Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Guðlastarinn Jesús Kristur?

grid-cell-18468-1382382792-14Mér þykir dapurlegt þegar fólk missir stjórn á skapi sínu og hellir úr skálum reiði sinnar, æpir ókvæðisorð til fólks, hvort sem það er innan ramma fjölskyldunnar eða á almannafæri. Mér var í bernsku uppálagt að gæta orða minna og það var í sama anda sem afinn í barnabókinni Salómon svarti sagði við drenginn: „Vandaðu málfar þitt drengur minn.“ 

Á veraldarvefnum bulla margir landsmenn okkar, hella sér yfir aðra og tala niðrandi til fólks. Þar er stór hópur sem talar iðrandi um Guð, hnjóðar í trúarlegt atferli, lastar trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smánar trúarefni með ýmsum hætti. Ef ríkissaksóknari hefði ekki annað þarfara að gera væri hægt að sækja marga til saka. Sem betur fer eltir embættið þó ekki kjánaskap þessa reiða fólks.

Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Sumt af skætingi í garð trúar og trúarefna á sér rætur í slæmum smekk og/eða lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman! Og sumt af þeim aur, sem skvett er í garð trúarhugmynda, á sér baksvið í vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð vondra uppeldisaðila, ofbeldismanna eða slæmra fulltrúa trúar. Það sem sýnist vera guðlast er oft tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku. Trúmenn ættu ekki að reiðast særðu fólki.

Guðspjall dagsins vekur spurningar um guðlast. Lögfræðingar samtíma Jesú töldu að hann guðlastaði. Um það var löggjöf Gyðinga býsna skýr og lagaskýringar ljósar. Það var á hreinu hvenær menn fóru yfir strikið, gerðu eitthvað eða sögðu sem Guði væri ekki þóknanlegt. Allir vissu að það væri guðlast að setja sig í sæti Guðs. Og lagaspekingar hins gyðinglega samfélags töldu að Jesús ögraði, væri guðlastari og “brotaviljinn” væri svo ítrekaður, að að sækja yrði hann til saka. Því var hann líflátinn. Guðlast og líflát hafa löngum farið saman. Jesús gerði uppreisn gegn guðlastslöggjöf síns tíma. Jesús ögraði kerfi trúar og samfélags síns tíma.

Niðrandi tal um Guð

Hvað er þetta guðlast? Nokkur orð um sögu og félagsvídd guðlastsins. Orðabókin skýrir merkinguna, að guðlast sé að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Um aldir hefur verið reynt að sporna við bölvi fólks með því að benda á að ragnið væri brot á fyrsta og öðru boðorðinu. Hugtakið guðlast hefur því löngum verið túlkað sem óvirðulegt, niðrandi tal um Guð.

Guðlast var alvarlegur glæpur meðal hinna fornu Hebrea. Í þriðju Mósebók 24.16 er sagt að sá er fremji guðlast skuli grýttur. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. Englendingar afnámu t.d. ekki dauðarefsingu vegna guðlasts fyrr en á sautjándu öld og Skotar ekki fyrr en á þeirri átjándu.

Mér sýnist flestir sagnfræðingar séu sammála um, að þessi refsiharka hafi ekki verið vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna stjórnmála og valdamanna. Árás á trúargildi var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi samfélag og stjórnvöld. Trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var ekki aðeins það að ráðast á trúarefni, heldur ekki síður að lasta valdstjórn eða mikilvæga þætti samfélagsins. Guðlast var eiginlega þjóðarlast. Guðlast var óbeint níð um samfélag og ekki liðið þess vegna. Refsingin var alltaf hörð og oft dauði. Þetta er mikilvæg og merkileg samfélags- og þjóðfélagsvídd guðlastsins. Enginn skyldi því halda að guðlast hafi bara verið grín.

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer lagt af dauðarefsingar við ógætilegu hjali. Við njótum nú mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið fram átakalaust. Og allir skyldu gera sér grein fyrir að þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.

Íslenskt guðlast

Þá ofurlítið um lögfræðina. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði, sem úrskurða þá athöfn refsiverða, sem smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags (125 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940). Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti sem m.a. er kenndur er við tímaritið Spegilinn. Í Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Af dómsorðunum má líka ráða, að það sé refsiverð háttsemi að grínast með kjarnaatriði tiltekinnar trúar eða trúfélaga.

Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað í ritmiðlum, á netinu, flutt í útvarpi eða í sjónvarpi, sem hefur verið handan hins siðlega. En fleiri dómar hafa þó ekki gengið í guðlastsmálum – mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt dómar væru felldir varðandi guðlast. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef grínistar, uppstandarar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og allra síst hefði Guði verið sómi sýndur. Að dæma menn fyrir guðlast bætir ekki guðsdýrkun eða samfélag.

Af hverju?

Í sálgæslu hef ég oft séð inn í heima þjáningar. Einkenni margra brotinna fjölskyldna og líðandi einstaklinga er tóm eða skortur. Ég var lengi að átta mig á hvers eðlis vöntunin væri, af hverju markaleysi margra væri svo skefjalaust, af hverju allt flyti, af hverju allt væri leyfilegt með óumflýjanlegum endi óhamingju og áfalla. Aðstæður fólks eru vissulega mismunandi og verða ekki skýrðar með einföldum hætti, en mér sýnist einkenna líf margra að þau skorti gildi, tilfinningu fyrir að til er dýpri réttur en einstaklingsrétturinn eða/og máttur hnefans. Sumt af þessu fólki, sem hefur ekki lært að gera greinarmun á réttu og röngu, að greina mikilvæg gildi frá yfirborðsgildum, hefur ekki hlotið djúpa elsku sem veganesti bernskunnar og skilur ekki muninn á spennu og ást, aga og frelsi, grunnþörfum og yfirboðsþáttum, inntaki og yfirborði.

Af hverju hafa hæðir og lægðir lífsins flast út í lífi svo margra? Niðurstaða mín er, að heilagleikinn hafi horfið úr lífi of stórs hluta samfélagsins, vitundin um að til eru gildi sem hafa gildi handan hagsmuna einstaklinga – gildi sem eru æðri einstaklingum. Í trúarsamhengi merkir það að til er Guð, sem vill að við umgöngumst lífið sem heilagar gjafir, en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Þegar Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum rýrni gildin, daprist munur góðs og ills, siðgreind fólks veiklist og þar með verði flest eða allt leyfilegt. Kannski er þá aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingins. Þegar einstaklingshyggjan ríkir rýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur, sem ekki má takmarka. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi – limbói, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða gildi, sem allt annað verði að lúta. Mér sýnist að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks og samfélags.

Hvað er þér heilagt, hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Þar er hið trúarlega í lífi þínu! Ef þú hefur ekkert af slíku er hætt við að margt og jafnvel allt fari á flot. Allir verða þá viðfang samkeppni, allir á bullandi siglingu á sjó eigin langana, reyna að fróa eigin sjálfi og duttlungum.

Tala, gera – vera

“Hann guðlastar” hugsuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði: Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp? Jesús var hnyttinn og spurði hvort væri auðveldara að orða fyrirgefningu eða lækna. Og þar sem Jesús læknaði manninn snarlega var komið að hinni spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlegur! Gagnvart Jesú springa allir lagabókstafir um guðlast. Hann setur sig í Guðssætið. Hvort það er réttlætanlegt eða ekki er til sérstakur dómu. Það erum við sem fellum dóm. Guðlastaði Jesús eða ekki? Guðlöstum við eða ekki? Hundeltum ekki þau sem guðlasta. Hugum fremur að guðlastinu í okkur sjálfum og hvort við heyrum orð Jesú um fyrirgefning og lækningu.

Amen

  1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Neskirkju, 26. október, 2014.

Í liðinni viku keypti Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lénið www.guðlast.is og sagði í því sambandi að fólk hefði ekki rétt til að móðgast ekki orðum annarra. Ég er Helga Hrafni sammála, fólk ber ekki skilyrðislaus réttur til að móðgast ekki í almannarýminu! En ég held að hann misskilji tilgang 125. greinar hegningarlaganna og of tengda einstaklingum. Löggjöf varðar dýpri rök en vernd einstaklinga, rökin varða fremur samfélag og hið opna rými, jákvæð þjóðfélagsgildi og m.a. að hatursorðræða sé ekki leyfileg. Á Íslandi eru – sem betur fer – orðasóðar ekki hundeltir og þeim refsað.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Vistspor

Umhverfisspor í GautaborgVið vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín – og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt – nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum – eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki – hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt

Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin

Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta – var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki

Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs

Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

  1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast.
  2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis.
  3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig.
  4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn – greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar.
  5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni.
  6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan

Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim – heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014

Lofsöngvar Lilju

IMG_0857Lilja samdi „Stjörnur og sól“ og „Ég kveiki einu kerti á.“ Engin kona á fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar. Í Liljuguðsþjónustu á Grund voru undur himins og Liljuljóðin íhuguð. Hugleiðingin á 12. sunnudegi eftir þrenningarhátíð er hér á eftir.

