Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Framtíðarkonur Afríku

8 3 Chep„Við stofnuðum framhaldsskóla í Chepareríu og stúlkurnar fóru í sama skóla og strákarnir,“ sagði Skúli Svavarsson og horfði yfir kristniboðsstöðina. Svo bætti hann við: „Stúlkurnar leigðu í bænum og svo kom í ljós að sumir karlar sem leigðu þeim töldu að innifalið í leigugjaldinu væri aðgangur að þeim. Nokkrar þeirra urðu ófrískar. Þá vissum við að til að tryggja öryggi þeirra og menntun yrði að stofna heimavistarskóla fyrir stúlkurnar.“ Og nú er Propoi High framhaldsskóli fjögur hundruð stúlkna. Kristniboð stendur með öllu fólki, líka konunum.

Jamas skólastýra, Samson biskup og Skúli kristniboði
Jamas Murray Samson biskup og Skúli Svavarsson.

Liljusjóður

Við vorum sjö á ferð í Afríku í janúar og febrúar 2016. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, móðursystir mín, lést á árinu 2015 og skildi eftir í erfðaskrá sinni beiðni um að við færum til að velja gæfuleg kristniboðsverkefni sem erfðafé hennar gæti stutt. Það var til happs og blessunar að í Eþíópíu tóku á móti okkur hjónin Ingibjörg Ingvarsdóttir og Jónas Þórir Þórisson, og í Keníu hjónin Kjellrun Langdal og nefndur Skúli. Ég hef alla tíð metið mikils starf kristniboðs en þegar ég kom í heimsókn gerði ég mér grein fyrir því hve ávaxtaríkt kristniboðið hefur verið milljónum fólks í Eþíópíu og Keníu. Samfélögin hafa batnað og staða kvenna og barna mun sterkari vegna siðmáttar kristninnar. Kristniboðarnir fóru gegn hefðum og venjum og hikuðu ekki við að leyfa konum að njóta sín og afla sér líka menntunar. Alls staðar þar sem við komum höfðu konurnar rétt til að tala og tjá sig. Þær notuðu þann rétt og fluttu oft merkilegustu ræðurnar. Kristniboðið hefur verið farvegur blessunar, kristniboð er kraftaverk.

Kvennaframhaldsskóli

Orðin hans Skúla um kvennaskólann sátu í mér þegar við röltum upp veginn í átt að Propoi High, framhaldsskólanum í Chepareríu. Hópur stúlkna beið okkar uppi í hlíðinni og margar þeirra veifuðu til okkar. Þegar við komum nær sáum við að þær voru allar krúnurakaðar – vegna heilbrigðissjónarmiða — og í skólabúningi. Við vorum boðin velkomin á skrifstofu rektorsins. Vöxtur skólans hefur verið slíkur að ekki var til fé til að reisa skrifstofubyggingu svo starfsfólkið verður að láta sér nægja skólastofuhorn. En skólastýran, Jamas Murray, er kraftmikil og ákveðin, n.k. kvenútgáfa af Obama. Hún er eldklár, með skýra skólastefnu, vald á kennslufræðum og hvernig megi koma kennarahóp og fjögur hundruð tápmiklum ungum konum til þroska. Samson, Pókotbiskup, brosti þegar hún hreif okkur með sér því hann hafði séð í henni framtíðarstýru vaxandi stofnunar og ráðið hana til skólans.

Kennarar í Propoi High
kennararnir eru ungar og kraftmiklar konur.

Nemendurnir héldu út úr öllum stofum með stóla í fangi. Hvað voru þau að gera með þessi húsgögn? Svarið var að ekki væri til nema einn stóll á nemanda svo þær tækju hann bara með sér ef þær væru kallaðar á sal. Við fórum á eftir stúlkunum, kíktum í leiðinni á heimavistaraðstöðuna, sem þarf að bæta, og héldum svo í átt að matsalnum. Ég og tíu ára tvíburasynir mínir, Jón Kristján og Ísak, urðum á undan hinum gestunum og kraftmikill söngurinn umvafði okkur þegar við komum í salinn. Þetta var söngur eilífðar og kom frá hjartanu. Átta hundruð augu brostu við okkur og átta hundruð hendur fóru á loft og veifuðu til okkar þriggja. Svo þögnuðu þær. Ég stökk upp á svið og sagði þeim það sem var mér efst í sinni: „I would like to tell you a secret everyone should know: You are wonderful — so wonderful.“ Fagnaðarópin, hláturinn, gleðihljóðin bylgjuðu bárujárnið í þakinu. Allar skildu þær enskuna, allt stúlkur sem hafa orðið að berjast fyrir að vera í skóla, njóta náms sem ekki er sjálfgefið í veröld fátæktar. Skólagjöldin eru há. Flestar stúlknanna hafa lítil efni svo að skóli og nám eru þeim lífsgæði, dásemd og hlið til þroska og jafnvel betra lífs.

Kraftmikill kvennaskóli

Saga og Katla halda ræður
Saga og Katla halda ræður.
Ísak flytur ávarp - og enskan er alþjóðlega tungumálið sem unga fólkið talar gegn ruglingi Babel.
Jómfrúarræða Ísaks fyrir jómfrúrnar í Propoi High.

Svo komu konurnar í lífi mínu, Elín Sigrún og dætur mínar, Katla og Saga. Með skólastýrunni kom Skúli Svavarsson og stúlkurnar þekktu hann því hann er skólaafinn. Nafn hans — í einfaldaðri útgáfu — var skrifað á A3 blað og límt á salarvegginn: „We are proud to have you as our sponsor rev. Skuli Svavason.“ Og allur söfnuðurinn söng þessum stofnanda og verndara skólans: „Grandpa don’t forget us.“ Skúli brosti hógvær og mun minnast og vaka yfir velferð þeirra. Svo fluttum við karlarnir ávörp og allur nemendahópurinn söng. Katla og Saga voru kynntar og stóðu á fætur og töluðu við kynsystur sínar um mikilvægi ástríðunnar og eigin markmiðssetningu í námi, störfum og lífi. Svörtu stúlkurnar hlustuðu á hvítu konurnar sem höfðu sett sér stefnu. Önnur hafði numið arkitektúr og starfaði við grein sína á Íslandi, teiknaði hús og hafði látið drauma sína rætast. Hin hafði stundað ljósmyndanám, tekið myndir víða og birt verk sín í mörgum helstu ljósmyndablöðum heimsins. Meira að segja Leica, einn virtasti myndavélaframleiðandi veraldar, hafði áritað myndavél með nafni hennar og gefið henni. Svo stóð Elín Sigrún á fætur og sagði öllum söfnuðinum að hún væri lögfræðingur. Þá tóku námsmeyjarnar um höfuðið eins og þær vildu verja sig fyrir rannsóknarréttinum. Svo hlógu þær og hlustuðu á söguna um stúlkuna úr sjávarplássi á Íslandi sem tók ákvörðun um að vinna ekki í fiski allt lífið heldur fara í háskóla til að geta þjónað fólki. Þessar konur voru ungum kynsystrum sínum í Propoi High skínandi fyrirmyndir um að þær mættu þora að læra, gætu mótað eigin kjör og gæfu og mættu vitja drauma sinna. Þegar konurnar höfðu haldið ræður vildi hópurinn að drengirnir töluðu líka. Þeir héldu sínar jómfrúarræður á ensku fyrir allar jómfrúrnar í þessum hljómmikla risasöfnuði. Foreldrarnir voru stoltir og snortnir af þessum káta kvennafansi í skjóli íslensks kristniboðs.

Menntunarsókn og aðstaða

Framhaldsskóli stúlkna í Propoi í Chepareríu er stórkostleg stofnun. En aðstaðan er ekki í samræmi við íslenska staðla. Heimavistarhúsin eru eins og hlöður og aðeins stúkað á milli kojanna eins og gert er í útihúsum á sauðburðartíma í íslenskum sveitum. Heiimavist þarf að bæta. Ekkert vatnssalerni er í skólanum en kamrarnir eru hreinlegir. Nú er unnið að því að koma upp sturtuaðstöðu og þvottahúsi svo stúkurnar geti þrifið sig og þvegið plöggin sín. En þær voru þó ótrúlega snyrtilegar. Nýlega er komið tölvuver í skólann en meðan við stóðum við í tölvustofunni fór rafmagnið þrisvar. Átak þarf því að gera í rafmagnsmálum svo tölvurnar kafni ekki.

