þið viljið kveða ykkur hljóðs! En mér eru skorður settar og ég virði þann vilja Þorbjargar að umsagnir um hana verði ekki sem vorflóð.

Hún var á heimferð – á leið heim – norður. Fjöllin á Tröllaskaga eru dásamleg og laða. Austurlandsfjöllin handan fjarðar blasa við frá Tjörn og allur fjallahringurinn gælir við augu, Vallafjall, Rimar, Skíðadalsfjöllin með jökuglennu og svo Stóllinn, sem er sannkölluð augnhvíla, hvaðan sem hann er litinn.

Og við sem höfum gengið fjöllin ofar Tjörn vitum hve vel staðurinn er í sveit settur. En Tjörn var og er reitur fyrir líf, ræktun, menningarstarf og virðingu fyrir lífinu. Því get ég tjáð fyrir mína hönd og margra þökk Tjarnarfólki fyrr og síðar fyrir lífsrækt þess. Þau Tjarnarsystkin voru til fyrirmyndar. Þökk sé þeim og Þorbjörgu. Nú er öld lokið. Og Þorbjörg á leið heim.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, Guðssveigur. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar.

Þorbjörg saumar engin spor framar eða brosir við gæðum og góðu fólki. Hun sönglar enga sálma lengur nema þá í einhverjum öflugum Tjarnarkór himinsins. Hún rifjar ekki upp fótraka bernskunnar en kannski öslar hún í einhverju himnesku fergini sem skrjáfar í með eilífðarlagi. Og hvar er heima? Við notum minningar, líðan, fjöll og orð til að túlka heimþrá, djúpsetta löngun – og því getur vísuorð fangað vel. „Hann er öndvegi íslenskra dala“ er ekki aðeins hnyttin tilraun til að fanga líðan eða afstöðu heldur líka staðsetningu á korti förumanns um veröld á leið inn í eilífðina. Tjörn, dalur, fjallafaðmur, – það er heima – en líka áfangi, tákn um hið stærra, stóra, mesta. Nú er Þorbjörg farin heim – heim í Tjörn himinsins.

Guð geymi Þorbjörgu um alla eilífð.

Guð blessi þig.

Amen

Minningarorð við útför sem gerð var frá Fossvogskapellu 28. febrúar 2013.

Halldóra Kristinsdóttir

Halldóra KristinsdóttirÞað var á aðventunni 2006 og fallegt veður úti. Halldóra fór í yfirhöfn. Hún var á leið í ævintýraferð og eftirvænting kitlaði. Hún tók barnavettlinga sem hún hafði prjónað, kom þeim fyrir í poka og svo kvaddi hún bónda sinn, fór út og gekk upp Neshagann. Þegar hún kom upp á hornið á Hjarðarhaganum kom kona með barnavagn á móti henni. Og það var alveg ljóst að Halldóra átti erindi við konuna sem var með tvíbura í vagninum. „Mig langar til að gefa börnunum vettlinga“ sagði Halldóra. Og svo dró hún upp úr pússi sínu fallega vettlinga og lagði á vagninn. Mamman, sem var á leið í Melabúðina, gladdist yfir þessu undri á gönguför – og varð síðan vinur Halldóru, dáðist að henni og handverki hennar. Svo kom í ljós að þetta var ekki einstakur atburður heldur fór Halldóra út á hverjum vetri – nærri jólum – og gaf fyrstu ungabörnunum sem hún mætti vettlinga. Þetta var eitt af jólaævintýrunum sem Halldóra kallaði fram. Puttar þarfnast hlýju, ungviði þarfnast umhyggju, mæður – og reyndar feður líka – þarfnast stuðnings. Og Halldóra prjónaði ekki aðeins vettlinga heldur varðveitti í sér gleði gjafarans og djörfung til að fara á flakk í vesturbænum og gefa fólki framtíðar gjafir. Og hún hafði gaman af.

