Brynhildur Ólafsdóttir – Minningarorð

BrynhildurHvað getur best stælt barn til þroska og eflt lífshamingju þess? Hvernig getum við undirbúið okkur undir líf og reynslu? Hvernig verður manneskja til? Brynhildi var í mun – sem kennara og skólastjóra – að tryggja að börnin fengju kennslu og nytu skólastarfs sem gerði þeim fært að þroskast og blómstra. Heima var hún öflug móðir og eiginkona sem iðkaði það sem hún aðhylltist. Það var engin gjá milli kenningar og iðkunar í lífi Brynhildar. Hún var heil, djúp, kraftmikil og sönn. Svo kom að lokaprófinu í lífi hennar – glímunni við veikindi og lífslok. Hvernig verður manneskjan til og hvernig er hægt að bregðast við þeim vágesti sem dauðinn er? Hallgrímur Pétursson orkti á sinni tíð með dauðann við dyrnar: Kom þú sæll þá þú vilt.

Og við syngjum það á eftir.

Það er lífsviska að mæta dauðanum tilbúinn, óháð því hvenær hann kemur.

Eftir baráttuár, bæði í vinnu og veikindum, vissi Brynhildur að nú væri komið að lokum. Hvað gerir maður í slíkum aðstæðum? Afneitun var Brynhildi ekki að skapi – hún kallaði í prestinn. Við þekktumst ekki og ég kom á líknardeildina í Kópavogi á tilsettum tíma. Inn í hús nr. 9. Þar var hópur kvenna að fá sér kaffi og ein með smart gleraugu stóð við kaffivélina þegar ég spurði hvar Brynhildur væri. Hún sneri sér fram og bros kom í leiftrandi augun. „Ég er Brynhildur“ sagði hún – “viltu kaffi?“ Svo gekk hún rösklega inn ganginn og inn í herbergi. Ég dáðist að festunni, viljanum, glettninni og getu hennar til að fara langt inn í djúp tilfinninga, óttaefna, gleðimála og himinsins. Hvernig verður manneskjan til? Á lokakafla lífsins opinberaði Brynhildur mér reisn, þor og það traust sem bjó í henni. Hún var þroskuð, hafði unnið með persónuvíddir sínar, grátið yfir eigin lokum og fólkinu sínu. Hún var að fara í lokaprófið, hún ætlaði ekki að ganga til þess ólesin eða án undirbúnings. Og við ræddum síðan saman um lífið, Guð, tíma og himinn, ástina, sorgina, Þór, börnin hennar, skólann og allt fólkið sem hún elskaði og þótti vænt um, ykkur. Brynhildur sýndi okkur öllum að mannsekjan verður til með ræktunarstarfi – óttaleysi og vilja til að skoða útmörk og með opnum huga. Hún spurði í undrun gagnvart lífinu og lífsgátunum. Og í Davíðssálmum er íhugað í sama anda.

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“

Já, mannabörn spyrja og njóta þess að Guð vitjar, snertir, umlykur og blessar.

Fjölskylda og skóli

Brynhildur Ólafsdóttir fæddist í svefnherbergi foreldra sinna á Varmalandi í Borgarfirði 23. janúar árið 1956. Hún var dóttir hjónanna Áslaugar Þórólfsdóttur og Ólafs Ingvarsson kennara og skólastjóra. Hún var af Vesturlandi en hann að austan. Bræður Brynhildar eru Þórólfur, sem er tannlæknir, og Ingvar, sem er  verslunarmaður, báðir eldri en systir þeirra.

