Slagur eða samtal?

Ég hitti mann í dag sem spurði mig: “Er það ekki vont fyrir þig að mótframbjóðandi skuli hafa komist í viðtal í blað í dag?” Ég hugsaði um spurninguna og fann ekki til að það væri vont eða gæti skaðað mig á neinn máta.

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera með í kjöri til biskupsþjónustu. En ég tók ekki ákvörðun um að vera í einhverjum slag upp á líf og dauða. Ég gef kost á mér af því að ég elska kirkjuna. Og ég geri ráð fyrir að þau hin sem bjóða fram krafta, elju, anda og tíma geri það af svipuðum ástæðum.

Þess vegna er ég algerlega ósammála sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur sem í örvitali Smugunni segir: ,,Ég held að baráttan um biskupsembættið verði hörð og kosningar og flokkadrættir sem þeim fylgja eru vondar fyrir kirkjuna og eyðileggjandi.”

Biskupsefnin sem þegar eru fram komin eru mannval og það er sómi að vera einn í hópnum. Ég sé enga ástæðu til að biskupskjörið verði meiðandi eða skemmandi. Þvert á móti held ég að biskupskjörið geti orðið kirkjunni mjög gefandi, nærandi og gleðjandi.

Hópurinn sem tekur þátt í valinu og stuðningsmenn leggja til margar hugmyndir, ræða málin, svara spurningum, greiða úr flækjum vekja athygli á málum kirkjunnar. Jú, orð geta fallið sem hugsanlega særa. En mér sýnist líklegra að kosningaferlið geti orðið til mikils góðs og ávaxtaríkt. Kirkjan, biskupsefnin og stuðningsmenn geta ásett sér að efna til uppbyggjandi ferlis í þágu framtíðar kirkjunnar. Að kjósa biskup á að vera til eflingar og undirbúningur kosningar á að vera í sama anda. Hvernig væri að leyfa kosningaferlinu að einkennast af gleði?