Heilagt rými og heilagleiki

Heimsfaraldur teygir kerfi og kremur fólk. Margir hafa misst vinnu. Fjárhagsáhyggjur reyna á. Því lengur sem fárið geisar vex spenna og sprungur koma í ljós. Veilur einstaklinga og brotakerfi menningarinnar sjást. Veilurnar eru mennskar, það sem við mennirnir erum líka. Þegar mennirnir sýna sínar verstu hliðar hríslast ótti um bæði sálir einstaklinga og samfélög.

En hið vonda er ekki hið eina. Við megum gjarnan hugsa um hina hliðina, velta öllu á hvolf og íhuga það sem er handan hins hræðilega og sefar óttann. Þetta sem er æðra, handan hins skerta eða vonda. Það getum við kallað hið heilaga. Hið heilaga samtvinnar hið besta í þessum heimi, líka manneskjurnar. Heilagleikinn er í náttúrunni, í umhyggju og gæsku mannanna, í listinni og líka í helgidómum. Kirkjurnar eru dásamlegir kyrrðarreitir á ferð okkar um menningu og land. Og hið heilaga er nær okkur en lífið sjálft.

Íhugun dagsins. Mynd SÁÞ af innri kirkjudyrum Hallgrímskirju. Glerverkið: Leifur Breiðfjörð. 

Málnotkun og kynjað málfar

“Sex inclusive language – Guidelines.” Talsverður bunki af blöðum, námsskrám, upplýsingum og leiðbeiningum var lagður í hendur nýnemanna í guðfræðideild Vanderbiltháskóla haustið 1979. Þetta var eitthvað á skjön við allt hitt: “Sex-inclusive language – Guidelines.” Hvað er nú það?

Að baki kynbundu máli

Ég man eftir að ritið olli nokkrum heilabrotum og var ljóst að þetta var alls ekki einhver klámbæklingur! Formlegur og virðulegur frágangur skjalsins, sem bar skjaldarmerki háskólans og nafn sómakærrar guðfræðideildar á forsíðunni, tók af allan vafa um að þetta skyldi íhuga og taka alvarlega. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða leiðbeiningar fyrir nemendur og alla starfsmenn um mál og tengsl þess við kyn og kynferði.

Þannig var það í mínum gamla skóla í Suðurríkjum Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Þá var þessi guðfræðideild búin að ræða málnotkun guðfræði og kirkjumállýskur í mörg ár, búin að taka á fordómum, vinna með varnir kennara og nemenda og ræða kosti og óskosti. Ákveðið hafði verið með fullum stuðningi flestra kennara og starfsmanna deildarinnar að kynniðrandi mál skyldi ekki nota í skólanum. Einu gilti hvort það var í samræðum skólastofunnar, tímaritgerðum, prófum, kappræðum, deildarfundum eða fyrirlestrum.

Þetta var á þeim árum þegar Mary Daly var varla þekkt nema í þröngum faghópum, kvennguðfræði var í fósturlíki og í miðri meðgöngu. En þarna var einfaldlega öflugur hópur kennara, karla og kvenna, sem slátraði mörgum heilögum kúm, var tilbúinn að hugsa ný mál og frá nýjum forsendum. Svo var ekki verra að deildarforseti þá var Sallie McFague, sem síðar varð einn kunnasti málgreinir kvennaguðfræðinnar.

Að læra nýtt mál og skapa nýjan heim

Mér fannst ekki erfitt að aðlagast þessum leiðbeiningum. Ég var að læra að lifa í nýju tungumáli, enskunni. Þetta var bara eins og reglur um greini eða viðtengingarhátt, eitthvað til að æfa sig á, gera mistök, prufa nýtt og innlifast síðan. Þannig var um fleiri, sem kunnu sex-exclusive mál, höfðu lært að segja bræður þegar átt var við systkin, hann um einstakling þegar ekki var vitað um kyn og hann um Guð þegar ekkert var verið að ýja að kyni Guðs eða hlut kynferðis í trúarlegri upplifun. Umræður urðu vissulega um kynjatungu, málið handa kynja og mál beggja eða allra kynja. Plaggið “Sex-inclusive language – guidelines” hafði áhrif og breytti orðfæri, gerði fólki mögulegt að hugsa á nýjan máta og prufa nýjar brautir og hugmyndatengingar.