Gerningur lífsins

Orðið “póesía” er í mörgum vestrænum tungumálum notað um ljóð. En að baki er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að stafla orðum í ljóð, heldur líka að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að skapa og framkvæma.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Þessi speki er hagnýt. Handverk í eldhúsi, við bleyjuskipti, trjáplöntun, prjónaskap og öðrum lífsgerningum á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki getur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun. Halldóra kunni að þjóna fólki með höndum sínum og svo var hún líka handgenginn ljóðlistinni og samdi fjölda ljóða (og orðið hannyrðir getur vísað bæði til handa og orða). Hún endurspeglaði í lífi sínu ástarverðandi Guðs.

Ætt og uppvöxtur

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir fæddist í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar á Alþingishátíðarárinu 1930. Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, sem lést níu dögum eftir að dóttir hennar fæddist og Halldóra fékk því nafn móður sinnar. Halldóra yngri fæddist á heimili Jóhannesar Guðmundssonar og Þorbjargar Mörtu Baldvinsdóttur[i] sem áttu ekki börn þegar hér var komið sögu. Sorgbitinn ekkill og faðir Halldóru sá ekkert ráð betra en að fela þeim Jóhannesi og Þorbjörgu Mörtu að fóstra barnið. Þau tóku Halldóru í fangið sem eigin dóttur, veittu henni hinar bestu uppvaxaraðstæður og gáfu henni síðan bræður, þá Valdimar,  Guðmund og Eggert.

Halldóra bjó uppvaxtarárin í Helguhvammi, naut ástúðar og umhyggju og fékk gott veganesti. Hún lærði að vinna, draga til stafs, læra og skapa – líka með höndum. Fólkið í Helguhvammi var dugfólk og varð Halldóru fyrirmynd um að standa sig. Hún tamdi sér og sínum að dugnaður væri dyggð sem vert væri að rækta.

Halldóra sótti skóla í heimabyggð á Vatnsnesi. Hún sá snemma gildi félagslífs og góðs mannlífs. Hún fór með fósturmóður sinni á æfingar kirkjukórsins og lærði að meta tónlist til lífsgæða. Svo var Kristinn, blóðfaðir hennar, einnig organisti í Tjarnarkirkju, og í kirkjuferðum gat Halldóra einnig hitt hann. Milli þeirra var eðlilegur samgangur.

Söngur varð Halldóru eiginlegur. Hún sagði börnum sínum að á leið í skólann á næsta bæ hefði hún stoppað á hverjum hól og sungið. Þá var Halldóra orðinn heimssöngvari, söng af innlifun og einlægni fyrir allan heiminn – kannski geiminn og alla vega Guð á himnum. Og það er mikil músík í sköpunarverkinu og dásamlegt þegar hún verður líka að lífssöng smástúlku á Vatnsnesi lífsins.

Þó norðlensk sumur séu björt og oft mjúkfingruð mat Halldóra þó haust og vetur jafnvel enn meira. Þá var hægt að setjast við hannyrðir! Fósturmóðir hennar samnýtti stundirnar. Hún vann og fól samtímis fósturdóttur sinni að skrifa fyrir sig bréf sem hún las fyrir. Og því varð Halldóra snemma vel skrifandi, hafði fagra rithönd og lærði að semja.

Í Helguhvammi var svo hlustað á útvarp og unnið með höndum og þeirra stunda naut Halldóra. Um tíma var Halldóra við störf í Reykjavík. Og svo fór hún þegar hún hafði aldur til í Kvennaskólann á Blöndósi. Þar var hún veturinn 1947 – 48 og þar var byggt ofan á það sem hún þegar kunni úr heimahúsum. Í skóla eignaðist Halldóra vinkonur, sem hún hélt sambandi við alla tíð.