Grund er Guðsgrund – það er niðurstaða mín af umsögnum þeirra sem hér búa. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir er til heimilis hér á Grund og talar svo fallega um starfsfólk og þau sem hún hefur eignast af vinum. Nú hafa vinir hennar meðal starfsfólks boðað til þessar guðsþjónustu og aðeins sálmar Lilju eru sungnir. Reyndar hefur hún samið marga sálma sem hafa verið sungnir af mörgum. Engar aðrar konur eiga fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar en Lilja. Við syngjum nokkra þessara sálma og íhugum erindi þeirra og samhengi.

Lilja frænka

Lilja er móðursystir mín og hún og móðir mín voru mjög nánar. Þegar ég fæddist starfaði Lilja í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur við einveruna því ég vissi ekki af þessari norsku Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum kallaði hún til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég fór til hennar, horfði á þessa konu, skreið svo upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Síðan höfum við Lilja verið vinir. „Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.“ Það sungum við áðan. Og Lilja hefur alltaf opnað og verið fulltrúi Guðs, hefur allaf haft stund og breytt tárum í bros – ef ekki svefn.

Kirkjusvefn og sálmasöngur Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja hefur alla ævi opnað fyrir ljónrænu himinsins og sjálf sungið sálma.

Til er skemmtileg saga af sálmasöng Lilju frá bernsku hennar. Hún og fjölskylda hennar voru í kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Sú stutta kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu sinnar. Presturinn, sr. Stefán Kristinsson, steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumur hennar leystist allt í einu þegar farið var að syngja sálminn „Á hendur fel þú honum…” Þá glaðvaknaði Lilja og spratt upp. Þennan sálm kunni hún og tók undir sem mest hún mátti…„ sem himna stýrir borg,
það allt, er áttu’ í vonum,
og allt, er veldur sorg.“ Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún gerði sér skynilega grein fyrir að hún söng ein og steinþagnaði, fylltist svo skelfinu og hélt að hún hefði eyðilagt messuna! Eftir athöfnina faldi hún sig í pilsi mömmunnar og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér. Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur söng áfram og orti eigin ljóð um Guð og menn. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Að ljóða er að opna eyru og tala. Lilja hefur einnig þýtt mikinn fjölda sálma. Hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og viðfang. Þótt Lilja færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að hún gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Því leituðu margir til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og þegar ég kom til hennar á unglingsárum voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Og þar sem kór eða söngvari beið eftir þýðingunni til flutnings eftir nokkra daga mátti Lilja því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því stundum undir nokkru álagi en skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakaði Lilja lítillega, að það sem hún setti á blað hafi ekki verið nógu gott, sumt eiginlega ónothæft! En kröfurnar sem hún gerði voru miklar.

Sum ljóðin hennar Lilju eru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Hún hefur ritað gleðiefni sín, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim.

Góði Jesú, gefðu mér,

að geta sofnað rótt í þér,

Meðan heilög höndin þín,

heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar – um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og innlifaðist þeirri lífsafstöðu sem þar er boðuð. Fólkið hennar á Brautarhóli, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Lífsafstaða þessa fólks var jákvæð og traust, að öll veröldin sé Guðs og fyrir Guð. Hlutverk manna í heiminum væri að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að laða og leiða aðra til Guðs.

Lilja hefur samið mikið af ljóðum með náttúrskírskotun. Þau ljóð eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálmana. Náttúran í ljóðum Lilju er ekki aðeins falleg, stórkostleg og hrífandi heldur musteri Guðs, vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður Lilju tilefni íhugunar og lærdóms. Sólargeislinn er í augum hennar geisli frá Guði – og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna og ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins. Frostrósirnar eru listaverk frá Guði.

Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vakti athygli mína þegar ég vann við útgáfu verka hennar að Lilja yrkir aldrei um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði með opin eyru og tilbúin að tala um það sem hún upplifir.

