Greinasafn fyrir merki: konur

Samtal um vatn: Konan og Kristur

Fyrir nokkrum árum var ég á ferð með fjölskyldu minni í Austur-Afríku. Í Eþíópíu og Keníu sá ég margar konur á ferð með vatnsbrúsa á höfðum. Margar þurftu að ganga langa leið og burðast með mikið vatn. Ef konurnar voru einhleypar þurftu þær ekki að fara nema eina ferð á dag en ef þær áttu fyrir heimili að sjá urðu þær að fara fleiri en eina ferð og taka jafnvel börnin með sér til að fækka ferðunum. Konur um allan heim fara langar leiðir í vatnsöflun. Það er því hagnýtt að Hjálparstarf kirkjunnar bendi þeim sem vilja styðja fólk í fátækari hluta heimsins að borga fyrir brunndælur. Brunnar eru lífsnauðsyn og koma að beinum notum.

Konan og vatnssamtalið

Sagan um samversku konuna sem Jesús talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Um aldir hefur fólk hugsað um þennan fund og samtal við Jakobsbrunn, sem sagt er frá í fjórða kafla Jóhannesarguðsjalls. Jesús var þyrstur og ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í vatnið sjálfur? Svo ræddu þau saman, konan og hann. Þetta varð kostulegt samtal og guðspjallshöfundurinn hefur greinilega haft gaman af að segja söguna og rita því hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús tala í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er svo áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús sem vert er að vitja. Fólk hefur skilið þessa sögu með ýmsu móti en flestum sem hafa íhugað frásögnina hefur verið ljóst, eins og Ágústínusi kirkjuföður, að sagan væri afar leyndardómsfull og þrungin af táknrænni merkingu.

Fræðin og fordómarnir

Biblíufræði nútímans eru ekki bara um að endurraða því sem kirkjufeðurnir, Lúther, Calvin og síðari fræðimenn hafa sagt eða hugsað. Biblíufræði nútímans eru nútímafræði. Fjöldi fræðigreina nýtast við gagnrýnið endurmat texta Biblíunnar. Allt það sem kemur að notum, t.d. málvísindi, fornleifafræði og klassísk fræði, er nýtt til að greina samhengi, inntak og merkingu biblíutextanna. Jafnvel jarðfræði, veðurfræði, líffræði og jöklafræði koma við sögu ef þarf að greina einhver sértæk atriði.

Og hvað merkir svona gamall texti í fjórða guðspjallinu? Agústínus kirkjufaðir varaði við og minnti tilheyrendur sína á að konan í sögunni hafi verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því hún hafði átt marga menn. Sem sé, ekki góð siðferðisfyrirmynd! Strax þegar safaríkar sögur eru tjáðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var þetta daðurdrós á karlaveiðum! Hún var ekki að sækja vatn á sama tíma og allar hinar konurnar sem fóru á morgnana eða á kvöldin í vatnsburðinn. Hvað var hún að gera? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Hafði hún orðið fyrir aðkasti kvennanna í þorpinu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramman þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.

Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún var ekki hluti hins viðurkennda hóps innvígðra og réttborinna Gyðinga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúðum og rétthugsandi – nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann eitthvað sem var öðru vísi en fólk átti von á og óskrifuðu reglurnar sögðu að væri rétt hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eiginmenn og var með sjötta karlinum. Það er mikið flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Var þessi kona framhjáhaldari? Var hún hóra? Var hún kynóð? Hafði hún lent á grensunni eðan utan hrings fyrir hömluleysi? Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðuleysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undarlega kona hefur verið uppteiknuð sem öðru vísi og óútreiknanleg, femme fatale. Hún sótti vatn á öðrum tíma en allar hinar konurnar. Á undarlegum tíma. Samkvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, alla vega vatnsföturöðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatnsmála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þesum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri kona í vondum málum.

Og beiðni Jesú Krists er einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fara þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengjast. Þau tala þvers og kruss. Þegar Jesús býður konunni lifandi vatn bregst hún við með tækniábendingu. Hann hafi ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan er á ská við orð og merkingu Jesú allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar og síast inn í hana. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast? Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var ofurkarl, erkihetja hebreskrar sögu, hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías. En hvað um mig? Það var djúpspurning hennar. Yfirfljótandi samtal, margþrungið merkingu, margvísandi og svo var þessi útlendingur, margbrotna konan, utan marka – gat það verið?

Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með hreinum andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari, hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli fullkomnu uppnámi hjá henni, sem var öðru vísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé þarna voru skv. túlkun aldanna hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins – en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda og virðingar-stigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Hann var hreinn en hún skítug, hann andlegur en hún líkamsskepna. Þannig flokkaði tvíhyggja aldanna samtal þeirra tveggja. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri æðislega klár. Konan var flekkuð á mannlífsbotninum. Hún var sorinn en hann sonur Guðs.

Er þetta það sem textinn segir okkur? Konan bara kvensnift, víti til varnaðar og hann ofurhetja? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru á toppnum og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og kannski getum ekki séð vegna þess að gleraugu okkar brengla? Hindra fordómar dýpri skilning okkar? Þarf að þrífa sjónglerin, skúra allt upp á nýtt til að skilja betur?

Skilningur á textum breytist – túlkun

Um aldir hafa klassískir textar verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringarreglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálfsögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að að myndum af biblíuatburðum, sem var svonefnd biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Allt verður séð með hjálp hefðar og túlkunarlykla. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur, hvað væri líklegra og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra ritrýnenda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál. Hann las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós stöðugt þyrfti að rýna í textana því forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíutextunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.

Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust og bötnuðu á tuttugustu öld. Fræðimennirnir nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúarbrögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir réðu. Þar með breyttust hugmyndir fræðimannanna um merkingu margra biblíutextanna og stundum opnuðust þessir textar. Textatúlkun síðustu ára hefur m.a. bent á hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð lesara og viðbrögð þeirra hafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneider skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var aðalnálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (ojbect-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.”[i] Þá var eins þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?

Biblíufræðin hafa haldið til haga þekkingu á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa Biblíufræðingarnir þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hugmyndir stýrðu, hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar st tókust á, hvaða hugmyndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Með svona nálgun var leit Biblíulesara og fræðimanna ekki lengur að því hvernig hin eina rétta túlkun texta ætti að vera. Ekki var lengur reynt að komast að því hvernig ætti að skilja forna texta og kreista út kórrétta túlkun, kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Margt breytist við svona nálgun. Allt verður opnara og líflegra ef viðurkennt er að textar helgiritasafns Biblíunnar eru marglaga, segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar, einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútíma biblíufræði opnað fyrir margræðni og ýmsa túlkunarmöguleika. Það merkir einfaldlega að það sem allir hafa verið sammála um í nálgun Biblíunnar er ekki svo sjálfsagt og einfalt. Í Biblíunni eru margar uppsprettur og margra alda. Í henni er sírennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkjudeildir og fræðimenn hafa haft skoðanir á að þessi kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðru, ekki vilja af því vita og kúgað. Biblían hefur verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar, andlegir eða veraldlegir, hafa boðað og skipað.

Þolum við fjölbreytni, margræðni og mismunandi skoðanir? Biblían er stór og úr henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð biblíunnar er guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Og síðar uppgötvuðu margir, t.d. kvennaguðfræðingar, raddir kvenna í þessu mikla ritasafni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og tjáði sig. Jesús Kristur hlustaði á hana.

Konan við brunninn

Sagan um konuna sem hitti Jesú við brunninn er frábært dæmi um marglaga og margvídda texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Í greiningu á þessum texta í fortíðinni varð konan oftast túlkuð sem kynlífsvera fremur en manneskja. Hvernig samfélagið skilgreindi kynlíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réði för túlkunar og Jesús Kristur var fyrst og fremst túlkaður sem andlegur snillingur. En konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, andstæðu-tvenndirnar voru;

andi og fýsnir;

lifandi vatn og brunnvatn;

karl og kona;

yfirstétt og undirstétt;

hinn réttborni og útlendingurinn;

við og þið.

Hvað gerist ef þessir lyklar eru hvíldir við túlkunina, teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld, fordóma og túlkunarkór?

