Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Himinfleki og krossfesting

Himinfleki Helgi Þorgils FriðjónssonYfir höfðum fólks í Hallgrímskirkju er fljúgandi himinfleki. Ský og blámi eru tákn um himinn ofar hvelfingum og þaki. Himinnflekinn eiginlega opnar hvelfingu kirkjubyggingarinnar og hjálpar okkar að sjá ofar og víðar en venjulega.

Helgi Þorgils Friðjónsson málaði þennan stóra fleka í tilefni af 100 ára afmæli Kristnitökunnar og kom fyrir á klettaveggnum í Stekkjargjá á Þingvöllum, rétt hjá Öxarárfossi. Mér þótti þá ólíklegt að verkið þyldi stórviðri og veðurbreytingar á Þingvöllum og átti helst von á að skiliríið myndi fjúka burt eins og flugdreki.

Tilgangur Helga Þorgils með því að hengja himinmynd á bergvegginn var að opna klettinn. Mörg okkar höfum lesið sögur úr safni þjóðarinnar um lífið í klettunum, verur sem búa þar og hafa afskipti af mönnum og mannheimum – og skv. sögunum hafa menn hafa tengst þessum veröldum með ýmsum hætti. Helgi Þorgils setto himinn á klettinn, opnaði hann, náði að minna á að jafnvel grjótveröld er mikilvægur heimur – og svo er náttúran – og steinarnir þar með – eitthvað sem við menn berum ábyrgð á og ber skylda til að virða og fara vel með.

Himinflekinn brotnaði ekki og fauk ekki út í buskann. Þegar sýning Helga var sett upp fyrir kirkjulistahátíð í ágúst var þessi táknmynd himins fest upp yfir höfðum allra sem ganga hér inn. Og þar með minnir flekinn okkur á möguleika og opnun. Hér er opinn himinn eins og kletturinn varð himneskur á Þingvöllum.

Fimm krossfestingar

Fimm krossfestingar Helgi Þorgils FriðjónssonFyrir augum okkar innst í kórnum er svo krossfestingarmynd sem hefur verið hér jafnlengi og himinflekinn. Stundum hefur verið spurt. „Hver þeirra er Jesús Kristur?“ Og svarið er að þeir eru allir Jesús Kristur. Myndirnar eru endurvinnsla á krossfestingarmyndum kunnra málara. Listfræðilega og listasögulega er þetta einstakt myndlistarverk því krossarnir fimm á fjórum flekum snertast og skararast. En það er þó ekki hið merkilegasta heldur að allar myndirnar eru af sama andlitinu. Helgi Þorgils málar gjarnan eigin portrett – eigin sjálfsmyndir. Þetta er kannski einbeittasta “selfie” – sjálfuverk listasögunnar? En verkið sprengir þó hið einfalda því sjálfu-myndir Helga Þorgils eru sjaldnast aðeins mynd af honum. Sjálfsmyndirnar eru fremur mynd af öllum, konum og körlum, öllu mannkyninu. Krossfestingarmyndin er því af mennskunni, okkur öllum og einnig Jesú Kristi. Allar krossfestingarmyndir heimsins eru slíkar myndir. Jesús Kristur var ekki hengdur upp á krossinn sem einstaklingur og aðeins á eigin vegum. Hann var negldur á kross í stað annarra, fulltrúi allra manna. Hann er maðurinn – staðgengill allra og tjáning allrar mennsku. Svo er hann í augum trúarinnar Guð-maðurinn sem allt leysir og allt opnar – kletta og klungur náttúru, sögu og alls lífs.

Á þessum sorgardögum í kjöfar morðanna í París hefur þessi mikla krossfestingarmynd orðið mér augnhvíla. Ég hef horft á hana, hugsað um fólkið sem féll, sem var eins og krossfest af trylltum ofbeldismönnum. Þau eru þarna í Jesúmyndunum – og mannkynið allt, við öll. Jesús Kristur er í örlögum þeirra einnig. Hann er sprengdur og skotinn og hann er í því lífi sem þeim er gefið að baki dómi alls lífs. Allur harmur heims er umfaðmaður í krossfestingunni. Við erum í Jesú og Jesús í okkur öllum. Boðskapur hans, ást hans á lífinu, sköpuninni, mannfólkinu er ást Guðs til okkar allra, hvernig sem við erum og hvers litar sem við erum. Fimmkrossfestingarmyndin hefur orðið mér hugarfró.

