Minning þeirra blessi

Þetta eru Tamar og Jonatan og börn þeirra Shachar, Arbel og Omer. Þau bjuggu á Shir Oz samyrkjubúinu skammt frá Gaza. Þau voru myrt í loftvarnabyrginu sem þau höfðu farið í til að vera í skjóli fyrir eldflaugum. En þau voru í engu skjóli fyrir morðingjum sem höfðu farið yfir landamærin til að elta uppi borgara Ísraels, skjóta þá, stinga og niðurlægja. Hver drepa, börn – jafnvel kornabörn, ömmur, afa, foreldra sem verja börn sín, almenna borgara? Það er hin djúpa og hræðilega spurning sem knýr á og verður að svara. Ég hlustaði á Íslending fagna innrás Hamas-samtakanna í Ísrael. En engin afbrot eða ofbeldisverk í fortíðinni réttlæta þessa tegund morðæðis. Illvirki eru alltaf illvirki. Hrottaverk Hamasliða eru hliðstæða Úteyjarmorðanna og árásarinnar á tvíburaturnana í New York. Lík fólks voru tekin, hent á jeppa og síðan ekið með þau um Gaza eins og sigurtákn. Þvílík mannfyrirlitning, þvílík brenglun. Morðæði Hamas hefur líklega endalega gert út um tveggja ríkja tilraunina fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú verður að búa til nýjan tíma fyrir Ísraela og Palestínumenn. Megi minningin um Tamar, Jonatan, Shachar, Arbel og Omer blessa framtíðina. Blóð þeirra og allra hinna myrtu hrópar upp í himininn og út í mannheima.