Heilagur – heilagur

Hvað er hið heilaga? Frátekið fyrir Guð. Eitthvað, sem er sérstaklega sett til hliðar, til að þjóna Guði. Nú er framundan síðasti sunnudagurinn eftir þrettánda. Guðspjallið er um reynslu lærisveinanna á fjallinu. Ummyndun er viðburðurinn gjarnan kallaðr á kirkjumálinu. Umbreyting, umformun og ummyndun varða að eitthvað verður annað en áður, að breyting hefur orðið.

Hvað gerðist og hvernig á að túlka sérstakan viðburð? Pétur, Jakob og Jóhannes tengdu strax við stórviðburði hinnar hebresk-kristnu sögu. Þeir lifðu í áhrifasögu, sem stýrði hvernig þeir túlkuðu og skýrðu. Viðburði yrði að setja í rétt samhengi.

Lifum við ekki eins? Viljum við ekki helst hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið. Lifum við ekki í áhrifasögu sem þjónar sem andlegt uumferðarkerfi okkar, andlegt stýrikerfi? Viljum við ekki að allt gangi og sé eins og verið hefur, bæði í eigin lífi og lífi fjölskyldna okkar?

Kirkjan er á tímamótum. Eigum við að þora að opna fangið gagnvart breytingum og þora að treysta Guðs góða anda fyrir kirkjunni á tímum sviftinga? Við veljum oftast hið þekkta fremur en hið óþekkta – ekki satt? Við hræðumst sviftingar og kannski líka ummyndun.

Lærisveinar upplifðu nýjan tíma. Jesús opnaði nýja glugga, nýja túlkun, nýjan heim og nýja trú. Þorum við að taka afleiðingum af merkingu ummyndunarfjallsins? Það þarf trú og áræðni til að opna fyrir sköpun Guðs og endurnýjun mannheims og raunheims. En Jesús biður okkur um að óttast ekki. Ummyndun til íhugunar í íslenskri kirkju á sunnudag. Spennandi textar fyrir spennandi tíma.