Kristniboð til trúar og menntunar

Heimsókn í söfnuði og skóla á kristniboðssvæðinu i Pókot er áhrifarík. Ég er snortinn af einbeitni Kjellrunar og Skúla og sporgöngumanna þeirra. Þau hafa auk kirkjustarfsins stofnað metnaðarfulla skóla til að veita fólki menntun. Fyrir komu íslenskra kristniboða höfðu kenísk yfirvöld hvorki haft rænu á né metnað til að mennta herskáa Pókotmenn. Margir óttuðust að fara inn á þetta svæði viðsjálla stríðsmanna. En Kjellrun og Skúli hikuðu ekki í Pókot frekar en kristniboðar í Konsó. Þau reyndu að veita fólki hlut í elsku Guðs sem vill að sérhver maður njóti ríkulegra gæða, ekki aðeins trúartrausts, heldur líka menningar, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Raunverulegt kristniboð er ekki þröngt heldur víðfeðmt. Íslenskt kristniboð hefur alla tíð verið iðkað í anda hinnar góðu þrenningar: Heilbrigðisþjónustu, menntunar og trúar. Trú sem slitin er úr tengslum við menntun endar í vantrú. Trú sem ekki lýtur að hinum særðu við veginn er á villigötum. Ég vissi að íslenskir kristniboðar voru góðir þjónar, en ég skildi ekki vel fyrr en í þessari Liljuferð að þeir hafa verið kraftaverkamenn Guðs í heiminum. Skólakerfið sem þeir hafa byggt upp frá grunni er á við skólakerfi Íslendinga. Nú er þetta mikla menntakerfi rekið af innlendum aðilum, fyrir innlent fé og af innlendum metnaði.

Munum og styðjum

„Afi, ekki gleyma okkur,“ sungu stúlkurnar. Þær gleyma ekki því ein heimavistin ber nafn hans. Ég held að Skúli gleymi ekki söngnum meðan hann hefur mátt og rænu. Við ættum ekki heldur að gleyma þeim. Kristniboð er í þágu lífsins vegna þess að Guð elskar fólk, hvar sem það er og hvernig sem það er.

íslenskar konur meðal framskólanema í hepareríuHvað verður um stúlkurnar í Propoi High? Hvernig mun menntun þeirra nýtast þeim? Mun samfélagið leyfa þeim að njóta hæfileika sinna? Margar réttu upp hendur þegar þær voru spurðar hverjar þeirra vildu verða lögfræðingar. Margar vildu verða andlegir leiðtogar. Kannski eiga sumar við að þær vilji verða prestar og biskupar? Ekkert okkar sem horfðum í augu þessara framtíðarkvenna Keníu efuðust um að í þeim búa máttur og hæfileikar. Ég trúi á framtíð Pókot og Konsó eins og Lilja, móðursystir mín. Ég trúi að þessar stúlkur muni standa sig ef þær fá rými og frelsi til. Okkar er að styðja þessar framtíðarkonur Afríku. Þökk og lof sé íslenskum kristniboðum sem höfðu þor til að boða fagnaðarerindið og stunda mannvinsamlegt kristniboð.

Meðfylgjandi myndir frá heimsókn í kvennaskólann í Chepareríu, Pókot. Á myndunum eru nemendur Propoi High, Jamas Murray rektor, Skúli Svavarsson kristniboði, Samson biskup í Pókot, Elín Sigrún Jónsdóttir, Katla Maríudóttir, Saga Sigurðardóttir, Jón Kristján og Ísak Sigurðarsynir.

Þessi gein birtist í Bjarmi, tímarit um kristna trú, 1tbl. 110. árg, mars, 2016. Páskablað, s. 30-33.

Kristniboðssambandið gefur öllum sem vilja tækifæri til að styrkja nemendur til náms í Pókot. Þeir sem hafa áhuga geta lagt inn á reikning 0117-26-2818, kt. 550269-4149 með skýringu á að um skólagjöld í Pókot sé að ræða.
Sjá einnig grein frá Skúla Svavarssyni í Kristniboðsfréttum 2016 1. tbl bls 4.