Hin spámannlega rödd kennaranna varð til að efla þor til nýsköpunar á engi andans. Hún hefur enn áhrif, því ég reyndi að innræta mér að nota mál kynja á íslensku líka og gildir einu að orðið Guð er skv. hefðinni karlkyns. Umorðun er möguleg. Við verðum ekki, erum ekki nauðbeygð, að segja hann um Guð, þegar Guð hefur verið nefndur einu sinni. Ég varð upptekinn af hinni spámannlegu vídd á sínum tíma og gerði mér grein fyrir hvað Vanderbilt-guðfræðideildin var á undan sinni samtíð, kirkjum og skólum um öll Bandaríkin og er reyndar enn.

Til góðs að heyra spámannsrödd

Æ síðan hef ég litið svo á að mikilvægt væri að leggja ekki stein í götu þeirra, sem vilja að mál kirkjunnar og guðfræðinnar á Íslandi sé meira mál en karla. Rödd þeirra er spámannleg og mætti hlusta á og hvetja okkur til að íhuga, hvort við erum hamin af andlegum höftum, með þunga andlega bakpoka óþarfra fordóma úr málinu um Guð og þar með okkur menn. Vissulega er eðlilegt að nota tungumálið vel, en það er óþarfi á láta kyn orða eyðileggja guðfræði og öfluga trúartúlkun. Ég geri mér grein fyrir muninum á málfræðilegu kyni og öðrum notkunarmöguleikum tungumálsins en málfræðilegt kyn á ekki að stjórna hvernig handankynsmál eru skilin og túlkuð. 

Þegar ég heyri sterk viðbrögð við endurskoðun máls kynja spyr ég mig: Er þarna á ferð forherðing í trúarefnum, skortur á vilja til að heyra rödd hrópanda í eyðimörkinni, andóf gegn iðrunarferlinu í sinninu? Ef svo er þá er alvara á ferð og nauðsynlegt að skrifa ritið: „Mál kynja í íslensku þjóðkirkjunni – leiðbeiningar“ og setja svo merki þjóðkirkjunnar á forsíðuna, afhenda guðfræðinemum á fyrsta ári, prestum við vígslu, próföstum við innsetningu og sóknarnefndarmönnum um allt land. Og kannsku setja í starfsreglur kirkjunnar? Gæti verið að dýrkun Guðs myndi eflast og skilningur á fjölbreytni mannlífsins og dýrmæti hverrar mannveru einnig?

Ávarp SÁÞ á þingi um kynjað málfar.

 

You’ll never walk alone

Liverpool FC er Englandsmeistari 2020.

Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt
óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.

You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.

Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.

Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.

Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.

Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.

Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“

Fótboltinn getur fallið,. Nú er Liverpool á toppnum en svo getur gengið þess fallið síðar. Allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.

Til hamingju púlarar með titilinn. You’ll never walk alone. 

Ólafur Sigurgeirsson – minningarorð

Hann er ekki í þjóðlendunum eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í. Ólafur Sigurgeirsson var jarðsunginn frá Hallgrískirkju 7. maí 2006. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Á fjöllum

Ólafur stökk inn í Slunkaríki. Veðrið æddi utan dyra, það brakaði í húsum, en allir voru komnir fram. Ferðin með Kálfstindum hafði verið slarksöm. Því verra sem veðrið varð þeim mun hressari varð Ólafur. Þá fór að reyna á fyrirhyggju hans, nákvæmni, þekkingu, kraft, þor og dómgreind. Í hann var rifið, en hann stóð keikur, gaf ekkert eftir og auðvitað náði hann og hans menn markinu. Maðurinn í dyrunum á Slunkaríki var kappi, hugumstór foringi með geislandi augu, grýlukerti í skegginu, fögnuð í huga og unninn sigur. Á fjöllum var hann hamingjusamur – og betra ef glíma varð við raunverulegan vanda.