Hið eftirtektarverða og merkilega er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervilausnum. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og viðfangsefni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni, gáfum sínum, þorði að hugsa og komst að niðurstöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Útkoman var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs og samfélags hennar þá var ekki neitt hik. Samfélagsreglurnar í smábæjarsamfélaginu giltu ekki um risamál. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú, lærisveinn, kona sem þorði jafnvel gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún talaði af svo mikilli undrun og sannfæringu og sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.

Ef við nálgumst söguna um konuna við brunninn með opnu móti verður boðskapurinn dramtískur og sláandi. Útlend kona af lægstu stétt, úrkast úrhrakanna naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún sem allir töldu óverðuga var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún en ekki einhver góður karl varð ótrúlegt nokk postuli Samverja. Lærisveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.

Sagan um konuna við brunnin lýsir að kona í ómögulegum aðstæðum verður að nýrri mannveru, færist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta er tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem hetju, ofurmanneskju.

Þegar sagan um konuna við brunninn er skoðuð í samhengi alls guðspjallsins er samanburðurinn áhugaverður. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður, ráðherra, kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur, sem hafði hrifist af boðskap Jesú og vildi fara yfir trúmálin með Jesú. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobsbrunn. Hann hafði svipuð tækifæri og konan til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu og orðspori. Hann fór og hvarf því og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn krossfesta. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við þorafstöðu konunnar, hetjunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki, náðu ekki hugsun, speki eða meiningu Jesú Krists en í samanburðinum við þá var samverska konan fljót að greina að aðalatriði og aukaatriði, greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var einfaldlega klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi þvers og kruss og í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu og skildu fljótt hvort annað.

Trú og ljós

Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er áhugavert. Hún kom um hádegisbil sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Vert er að muna að í Jóhannesarguðspjalli er mikið af táknum og táknmáli. Að konan kom um hádegið segir okkur jafnvel síður nokkuð um stund og tíma heldur meira um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, skildu ekki, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði hins vegar getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[ii] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!

Samverska konan við brunn var margslungin vera. Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur nálgunin opnað. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta, margar kvíslir túlkunar eru möglegar.[iii]Grunur vaknar að kannski hafi konan alls ekki verið auli og úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði. Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guðfræðingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Hvað ef hún var slík? Hvað eigum við þá að gera við þennan texta og hvernig eigum við að túlka hann? Hvernig talar hann til okkar? Er kannski næring í þessu vatni, flóði textans, sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?

Vatnið í Jóhannesarguðspjalli

Svo er það vatnið í fjórða guðspjallinu. Vatn kemur víð við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Nýja testamenntisfræðingurinn Stephen Moore benti á að þessa brunnsögu og samtalssögu megi tengja við þorstafrásögn krossfestingarinnar. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn að drekka. Moore skrifaði: „Öllu er snúið við og teygt í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.“[iv] Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og svo gagnvirkt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það, sem er að auki, lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það að vernda vatnið í veröldinni. Konan og Jesús hafa lykilhlutverkum að gegna. Sagan við Jakobsbrunn er ríkuleg. Við þörfnumst vatns. Konan og Jesús voru bæði í vatnsleit, bæði þyrst. Við eigum auðvitað að virða forsendur fortíðar þegar við nálgumst textann. En við megum nálgast hann með opnum huga og prufa merkingarvíddirnar.