Krossfesting og himinmynd

Augun hvarfla aftur frá krossfólkinu í kór Hallgrímskirkju og upp til himinflekans. Hann er tákn um það sem við erum og einnig vona okkar. Við sem erum krossfólk veraldar, fólk Jesú Krists, erum kölluð til ábyrgðar í kjölfar voðaverka í París, Beirut, Sýrlandi – allra viðburða og átaka. Okkar er að vera fjölskylda mennskunnar í heiminum og bygggja frið þrátt fyrir glæpi. Okkar köllun er að ryðja burt hindrunum til að friður megi ríkja, fólk megi lifa og njóta lífs. Það er kraftaverk lifandi trúar að klettar opnast – hvelfingar verið himneskar og mannfólkið friðarfólk.

Jesús sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“

Amen

Íhugun, kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 19. nóvember, 2015.

Aldrei aftur París

Sonur minn horfði á móður sína og sagði: „Mér finnst allt vera breytt.“ Drengurinn tjáði okkur að honum þætti veröldin væri önnur eftir morðin í París. hann fann að foredlrum hans var brugðið og skelfdist það sem hann heyrði í fjölmiðlum um voðaverk óðra manna. hann óttaðist að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin. 

129 manns létu lífið í París í fyrradag. 352 særðust og þar af eru um eitt hundrað í lífshættu. Við kveiktum ljós fyrir allt þetta fólk í gær á kyrrðarstund í kirkjunni og komum þeim fyrir í kórtröppunum. Ljósin voru óhugnanlega mörg og þöktu efstu tröppurnar. Smátt og smátt erum við að fá tilfinningu fyrir umfangi, dýpt og hryllingi þessara voðaverka glæpamanna sem standa fremur með dauðanum en lífinu.

Þau sem létu lífið eru í bænum okkar, ástvinir þeirra og franska þjóðin. Og hverjir voru þessir glæpamenn sem myrtu saklaust fólk með köldu blóði, skutu fólk sem sat úti fyrir kaffihúsum og á tónleikum og sprengdu sprengjur – og sjálfa sig með – m.a. við þjóðarleikfang Frakka, Stade de France. Það voru ekki einhverjir gamlir, vitskertir, siðblindir kallar heldur fyrst og fremst ungir menn, sumir voru unglingar, aðeins 15-18 ára gamlir. Þessi drengir hafa verið aldir upp í og heilaþvegnir til að standa fremur með dauðanum en lífinu. Hvers konar afstaða er það? Hvers konar viðhorf og siðhrun er það? Öll heimsbyggðin er agndofa gagnvart hryllingnum. Allt er skelfilegt varðandi hörmungaratburðina í París.

Og hvað eigum við að gera? 

Hvernig getum við brugðist við? Samfélagsmiðlarnir loga og margt er þar vel sagt. Mikil samúð er tjáð, fólk speglar samstöðumyndir með Parísarbúum og Frökkum, litar prófílmyndirnar á facebook í frönsku fánalitunum og smellir inn friðarmynd af Eiffelturninum með krossi í miðju. En svo eru önnur sem bregðast við með gífuryrðum og hella úr skálum reiði sinnar með því að tengja ófriðinn við fólk sem hefur ekkert til saka unnið. Það þjónar ekki réttlæti eða friði að uppteikna alla múslima sem djöfulóða öfga- og glæpamenn. Er það hjálplegt í þessum hryllilegu aðstæðum að fella alla múslima í einn hóp? Búa til úr þeim hóp sem eru allt annað en “við?” Nei, allir múslimar eru ekki ábyrgir fyrir þessum hryllingi frekar en að ég og þú eigum sök á fjöldamorðunum í Útey í Noregi. En það þjónar hins vegar ekki friði eða réttlæti að bregðast við með því að afneita alvöru málsins. Stríð í Austurlöndum nær eru stríð sem okkur varða og vandi íbúa þeirra einnig. Fólkið sem flýr Sýrland til Evrópu er að flýja sömu glæpamennina og sama drápshópinn og réðst á Parísarúa. Átökin eru ekki aðeins átök stríðandi hópa sem berjast til valda. Stríðin varða afstöðu til lífsins, siðferði, rétt minnihlutahópa, hvort úrelt hugmyndakerfi fái ráðið.

Hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að bregðast við? Við getum margt lært af viðbrögðum Norðmanna við fjöldamorðunum í Noregi fyrir fjórum árum. Þá létu Norðmenn ekki dauðann ráða heldur lífið og lífsástina. Gegn hatri og grimmd létu Norðmenn hatur og ótta ekki ráða för heldur kærleika og mannúð. Forystumenn múslima og kristinna, húmanista, trúmanna og vantrúarmanna tóku höndum saman um að treysta frið og eindrægni í samfélaginu. Haldnar voru fjöldasamkomur í kirkjum og á torgum, í moskum og félagsmiðstöðvum til að fólk gæti sameinast um lífið til að dauðinn fengi ekki sigrað.

Prófið mikla

Nú er komið að miklu prófi menningar Vesturlanda. Hvernig eiga franska þjóðin og okkar heimshluti að bregðast við dauðasveitunum? Hvað er best og ábyrgast að gera? Er það valkostur að Vesturlönd fari í stríð við Islamistanna? Hófst þriðja heimstyrjöldin í París? Margir halda að svo sé en við eigum ekki að láta ofbeldismennina ráða, við eigum aldrei að láta eða leyfa glæpamönnum að stjórna samfélögum eða lífi okkar. Okkar köllun og okkar skylda er fyrst og fremst að standa með lífinu en ekki dauðanum. Standa með rósemi en ekki ótta. Efla friðinn en ekki óreiðu og órétlæti.

Fellur aldrei úr gildi

Kæru fermingarungmenni sem sitjið á fremstu bekkjunum í kirkjunni í dag. Hvaða afstöðu ætlið þið að taka? Hvað ætlið þið að gera í ykkar lífi? Hvaða stefnu ætlið þið að taka? Hvernig gildi viljið þið temja ykkur? Og þær spurningar varða okkur líka sem eldri erum.

Tíma einfeldninnnar er lokið um hvað trú og siður sé. Það skiptir máli hver eru gildi okkar og lífsafstaða. Við höfum alist upp í menningu sem er gegnsýrð og mótuð af kristindómi, kærleiksboðskap Jesú, umburðarlyndi, tillitssemi, fyrirgefninu og kærleika. Sá boðskapur fellur aldrei úr gildi. Kristin gildi eru leikreglur vestrænna samfélaga og hafa haft áhrif á viðmið, uppeldi, samskipti, menntunarstefnu og löggjöf. En mörgum hefur sést yfir í hraða og erli síðustu ára hve kristnin er samofin mestu dýrmætum menningar okkar. Nú er komið að krossgötum. Viljum við frelsi, jafnrétti og bræðralag sem er slagorð frönsku byltingarinnar sem jafnframt eru gildi kristninnar? Eða eitthvað annað? Það er ekki valkostur að afskræma trú og menningu annarra og það er ekki valkostur að afskræma hinn kristna sið og gildi heldur.

Ræða stóru málin

Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi. Nú flæða inn í vestræn samfélög, og brátt okkar líka, fólk með allt öðru vísi mótun, annan hugsunarhátt og viðhorf. Móttökur okkar eiga að vera kærleiksríkar en skynsamlegar. Við megum og eigum að gera kröfur um að fólk virði leikreglur vestrænna samfélaga, vestrænnar gagnrýni, vestrænnar löggjafar – hins vestræna vefs menningar.

Aldrei aftur París

Já, það er allt breytt. Við stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa okkur um og taka stefnu, án ótta, með upplýstri trú og af kærleiksríkri einurð. Fjöldamorðin í París eru árás á gildi, trú, menningu og stefnu vestrænna þjóða. Stríðsyfirlýsing gagnvart siðum og venjum Vesturlanda. Skipta þau okkur máli? Tíma einfeldninnar er lokið. Við stöndum með Frökkum. Við erum öll Parísarbúar þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa skothríðinni í París að hræða og beygja okkur? Nei. Glæpur var unnin á frönsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur París.