Athvarf og viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorkti. Sá lofsöngur varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í sálmi Davíðs segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Fjöllin lifa, öræfin heilla, Ísland kallar. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” 

Uppruni og ætt

Ólafur Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1948 og lést á heimili sínu 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Steinunn Halldórsdóttir og Sigurgeir Guðmundur Guðmundsson. Ólafur missti foreldra sína ungur. Hann var reyndar orðin tvítugur þegar móðir hans dó, en var aðeins tíu ára þegar faðirinn lést. Það hefur aldrei verið gott að missa foreldri sitt ungur, þótt það verði hins vegar oft til að kalla efnismenn til ábyrgðar og átaka. Kjörsystir Ólafs var María Magnúsdóttir. Hún er látin. Hálfsystir hans, Guðfinna Magnúsdóttir, er sömuleiðis látin. Alsystir er  Særún Sigurgeirsdóttir og lifir bróður sinn.  

Ólafur sótti skóla í Reykjavík, var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1976. Þá hóf hann störf sem fulltrúi hjá borgarfógetaembættinu og var þar í tólf ár, bretti upp ermar, var víkingur til vinnu og málin gengu hjá borgarfógeta. Árið 1988 fékk Ólafur réttindi sem héraðsdómslögmaður og var hjá Lögmönnum Skeifunni 17 til 1990. Þá stofnaði hann eigin stofu og varð hæstaréttarlögmaður 1999. Ólafur sinnti alhliða lögmennsku, var fylginn sér í málflutningi, kom sér beint að efni og rökum. Á síðari árum helgaði hann sig því risaverkefni sem þjóðlendumálið er. Ólafur var frá upphafi fulltrúi íslenska ríkisins í þeim gríðarlegu hagsmunamálum. Þekking hans á landi, landsháttum og sögu kom að góðum notum og nýttist vel ríkinu. Jarðeigendur um allt land gátu ekki annað en borið virðingu fyrir þessum Íslandskappa, undruðust þekkingu hans og ef allt um þraut þá bara tók hann í nefið með körlunum – og var tekinn í þeirra hóp, var maður að þeirra skapi.

Heimafólkið

Ólafur var giftur Heiðrúnu Þóru Gunnarsdóttur. Börn þeirra eru Þór og Grettir. Stjúpdóttir Ólafs er Elín Hrönn Sigurjónsdóttir. Ólafur vildi, að ungviðið nyti alls hins besta. “Konan mín vinnur ekki úti” sagði hann einfaldlega. En þau Heiðrún voru hjartanlega sammála um að halda yrði góðu skikki á uppeldi og heimilishaldinu, fylgja strákunum eftir á hliðarlínuna í KR og æpa og sinna öllu því sem gerir heimili gott og gjöfult. Börnin hafa skýrt talað um hvað þessi skipan mála hafi verið þeim öllum til mikils góðs. 

Fyrir hjónaband eignaðist Ólafur soninn Elmar með Sigrúnu Benediktsdóttur. Sambýliskona Ólafs, þegar hann lést, var Guðrún Jóhannsdóttir og reyndist honum vel. Tengdamóðir hans, Fjóla Guðmundsdóttir getur ekki verið við þessa athöfn og ber ykkur kveðju sína. Ólafur var umhyggjusamur gagnvart sínu fólki og sinnti þeim eins og hann kunni best. Minningarnar um lífmikinn og ævintýralegan mann er auður ástvina hans. Þau hafa öll orðið fyrir óvæntum missi, raunar orkutapi í lífinu. Guð gefi þeim sinn mátt.

