Greinasafn fyrir merki: Rússland

Mara kemur í heimsókn

Mara kemur í heimsókn eftir ljóðabók Natöshu S. Bókfróð mágkona mína færði mér hana í afmælisgjöf á Þorláksmessu og taldi að ég gæti notið snilldarinnar. Ég las bókina á jóladagsmorgni og heillaðist. Þetta er mögnuð íslensk-rússnesk bók, persónuleg og menningarpólitísk lífsbók. 

Mara er leiðarstef bókarinnar, mara sem birtist í samskiptum, í heilsubresti fólks en líka í samfélagsfári. Hvað er mara? Orðið er eldgamalt og táknar hryllingsdrauma fólks, martraðir. Mara vísar til djúpótta manna í milljónir ára. Stofnorðið hefur eignast afkomendur í mörgum tungumálum og miðlar sameiginlegu minni. Natasha ljóðar um þessi tengsl.

Í norrænum menningarheimi er mara vættur sem þrýsti á brjóst þeirra er sváfu og olli köfnunartilfinningu og skelfingu. Maran leggst með þunga á fólk og martröð er þegar mara traðkar, treður, á fólki. Í ensku lifir orðið í nightmare, og mare vísar ekki til merar heldur óvætts. Í frönsku birtist orðið sem cauchemar, mara sem þrýstir, þ.e. treður. Orðið er líka til í slavneskum tungumálum – á rússnesku kaesmar – og er tengd bæði draugum, ranghugmyndum og blekkingu. Allir menn óttast eitthvað og mara vísar til djúpreynslu milljóna kynslóða. Maran er hið óttalega sem leggst yfir mann, lamandi, þögul, skelfileg og ósýnileg – en í mismunandi myndum, verum, aðstæðum og menningu. 

Natasha S. nýtir þessa orðsifjadýpt og vensl manna og tengir rússneska marglaga martröð við landflótta dóttur á Íslandi sem óttast bæði um föður og menningu sína.

Við upphaf bókarinnar kynnir hún heimsfjanda mannanna. Mara í meðförum hennar er ekki aðeins draumvættur heldur einnig pólitísk martröð og persónuleg aðsókn. Maran sækir að þegar fortíð og samtíð skella saman, þegar heimkoma verður ekki fagnaðarfundur heldur uppgjör og dapurleg átök. Maran er í ljóðunum það sem hrellir samfélag og þegar stríð geisa, vald er misnotað og lygar flæða um í kerfi óttastjórnar. Mara kremur fólk í sorg, sekt, minnistapi og hrörnun.

Með áhrifaríkum hætti fléttar bókin saman stórpólitíska martröð og líkamlega martröð veikinda. Natasha S. skilur og túlkar vel að pólitískt ofbeldi læðist inn í fólk, líkama, sál, menningu, samskipti fólks og hópa í margar kynslóðir. Og maran er djöfullega seig.  

Í bókinni er faðirinn marglaga tákn. Hann var sterkur og hugrakkur en er orðinn veikur og bugaður. Hinn frjálsi andi varð birtingarmynd martraðar, líkami sem ber ör sögunnar og nútíma. Hann er minnisberi þess sem var en líka tákn um sorglegan missi. Í veikindum hans birtist maran. Hvað gerist þegar hinir sterku eru sviftir mætti sínum,  gildum og frelsi? Mara er ekki aðeins ógn, heldur líka ákall um ábyrgð, að muna, að vera áfram til staðar.

Þótt maran sé óttaleg fer hún að lokum, jafnvel martröð endar. Natasha S. túlkar valdníðslu, pyntingar listamanna og andófsmanna, stríð og siðferðilegt rof sem mörur samtímans. En hið mikilvæga er að illt fólk og kúgandi stjörnvöld eru tímabundnar martraðir sem má greina, vakna og hverfa frá. Að nefna hið óttalega er fyrsta skrefið til að svipta möru stjórn. Veikleikinn afhjúpar ekki aðeins hið sorglega, heldur líka nærveru, mildi og ábyrgð. Von leysir höft.

Mara kemur í heimsókn er kraftmikil ljóðabók, pólitískur andófsgjörningur og mögnuð vonarbók. Natasha S. er meistari. 

Mara er sú bók sem kom mér mest á óvart á þessu ári sem er að líða – og hef ég þó lesið margar. 

Smekkleg hönnun og umbrot bókarinnar: Elías Rúni. Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa. 

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