Ólafur og börnin

Þau Ólafur Þórður Þórhallsson vissu af hvoru öðru frá barnæsku, sáu hvort annað „og leist vel á“ sagði Ólafur. Svo fóru þau að leiðast og eftir skólaveru Halldóru á Blöndósi dýpkaði samband þeirra og svo fóru þau að tala um hvar þau ættu að vera og búa. Niðurstaðan var að þau yrðu á Syðri-Ánastöðum og bjuggu þar í tvíbýli við foreldra Ólafs til ársins 1983. Tvo vetur störfuðu þau við skólann á Laugabakka í Miðfirði. Ólafur kenndi, Halldóra sá um næringu barnanna og eiginlega sérkennsluna líka því hún sinnti þeim sem þurftu séraðstoð eða áttu bágt. Hún naut lagni sinnar í samskiptum og börnin nutu mannelsku hennar og natni.

Halldora_og_Olafur

Þau Halldóra og Ólafur fóru svo að búa á Ánastöðum. Þau gengu í hjónaband – ætluðu að hafa vígsluna 1. janúar 1951. Presturinn var á leiðinni til að skíra barn og sjálfsagt að nota ferðina. En þá skall á versta veður svo athöfnin frestaðist til 2. janúar – en þá var klerkur kominn og svaramenn einnig. Þau sögðu bæði já við spurningum og svo áttu þau hvort annað og elskuðu allt til hinstu stundar.

Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn.

Þorbjörg Jóhanna fæddist 1950. Hún er ljósmóðir að mennt. Maður hennar er Jón M. Benediktsson. Þau eiga þrjú börn; Þórólf, Ragnheiði og Þórhildi.

Ólöf Þórhildur fæddist árið 1953. Hún er yfirmaður deildar mennta- og æskulýðsmála hjá Evrópuráðinu í Strassbourg. Maður hennar er Necmi Ergün og þeirra dóttir er Özden Dóra.

Halldór Kristinn var þriðji í röðinni. Hann fæddist árið 1956 og starfaði sem vélstjóri. Kona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir og þau eignuðust Bergrúnu og Halldóru. Kristinn lést árið 1985, aðeins 28 ára að aldri.

Bergur Helgi var fjórði, fæddist 1960. Hann varð flogaveikur þegar sem barn og þau Halldóra og Ólafur brugðu búi til að flytjast suður til að geta sinnt honum sem best og tryggt honum sem besta læknisaðstoð. Bergur lést árið 1988 og var 28 ára þegar hann dó, eins og Kristinn, bróðir hans.

Júlíus Heimir er yngstur þeirra systkina og fæddist  árið 1965. Hann starfar sem kennari í Melaskóla. Kona hans er Vigdís Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Jóhanna og Matthea. Sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur.

Allt þetta fólk umvafði Halldóra með elsku sinni, naut samfélags við þau, tengdabörnin, barnabörn sín og afkomendur. Hún bar hag þeirra mjög fyrir brjósti og fagnaði þeim þegar þau komu í heimsókn. Hún setti þau ekki fyrir framan sjónvarpið heldur hvatti til leikja sem hún tók sjálf þátt í. Það var hrífandi að sjá ungviðið í fjölskyldunni í gær heima á Neshaga. Þau fóru strax að leika sér enda kom margt upp úr gullakassanum hennar Halldóru.

Fráfall bræranna var Halldóru – eins og ástvinum öðrum – mikil raun. En börnin og síðan fjöldi ástvina og afkomenda varð henni hvati til lífs. Hún fagnaði börnunum þegar þau fæddust og þau áttu tryggan aðdáanda og vin í Halldóru, sem vildi hafa fólkið sitt nálægt sér. Af þeim Ólafi og Halldóru eru 25 afkomendur svo lán hennar og þeirra er margvíslegt.

Á kveðjudegi hafa nokkur beðið fyrir kveðjur til ástvina og þessa safnaðar. Þau eru Sveinbjörn J. Tryggvason, Anna Þóra Þórhallsdóttir og Halldór Halldórsson og fjölskylda hans í Noregi.

Og Ólafur og fjölskylda vilja þakka íbúum á Neshaga 14 góða samfylgd allt frá 1983. Góðir grannar eru lífslán.