Máttur og íþróttir

Það fór ekki á milli mála þegar Ólafur kom í hús og mönnum varð starsýnt á heljarmennið. Hugur hans hneigðist til íþrótta og aflrauna frá unga aldri. Fyrst henti hann mönnum á loft í glímu. Árið 1969 varð Ólafur Íslandsmeistari í 3. þyngdarflokki í glímu og með KR-ingum í sveitaglímu á árunum þar á eftir. Hinn kraftalegi glímustíll var bending um stefnuna inn í heim aflrauna. Hann var sterkur og þegar hann var byrjaður að lyfta fyrir alvöru varð hann það sem félagarnir nefndu sterka manninn. Hann var marfaldur Íslandsmeistari í lyftingum og kraftlyftingum, setti fjölda Íslandsmeta og vann til verðlauna á Norðurlandameistarmótum. Bekkpressan var hans aðalgrein. Hann var keppnismaður í besta lagi og gaf ekki eftir fyrr en í fulla hnefa og það var talsvert!  

Ólafur var leiðtogi að upplagi. Félagar hans í puði og svita vissu, að hægt væri að treysta Óla. Hann var kallaður til ábyrgðar, stýrði mörgu af því sem gert var á fyrstu árum og áratugum í félags- og keppnis-málum lyftingamanna og var manna hressastur og líflegastur við að magna stemmingu á mótum. Hann varð brautryðjandi, stjórnaði þingum, aflaði hreyfingunni fé til framkvæmda og keppna, var fararstjóri í keppnisferðum erlendis, ráðgjafi ungu mannanna, hollvinur hinna eldri, dæmdi á mótum heima og erlendis, var tengill við erlend systur- eða eigum við frekar að segja bróður-samtök, alls staðar vel kynntur. Ólafur var formaður Lyftingasambands Íslands frá 1977-80 og formaður Kraftlyftingasambands Íslands frá 1984-86. Það er því ekki  einkennilegt, að sterkustu menn þjóðarinnar gangi í kirkju í dag, heiðri minningu leiðtoga, hollvinar og félaga. Krafturinn rímar vel við orkubolta trúarhefðarinnar, sem þetta hús er kennt við og minnir á.

Náttúrubarnið

Gunnar sneri aftur þegar hann sá land og hlíð. Eyvindar-Halla hljóp í óbyggðir þegar fegurð var á fjöllum. Hálendið togði í Ólaf og átti ítak í sál hans. Hann var fjallamaður, festarmaður Íslands, teygaði fagnandi að sér morgunkæluna í einhverjum mýrarskurðinum, þegar beðið var eftir morgunflugi. Hann ljómaði í morgunbirtu við minni Þórisdals, varð allur að titrandi kviku í kvöldbirtu, reif af sér klæðin á fjöllum, þegar sólin skein, elskaði fangbrögðin í fjallageimi, kunni vel veðravítum og tók stórviðrum eins og elskhugi fjörmiklu ástalífi. Utan malbiksins fannst Ólafi gaman og hann sagði: “Þetta er lífið.” Að una í faðmi náttúrunnar, með sínu fólki og vinum, var honum lífsnautn. Og hann magnaðist í þessum stórfaðmi – varð eiginlega náttúruafl.  

Ferðamaðurinn

Ég man eftir, að honum þótti skemmtilegt, þegar vinirnir hans töluðu um öll tækin hans Óla. Það er auðvitað gott að ferðast með fólki, sem á græjur, sem dugðu í hvaða aðstæðum og veðri sem var. En tækin þeirra Heiðrúnar áttu ekki sjálfstætt líf, heldur voru tól til nota vegna ferða og lífsnautna, rétt eins og lóð og stöng eru tæki lyftingamanna, meðul en ekki markmið. “Græna höllin” var til að komast frá A til B, hjólin, gúmmítuðran og sleðarnir líka.

Ólafur var framúrskarandi ferðamaður. Þótt hann væri hugmaður var hann jafnframt gætinn, enginn dólgur í vötnum, heldur kannaði vel. Hann vissi, að jökulsprungur gleypa algerlega, melta lengi og skila seint. Hann hentist því ekki yfir jökul nema vera viss um leið og aðstæður. Hann kunni vel á leiðsögutækin og hafði tamið sér agaða ferðtækni. Fjallamenn þekkja hvítablindu og það segir alla sögu um kunnáttu og færni Ólafs að hæsta hengja, sem hann fór fram af um dagana, var ekki nema þrír metrar. Ólafur naut átaka en ekki fíflsku. Þegar sleði fór niður úr ís fór hann úr Kraftgallanum og niður í vök á “sveifarhúsinu” einu og lyfti græjunni upp. Hann lét ekki sitt eftir liggja í að miðla upplýsingum og var um tíma ritstjóri Sleðafrétta, tímarits vélsleðamanna.