Krossferill

Sum ljóð Lilju hefur sorgin meitlað eða mótað. Lilja hefur ort sér til léttis. Ljóðin hafa orðið henni farvegir fyrir tilfinningar og sum eru jafnvel sorgarlausnir. Af ljóðunum má skynja að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri og stara í sjó brostinna vona. Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna langrar veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Þegar hún líður kemur Jesús til hennar: „Þá kemur Jesús Kristur inn og kveikri ljósið bjart. Þá hverfur allur ótti minn og efamyrkrið svart.“ Í Jesú á Lilja vin, sem aldrei svíkur. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þau ljóð túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Vitund um mannlegan breiskleika, brot og kvíða koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn – boðskapurinn um lífið – á erindi við sjúkt fólk. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður. Og Lilja ljóðar óhikað um tilfinningar, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Lilja sópar ekki yfir tilfinningarnar heldur gefur þeim túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar? Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Í ljóðum og sálmum Lilju er Guð vinur, góður og umhyggjusamur. Lilja var lánsöm að eiga öfluga og heillynda foreldra, sterka móður og hlýjan föður. Svo var Siguringi E. Hjörleifsson, eiginmaður Lilju, elskuríkur maður. Því er enga föðurkomplexa og karlabresti að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af umvefjandi móður og hlýjum föður. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt hefur Lilja talað sem barn við Guð. Hvað erum við menn annað en þiggjendur allra gæða, börn hins himneska föður? Lilja hefur alla tíð tjáð að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún hefur líka átt sína vonarhöfn á himnum. Heima er ekki aðeins í húsi norður í Svarfaðardal eða í Reykjavík. Himinninn er ávallt hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að.

En kærust verður koma þín

er kvöldar hinsta sinn.

Þú leggur aftur augun mín

og opnar himin þinn.

Lilja notar gjarnan ljóslíkingar í tengslum við Guð. Í því nýtur hún skáldskaparhefðarinnar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill. Liljurnar Á miðaldamálverkum heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Jesús sneri sér að manninum í sögu dagsins og sagði: Effaþa,“ Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Svo varð í lífi og starfi Lilju. Eyru hennar opnuðust og tungan talaði skýrt. Hlutverk hennar hefur verið að lifa og miðla boðskap gleðinnar og opna himininn. Lilja hefur miðlað ljóðlist himinsins í heimi tímans. Það hlutverk er okkar allra líka. Hún hefur notað sínar talentur og við megum nota okkar.

Amen.

Ég vil þakka fyrir þessa Liljuguðsþjónustu í dag, þakka starfsfólkinu á Grund fyrir áhugann, umhyggju þeirra gagnvart Lilju, vinsemd og hlýja afstöðu. Það er sú afstaða sem er dýrmæti Grundar. Þakka Guðbjörgu Guðmundsdóttur, sr. Auði Ingu Einarsdóttur, Kristínu Waage, organista, þessum fína kór sem syngur. Guð laun.

Menn lyginnar

GosiFyrir nokkrum árum var upplýsingafulltrúa íslensks fyrirtækis sagt upp rétt áður en það var gjaldþrota. Af hverju? Vegna þess að hann vildi ekki ljúga um hag fyrirtækisins og því varð hann að taka pokann sinn. Manninum var sagt upp vegna þess að hann vildi segja satt! Hann var enginn Gosi.

Lygin laumast

Í dag er komið að lyginni! Lyginni í samfélaginu, pólitíkinni, einkalífi og einnig trú. Alla liðna viku hefur presturinn hugsað um lygina! Á sama tíma hef ég heyrt margar sögur og sumar þeirra eru aðeins hálfur sannleikur. Ég hef talað um lygina við syni mína og puðað við að innræta þeim hvað er rétt og hvað rangt eins og við foreldrar reynum að gera. Á föstudaginn heyrði ég í búningsklefa sundlaugar sögu sem var 80% lygi. Ég þekki málavexti sögunnar og gat upplýst áhyggjufullan sögumann um að málið væri með allt öðru móti en hann hélt. En af hverju tala um lygina í kirkjunni? Jú, vegna þess að íhugunarefni texta dagsins beinir sjónum að falsspámönnum – og þeir eru menn lyginnar – Gosar. Lygin er alls staðar, hún laumar sér í samtöl og samskipti, spinnur vefi sína og flækir fólki, stofnunum og heilu þjóðunum í fjötra. Viljum við það?

