Greinasafn fyrir merki: Ólafur Elíasson

Sólin

Oft hugsaði ég um það sem barn að undarlegt væri að Guð skyldi vera skipta sér af okkur mönnum sem værum óþekk og lítt guðleg í lífinu. Hvaða máli skiptum við þessi peð í milljónahafinu? Skiptir þessi jarðarkúla og líf á þessum hnetti Guð máli? Okkur verður svimhætt á vetrarkvöldum þegar við leggjumst á bakið á stjörnubjartri nótt og sjáum hvelfinguna. Þú hefur eflaust fetað álíka hugarbrautir. Við verðum smá. Kannski er það merkilegt andóf af okkar hálfu að við hættum að mæna upp í himininn á þann hátt, þegar við eldumst? Eða hræðsla?

Sólin og leikurinn

Ég sá sýningu Ólafs Elíassonar í Tate Modern í London, þessa með sólinni í miðjum túrbínusal orkuvers. Við feðgar hlupum inn úr desembersuddanum og vissum ekki hvers við áttum von í þessu stóra húsi við hlið risaskorsteins á suðurbakka Thames. Það var eins og að verða fyrir hamskiptum að fara um dyrnar. Inni var mistur, litlar mannverur skruppu saman í gríðarlegu rými og fyrir enda var þessi risasól, hin algera miðja þessa stóra rýmis. Við gengum inn löturhægt, sáum allt fólkið, sem var eins og í leiðslu, fórum til að skoða hvernig sólarflekinn væri unnin. Við uppgötvuðum okkur til undrunar að sólin var aðeins hálf og hitt var speglun. Ólafur hafði í fundvísi sinni tvöfaldað stærð túrbínuhússins, sem þó er stærra en kirkjuskip Hallgrímskirkju. Hafði látið koma fyrir speglum í allt loftið og tvöfaldað þannig upplifun hæðarinnar. Þar með var aðeins nauðsynlegt að hafa sólina hálfa, en speglahallinn var réttur við enda salarins og sólin virtist heil. Hugvitið heillaði, hugsunin var stórkostleg og þetta listaverk er eitthvert það allra öflugasta sem ég hef upplifað. En svo fórum við að gefa fólkinu gaum. Á einum stað var hópur kátra háskólanema. Þau skríktu þegar hnjáliðir þeirra kiknuðu og létu sig falla á gólfið. Svo horfðu þau upp í loftið, sáu sjálf sig eins og smáverur í grassverði, sprikluðu, spörkuðu fótum upp og til hliða, mynduðu bylgjur og mynstur. Á öðrum stað voru nokkrir virðulegir karlar að benda upp í loftið, svo hljóp strákurinn í þá og þeir dönsuðu lítilega um leið og þeir horfðu upp í loftið og sáu spegilmynd sína. Hópur pelsklæddra kvenna kom líðandi. Það var heillandi að sjá þær leka niður í hláturgusum, leggjast í miljónaflíkum sínum á slípaða steinsteypuna og sprikla. Þær höfðu kastað hamnum, voru eins og tíu ára gamlar. Sólarverkið hans Ólafs var hugsað sem veðurverk og er merkilegt sem slíkt. En það á sér líklega dýpsta merkingu í að vera leikverk, listaverk sem kallar fram barnið í fólki, leyfir því að kasta belgnum, af hvaða tagi sem hann er, verða barn að nýju og leika sér. Einu gildir þótt höfundur hafi ekki gert sér grein fyrir því við hönnun þess. Listaverk eiga sér eigið líf eins og dæmin fyrr og síðar sanna. Sólin fer á loft í Tate og barnið vaknar. Mér fannst eins og þessi Tatesýning vera stórkostlegur undirbúningur fyrir jólin. Góð aðventusýning fyrir mig, sem var að stilla sálarstrengi fyrir Jesúkomuna. Jólasólin, jólastjarnan skín en barnið í okkur vaknar, dottandi vitundin vaknar, kætin brýst fram og við þurfum ekki annað en kikna í hnjáliðum, láta okkur falla aftur á bak, horfa upp í himininn, sprikla og taka við. Það er undursamlegt að leyfa lífinu og leiknum þannig að koma til okkar. Eða hvað?