María Halldórsdóttir + minningarorð

María S. HalldórsdóttiMaría Halldórsdóttir hafði svo sterka útgeislun að allar samverur urðu skemmtilegri þar sem hún var. Hún var gjarnan hrókur fagnaðar, bætti öll samkvæmi og meira segja jókst kirkjugleðin þegar María kom til messu. Það var gaman að tala við hana því augu hennar ljómuðu gjarnan. Jafnvel þegar rætt var um dapurleg mál geisluðu augun hennar af umhyggju, góðmennsku og velvild. María lagði gott til allra mála og alls fólks.

Ævi hennar var stórfelld. Þegar æviskrá og viðtöl við hana eru lesin stingur í augu og hjarta að meira var lagt á Maríu en marga aðra. 24 ára varð hún ekkja og þá með tvö ung börn. 52 ára varð hún aftur ekkja og hafði þá eignast fimm börn. Hvað gerði þessi vel gerða kona í átakanlegum aðstæðum? María naut góðs fólks og leitaði í styrk Guðs og það varð henni til blessunar. Foreldrar hennar voru alin upp í klassískri kristni og móðir hennar kenndi dóttur sinni Passíusálmana sem urðu viskubrunnur fyrir líf og lífshætti. Þegar Maríu leið illa hafði hún yfir vers úr 48. passíusálmi. Hún skildi merkingu þess og notaði til að lýsa upp sorg og sál:

Gegnum Jesú helgast hjarta

í himininn upp ég líta má.

Guðs míns ástar birtu bjarta

bæði fæ ég að reyna og sjá.

Hryggðarmyrkrið sorgar svarta

sálu minni hverfur þá.

Lífsbarátta, horfnir ástvinir, áar og eddur hverfa og þá læðast skuggar í sálina. Og María vissi hvar haldreipið er, þorði að horfa upp í himininn í gegnum himinglugga Jesú Krists. Hvað blasir við? Ástarbirta Guðs sem er hagnýt til lífshamingju. Og þá hverfa skuggarnir úr sál og sinni.

Er þetta ekki fagur vitnisburður sem þið ástvinir megið njóta og ígrunda ykkur til styrkingar? Þegar þið horfið upp í himininn – í hvaða aðkrepptri stöðu sem þið getið lent í – megið þið horfa með augum Maríu og vita að þið eruð í góðum faðmi og njótið elsku Guðs. Hvernig farnaðist Maríu í lífinu? Vel. Hún er fyrirmynd í lífsleikni því hún átti trú, ræktað geð og þor til að leita til Guðs. Hún var María í þessum heimi, nálæg, elskurík og gefandi og vel tengd inn í himininn.

Æfistiklur

VottorðMaría S. Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl árið 1923. Hún var ávöxtur ástarævintýris í Rönne á þeim fagra Borgundarhólmi í Danmörk. Móðir Maríu, Bjarný Málfríður Jónsdóttir var vinnukona á Íslands- og kaþólsk-tengdu heimili. Þangað leitaði Halldór Guðjónsson, sem varð einnig Laxness og Kiljan. Í upphafinni sumarbirtu Borgundarhólms faðmaðist unga fólkið. En Halldór var á suðurleið en Málfríður hélt í vestur. Hann gekk með kaþólskuna í huganum en Málfríður með Maríu í lífinu. Hann fékk bréflega – inn fyrir klausturveggina – fréttir af þungun og fæðingu dóttur sinnar. Foreldrar Málfríðar tóku á móti dóttur sinni – barni aukinni – með kærleika og umhyggju og móðir Halldórs og systur reyndust einnig hið besta og urðu Maríu skjól fyrr og síðar.

María hét þremur nöfnum og hét fullu nafni Sigríður María Elísabet. Móðirin, Málfríður, var fædd á Fögrueyri við Fáskrúðfjörð (f. 29.08.1896, d. 07.11.2003), mikil mannkostakona sem alla efldi og engan meiddi eða lastaði. Hún var af Long-ættinni sem kunn er af mörgu og m.a. langlífi. Málfríður náði 107 ára aldri. Hún eignaðist ekki fleiri menn eða börn. En hálfsystkin Maríu, samfeðra, voru þrjú. Auk Maríu eignaðist Halldór Laxness (f. 23.04.1902, d. 08.02.1998) Einar Laxness (f. 9. 08.1931), Sigríði (f. 26.05.1951) og Guðnýju (f. 23.01.1954).