Furstinn

Ég hef oft furðað mig á klókindum fólks, hversu útsjónarsamt það er við að pota sér áfram, sjá atburði fyrir, flétta leikfléttur, gogga sig áfram og ná sínu fram með undirferli. Lygin er systir undirferlisins og blandar sér alltaf í laumugang lævísinnar og valdabaráttunnar. Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með svikum. Hann taldi að menn væru eigingjarnir, fégráðugir og grimmir. Mörg eru sammála og temja sér slægð og undirferli til að reyna að tryggja eigin hag og stöðu. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Dæmin eru mörg úr gamalli og nýrri pólítík. Ef þörf er á þá beri að ljúga og hægt að réttlæta lygina með því að tilgangurinn helgi meðalið. Og ef tilgangurinn er einstaklingnum þarfur og hagkvæmur er hægt að nota margt og marga sem tæki í þágu markmiðsins. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur komið einstaklingum, hópum og þjóðum í mikil vandkvæði, magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum.

Við höfum síðustu áratugi eiginlega lifað Machiavellískan tíma en ættum að læra að bregðast við eigingjörnu fólki og gera upp við lygina. Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Við eigum að láta af hálfsannleika, berjast gegn slægum mönnum og loddurum. Og við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú.

Tilraun um sannleikann

Heimsbyggðin hefur síðustu hundrað ár lifað einkennilegan tíma tilraunar með að teygja sannleika. Gerðar hafa verið hryllilegar tilraunir með eðli mannsins, eðli stjórnmála, eðli hins sanna, góða, fagra og gagnlega. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti gjaldsins sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-modernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu vesturlanda síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan komið fram í neysluhyggju og sjálfshyggju, hve fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum og bisniss.

Sannleikans megin

Carlo Collodi bjó til barnasöguna um Gosa. Nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Börnin skilja vel að menn ummyndast þegar logið er. Þegar lygin kemst inn ummyndar hún menn. Erum við gjörn til lygi? Tökum við þátt í henni, vafasömum söguburði, slefum við með í rökkursögum, sem ekki þola ljós sannleikans? Ertu Gosi?

Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði, segir í fyrsta versi Jóhannesarguðspjalls. Þetta er jafnan lesið á jólum í kirkjum landsins, boðskapurinn um birtuna og lífið sem kemur inn í heiminn og til góðs. Þar segir ekki að lygin hafi verið hjá Guði, heldur orðið. Og orð Guðs er samkvæmt hugsun Biblíunnar lind, uppspretta, allrar ræðu heims, allra orða manna. En það er okkar að nota þessa lind lífsins til góðs og bera ávexti í lífinu. Orð Guðs vökvar líf heimsins, leggur visku í brjóst manna og orð elskunnar á varir. Í trú kristins manns er fólgið að reyna að nema hið guðlega í veröldinni og iðka sannleika í orði og verki. Hvernig vill Guð að við tölum? Hvernig vill Guð að við ræðum um náunga okkar og við hegðum okkur í veröldinni?

Hið jákvæða og rétta

Það er lærdómsríkt að skoða hvernig Jesús brást við fólki og lífsmálum. Hann faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði satt. Því var hann elskaður af þeim sem þekktu hann sem sannleikurinn sjálfur. Í samskiptum við fólk hafði Jesús alltaf gagnsemi fólks í huga, fegurð þess, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna. Erindi Jesú var ekki að benda á hið neikvæða, heldur beindi hann alltaf sjónum að hinu mikilvæga, því sem er forsenda, ástæða, samhengi og markmið lífsins og Guðs. Og Jesús minnir á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar. Spyrjið um gæði og árangur er ráð Jesú.

Verslunin Silli og Valdi notaði slagorðið úr fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber og bláber – heldur um tengslin við Guð, ástina til Guðs, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll þau sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Og þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum.

Traust krefst sannleika

Hvernig líður þér með þeim sem segja satt? Líður þér ekki betur, ertu ekki öruggari og heilli þegar þú ert innan um fólk sem þú þekkir að segir satt? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig? Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, heilindin. Gosa nei takk. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – þekkja mig og þig.

Amen

Neskirkja 10. ágúst, 2014

Textaröð: A

Lexía: Jer 23.16-18, 20-21


Svo segir Drottinn hersveitanna:
 Hlustið ekki á orð spámannanna.
 Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
 þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
 Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: 
„Þér hljótið heill.“ 
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: 
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“ 
En hver hefur staðið í ráði Drottins, 
séð hann og heyrt orð hans? 
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki
 fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
 fyrirætlanir hjarta síns.
 Síðar meir munuð þér skilja það.
 Ég sendi ekki þessa spámenn,
 samt hlaupa þeir,
 ég talaði ekki til þeirra,
 samt spá þeir.

Pistill: Róm 8.12-17

Þannig erum við, systkin,
í skuld, ekki við eigin hyggju
 að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar
 munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Guðspjall: Matt 7.15-23

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.