Brynhildur bjó fystu árin á Varmalandi og byrjaði í skóla fimm ára og var síðan á undan sinni samtíð í flestu. Ólafur, pabbinn, vildi gjarnan bæta við sig í námi og fjölskyldan fór til Kaupmannahafnar og bjó í miðborginni, rétt hjá Amalienborg-höllinni. Brynhildur fór í skóla – lærði auðvitað dönsku á methraða. Þetta var góður tími, hún lærði hvernig skóli getur orðið merkilegur vaxtarstaður til góðs þegar vel er unnið. Síðan varð Danmörk henni og fjölskyldu gjöfult heimaland og dönsk menning til að njóta. Eftir ár ytra fóru þau heim, settust að í Blönduhlíð og Ólafur varð skólastjóri í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Brynhildur skundaði sjálf í Hlíðaskóla og svo tók Verslunarskólinn við. Og hún varð fyrir áhrifum frá blómahreyfingu hippanna og bar með sér blæ mannelsku og breytingaþors inn í skólalífið í Versló. Hún lærði að lífið getur verið margvíslegt og hafði gaman af.

Hvað svo? Hún lauk verslunarnámi árið 1974, 18 ára og fór að vinna fyrir sér hjá R. Sigmundssyni, lærði hvernig debit og kredit virkar í raunveruleika fyrirtækis og var síðan glöggur bókari, kunni skil á innkomu og útgjöldum, hvernig þarf að reka einingar svo þær virki og skili. Svo fór hún að kenna í Seljalandsskóla undir Eyjafjöllum. Hún fann sinn innri eld, fann hve kennslan átti vel við hana og ákvað að söðla um og afla sér kennsluréttinda, kláraði stúdentinn í MH og fór svo í Kennaraháskólann og lauk B.ed. prófi þaðan árið 1982. Það var henni gæfuspor og skólar, nemendur, samstarfsfólk og skólayfirvöld nýttu eigindir og hæfileika Brynhildar í kennslu, skólastjórnun og flóknum verkstjórnarþáttum varðandi skólasameiningu.

Brynhildur varð kennari og síðar deildarstjóri við Fellaskóla til 2002. Síðan varð hún aðstoðarskólastjóri og skólastjóri Álftamýrarskóla frá 2002 – 2011, en eftir það skólastjóri Háaleitisskóla.

Vinnudagur Brynhildar var langur en samt fann hún stundir til að sinna ýmsum félagsstörfum og sat meðal annars um tíma í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Skólastjórafélags Reykjavíkur.

Brynhildur var alltaf á undan tímanum, líka í menntamálum. Og hún sinnti eigin símenntun vel og sótti sér stöðugt viðbótarmenntun og stundaði m.a. nám í stjórnun og leiðtogaþjálfun við endurmenntun HÍ og framhaldsnám við HR 2008-2009. Svo var hún stöðugt að læra á lífið, annað fólk, hugmyndir, njóta að lifa og vera – allt til loka.

Ástalífið og fjölskyldan

Og svo er það ástalífið. Þór Ottesen Pétursson sá Brynhildi í húsi á Vesturgötunni. Hann heillaðist. Brynhildur var alltaf smart og líka í brúnu kápunni þennan dag. Hún sat í tröppu við skrifstofu þar sem bæði bróðir hennar og Þór unnu. Og það var ekki bara hún sem kunni að setja kúrs heldur átti hún hug hans og ást upp frá þessu. Svo byrjaðu þau að flétta þræði sína saman. Áslaug Brynhildarmamma hafði metnað fyrir hönd dóttur sinnar og vildi skoða piltinn vel og reyna hvort Þór stæðist prófin sem fyrir hann voru lögð. Hann náði, ruddi hindrun úr vegi og tengdamamma fékk að lokum ofurblómvönd. Þau Brynhildur gengu í hjónaband þann 5. maí árið 1979 – bæði með slaufu eins og sést í sálmaskránni – hún með rauða!

Börn þeirra Þórs og Brynhildar eru:

Áslaug, sem fæddist í júní 1981. Unnusti hennar er Viktor Örn Guðlaugsson. Áslaug er tölvunarfræðingur.

Brynja er líka júníbarn og fæddist árið 1987. Hún er hagfræðingur.