Íhugun í Hallgrímskirkjumessu 15. nóvember, 2015

Guðrún Birna Þorsteinsdóttir – Dúna


DúnaDúna var heimakona í Neskirkju. Hún bjó í Vesturbænum frá því kirkjan var byggð og rataði í kirkjuna sína. Hún sótti kirkju, messur, bænastundir og fræðslustarf og studdi starf safnaðarins. Hún las upp fyrir eldri borgara og gerðist bílstjóri fyrir þau sem átt óhægt með að ganga til og frá kirkju. Dúna kom alltaf í Neskirkju með bros á vör og birtu í augum, með elskusemi, hlýju og glæsileika. Þegar Dúna kom varð allt heldur skemmtilegra og betra og þegar hún fór skildi hún eftir ofurlitla Cartier-ilmvatnslykt, notalegheit og þakklæti í huga okkar sem störfuðum í kirkjunni. Við þökkum fyrir alla þjónustu Dúnu, vinsemd hennar og elskusemi.

Upphaf

Guðrún (Anna) Birna Þorsteinsdóttir fæddist á Þingeyri 14. september árið 1936. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmunda Sigríður Guðmundsdóttir og Þorsteinn Jónsson, sem kallaður var Eyfirðingur. Þorsteinn fæddist árið 1883 en kona hans tæplega þretán árum síðar. Hún var Vestfirðingur en hann Eyfirðingur eins og viðurnefnið ber með sér.

Þorsteinn var skipstjóri og útgerðarmaður og vegna starfa hans bjó fjölskylda Dúnu fyrstu árin á Þingeyri en flutti svo til Reykjavíkur. Þar bjó Dúna síðan. Hún hóf skólagöngu í Miðbæjarskólanum og fór svo í hinn nýja Melaskóla. Síðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Verknáms. Þar naut hún góðrar menntunar og eignaðist góðar vinkonur og þær átttu skap saman – og ákafinn í náminu var svo mikill að þær jafnvel lokuðust einu sinni inni í Austurbæjarskóla og kalla þurfti út mannskap til að ná þeim út. Vináttu þessara kvenna naut Dúna til æfiloka. Eftir verknámið fór Dúna í eitt ár til náms í Bristol í Englandi og enn síðar í húsmæðraskóla í Holbæk í Danmörk. Hún lærði ekki aðeins hagnýt fræði og tungumál heldur var opin félagslega og tengdist fólki greiðlega. Vináttuböndin sem hún batt á þessum árum dugðu til lífsloka.

Þegar Dúna koma heim til Íslands eftir nám erlendis vann hún ýmis skrifstofustörf í Reykjavík. Hún vann um tíma á lögfræðistofu Einars Ásmundssonar og svo vann hún einnig á Hótel Borg. Hún var flugfreyja hjá Loftleiðum á sjötta áratugnum og var síðan móttökuritari á Domus Medica. Þá lagði Dúna sig eftir snyrtifræði og vann um tíma í snyrtivörudeild í apóteki.

Gunnar, Sigrún Magnea og fjölskyldan

Dúna og Gunnar - hjónavígslumyndGamli Garður var Dúnu og lögfræðinemanum, Gunnari I. Hafsteinssyni góður staður. Þar hittust þau fyrst á balli. Þau hrifust hvort af öðru og tóku upp samband. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni þann 25. júní árið 1960. Neskirkjupresturinn og rithöfundurinn Jón Thorarensen gaf þau saman. Þau hófu búskap á Seltjarnarnesi. Gunnar hélt áfram námi í lögfræðinni og eins og tíðkaðist á þeim árum hættu giftar konur að fljúga um heiminn þegar þær sögðu já við mannsefni sínu í kirkjunni. Dúna fékk þá vinnu í Reykjavík.