Eigindir

Halldóra Kristinsdóttir var gefandi í samskiptum. Hún gaf ekki aðeins ástvinum og samferðafólki prjónuð blóm (eins og við berum mörg hér í þessari athöfn í dag), fallega vettlinga eða annað handverk. Hún var gefandi í félagsefnum einnig. Hún tók snemma þátt í félagsstarfi á Vatnsnesinu og hélt áfram alla tíð að vera félagslega virk.

Þegar hún kom suður hafði hún um tíma atvinnu af heimahlynningu og margir nutu natni og þjónustulipurðar hennar. Halldóra naut svo félagsstarfsins í Neskirkju og sótti ekki aðeins athafnir og viðburði í kirkjunni heldur lagði sjálf til. Hún hafði alla tíð áhuga á tónlistinni og gekk í kór eldri borgara sem hét Litli kórinn. Hún söng í þeim kór í mörg ár og var okkur sem störfum í kirkjunni ekki aðeins gleðigjafi þegar hún kom á æfingar heldur samverkamaður í athöfnum og líka í athöfnum á ýmsum stofnunum sem prestur og kór vitjuðu – ekki síst á aðventunni. Og fyrir þjónustu hennar vil ég þakka fyrir hönd Neskirkju.

Allir sem þekktu Halldóru muna handverk hennar. Hún saumaði af snilld, prjónaði af kunnáttu, prufaði postulínsmálun og var alltaf til í skoða með hvaða hætti hún gæti þróað og gert nýtt. Einn handverkskennarinn skrifaði á einn muninn að hann ætti „konan sem færi sínar eigin leiðir.“ Það er hnittið og rétt að Halldóra var óhrædd að prufa nýtt, skoða fleiri hliðar en flestir og þróa áfram það sem hreif hana. Í henni var sköpunargeta. Hún þorði að gera hluti úr því sem aðrir hefðu hent. Þau eru mörg bútasaumsteppinn, sem Halldóra gerði úr afgöngum og gaf síðan börnum til að leika á og umvefja ef þeim var kalt.

Margt af því sem hún gerði vakti athygli og bréfbátar hennar með áhöfn og verkfærum voru fengnir til Safnasafnsins á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og hafa vakið verðskuldaða athygli.

Sonarsonur hennar var eitt sumarið í heimsókn í hundlausum bænum fyrir norðan og kvartaði yfir hvuttaskorti. Halldóra brá við og náði í rekaviðarkupp, festi band í og gaf drengnum. Strákur var síðan sæll með sinn hund, dró hann með sér um víðan völl og hundurinn hlýddi! Í Halldóru var spunahæfni og geta til að leysa vandamál með farsælum endi.

Halldóra átti í sér bjarta sýn á fólk og umhverfi. Hún lagði gott til og hafði trú á fólki.

Halldóra og Ólafur seldu ekki frá sér sinn hlut Ánastaða þótt þau flyttu suður. Þau voru fyrir norðan flest sumur, nutu landsins, nýttu sjávarfang, tóku á móti stórfjölskyldunni opnum örmum og tengdu ungviði við upphaf þeirra og sögusamhengi. Svo hóf Halldóra á síðari árum nýtt landnám með skógrækt og nú eru trén hennar að teygja fingur til himins og skógurinn veitir skjól. Verka Halldóru mun fjölskyldan njóta um framtíðarár.

Inn í himin Guðs

Og nú er komið að skilum. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir bresti manna. Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, prjónar og yrkir mennina og líf. Erindi kristninnar, svonefnt fagnaðarerindi er að lífið er góður gerningur. Þegar lífi lýkur er ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Halldóra gefur ekki fleiri vettlinga, teppi eða prjónuð blóm. Hún opnar ekki lengur faðm mót ástvinum sínum og umvefur með brosi sínu. En hún er komin inn í himininn.

Í fallegu jólaljóði Halldóru sem er sungið í þessari athöfn segir:

Kveiki ég á kerti mínu,

kem með það að rúmi þínu.

Lýsi á litla kollinn minn,

ljúft ég strýk um þína kinn.

Hugsa um löngu liðna daga

lífið, það er önnur saga.