Bjarki fæddist svo á hinum hluta ársins, í desember 1991. Hann stundar laganám.

Áður en þau Brynhildur tóku saman átti Þór fyrir Hallbjörn Eðvarð, Ágúst Þór og Önnu Lovísu. Brynhildur var mannelsk, félagslynd og gjafmild. Hún opnaði alltaf fyrir fólki og tók á móti börnum Þórs í þeim anda. Hlutverk stjúpunnar er ekki einfalt en Brynhildur sýndi mannkosti sína í þeirri stöðu og stóð sem klettur við hlið þeirra og Þórs og það mæddi mjög á þeim öllum þegar Ágúst Þór lést voveiflega árið 2000.

Brynhildur var ekki aðeins öflug móðir, dugmikil húsmóðir og glaðsinna eiginkona heldur nýtti hæfileika sína til að ramma vel börnin sín og veita bónda sínum þann styrk sem hann þarfnaðist. Heimilislífið varð þeim öllum gjöfult og farsælt. Börnin fengu stuðning til að nýta hæfileika sína og þroskast. Brynhildur kunni lag á að setjast niður með sínu fólki og hjálpa þeim með það sem öndvert var, þurfti ekki að byrsta sig eða æpa heldur studdi með þolinmæði, lagni og elskusemi þegar á þurfti að halda.

Svo var hún þeim öllum fyrirmynd um að enginn er eyland, öll erum við félagsverur og að maður er manns gaman. Brynhildur átti afar létt með samskipti við annað fólk, tengdi fljótt, kunni mörk, sá hvenær þurfti að hvetja og hvenær mátti láta kyrrt liggja. Hún hafði tamið sér samskiptafærni og var óhrædd við að opna fyrir fólki. Hún var mikil af sjálfri sér en jafnframt þroskuð í tengslum.

Margir vilja því kveðja Brynhildi í dag og nokkur eru erlendis. “Tóta og Jói“ sem eru búsett í Noregi biðja fyrir kveðju og sömuleiðis Helena Pálsdóttir.

Brynhildur í vinnu og lífi

Brynhildur hafði lokið formlegu sameiningarferli í skóla sínum. Ekkert er einfalt í svo flóknu ferli og þörf fyrir lagni, útsjónarsemi og leiðtogaþor. Það hafði Brynhildur og því var henni treyst til að stýra hinum nýja Háaleitisskóla. En Brynhildur var ekki tæknistjóri heldur byggði stjórnun og tengsl hennar á ígrunduðum hugsjónum, sem mótaðar voru í deiglu reynslu og samskipta við kennara, starfsfólk skóla og nemendur. Og Brynhildur vildi að starf og tengsl yrðu til að bæta og efla fólk.

Nemendur Háaleitisskóla gerðu minningarbók um Brynhildi. Þessa bók getið þið séð í erfidrykkjunni nú á eftir. Þessi aðferð Háaleitisskóla við sorgarúrvinnslu er til fyrirmyndar. Það er starfsfólki og nemendum stórt verkefni og mörgum áfall þegar ung kona – yfirmaður skólans – fellur frá. Miklar tilfinningar kvikna og stórar spurningar sem mikilvægt er að svara og sinna. Í þessari hjartanlegu og grípandi bók er margt sagt sem vert er að nema. Nemendur í þriðja bekk skrifa: „Þú ert góður skólastjóri og yndisleg manneskja. Lifðu vel í draumalandi.“

Nemendur í fjórða bekk skrifa til fjölskyldu Brynhildar: „Við munum alltaf hafa hana í hjörtum okkar og gleðjast hve góður skólastjóri hún var. Reynið að lifa lífinu og gleyma sorginni en muna samt alltaf eftir henni.“

Í einni umsögninni var: „Þú varst okkur svo kær fríða mær. Með fatastílinn uppá 10 – þú varst alltaf svo flott. Minning þín gefur bros á vör…“