Uppvöxtur, kvennamenning og mótun

María fæddist í húsi við Skólavörðustíg í Reykjavík og ólst upp hjá móður sinni og móðurforeldrum. Nokkur sumur var hún í skjóli ömmu og föðursystra í Laxnesi uns þær brugðu búi og fluttu í bæinn. En tengslin treystust á þessum tíma. Og María átti alla tíð skjól í Laxnesfólkinu og naut þess í ýmsu, m.a. með tónlistarnámi hjá Helgu, föðursystur. Faðir hennar studdi hana fjárhagslega þegar mest var þörf á og María mat það mikils. Í viðtali sem Guðrún Guðlaugsdóttur átti við Maríu og birtist sem bókarkafli árið 2000 kemur berlega fram hve öflugar konur stóðu að Maríu báðum megin. Þær ófu merkilegan vef tengsla, virðingar og umhyggju sem varð öryggisnet Maríu Halldórsdóttur. Það var ekkert sjálfgefið að hún nyti tengsla við föðurfólk sitt né heldur við hálfsystkini en foreldrar, ömmur og afi, föðursystur og eiginkonur skáldsins stuðluðu að og sáu til að tengsl urðu, voru síðan ræktuð og þeim viðhaldið.

Æfisagnaritarar Nóbelskáldsins hafa vikið að þessari kvennaveröld, matríarkatvídd, en þar er æð sem má kanna og rannsaka betur. Það er ekki hlutverk prests í minningarorðum að túlka íslenska menningu almennt eða kvennaveröld Halldórs Laxnes sérstaklega. En vegna samtala við Maríu og viðtöl við hana verður ekki fram hjá litið að Maríuorðin eru lind til að ausa af fyrir síðari rannsóknir. Saga Maríu er að sínu leyti lykilsaga sem ekki aðeins varðar að Halldór varð Nóbelskáld heldur líka að íslensk menning hefur verið ofin sterklega og með giftu og árangri þegar ábyrgð hefur verið öxluð. Áar og eddur Maríu hafa skilað svo mörgum hæfum konum því þær hafa notið natni og elsku fjölda kvenna sem hafa þegið getuna og gildin í arf.

María var námsfús og geturík. Undir föðuráhrifum varð úr að María gekk í Landakotsskóla og alla tíð talaði hún fallega um kennara og skólahald í Landakoti. Leið hennar lá svo í Ingimarsskóla, sem var gagnfræðaskóli við Lindargötu. Þaðan lauk María gagnfræðaprófi. Nokkrar umræður urðu um framhald skólagöngu en María lét sér annt um aðstæður fólksins síns. Hún ákvað að létta undir með móður sinni og fór að vinna fyrir sér og sínu fólki. Henni var margt til lista lagt – hún vann á saumastofu í Kirkjuhvoli og lærði sauma og var síðan afar kunnáttusöm við fatasaum. Hún lærði m.a.s. sérstaklega að sauma karlmannabuxur – því hún átti svo marga stráka – sagði hún. Um tíma vann hún í niðurlagningarverksmiðju með Guðrúnu Á. Símonar. Og María stundaði einnig verslunarstörf. Síðar fékk hún starf á skrifstofu Vélsmiðjunnar Héðins í Reykjavík.

Þegar María hafði komið fimm börnum sínum til manns fór hún til starfa að nýju utan heimilis. Í byrjun áttunda áratugarins stofnaði hún og rak Fatadeildina í Miðbæjarmarkaðnum við Aðalstræti og til ársins 1982 þegar hún hætti verslunarrekstri vegna heilsubrests.

Í 67 ár bjó María í Granaskjóli 17 og skapaði með fjölskyldu sinni fagurt heimili. Fyrstu tvö æviárin bjó María á Skólavörðustíg en bernskuhúsið hennar brann og síðan bjó fjölskylda hennar á nokkrum stöðum í Reykjavík, í Þingholtunum, á Bræðraborgarstíg og vestur á Grímsstaðaholti. María var Reykjavíkurkona og vildi helst hvergi annars staðar vera.