Þau Dúna og Gunnar keyptu sér íbúð á Víðimel skömmu eftir að hann lauk lögfræðinni árið 1963 og fluttu sig svo um set yfir á Meistaravelli til að geta verið í nágrenni við móður Dúnu sem þar bjó. Á Hagamel bjuggu þau Gunnar svo í nokkur ár og byggðu sér síðan einbýlishús í Skerjafirði þar sem þau hafa búið í 18 ár. Gunnar hefur starfað sem lögfræðingur og útgerðarmaður.

Þau Dúna og Gunnar eignuðust eina dóttur Sigrúnu Magneu. Hún er jólabarn, fæddist 25. desember 1973. Sigrún Magnea er leikskólakennari að mennt. Eiginmaður hennar er Benedikt Sævar Magnússon, byggingatæknifræðingur. Þau eiga fjórar dætur. Elst er Bergljót Soffía sem fæddist 27. maí 1998 og næst Inga Birna. Hún er vorstúlka, fæddist 10. apríl árið 2002. Freyja Dís fæddist árið 2005. Hún er líka fædd að vorlagi eða 8. apríl. Það eru því stutt á milli afmæla þeirra systra, bara einn dagur. Yngst systranna er Lóa Mjöll. Hún er fjögurra ára, fæddist 29. marz árið 2011.

Dúna hafði mikla gleði af ungviðinu i fjölskyldunni, talaði oft um dótturdætur sínar, kenndi þeim að biðja og var til staðar fyrir þær þegar hún hafði heilsu til. Hún miðlaði okkur prestum og starfsfólki kirkjunnar fréttum af þeim og afrekum þeirra. Og það var gaman að hlusta á hana segja sögur af þessum ungu konum sem hún batt miklar vonir við og syrgði að geta ekki fylgt eftir.

IMG_0212 fix (2)

Minningarnar

Hvrernig manstu Dúnu? Hvað kemur upp í hugann? Hún vakti athygli allra þeirra sem sáu hana. Svo smekkleg var hún og glæsileg. Húsmæðranám var hagnýtt en Dúna hafði allt í sér til að kunna að meta efni, snið, rými, liti, útlit og skipulag. Hún var smekkvís og vissi vel hvað við átti í hvert sinn. Hún var öðrum fremri að tengja saman liti.

Hvernig er heimili Dúnu? Þar eru engin stílbrot. Hús og heimili þeirra Gunnars í Skerjafirði er eitthvert það smekklegasta sem ég hef komið á. Dúna lagði alúð í að búa manni sínum og fjölskyldunni fagurt heimili. Fagurkerinn í henni naut sín til fulls við að koma myndum fyrir og sjá til að stólar og sófar væru rétt staðsett í rýminu. Hún hafði gleði af fallegum hlutum og í gegnum tíðina eignaðist hún fallega muni sem hún kom fyrir með næmum smekk. Jafnvel starfaparkettið á gólfinu er lagt með listfengi og ljóst að ekki hefur verið kastað hendi til nokkurs í húsi þeirra Dúnu. Og þegar hún hafði búið heimili sitt fagurlega sá hún til að fegurðin héldist og allt væri í röð og reglu innan stokks sem utan. Og þau Gunnar opnuðu hús sitt fyrir glöðu fólki og mannfundum.

Manstu have vel hún fylgdist með öllu í samfélaginu? Hún las dagblöðin svo vel að hún hafði gott yfirlit allra helstu mála og var þar með upplýst um hvað væri á döfinni. Hún las alls konar bækur. Það var því hægt að bera víða niður í samtölum við Dúnu.

Dúna hætti ekki að ferðast þó hún hætti að fljúga. Hún hafði gaman af að skoða heiminn. Þegar Gunnar hafði ekki tóm til að fara með henni fór hún með vinkonum sínum og fór einnig í skipulagðar hópferðir. Guðrún Karlsdóttir fór með Dúnu í miklar ferðir til Suður Afríku og Asíulanda. Vinir og vinkonur eru stoð í lífinu og Dúna átti í vinkonum sínum dýrmæta gleðigjafa. Og það er ástæða til að þakka vináttu þeirra sem var Dúnu mikilvæg í lífinu.

Manstu lífsafstöðu hennar? Hve þakklát hún var fyrir lífið og vildi miðla þakklæti, þeirri mikilvægu lífsafstöðu til afkomenda sinna og samferðafólks?

Manstu hve þolinmóðlega Dúna bar veikindi sín? Í áratugi átti hún við vanheilsu að stríða. Hún hafði ekki langt mál um baráttu sína. Þegar ég spurði um líðan hennar féllu nokkur vel valin orð, hún brosti svo ofurlítið og vék svo talinu að öðru.

Manstu viðkvæmni hennar? Það fór ekki fram hjá neinum sem þekktu Dúnu að hún var næm.

Manstu eftir áhuga hennar? Á þér, á því sem væri til gleði, á viðburðum í samfélaginu, á öllu því sem gæti létt lund, glatt og orðið til eflingar. Mér þótti vænt um að sjá hve natin Dúna var við öll þau sem hún gæti stutt og hjálpað. Ég heyrði af því að hún hefði verið sjálfboðaliði Rauða krossins um tíma. Hún var alltaf boðin og búin að lesa eða sinna einhverju sjálfboðastarfi í Neskirkju. Og það var hrífandi að sjá hve vökul hún var ef einhver þurfti aðstoð við að komast til og frá kirkju. Hún ók fólki vestur á Grandaveg eða upp í Þingholt. Allt gerði hún með þokka.

Manstu hve natin Dúna var við móður sína aldraða og hvernig hún sýndi hjartalag sitt í samskiptum við hana? Þessi afstaða til hinna öldruðu speglaðist vel í eldriborgarastarfinu í Neskirkju.

Inn í himin Guðs

Nú er hún farin. Við leiðarlok er vert að þakka Gunnari fyrir óbilandi stuðning hans við Guðrúnu í veikindum hennar og Sigrúnu Magneu og fjölskydu hennar hve vel þau héldu um hana til loka.

Dúna er farin inn í himininn. Hún kemur ekki lengur þurrkuðum blómum fyrir í vösum í stofunni sinni. Hún biður ekki lengur kvöldbænir með ömmubörnum og fer ekki framar með „Leiddu mína litlu hendi….” Augu hennar lifna ekki lengur af kátínu og skemmtilegheitum. Hún er farin af fallega heimilinu sínu og Gunnar er einn eftir. Dóttir, tengdasonur,  ömmudætur og ástvinir sjá á bak henni. Hún kveður nú líka Neskirkju endanlega og í síðasta sinn. Hún er horfin ykkur, öllum þeim sem unnu henni. Hvert fór hún? Dúna átti í hjarta trú á Guð.

Guðrún Birna Þorsteinsdóttir er farin með friði inn í veröld Guðs.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Guðrúnar Birnu Þorsteinsdóttur í Neskirkju 11. nóvember 2015. Bálför. Jarðsett í fjölskyldugrafreit í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju. Kistulagt í kapellunni í Fossvogi 9. nóvember.

Praesens historicum

Við Hallgrímskirkju – utan dyra – er slétt, ferhyrnd steinplata. Hún er á áberandi stað sunnan kirkjunnar en lætur þó lítið yfir sér. Á hellunni stendur Praesens historicum. Hvað þýða þessi latnesku orð? Hver er merkingin og varðar hún þig?

Þetta er mynd sem Kristinn E. Hrafnsson, myndlistarmaður, gerði fyrir sýningu í Skálholti. Heiti verksins snarað á íslensku er “Söguleg samtíð” og varðar sögu í samtíma. Og það var við hæfi að þetta verk var gert fyrir Skálholtssýningu því saga biskupsstólsins er “höfuðstóll” íslenskrar sögu og Skálholt samtíðar er einn glugganna að drama Íslendinga. Hvernig lifir saga? Kristinn fékk Sigurbjörn Einarsson til að skrifa latneska heitið á blað. Svo stækkaði Kristinn áritunina og verkið var innrammað og hékk lengi í setustofu Skálholtsskóla og hefur orðið mörgum íhugunarefni. Svo var Sigurbjörnsáletrunin klöppuð á steinhellu.

