Fjögur þúsund flettingar

Miðlun á vefnum er mikilvæg fyrir alla, kjörmenn, kirkjuvini og líka biskupsefni. Því var stuðningsvefurinn www.sigurdurarni.is gerður. Það tók ekki nema tvo daga að vinna grunn vefsins, enda máttarfólk að baki. Og margir vildu skrifa. Svo var vefurinn opnaður síðdegis mánudaginn 23. janúar. Til hliðar urðu til fálmarar og tól á facebook, twitter, youtube, myndhlaða á Flickr og auðvitað netföng og annað sem er hluti heimasíðu.

Eitt af því sem kom mér hvað mest á óvart er hversu margir hafa komið inn á síðuna. Fjögur þúsund flettingar hafa verið gerðar á liðlega þremur sólarhringum, sem er langt umfram það sem ég átti von á – sem sé mikil umferð.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar með fyrirkomulag heimasíðunnar. Þeim tilraunum er ekki lokið. Og efnið heldur áfram að berast. Ég þakka þeim sem skrifað hafa ummæli, miðlað af elsku sinni til kirkju, kristni og leiðsagnar kirkjunnar. Þessar umsagnir eru stórmerkilegar og blóðríkar.

Ef þú finnur hvöt hjá þér til að styðja framboðið, skrifa umsögn, benda til vegar eða vekja athygli á hugmynd má senda línu á s@sigurdurarni.is. Fjögur þúsund flettingar eru kröftugt lífsmark. Takk.