Við sem búum við þann lúxus að fá vatnið hreint og ómengað úr pípunum gleymum oft að vatn er ekki sjálfsagt. Það veit ég ekki aðeins af ferðum í Afríku heldur af langri æfi og vinnu við vatnsveitur. Í sveitinni í gamla daga var ég oft að hreinsa slý og óhreinindi úr túðunni þar sem vatnið var tekið úr bæjarlæknum. Þetta þekkja sveitamennirnir. Þegar ég var prestur austur í Skaftafellssýslu varð að leggja nýja vatnsveitu fyrir prestssetrið. Vatnið þvarr reglulega. Svo hef ég lagt vatnsveitu í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar. Stundum höfum við orðið að fara í bæinn þegar dælan bilað hefur bilað og vatnið hefur ekki runnið. Það er sístætt viðfangsefni að tryggja að vatnsveitur virki. Um alla heimsbyggðina verður fók að puða við að afla vatns. Víða er margra klukkutíma ferð að ná í vatn og erfitt að bera það langar leiðir. Vatn er ekki sjálfgefið. Jafnvel Gvendarbrunnavatn getur smitast og óhreinkast eins og dæmin sanna. Vatnsveitur á Íslandi verða stundum fyrir skaða þegar mistök eru gerð eða áföll verða. Fúlt vatn kemst í þær, saurgerlar eða spilliefni. Þá er mönnum hætt, matvinnsla er í hættu og heimilsrekstur raskast. Fólk getur orðið veikt og menn og skepnur dáið. Fyrir nokkrum dögum var í fréttum að fílar og dýr á stóru svæði í Afríu hefði dáið. Niðurstaðan var að vatnsbólin hefðu spillst af þörungagróðri.

Konurnar og vatnið

Kynjavíddin eitt af því sem við megum gjarnan meta og virða. Það eru konur sem sækja vatn í heiminum. Milljarðar kvenna bera ábyrgð á að koma vatni til fjölskyldna sinna. Mæður, ömmur og dætur en karlarnir sinna einhverju öðru. Vatn er þungi kvenna veraldar. Þær bera vatnið á líkama sínu og svitna undan burðinum í hitanum. Því fjær sem vatnsbólið er þeim mun lengri tími fer í vatnsferðir kvenna. Og vatnsburðinn verður víða til að stúlkur fá ekki notið menntunar því þær eru bundnar við vatnsburðinn. Góð vatnsöflun, góðir brunnar eru um víða veröld vinir kvenna og forsenda fyrir að þær geti gengið í skóla og menntast. Þegar vatnið þrýtur eru þær víða teknar úr skóla til að fara að bera vatn um langan veg.

Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru á ferð við brunna og lindir um miðjan dag af því þær hafa ekkert val. Þær eru kvenkyns og kerfi samfélagsins skilgreina að það sé kvennaverk að sækja vatn. Vandinn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að nennti ekki að fara, hún bara færi á morgun eða eftir viku? Nei, hún varð að sækja vatn því annars væri lífi ógnað.

Kynferðisvíddin

Síðan er það vídd hins kynferðislega. Var þessi samverska kona stödd þarna við brunninn til að leita að tilkippilegum körlum? Er það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknarinnar. Vildi hún vera á öðru róli en hinar konurnar sem komu í hópi og höfðu vörn í hinum konunum? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var og er skelfileg. Á konur er ráðist, sem eru einar á ferð og fjarri öðrum. Það eru ekki aðeins villidýr merkurinnar heldur líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki félagsstuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og einar konur á ferð. Þeim hefur verið og er misþyrmt og nauðgað.[v] Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki fórnarlambinu um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök.

Vatnssaga samversku konunnar nær að gefa okkur nýtt bragð á varir. Við megum leyfa þessari kvísl staðreyndanna flæða inn í okkur. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Það ætti #metoo-hreyfingin að kenna okkur. Sagan um Jesú og konunar við Jakobsbrunn er mögnuð saga. Hún opnar vatnsmálin að nýju og skvettir á okkur spurningum og nýjum glufum merkingar.

3. þriðjudagsfundur. Um vatnið. 29. september 2020. Dr. Sigurvin Jónsson benti mér m.a. á að konur hefðu verið háðar körlum í fornöld. Efnahagskerfið var karlstýrt og raunar hefðu ekkjurnar verið einu konurnar sem gátu notið einhvers frelsis frá stýringum valdsins.

[i] Sandra M. Schneiders, “The Gospels and the Reader,” The Cambridge Companion to the Gospels ed. Stephen C. Barton (New York: Cambridge University Press, 2006), 97.

[ii] Jerome Neyrev, The Gospel of John. The New Cambrdge Bible Commentary (New York: The Cambridge University Press, 2007,) 87-88.

[iii] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel (New York: Herder and Herder, 1999) 143-44.

[iv] Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman“ í The Interpretation of John, ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

[v] Sjá upplýsingar á síðu Sameinuðu þjóðanna: http://www.unwomen.org/en