Bæn við áramót

IMG_7683Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.

…frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur eignir, gæði, lygi, blekkingu, álög hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Kenn okkur að næra líf okkar á nýju ári og nýrri tíð –  vitja þess sem skiptir máli, rækta fólkið okkar, heilsuna, tala við þig, tala um ástina, gleðina, fegurðina, það sem skiptir máli.

 

Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.

 

Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær.

 

Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Við berum fram fyrir þig áhyggjuefni við áramót, fólkið sem við viljum biðja fyrir.

 

Við biðjum fyrir ástvinum okkar nær og fjær, nánum og fjarlægum.

 

Við biðjum fyrir sjálfum okkur göllum okkar, sorgum, veikleikum, vonum, – biðjum um að hið nýja ár mætti verða gott ár til að rækta okkar innri mann, okkar líf, efla það sem við við erum kölluð til að efla go við berum ávöxt. Gef ávöxt, gef líf.

 

Við biðjum fyrir þeim sem misst hafa ástavini á árinu sem er að líða. Líkna þeim, blessa þau og styrk. Blessa minningu hinna látnu. Gef að við verðum fólk lífsins en ekki dauðans, Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.

 

Við biðjum fyrir íslensku þjóðfélagi, styrk þau sem hafa orðið fyrir áföllum. Blessa þau sem veil eru, börnin og gamla fólkið. Styrk stofnanir og starfsfólk, stjórnir og ráð til að góðra ræktunarverka.

 

Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. Þú hefur verið athvarf frá kyni til kyns. Lof sé fyrir það athvarf, lof sé fyrir traustið, lof sé fyrir lífið, lof sé fyrir enn eitt ár þótt lífsmagn okkar hafi verið lítið.

 

Gef gleðilegt líf, meiri fögnuð, meira vit og trú.

 

Fyrir Jesú Krist – Amen.