 

Upp til himins augum renni,

eina stjörnu þar ég kenni.

Horfir hún af himni niður,

henni fylgir ró og friður….

Halldóra kveikir ekki á fleiri kertum – eða strýkur kinn þína. Guð mætti henni þar sem mætast líf og dauði með sína værðarvoð og vettlinga til að gefa henni. Halldóra Kristinsdóttir er farin til ástvina, inn í hið heilaga Vatnsnes eilífðar. Söngur hennar hljómar á hólum himins.

Guð geymi Halldóru um alla eilífð.

Guð varðveiti þig.

Í Jesú nafni, Amen.

Minningarorð í útför Halldóru Kristinsdóttur, sem gerð var frá Neskirkju, 8. febrúar, 2013.

Æviágrip

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir f. í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 31. janúar.  Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson, f. 1. febrúar 1908, d. 30. mars 1998 og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, f. 29. ágúst 1903, d. 18. janúar 1930. Fósturforeldrar Halldóru voru Jóhannes Guðmundsson, f. 30. september 1904, d. 23. maí 1982 og Þorbjörg Marta Baldvinsdóttir, f. 10. nóvember 1897, d. 31. júlí 1980. Fósturbræður Halldóru eru Valdimar, f. 1933, d. 1997, Guðmundur, f. 1934 og Eggert, f. 1939.

Hinn 2. janúar 1951 giftist Halldóra Ólafi Þórði Þórhallssyni, f. 2. júní 1924. Foreldrar hans voru Þórhallur Jakobsson, f. 1896, d. 1984 og Ólöf Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 1903, d. 1997. Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn, en börn og afkomendur þeirra eru: 1) Þorbjörg Jóhanna, f. 1950, gift Jóni M. Benediktssyni, f. 1951, börn þeirra eru a) Þórólfur, f. 1974, í sambúð með Nönnu Viðarsdóttur, synir  þeirra eru Jón Ívar og Logi, dóttir Þórólfs og Brynhildar Ólafsdóttur er Þorgerður, dóttir Nönnu er Edda Eik Vignisdóttir, b) Ragnheiður, f. 1979, í sambúð með Anders Dolve, c) Þórhildur, f. 1979, gift Jóni Hákoni Hjaltalín, börn þeirra eru Styrmir og Þorbjörg Sara, 2) Ólöf Þórhildur, f. 1953, gift Necmi Ergün, f. 1950, dóttir þeirra er Özden Dóra, f. 1977, gift Alex Clow, sonur þeirra er Edgar Tristan, 3) Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985, sambýliskona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir, f. 1959, dætur þeirra eru a) Bergrún, f. 1980, í sambúð með Birni Ólafssyni, sonur þeirra er Kristinn Hrafn, b) Halldóra, f. 1983, í sambúð með Sveinbirni J. Tryggvasyni, sonur þeirra er Tryggvi Kristinn; dóttir Gunnhildar er Þorbjörg Ómarsdóttir, f. 1993, 4) Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988, 5) Júlíus Heimir, f. 1965, kvæntur Vigdísi Guðmundsdóttur, dætur þeirra eru a) Jóhanna, f. 2005, b) Matthea, f. 2006, sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur, f. 1993, í sambúð með Melkorku Eddu Sigurgrímsdóttur.


[i] Mörtunafnið kom reyndar frá þeim mæta Marteini Lúther. Á heimilinu var stór mynd af siðbótarmanninum og nafnberinn íslenski kunnur fyrir trúrækt.

Björk Bergmann – minningarorð

Forsíða2„Á grænum grundum lætur hann mig hvílast – leiðir mig að vötnum – segir í 23. Davíðssálmi.“ „Þar sem ég má næðis njóta“ er bætt við. Og það er eins og tilfinningin fyrir Elliðavatni lifni í huganum við þessa vatnsvísun. „Hressir sál mína“ – „þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt.“

Já, það var gott að vera við vatnið bláa. Í djúpum hrauna streymdi vatnið fram og kom svo upp í lindum og myndaði þetta líflega umhverfi og blessað af Guðmundi góða. Skógurinn í heiðinni spratt, allt líf nærðist vel – lífið blómstraði – líka líf Bjarkar.