Og nemendur vita hversu dýrmætt er að mæta hlýjum og styðjandi skólastjóra fremur en hörku. Unglingarnir í níunda bekk skrifa: „…Hún var yndisleg og skapgóð. Við hefðum ekki geta beðið um betri skólastýru. Við misstum frábæra manneskju og allir sakna hennar. Hvíl í friði.“

Yndisleg, frábær manneskja – það er stefið í minningum nemenda. Er það ekki öflugur vitnisburður úr skólaheiminum? Er það ekki óbrotgjarn minnisvarði? Og það má verða til að brýna okkur öll að iðka Brynhildarstílinn í skóla og lífi.

Eigindirnar

Það var gott að horfa í glettin augu Brynhildar þegar hún var að vinna með stóru spuningarnar. Hún tapaði aldrei getu til hins kátlega – ekki einu sinni á ögurstund við mærin miklu. Þá varð ég vitni að hugrekki og getu sem ég dáist að.

Hvernig minnist þú Brynhildar, eiginda og hæfni? Naustu þess einhvern tíma að borða matinn hennar? Hún var ástríðukokkur og kunni á hvítlauk, sushi, basilíku og gott krydd og hráefni. Mannstu eftir göngugarpinum eða kunnáttugolfaranum? Hlóstu einhvern tíma með henni og varst vitni að því að tárin flóðu og allir hlógu því Brynhildur smitaði gleðinni? Mannstu eftir hve róleg hún var þegar hún sat með þeim sem þurfti að styðja og hvetja? Kunnir þú að meta vilja Brynhildar til að stokka upp í skólastarfinu til að tryggja að hinir hægfara fengju líka stuðning og örvun? Gerir þú þér grein fyrir hve öflug Brynhildur var við sauma og prjón þegar hún sinnti því? Og varstu þess áskynja hve jafnréttisafstaða Brynhildar var djúprætt og hafði áhrif á allt hennar starf og viðmót? Mannstu eftir hve umhugað henni var um börn í erfiðum félagsaðstæðum og að þau nytu stuðnings? Og gerðir þú þér grein fyrir hversu mjög hún elskaði gleði og fjör?

Með gleði

Hvað viltu gera við allar þessar minningar? Leyfðu þeim að verða til að efla þig til lífs, mannelsku og líka til að efla með þér sjálfsvirðingu og stæla þig til lífsleikni. Brynhildur var fyrirmynd í mörgu. Hún vildi sjálf skilja eftir gleði og birtu. Virðið hinstu ósk Brynhildar að þið minnist hennar með gleði á þessum degi. Hvernig? Jú, það er verkefni dagsins: Rifjaðu upp einhverja skemmtilega minningu um Brynhildi og segðu svo söguna í erfidrykkjunni á eftir, sem hún vildi að yrði kveðjupartí. Og hláturtár að hennar hætti eru í góðu lagi.

Svo bað Brynhildur um að vinkonur hennar kæmu saman fyrir útförina. Og matgæðingurinn bað um að franskar makrónur yrðu skreyttar, hlustað á músíkina hennar og hvítvín drukkið. Og það gerðu þær vinkonur í fyrrakvöld og þið njótið vinnu þeirra á eftir – gáskamakrónur svíkja ekki.

Fósturskynjun og eilífð

Tilveran er til góðs en ekki til ills. Það er meginboðskapur kristninnar. Við misstór mannabörn liggjum á ögurstundum á bakinu og störum upp í himininn og reynum að skilja löngu hugsanirnar. En orð um aðra veröld og himinn eru ekki skýringar af vísindatagi. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls. Um það ræddum við Brynhildur. Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar og slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum og ljósagangi daganna, sást ekki ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur fátæklegar hugmyndir um lífið var tilveran sem við þér tók utan kviðar er stórkostlega fjölbreytileg. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun fegurra og fjölbreytilegra en þú getur hugsað þér. Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í þessum móðurkviði tíma og heims og Jesús er leiðin. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar Brynhildar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf, trú og von fólks. Páskarnir – hátíð upprisu Jesú Krists. Þess vegna getum við gert meira en að gráta og syrgja, við megum líka gleðjast.