Svo var það ástin

Þegar Ísland var hernumið, Reykvíkingar lærðu orð eins og thumbnail og María vann í miðbænum kynntist hún Ragnari Ámunda Bjarnasyni, járnsmið og ættuðum úr Njarðvíkum. Þau dönsuðu sig til kynna og ástar og gengu í hjónaband árið 1944 og komu sér fyrir vestur í Granaskjóli í einu af fínu, sænsku húsunum í Skjólunum. Þeirra börn eru Bjarni Már og Ragna María. Bjarni fæddist í maí árið 1945 og er byggingatæknifræðingur. Sambýliskona hans er Guðrún Fjóla Gränz, viðskiptafræðingur. Ragna María fæddist í ársbyrjun 1948. Hún er framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis. Hennar maður er Guðmundur Þ. Harðarson, íþróttakennari. Börn þeirra eru Ragnar, Þórunn Kristín, Hörður og María Björk.

Svo reið alda sorgar yfir Maríu og fjölskyldu í febrúar 1948. Ragnar lagði af stað í vinnuna en kom aldrei heim aftur. Hann varð fyrir slysi á leiðinni, var lagður inn á sjúkrahús stórslasaður og lést frá konu og ungum börnum. Raðirnar voru þéttar heima og eldri kynslóðin í Granaskjólinu sló varðborg um ungviðið. Með dugnaði og festu tókst að halda húsi og þar með heimilisrammanum.

hjónavíugslumyndMaría fór að vinna hjá Héðni til að afla fólkinu viðurværis. Og þar hún spilaði póker við mannsefni sitt, Kolbein Karl Guðmund Jónsson, véltæknifræðing og Hafnfirðing. Þau gengu í hjónaband í apríl árið 1954. Kolbeinn gekk börnum Maríu í föðurstað og svo komu þrír synir í heiminn í viðbót við eldri systkinin. Þeir eru Halldór, Kristinn og Þór. Halldór fæddist árið 1955.

Halldór er geðlæknir og kona hans er Hildur Petersen, framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru Helga Huld og Kolbeinn. Kristinn er viðskiptafræðingur, hann fæddist árið 1957. Kona hans er Gunnþórunn Geirsdóttir, matráður. Börn þeirra eru: Sigríður María, Kolbeinn og Geir. Börn Gunnþórunnar af fyrra hjónabandi eru Auður og Haukur. Þór er yngstur og fæddist árið 1958. Hann er húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur. Dóttir hans og Luciu Helenu Jacques er Irene María. Barnabarnabörn Maríu eru 6.

María og börnin hennar

Minningarnarnar

Við skil er mikilvægt að vitja samskipta, ræða minningarnar, leyfa þeim að koma, gæla við þær og vinna með þær til þroska og visku. Hvernig manstu Maríu? Getur þú dregið fallegu og litríku kjólana hennar fram í hugann. Manstu hve smekkvís hún var og hve mikla áherslu hún lagði á að allt væri vandað og fagurt? Manstu eftir félagslegri getu hennar, glettni og hnytni? Manstu hve umtalsfróm hún var og lagði gott til – jafnvel erfiðra mála? Manstu eftir lífsvisku hennar eða uppeldisráð, sem hún þáði í arf frá sínu fólki? Manstu augun hennar og svipbrigði? Hafði hún augun hans Dóra? Því var haldið fram. Manstu hve fljót hún var að fyrirgefa? Manstu kátínu Maríu þegar lífið var henni ljúft? Manstu hve snyrtileg hún var? Og svo speglaði hún umhyggjusögu borðkristninnar og vildi ávallt að til væri nægur matur handa öllum. Naustu einhvern tíma veitinga hennar? Og sástu einhvern tíma fingur hennar fara yfir hljómborðið og kalla fram náttsöng Chopin eða Dónárvals?

Hvað lýsir henni best? Var það líkingin af kletti? Eða akkeri? Stoð og stytta? Mannbætir? Hún var stolt af fólkinu sínu og afkomendum. Og hvernig getur þú dregið lærdóm frá Maríu til þinnar eigin viskugerðar? Hvaða þræði frá Maríu getur þú þú nýtt í lífvef þínum, þér til lífshamingju, fólki og félögum þínum til blessunar og samfélagi þínu til eflingar?

Nú er María farin inn í hjartaveröld og birtuveröld Guðsástarinnar. Sorgarskuggar æfi Maríu eru horfnir henni, allt líf hennar er upplýst og gott. Hún trúði á Guð sem lýsir upp veröldina, leysir úr viðjum og blessar til góðs.

