Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Þekktu þig

Yfir dyrunum véfréttinnar í Delfí í Grikklandi stóðu orðin: Gnoþi seauton – þekktu sjálfan þig – þekktu sjálfa þig. Líklega var þessi setning slagorð til að vekja athygli á og tryggja viðgang véfréttarinnar. Saga þessa helgistaðar er merkleg og vakið marga til íhugunar um eðli og inntak trúar.

Breska Nóbelskáldið, William Golding skrifaði merkilega bók – the double tongue – um völvuna Pithyu frá því hún var ung stúlka á höfðingjasetri í Grikklandi og hvernig hún var valin til starfa við véfrétt Appolos. Golding lýsir vel hvernig boðskap þurfti að búa út svo hann hugnaðist valdamönnum. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og viðeigandi orðfæri. Völvan unga varð að horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, trú og heilindi eru lúxus, sem aðeins glópar geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, í baráttu við eigin samvisku og forstjóra véfréttarinnar.

En dagar Delfí voru taldir, guðleg návist var horfin, boðskapurinn enginn og völvan tók sig upp með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar fékk hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði enga löngun til að heiðra Delfíguðinn. Hann var henni dáinn – en veruleiki Guðs ekki. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: Ókunnum Guði.

Samkvæmt Nýja testamenntinu tók Páll postuli sér stöðu við þetta altari Delfívölvunnar og hóf predikun sína um þann Guð sem kemur til manna í sannleika. Hinn ritsnjalli Golding spann sögu sína um guðsdýrkunina í Delfí, sem brást, að sögu kristninnar sem átrúnað kærleikans, en svo er kristnin í stöðugri baráttu við að vera trú köllun sinni og lifa í anda Guðs. Saga Goldings opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat lengur þjónað trúarkerfinu í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði, hún var boðberi um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður. Á aðventu er hollt að spyrja hverjum þitt altari er helgað og til hvers þú lifir. Þekktu sjálfan þig –sjálfa þig – er verkefni fyrir aðventu og raunar lífið allt.

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016. 

Sorgin – skuggi ástarinnar

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Afmæli og fyrsta guðsþjónustan

Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.

Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.

Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.

Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“

Trump og menningarkrísa BNA

TrumpÉg horfði á kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Sorg fyllti hjarta mitt svo dapurlegar voru þær. Mér þykir vænt um BNA og afar margt í bandarískri menningu. Ég stundaði á sínum tíma framhaldsnám í einni bestu guðfræðideild heims og í einum besta háskóla BNA. Þegar ég horfði á Donald Trump frussa úr sér hroðanum, rífa mótframbjóðandann niður í leirveltuna og að Hillary Clinton lyfti sér yfir lágkúruna fór ég að hugsa. Í þessum leðjuslag opinberaðist mér hinn djúpi vandi BNA, samfélagsgerðar og mannskemmandi óréttlæti. Að auðmaður sem höfðar til lágkúrulegustu hvata, ótta, reiði og haturs skuli ná svo langt er allri heimsbyggðinni tákn um að eitthvað er ruglað og rotið í grunni samfélagsgerðarinnar. Og í einföldustu mynd er það að auðmenn stjórna of miklu, stýra of mörgu í bandarísku samfélagi, kaupa áhrif og halda of stórum hópi lægri stéttanna niðri. Stórir hópar eru fastir í gildrum fátæktar og hafa hvorki hvata né möguleika til menntunar. Það er þessi kapítalíska gerð sem viðheldur eða eykur andstæðurnar í samfélaginu og leggur grunn að því að hatursmaður kvenréttinda, mennsku og menntunar gæti komist til valda. Í Donald Trump kristallast hrun hins bandaríska samfélags. Það verður að endurnýjast, minnka andstæðurnar, skera af öfga kapítalismans, sem ekki gengur upp, og er fólki vestra dýrkeypt og heimsbyggðinni hættulegt.

Kappræðurnar skiluðu ekki sigurvegara þó Hillary Clinton væri mun skárri en loddarinn. En þær fleyttu til mín vitund um að það er aðeins aukin menntun og bætt efnahagskerfi sem megna að mæta ótta, hatri, mannfjandskap og flatneskju sem Trump túlkar og höfðar til. Veilurnar eru opinberaðar og nú ættu vinir mínir vestra – með stuðningi og hvatningu okkar hinna – að hefja sókn til meiri samfélagsgæða. Og þar sem forsetavalið í BNA skiptir mannheim allan svo miklu máli legg ég til að heimsbyggðin fá neitunarrétt til að hafna vondu vali. Könum er ekki einum treystandi til að velja!