Upphafið

Hanna Björk Reynisdóttir fæddist 5. júní árið 1953. Hún var dóttir hjónanna Reynis Alfreðs Sveinssonar og Guðrúnar Eyvindsdóttur Bergmann. Pabbinn var úr sveit og mamman af strönd og þau fléttuðu saman í fjörmiklu heimilislífi báðar víddir menningar dreifbýlis og þéttbýlis. Systkinin urðu 9 svo það var jafnan fjör í bænum. Björk var miðjubarn, fjórða í röðinni.

Fyrstu ár Bjarkar bjó fjölskyldan á Sogabletti 7 í Reykjavík – þar sem nú er Sogamýri. Börnin voru sjö saman í herbergi svo Björk náði að upplifa mannlíf eins og lifað hefur verið í þröngbýlum húsakynnum Íslands um aldir. Enginn var svangur á heimilinu því þess var gætt að allir fengju nægilega líkamlega sem og andlega næringu.

Umskipti urðu í lífi Bjarkar og hennar fólks þegar Reynir varð umsjónarmaður Heiðmerkur árið 1964. Elliðavatnsbærinn var sem kastali og rúmt varð um alla og nóg pláss. Þau voru ekki lengur þröngbýlingar í þéttbýli, heldur rúmbýlir dreifbýlingar – þó ekki væri langt í höfuðborgina. Vatnið gladdi, útivistarmöguleikarnir voru ærnir, skógurinn dafnaði, dýr merkur og fuglar himins löðuðu. Himinninn var stór, fjallarhringurinn stórkostlegur og mannlífið á Elliðavatni var fjörmikið, glaðlegt og gefandi.

Börnin á heimilinu sóttu Árbæjarskóla og þangað fór Björk líka. Eftir að hún lauk grunnskólanámi tók vinna síðan við. Hún stundaði verslunarstörf á fyrstu árum og var góður sölumaður. Hún afgreiddi í nokkur ár í Tómstundahúsinu, varð sérfræðingur í leikföngum barna og lærði hvað þeim kom best og hvað þau langaði í. Hún var líka barnelsk  og var  laginn við ungviði og kunni að hlúa að þeim.

Hjúskapur

Svo fór hún á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það var fyrir gos og þar sá hún mannsefnið sitt, Vigni Sigurðsson. Þau fóru að búa – fyrst á Klapparstíg – en fóru síðan út í Eyjar eftir gosið og á vit bernskuslóða Vignis. Styrmir kom í heiminn árið 1974 í fang bráðungra foreldra. Björk lærði svo á mannlífið í Eyjum og kynntist eyjaskeggjum. Hún hafði gaman af fjörinu í vinnunni í fiskvinnslunni og vann einnig um tíma í bakaríi.

Þegar þau Björk höfðu búið í Eyjum í nokkur ár var komið að skilum heima á Elliðavatni. Foreldrar Bjarkar ætluðu að láta af störfum og um samdist að unga fólkið tæki við. Björk flutti inn á gamla heimilið sitt á Elliðavatni, hún var komin heim. Svo kom dóttirin, Sandra Björk, í heiminn fjórum árum á eftir bróðurnum. Síðan bjó Björk við vatnið, ól upp börnin sín, afgreiddi gesti og gangandi, veiðmenn og vinnuflokka og þjónaði því margbreytilega lífi sem Elliðavatni og Heiðmörk tilheyrði. Elliðavatn var heimili hennar allt þar til þau Björk skildu (árið 2001). Hún bjó því á Elliðavatni meiri hluta æfinnar. Eftir umbreytingatíma keypti Björk sér íbúð á Furgrund í Kópavogi og bjó þar til hún lést.