Guð sem kemur

Guð elskar svo takmarkalaust að hann afskrýðist konungsskrúða sínum og tekur á sig mynd mannsins í sinni ófullkomnustu, reyndar sláandi fögru mynd. Í því er fólgin einhver dýpsta tjáning himinsins á mikilvægi þínu. Guði er svo í mun að koma til þín, kalla til þín, vekja athygli þína á kjörum þínum og tilgangi allrar tilverunnar, að hann kemur sem ungt líf. Kallar til alls þess sem innst er í þér, kallar þig til eigin sjálfs, til þess sem er kjarnlægast í hugskoti þínu og brjósti. Guð vill tala við þig, eiga fund með þér. Guð kemur aftur og aftur, talar við þig um hver jól, kallar fram eitthvað undarlegt, sem við náum ekki að skýra og skilgreina. Yndisleiki, tvíræðni og torræðni jólanna er slík. Jólin eru þó ekki aðeins atburður, sem er endurtekinn árlega. Guð er ekki eins og starfsmaður stórfyrirtækis sem er á þönum milli útibúa og útstöðva fyrirtækisins. Guð er alltaf nærri, alltaf viðstaddur, alltaf hjá þér og er ávallt til reiðu þegar á bjátar. En Guð er hjá þér biðjandi, ber fram bón um að þú verðir samstarfsaðili Guðs, biður þig að vakna til vitundar um ábyrgð þína.

Stærðir veraldar og maðurinn

Sólin í Tate er stór, en stærri er vetrarhimininn, þegar maður verður skelfilega lítill. En þá fyrst verður maðurinn smár gagnvart lífinu þegar fer að daga á mann stærðir veraldarinnar allrar. Stjörnufjöldinn gefur vísbendinu. Bara í okkar sólkerfi, Vetrarbrautinni, eru líkast til hundruðir milljarða stjarna. En síðan er ótrúlegur fjöldi annarra vetrarbrauta til í alheiminum, líklega 100 milljarðar. Ef við gerum ráð fyrir að meðalfjöldi stjarna í vetrarbrautum sé svipaður fjöldanum í okkar vetrarbraut má ætla að fjöldi stjarna sé nærri 20.000 milljarðar milljarða eða 20.000 trilljónir. Þessar tölur hafa litla merkingu í huga okkar og eru óskiljanlegar en gefa okkur þó einhverja tilfinningu fyrir að jörðin okkar er eins og títuprjónshaus og við mannfólkið sem míkróskópískt smælki í óravíddum geimsins. Sá Guð sem er að baki slíku vetrarbrautaverkstæði er mikill. Er líklegt að skapari að starfi við milljarða sólna líti til manna og komi jafnvel sjálfur. Allra sérkennilegast er þó að Guð velji að koma í mynd barns við hinar erfiðustu og niðurlægjandi aðstæður. Í þessu er tjáð þverstæða hins kristna boðskapar, að Guð hafi valið sér þessa ótrúlegu aðferð til að koma til þín, í mynd barns.

Sól í Tate – jólasól í heimi

Tatesýningin er opinberandi fyrir þarfir manna, til að vera í samræmi við sitt innra eðli, en einnig að sjá sig í einhverjum speglum sem sýna fólk. Þeir speglar eru hin kristna hefð. Við megum spegla okkur í mynstri og formum. Þar er kirkjan að starfi í safnaðarlífinu. Við megum spegla gildi okkar og langanir í trúarlífi og túlkun aldanna. Tatesýningin góða verður tekin niður. Hver gerði þetta spurði lítill enskur strákur pabba sinn. „Some Icelander,“ sagði pabbinn. En svo hverfa þessi tjöld um bernskt líf og veður, en eftir situr vitneskjan um list, ávirkni og líf okkar. Eru jólin með sama móti í þínu lífi? Eru þau sýning sem varir aðeins um tíma og svo tekur þú niður stjörnur og ljós og pakkar jólabarninu þínu, sjálfum þér, tilfinningum þínum niður í kassa sem bíður næstu jóla? Sól í Tate og fólkið fór að leika. Sól Guðs rennur upp á himinn heimsins og þá er allri heimsbyggðinni boðið til bernsku og leika. Tilefnið til leiks er ærið í Tate, en tilefnið er gríðarlegt í tilverunni sjálfri. Guð kemur, Guð barn í heimi, Guð fæðist til að koma. Og þegar það verður má varpa öllu frá sér og spegla sig í öllum speglum himinsins.

Myndina, sem fangar vel áhrif veðurverks Ólafs á fólk í túrbínusalnum, tók Dan Chung/Guardian. 

Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni.