Elín Sigrún Jónsdóttir skrifaði árið 2015 um kosningarétt kvenna og Kristjönu Jóhannsdóttur, 1891-1969, móðurömmu hennar:
„19. júní hefur lengi verið mikill hátíðisdagur í mínum huga. Á þeim degi minnist ég ömmu minnar. Hún fagnaði kosningarétti kvenna innilega og hún virti lýðræðið mikils. Hún varð ekkja aðeins 28 ára gömul og þá var þriðja barnið á leiðinni. Amma var hetja, hafði mikið fyrir lífinu en lifði óbuguð og með reisn þrátt fyrir áföllin.
Ég var átta ára gömul þegar ég fór með henni á kjörstað. Hún gaf mér íslenskan fána, klæddi mig í minn fínasta kjól og í sparikápuna mína. Sjálf var hún á upphlut, prúðbúin og glæsileg. Á leiðinni á kjörstað sagði hún mér söguna af hve lengi hún hafði þráð það að fá að kjósa og hve kosningarétturinn hafi verið henni langþráður. Amma sagði mér líka söguna af því þegar hún fór í fyrsta sinn á kjörstað. Hún hafði engan til að passa fyrir sig og skildi elsta drenginn eftir heima með litlu systurnar. Á meðan börnin voru ein heima, kom frænka í heimsókn og spurði eftir mömmunni. Drengurinn brast í grát og stundi upp: „Ég er svo hræddur um að mamma komi ekki fyrr en á morgunn – hún mamma fór í Kjósina.“ Amma sagði mér þessa sögu með svo mikilli hlýju og innlifun að sagan greiptist í huga minn. Ég skynjaði að amma var að miðla mér mikilvægum viðburði í eigin sögu. Þegar foreldrar mínir fóru á kjörstað var jafnan haft að orðtæki og sagt með gleði að nú væri kominn tím til að punta sig og fara „í Kjósina.“
Vorið 2012, vorum við hjónin að fara á kjörstað og kjósa í forsetakosningu. Þá var hringt á dyrabjöllunni. Vinur tvíburadrengja minna á sjöunda ári var kominn og spurði þá hvort þeir vildu koma út að leika. En svarið var skýrt: „Nei við getum það ekki, við erum að fara í Kjósina!“ Þegar á kjörstað var komið spurði Ísak, sem hafði kynnt sér frambjóðendur rækilega og ætlaði upp á sitt eindæmi að kjósa konu til forseta: „Hvar á ég að kjósa.“ Við foreldrarnir sögðum honum að börn nytu ekki kosningaréttar. Hann brást hinn versti við og grét svo glumdi um allan Hagaskóla. Á milli grátrokanna hrópaði hann: „Hver setur svona vitlausar reglur?“
Í dag ætla ég að segja drengjunum mínum söguna af langömmu þeirra sem fékk ekki að kjósa fyrr en á fertugsaldri, þá orðin þriggja barna móðir og ekkja. Sú kona vissi að ekkert er sjálfgefið en kunni að fagna tímamótunum. Hún virti kosningaréttinn mikils alla tíð. Saga hennar er mikilvæg saga fyrir drengina, afkomendur hennar, ég hlakka til að fara með þeim á Austurvöll í dag.“
Á myndinni eru Elín Sigrún Jónsdóttir 8 ára og Kristjana Jóhannsdóttir. Á milli þeirra er myndin af Kristni sem grét yfir að mamma hans væri farin í kjósina!


Trump og félagar í MAGA beita óþægilega líkum aðferðum. Þeir kynda undir óánægju, magna andstæður og hatur milli hópa, halda fram alls konar falsfréttum um svik og ásókn óvina. Ráðist er á fjölmiðla, sérfræðinga, menntastofnanir og réttarkerfi landsins. Stöðugt er grafið undan stofnunum og trausti, spennan er aukin sem mest má verða. Alið er á persónudýrkun af því tagi sem við þekkjum frá sértrúarhópum. Dæmin hræða. Trump-cult er í gerðinni. Einræðistilburðir og einræðissókn Trumps er augljós. Fólki er hótað, farið er fram hjá löglegum forystumönnum og þeir niðurlægðir. En þó er mikilvægur munur á Bandaríkjunum og Þýskalandi nazismans og drápshryllingsins. Bandaríkin eru enn lýðræðisríki. Það er ekki aðeins hlutverk vina okkar í Bandaríkjunum að standa vörð um lýðræðið vestan hafs. Við höfum líka rödd. Ég naut menntunar í einum besta háskóla Bandaríkjanna á sínum tíma. Mér er mjög annt um hefð ríkisins, sögu, menningu og fólk. Ég mótmæli og mun mótmæla, sniðgeng bandarískar vörur og tala við vini mína og legg það lið sem ég má. Ég hugsa til prestsins Martin Niemöller sem iðraðist mjög í fangabúðum nazista að hafa ekki staðið með þeim sem höfðu verið jaðarsettir og niðurlægðir: „Fyrst komu þeir og sóttu sósíalista, og ég sagði ekkert – því ég var ekki sósíalisti. Svo komu þeir og sóttu verkalýðsfólkið, og ég sagði ekkert – því ég var ekki verkamaður. Þá komu þeir og sóttu gyðingana, og ég sagði ekkert – því ég var ekki gyðingur. Loks komu þeir og sóttu mig – og þá var enginn eftir til að segja neitt.“ „Þegar valdsmenn sverta sannleikann og réttlætið, er þögnin samsekt.“ Þegjum ekki.
Hin drepnu gera enga uppreisn.