Nú er Brynhildur farin. Við megum trúa, að Brynhildur hafi fæðst inn til gleðinnar, inn í hlýju elskunnar, inn í stóran faðm, sem kenndur er við Guð. Þar er gott að vera. Þar er Guð og því er himininn – Varmaland eilífðar.

Guð geymi ykkur og líkni.

Guð geymi Brynhildi  og varðveiti um alla eilífð.

Amen

Æviágrip

Brynhildur Ólafsdóttir fæddist að Varmalandi í Borgarfirði 23. janúar 1956. Hún lést á líknardeild LSH 18. desmber 2012. Brynhildur var dóttir hjónanna Áslaugar Þórólfsdóttur, f. 23. Mars 1924 í Mýrarsýslu, d. 20. apríl 1993 og Ólafs Ingvarsson fv. kennara og skólastjóra, f. 24. maí 1925 á Seyðisfirði. Bræður Brynhildar eru Þórólfur Ólafsson tannlæknir, f. 15. júlí 1949 og Ingvar Ólafsson verslunarmaður, f. 7. mars. 1952. Hinn 5. maí. 1979 giftist Brynhildur eftirlifandi eiginmanni sínum Þór Ottesen Pétursyni rafvirkja, f. 26. júlí 1950 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Ágústa Ágústsdóttir, f. 12. ágúst 1920 í Reykjavík, d. 23. ágúst 1997 og Pétur Ottsen Jósafatsson, f. 22. júlí 1919, d. 10. október  2006. Börn Þórs og Brynhildar eru: 1) Áslaug Þórsdóttir tölvunarfræðingur, f. 20. júní 1981 unnustu hennar er Viktor Örn Guðlaugsson, f. 20. nóvember 1987. 2) Brynja Þórsdóttir hagfræðingur, f. 11. júní 1987. 3) Bjarki Þórsson laganemi, f 3. desember 1991. Synir Þórs úr fyrra hjónabandi, 1) Hallbjörn Eðvarð Þórsson, f. 15. júní 1970, unnustu hans er Helena Eydís Ingólfsdóttir, dætur Hallbjarnar úr fyrra sambandi eru: Eydís Agla Hallbjörnsdóttir, f. 28. mars. 2002 og Hera Karín Hallbjörnsdóttir f. 3. nóvember. 2003. 2) Ágúst Þór Þórsson, f. 9. desember 1972, d. 1. október 2000. Þá á Þór einnig dótturina Önnu Lovísu Þórsdóttur f. 28. október 1977.

Brynhildur ólst upp að Varmalandi, en fluttist svo til Reykjavíkur árið 1965. Brynhildur gekk í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi 1974, varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1979 og útskrifaðist með B.ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands 1982. þá lauk Brynhildur diplómanámi í stjórnun og forystu við endurmenntun HÍ og stundað framhaldsnám við HR 2008-2009. Að loknu verslunarprófi starfaði Brynhildur hjá R. Sigmundssyni hf. Hún var kennari og síðar deildasstjóri við Fellaskóla 1977-2002, aðstoðarskólastjóri Álftamýrarskóla 2002-2005, skólastjóri skólans í afleysingum 2005-2007 og skólastjóri 2007-2011, en síðan skólastjóri nýs Háaleitisskóla. Brynhildur sinnti ýmsums félagsstörfum og sat meðal annars um tíma í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Skólastjórfélags Reykjavíkur. Golfiðkun átti hug Brynhildar allan og vörðu hún og Þór löngum stundum við þá íþrótt í góðra vina hópi hérlendis og erlendis. Útför Brynhildur var gerð frá Neskirkju, föstudaginn 4. janúar 2013.