Árið 1998 barst Hallgrímskirkju boðsbréf frá Kjarvalsstöðum um að setja listaverkið niður við kirkjuna. Því var fagnað og þegið. Og síðan hefur þetta hógværa og lágstemda verk kúrt sólarmegin við kirkjuna og hvíslar spurningum um tengsl sögu og samtíðar, þeirra sem farin eru og okkar sem lifum í nútíðinni, milli vefs menningar og spunagerðar samtímans.

Mynd af Ph við HallgrímskirkjuVið búum til okkar eigin sögu. Sum okkar segjum hana með gleði og í frelsi en önnur eiga í erfiðleikum með að greina sögu sína, túlka hana jafnvel bara í neikvæðum tengslum við aðra. Þau sem eru kúguð eða meðvirk eiga t.d. oft erfitt með að segja sögu sína af því þau hafa verið bæld eða þvæld í samskiptum. En öll reynum við þó að greina merkingu í eigin lífi hversu köflótt sem ævin er. Verkefni margra presta, sálfræðinga, geðlækna, markþjálfa, góðra vina og jákvæðs fólks er m.a. að vera til staðar svo fólk geti orðað sögu sína – eða endursagt hana ef þarf að umtúlka t.d. vegna áfalla eða neikvæðrar upplifunar af einhverju tagi. Við eigum sögu sem er meiri en vitund okkar. Ekkert okkar man fæðingu og frumbernsku. Og ekkert okkar er til frásagnar um lok lífs okkar. Önnur segja þá sögu. Svo eru stærri sögur samfélaga, hópa, þjóða og menningar.

Hvernig lifir þú? Er þín saga algerlega sjálfstæð, engu og engum háð? Eða megnar þú að lifa í samfélagi annarra og þar með hlusta og reyna að skilja líf, veru, sögu samferðafólks þíns?

Við lifum á tíma þegar söguminjum er skutlað inn í stofnanir sem varðveita, sýna og túlka sögu. Svo hafna margir einhverju úr sögunni, misvirða eða rangtúlka. Margir trúlausir afneita veigamiklum þáttum trúarsögunnar og vilja endurskilgreina menningartúlkun. Þverrandi áhugi á fortíð og sögutáknum fortíðar breyta sýn einstaklinga, hópa og jafnvel þjóða. Þú ert veruleiki innan þíns eigin hrings sem er saga þín og líf. Til að þú þroskist vel skarast þinn merkingarhringur við veruleika annarra, hring annarra. Og það er trú mín að til að fólk og hópar nái miklum þroska verði sagan að hafa áhrif – ekki stýrandi eða kúgandi áhrif – heldur lífgefandi áhrif. Í sögunni er líf, fortíð og nútíð. Heimspekingurinn H. G. Gadamer talaði um að sjóndeildarhringir deildust þegar skilningur yrði.

En hvað þá um sögu kristninnar? Er hún þér lifandi veruleiki sem hefur áhrif á þig – og er lífi þínu til eflingar? Verk Kristins, rithönd Sigurbjörns, saga og verk Hallgríms, veruleiki þessar kirkju, þjónusta alls þess fólks sem hér hefur starfað og verið – allt áhrifasaga sem varðar samtíð. Þú átt þér líka sögu og samtíð.

Stærsta sagan sem er til er saga Guðs. Hún er erkisaga – lykilsaga. Trúmenn sjá í þeirri sögu túlkun á eigin smásögu. Hver ertu? Aðeins fortíðarsnauð nútíð – eða nútíð sem sagan litar og er til framtíðar? Jesús Kristur er í sögu, en er einnig söguleg samtíð og á erindi við þína sögu – við þig. Þess vegna er praesens historicum við og í Hallgrímskirkju – öllum kirkjum – ekki dautt grjót heldur erindi um líf og fögnuð.

(Praesens historicum varðar einnig málvísindi. Þegar nútíð er sett inn í fortíðaratburði í ræðu, leikhúsi eða kirkjulegri prédikun er það praesens historicum, sbr. Jesús „segir“ en ekki aðeins sagði)

Íhugun í kyrrðarstund í Hallgrímskirkju, 29. október, 2015

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.