Guð geymi Maríu Halldórsdóttur í ríki sínu og Guð geymi þig.

Í Jesú nafni – amen

María tengdist söfnuði og starfsfólki Hallgrímskirkju með ýmsum hætti og sérstaklega prestinum dr. Sigurði Pálssyni og Jóhönnu Möller. Ég vil fyrir hönd okkar allra, sóknar- og starfsfólks kirkjunnar þakka gefandi og vermandi. samfylgd. Kveðjur til þessa safnaðar sem kveðjur Maríu í dag flyt ég frá Irene Maríu frá Recife í Brasilíu; frá Nicole, Júlíu Ósk og Lauru Björku í Hjörring í Danmörk. Frá Florída berast kveðjur frá Kolbeini og Geir. Hörður og fjölskylda í Nýju Kaledóníu biðja sömuleiðis fyrir samúðarkveðjur.

Jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Erfidrykkja í Nauthól.

Minningarorð við útför Maríu S. Halldórsdóttur í Hallgrímskirkju, 31. mars, 2016.

Biblíuvers – minnisvers fyrir fermingu og lífið

Fermingarungmenni velja oft minnisvers fyrir fermingarathöfn. Hér er einn listi sem velja má úr en hann er þó er ekki tæmandi. Á hverju ári velja fermingarungmennin vers utan allra lista og vegna þess að þau hafa lesið eitthvað í Biblíunni sem hefur snert þau eða hrifið.

1Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4:13

2Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt. 7:12

3Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig. Sálm.50:15

4Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Matt. 7:7

5Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sálm. 100:5

6Drottin er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Sálm. 27:1

7Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Sálm. 23:1

8Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.. Sálm. 145:13b

9Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sálm.121:5

10Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans. Sálm. 145:9

11Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Sálm. 121:7

12Drottinn, þú ert minn Guð. Ég vegsama þig, ég lofa nafn þittþví að þú hefur unnið furðuverk, framkvæmt löngu ráðin ráð sem í engu brugðust. Jes. 25:1

13Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Sálm. 127:1

14En Guði er enginn hlutur um megn. Lúk. 1:37

15Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann og frelsar þá. Sálm. 34:8

16Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11

17Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Sálm. 16:8

18Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. Sálm. 146:2

19Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta, kunngjöra öll máttarverk þín. Sálm. 9:2

20Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sálm. 34:2

21Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm. 37:5

22Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Orðskv. 22:1

23Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Sálm. 46:2

24Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.  Jesaja 40:29

25Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Jóh. 14:1

26Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Sálm. 121:2

27Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.  Sálm. 4:9

28Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Jóh. 1:1

29Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð! Sálm 31:6

30Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.” Jóh. 11:25

31Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Jóh 8:12

32Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” Jóh. 14:6

33Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sálm. 143:10

34Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu , vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. I. Kor 13:7

35Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Matt. 11:28

36Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. I. Tim. 4:12

37Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jesaja 55:6

38Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Fil. 2:4-5

39Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Sálm 103:2

40Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika. II. Kor. 12:9

41Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sálm. 145:8

42Og Jesús sagði við alla: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Lúk. 9:23

43Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Jes. 41:10

44Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.  Orðskv. 21:21

45Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sálm. 51:12

46Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh 3:16

47Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Matt. 5:9

48Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Matt. 5:8

49Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Matt. 5:5

50Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Matt. 5:7

51Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Matt 5:6

52Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna. Sálm. 17:8

53Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Sálm. 16:1

54Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum. Sálm. 18:31

55Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sálm. 86:11

56Þakkið Drottni því hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Sálm. 107:1

57Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Jóh. 15:14

58Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sálm. 119:105

59Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Sálm. 23:4

60Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. I. Kor. 13:1

61Þú ert von mín, Drottinn, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku, Sálm. 71:15

62þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Mark. 12:30-31

63Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29:11

64Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“Jesaja 41:13

65Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. I. Kor 1:18

66Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Sálm. 91:11

Kanntu þetta?

05Merkilegar og mikilvægar stiklur í kristninni eru.

Gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. (Matt. 7.12)

Litla Biblían
: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3.16)

Tvöfalda kærleiksboðorðið
: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
 (Lúkas 10.27)

Signing: Í nafni Guðs + Föður og Sonar og Heilags anda. Amen.

