Þú, skugginn hvíti

Þegar sólin sest,
hæðir stækka,
fjöll verða risar,
myrkrið sækir að
og loppur teygja sig til mín
sé ég þig.

Þegar líf vinar fjarar út,
andartökin hverfa,
sláttur hjartans hættir,
kroppurinn slaknar,
kólnar og dofnar.
Þá sé ég þig birtast.

Þegar sorgin svertir,
vonin er brostin,
ástin lemstruð,
umhyggjan vanvirt
og höndin slegin.
Þá sé ég þig, sannleiksperla.

Þegar ljósið hverfur
og allt verður risavaxið
í löngum skuggum.
Þegar myrkrið faðmar
breytir þú öllu.
Þú ert skugginn hvíti.

sáþ 2012