Eigindir

Björk var listræn og hög. Hún hafði áhuga á hinu fallega og listum. Hún var hannyrðakona, heklaði gjarnan og sumaði út. Hafði auga fyrir fallegum hlutum og hafði gaman af því sem var gamalt. Meira segja eldgamall kókkassi var nokkuð til að varðveita. Hún sá líka möguleika á nýtingu gamalla hluta þar sem aðrir hefðu aðeins séð úrelt dót og jafnvel drasl. Hún var nátúrubarn og notaði efni úr umhverfi sínu til að skreyta með og fegra t.d. gjafir. Hún hafði auga fyrir hinu fagra og lagði upp úr fegurð heimilis síns.

Björk var trygglynd, frændrækin og heiðarleg. Hún lagði mikið á sig til að gleðja fólkið sitt, var gjafmild, sá það góða í öðrum og gerði sitt til að efla fólk.

Björk var dugmikil, ósérhlífin og vinnusöm og sótti gjarnan vinnu utan heimilis. Á síðari árum starfaði Björk við baðvörslu í Kársnesskóla og börnin nutu umhyggju og barnelsku hennar. Björk átti í sér útsýn og hafði gaman af ferðalögum og fór víða um heiminn.

Heimili og fjölskylda

Björk stýrði sínu heimili með reglusemi og myndarbrag. Hún var umhyggjusöm og svo gestrisin að stórfjölskyldan sótti til þeirra. Og Björk bakaði vöflur og veisla varð til. Og málleysingjarnir nutu líka elskuseminnar, ekki bara krummi og fuglarnir heldur rebbi líka. Börn Bjarkar fengu að halda dýr og hún kenndi þeim að elska lífið í hinum margvíslegu myndum. Meira segja skordýrin áttu sér fegurð og gildi sem hún kenndi sínu fólki að meta. Og börn ættmenna hennar og svo barnabörn nutu Bjarkar og umhyggju hennar.

Nærfjöskyldan var Björku uppspretta gleði. Og hún tók svo barnabörnum sínum með fögnuði þegar þau komu í heiminn og lagði mikið á sig til að gleðja þau og gefa. Afkomendur Bjarkar voru henni uppspretta gleði og stolts. Hún var næm á þarfir barna og langanir og var því jafnan fundvís á góðar gjafir sem glöddu.

Sambýliskona Styrmis er Tara Sif Haraldsdóttir. Börn Styrmis eru Tara Líf, Tanja og Erika. Og nú eiga þau Tara Sif og Styrmir von á dreng í mars. Og það er huggun harmi gegn að lífið kviknar og lifir þó dauðinn kveðji dyra.

Börn Söndru og Ölnis Inga Snorrasonar eru Alexander Bergmann og Amelía Björk Bergmann. Afkomendur Bjarkar eru því 7 á fæti og einn í kvið.

Og nú er komið að skilum. Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðjur frá ástvinum erlendis, Ástríði Hannesdóttur og fjölskyldu hennar í Danmörk, Hannesi og Karin, Andra og Katrine, Guðrúnu og Matthíasi, Andra og Svandísi.

Og Tinna Bergmann sem er í London biður einnig fyrir kveðjur.

Leiðir mig að vötnum…

Já, það eru skil. Hvað minningar áttu þér í huga um Björku? Rifjaðu þær upp, leyfðu þeim að koma upp í hugann. Farðu vel með þær.

Síðustu ár urðu Björku þungbær, hún varð fyrir áföllum og leið fyrir bágt heilsufar. En aldrei var að efast um ást hennar og elsku í garð fólksins hennar og ástvina. Og hún hverfur frá þeim og ykkur öllum – fyrir aldur fram.

En á skilum er mikilvægt að viðurkenna að hún er farin, dáin og kemur ekki aftur. Og með þau skil þarf að fara vel, vinna úr tilfinningum, sorginni, sektarkennd og eftirsjá.