Bæn Jesú Krists 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. (Matt. 6.9-13)

Trúarjátningin: 

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Boðorðin tíu: 

  1. Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Guðs þíns við hégóma.
  3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
  10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þins, þjón, þernu, uxa, asna né nokkuð það sem náungi þinn á. (2.M 20.1-17)

Bænvers

Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að Drottins náð.

 

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Jesús er sætt líf sálnanna

heimild sagnaheimarÞegar ég kom frá messugerð í Hallgrímskirkju og loknum viðtölum 1. sunnudags eftir þrettánda beið mín póstur frá Báru Grímsdóttur, tónskáldi. Hún var í messu og hlustaði grannt, ekki bara á góðan söng Mótettukórsins og spilerí Björns Steinars Sólbergssonar, heldur líka á ræðing klerks í stól. Og prédikunin fjallaði um myndir og Jesúnálgun og trúarskiling fólks, sem er mismunandi og áhrifatengdur tímanum. Íhugunarsálmur sr. Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ kom í hug hennar og því sendi hún hann áfram. Sr. Jón var merkisklerkur, vel skáldmæltur, og er kunnur í sögunni vegna píslarvættis hans í Tyrkjaráninu. Jón var prestur í Eyjum þegar Alsíringar réðust á Eyjar og var hann hálshöggvinn. Íhugunarsálmur Jóns sýnir innlilega trúarinnlifun, frumlútherska Jesúáherslu og líríska getu höfundarins. Klifunin er vissulega sérstæð, hugnast ekki öllum en Hallgrímur notaði það besta og fór vel með aðferðina síðar. Jón er augljóslega fyrirboði , forgengill, en ekki eftirmaður Hallgríms Péturssonar, sem breytti öllum Jesúkveðskap Íslendinga til skerpu og batnaðar. Barnsleg einlægni Jóns Þorsteinssonar hreif mig.

Jesús er sætt líf sálnanna

eftir sr. Jón Þorsteinsson (1570 – 1627) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum

Jesús er sætt líf sálnanna,
Jesús er best ljós mannanna,
Jesús er hunang hjartnanna,
Jesús er unan eyrnanna.

Jesús er lömdum lækning dýr,
Jesús er veikum hressing hýr.
Jesús klöguðum kvittan skír,
Jesús hræddum kastali nýr.

Jesús er villtum vegur beinn,
Jesús sárum græðari hreinn.
Jesús er aumum aðstoð einn,
Jesús er Guðs húss styrktarsteinn.

Jesús er ríkum æran fest,
Jesús er aumum upphaf mest.
Jesús er ekkjum aðstoð flest,
Jesús er börnum forsvar best.

Jesús er gleði guðhræddra,
Jesús er huggun sorgmæddra.
Jesús er líf endurfæddra,
Jesús er styrkur nýgræddra.

Jesús er höfuð limana,
Jesús er víntréð kvistanna.
Jesús er hænan unganna,
Jesús er hirðir sauðanna.

Jesús er góðra frelsari,
Jesús er illra dómari.
Jesús er Satans sigrari,
Jesús er dauðans eyðari.

Jesús er fæðan hungraðra,
Jesús er friður ofsóttra.
Jesús er brunnur örþyrstra,
Jesús er kraftur vanfærra.

 

Jesús er ungum menntin mæt,
Jesús er gömlum girndin sæt.
Jesús bugnuðum björg ágæt,
Jesús allra vor allt umbæt.

Ó, Jesú, sanna andarlíf,
ó, Jesú, vert mín staðföst hlíf,
ó, Jesú, hjá mér ætíð blíf,
ó, Jesú, frá mér Satan dríf.

Ó, Jesú góði, unn mér fá,
ó, Jesú, þína dýrð að sjá.
Ó, Jesú, haf mig æ þér hjá,
ó, Jesú, svo þig lofi eg þá.

Ó, Jesú, girnd mín innilig,
ó, Jesú, prýði minnilig.
Ó, Jesú fríði, eigðu mig,
ó, Jesú blíði, eg á þig.

Ó, Jesú sálna eilíft hnoss,
ó, Jesú, fyrir þinn deyð á kross,
ó, Jesú, fyrir þinn undafoss,
ó, Jesú Kristi, hjálpa oss.

Ó, Jesú, þína annastu hirð,
ó, Jesú, þína kvölunum firrð.
Ó, Jesú, sé þér ætíð skýrð,
ó, Jesú, heiður, lof og dýrð!