Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju Akureyri

Ég skrifa þennan pistil sem einstaklingur og djákni sem styður biskupsframboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, prests í Neskirkju. Mér þykir vænt um að mega og geta skrifað stuðningspistil sem þennan, því ég er þess fullviss að biskupskápan muni klæða Sigurð Árna sérstaklega vel, ef við sem styðjum hann, gerum það á opinskáan, heiðarlegan og umfram allt málefnalegan hátt.

Allt frá því að ég kynntist Sigurði Árna fyrst fyrir rúmum aldarfjórðungi hefur það heillað mig í hans fari að hann vill læra að gera betur, telur sig ekki fullkominn, né yfir það hafinn að taka gagnrýni. Þannig hef ég upplifað Sigurð Árna sem nokkuð lausan við hroka. Því þykja mér orð hans þegar hann talar um þetta trúverðug. Í prédikun fyrir átta árum sagði hann:

Hvað einkennir hinn sjálfhverfa og hrokafulla? Jú, hann eða hún sækir í að vera miðja gæðanna. Annað einkenni er að hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þar, sem eitthvað fer aflaga kemur hinn sjálfhverfi sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. (http://tru.is/postilla/2004/10/hroki-au%C3%B0mykt )

Ég minnist nokkurra góðra samtala sem við áttum þegar við störfuðum saman í Skálholti um það leyti sem Sigurður Árni hvarf þaðan til starfa sem fræðslustjóri á Þingvöllum. Við ræddum um eigin breyskleika og hve mikilvæg þörfin væri að við lærðum að líta í eigin barm og spyrja hvar við gætum bætt hegðun okkar og viðhorf. Þessi samtöl þóttu mér góð og einlæg. Þau rifjuðust upp fyrir mér aftur þegar ég las prédikun Sigurður fyrir fimm árum síðan, þar sem hann sagði m.a.:

Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Margir eru svo sjálfhverfir, að raunveruleg brot geta þeir ekki viðurkennt heldur reiða fram skýringar á aðstæðum sem ollu, reyna að forðast að axla ábyrgð og kenna alltaf öðru eða öðrum um. (http://tru.is/postilla/2006/12/salarthrif-og-idrun )

Þetta er Sigurður Árni eins og hann birtist mér, maður sem er reiðubúinn að axla ábyrgð, maður sem sér sig í stærra samhengi, maður sem sækist eftir hinu gagnrýna samtali, ekki til að breyta öðrum, heldur til að bæta sjálfan sig. Orð hans í prédikun frá síðasta hausti þykja mér styðja þessa sýn mína á hann:

Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullum þunga og ekki hvika í gagnrýnni skoðun. En enginn skyldi fara offari og aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar. (http://tru.is/postilla/2011/09/folk-og-folk )

Það er þessi næmni sem heillar mig við Sigurð Árna. Hann fer hvergi offari, hann elskar til loka og lykta, kemur ástúðlega fram við hvern þann sem til hans leitar og er samferðamaður af heilum hug. Vegferð hans er lituð af þeirri fjölbreytni sem sköpun Drottins hefur upp á að bjóða. Sú fjölbreytni er honum gjarnan yrkisefni í pistlum og prédikunum sínum. Þegar ég les og hlusta á texta hans og horfi á hann tjá sig, skil ég að hér er á ferðinni einstaklingur sem hefur safnað visku í sarpinn. Um þetta skrifaði hann m.a. svo fallega í prédikun fyrir níu árum:

Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við heyjum vel, söfnum kunnáttusamlega og ekki aðeins einhæft til að veturinn verði bærilegri. Í því er viska lífsins fólgin að við söfnum ekki aðeins hinum magaræna og efnislega, heldur auð sem dugar þegar áföllin verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kannski er það fremur – hver er það þá sem stendur þér nærri? ( http://tru.is/postilla/2003/09/vetrarkostur )

Sjálfur svarar Sigurður Árni víða þeirri spurningu á hreinskiptin hátt og ætti engum að dyljast að hann hefur valið Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Af dýpt og einlægni hefur hann líka vitnað um átök sín við skaparann og nýja sýn á vegferð hins trúaða. Um þetta sagði hann í prédikun árið 2004:

Mín lífsglíma skóp algerlega nýja sýn gagnvart Guði. Ég lærði að forgangsraða. Ég lærði að Guð er ekki fjarlægur heimssmiður, ekki löggjafi á himnum sem skipar þér þetta eða hitt, reynir að siða þig eins og krakka eða sendir út í heiminn einhverjar klisjur um að við eigum ekki að stressa okkur. (http://tru.is/postilla/2004/09/slaka%C3%B0u-a-engar-ahyggjur )

Í mínum augum er Sigurður Árni mannasættir. Mér þykir mikilvægt að í biskupsstól sitji einstaklingur sem nær að taka á þeim málum sem upp kunna að koma í kirkjunni á hverjum tíma af einurð, dugnaði og með hugarfari sem flokkar ekki fólk í ,,við og hinir“. Sá sem kynnir sér texta Sigurðar Árna sér fljótlega að kærleiksrík sýn hans á manneskjuna er í anda frelsarans frá Nasaret sem lét ekki hin ósýnilegu landamæri milli þjóðfélagshópa aftra sér. Ég veit að Sigurður Árni talar frá hjartanu þegar hann segir:

Elskið útlendingana var og er boð Guðs. Menn eru börn Guðs, hafa gildi, óháð upphafi, fæðingarstað, kynþætti og þjóð. Elskið – elskið útlendinginn, munaðarleysingjann og ekkjuna. Sem sé elskið öll þau, sem eru á útkantinum, þau sem eru utan miðju samfélagsins. Elskið þau, sem eru valdalaus eða vanvirt, eru án samfélagsgæða, auðlegðar og frægðar. (http://tru.is/postilla/2006/01/elskid-thvi-utlendinginn )

Í þessum pistli hef ég leyft mér að lofa þann ágæta mann sem Sigurður Árni er. Væntanlega þykir einhverjum pistillinn væminn, jafnvel að ég skjóti yfir markið. Bið ég þá hinn sama um að láta Sigurð Árna ekki gjalda fyrir væmnina í mér, heldur einfaldlega að hafa samband við hann sjálfan og spyrja hann spjörunum úr. Það er auðvelt að muna netfangið hans: s@sigurdurarni.is

P.S. Við Sigurður Árni heilsumst gjarnan með orðinu ,,frændi“ en vert er og rétt að hér komi fram að við erum skyldir í sjötta og áttunda lið, þ.e. sameiginlegir áar okkar eru Sigfús Jónsson og Sigríður Halldórsdóttir sem gengu í hjónaband 25. september 1760 og bjuggu síðast sem leiguliðar Hólastóls á Melum í Svarfaðardal.

 

One thought on “Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni Glerárkirkju Akureyri”

Lokað er á athugasemdir.