Og á skilum er líka komið að því að spyrja stóru spurninganna um líf og eðli lífs – og hvort trúin lifir – trú sem gefur tveggja heima sýn, vitund um að tíminn er ekki allt sem er heldur er eilífð líka, líkaminn er látinn en að lífið lifir, að við erum ekki bara ofurlítill neisti í tómi tímans heldur hluti af því lífsbáli sem Guð er, hluti af lífsláni sköpunarverkins og okkar heimaslóð er á strönd guðsríkisins.

Mér þótti gott að hugsa um nafnið Björk þegar ég hugsaði um hana og íhugaði líf hennar. Oft hef ég horft á hve íslenska björkin hefur bognað undan þunga vetrarins og síðan hefur vorað og snjóa hefur létt. Þá hafa bjarkirnar rétt úr sér þegar snjóa hefur létt – og stofnarnir hafa orðið beinir að nýju og farvegir fyrir líf. Í því ljósi getum við hugsað um Björk. Hún átti sér gjöfula æfi, gaf af sér og var sínu fólki ástargjöf. Síðasta skeiðið var henni erfitt – þá haustaði og hún bognaði undir vetrarþunga. En svo er vorið Guðs, hún getur og má rétta úr sér og lifa. Og þannig getum við séð hana lifa í birtu Guðs, leyft minningum að lifa – næra og bera ávöxt í þínu lífi.

Í sálminum segir: „Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína… Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“

Björk nýtur ekki lengur bláma heimsins, litarins sem hún mat mest – nú lifir hún í bláma himinsins. Hún hlær ekki lengur í fjöri tímans heldur nýtur himinfjörsins. Hún laumar ekki lengur leikfangi að börnum, matarbita að dýrum merkurinnar eða réttir hlut lítilla vina. Hún getur ekki lengur vikið góðu að þér eða tekið á móti barnabörnum og fjölskyldu. Hún er ekki týnd, heldur farin og hefur fæðst inn í lífheim Guðs. Þar er ekkert myrkur, engin veikindi, engin aðskilnaður – heldur allt gott. Hún er farinn inn í hið himneska Elliðavatn – og þar er gott að vera. Leyfðu henni að fara, slepptu og haltu í ástina og yndislegar minningar.

Guð geymi þig og Guð geymi ykkur sem kveðjið og syrgið.

Guð geymi Björku í eilífu ríki sínu.

Amen.

Minningarorð í útför sem gerð var frá Neskirkju 24. janúar, 2013. Bálför – jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.

Gunnar Þorsteinsson – minningarorð

Gunnar ÞorsteinssonFarmaður á leið heim. Fram hjá Vestmannaeyjum – svo farið fyrir Reykjanestá og til hafnar. Akurey, Engey og Viðey fyrir stafni. Í stillu speglar Flóinn feimna Esju og hægt að sjá smáhvali leika sér. Í augum er tilhlökkun og fegurðin umfaðmar. Hvað hugsar áhöfnin og hvað hugsar vélstjórinn? Hann þekkti bæinn sem við blasti, hvað var hvers og hvurs var hvað. Hann þekkti húsin og sá líka turnana á guðshúsunum. Hann var á leið inn á höfn og heim til síns fólks. En kirkjuturnarnir bentu til annarar hafnar. Bentu reyndar upp til hæða. Í lífinu er gott að vita hvar höfn er að finna og í eilifa lífinu eru önnur mið sem vert er að veita athygli. Lesa áfram Gunnar Þorsteinsson – minningarorð

Brynhildur Ólafsdóttir – Minningarorð

BrynhildurHvað getur best stælt barn til þroska og eflt lífshamingju þess? Hvernig getum við undirbúið okkur undir líf og reynslu? Hvernig verður manneskja til? Brynhildi var í mun – sem kennara og skólastjóra – að tryggja að börnin fengju kennslu og nytu skólastarfs sem gerði þeim fært að þroskast og blómstra. Heima var hún öflug móðir og eiginkona sem iðkaði það sem hún aðhylltist. Það var engin gjá milli kenningar og iðkunar í lífi Brynhildar. Hún var heil, djúp, kraftmikil og sönn. Lesa áfram Brynhildur Ólafsdóttir – Minningarorð