 Veiðimaðurinn

Ólafur var skotmaður, naut glímunnar við hreindýrin, puða við að hlaupa úr vindátt, komast að dýrum, og kannski ekki síður að erfiða við koma veiði til byggða. Fjórhjólin hafa að vísu nú tekið nokkuð af þeiri skemmtun. Hann veiddi fisk, en hafði ekki smekk fyrir smáveiðum með fíngerða flugustöng. Nei, betra var að leggja net og ef ekki voru önnur ráð synti hann bara með netið. Svo voru það rjúpur og gæsir, veiðar með vinum og undir íslenskum himni, á íslenskum fjöllum. Í honum bjó bjargráð kynslóða, vilji til að eiga nóg fyrir sig og sína og að allir fengju sinn skammt. Ólafur þjónaði félagsskap skotveiðimanna og var um árabil í hreindýranefnd Skotveiðifélagsins. Ólafur kunni að elda bráð og það er nú aðall veiðimannsins að nýta aflann vel. Svo velktist enginn í vafa um, að Ólafur kunni að borða líka. 

Íslandsbarnið

„…frá kyni til kyns… …fjöllin fæddust og heimurinn… …þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær.” Það fæðist enginn á röngum tíma, en Ólafur hefði allt eins getað verið fornmaður, landnámsmaður, heiðahöfðingi eða kappi. Hann var ástmaður Íslands og gildir einu hvort átt er við sögu landnáms og byggðar á Íslandi, náttúru landsins eða menningarhefðir. Hann var áhugamður um glímu, Herúla, áa og eddur Íslendinga, Hávamál, norræna goðafræði og merkingu þeirra sagna, byggðasögu og svo eru auðvitað allar Hamraborgirnar, háar og fagrar. Ólafur hafði líka áhuga á hetjuferðum Íslendinga, s.s. Vilhjálms Stefánssonar og fornmanna á Grænlandi. Svo vildi hann leggja sitt til að halda merki Íslands á lofti. Hluti þeirrar þjónustu við Ísland og jafngild var, að svitna við landbætur við ferðaskálann við Hagavatn. Enginn bað hann, hann vildi laga þar sem eyðing var. Hetjuhyggja Íslendinga var honum í blóð borin. Orðfæri, afstaða og atferli Ólafs var eins og holdgun Íslendingasögu, sem gæti borið nafnið Ólafs saga sterka. 

Styrkleikinn

Ólafur var ekki allra og hélt mörgum frá sér. Að baki skeggbroddum og kögglum bjó viðkvæm und og fíngerð sál. Hann kom sér upp vörnum eða brynjum til að vernda hið innra. Hann var maður hins meitlaða orðfæris. Snakk og vella var honum fjarri, hvort sem var heima, í dómssal, vinarhjali eða á fundum. En jafnframt var hann manna fundvísastur á skemmtilegtheit. Hann var agaður í vinnu, snyrtimenni og málhagur. Hann forðaðist alla linkind og var þar með aldrei misdægurt. Hann var aldei upp á aðra kominn, vildi vera bjargálna í öllum málum. Svo ræktaði hann með sér stálvilja og kapp. Af hverju? Því verður ekki svarað en óneitanlega læðist að grunur um, að missir föður í bernsku hafi orðið honum þungbært áfall. Síðan hafa aðstæður við uppvöxt sannfært hann um, að hann yrði sjálfur að bera sínar byrðar og eiga til þess nægilegt afl. Skýringar og réttlætingar eru síðan auðfundnar í klassískum bókmenntum þjóðarinnar og rómantískri hetjutúlkun þeirra.  

Viturt hjarta – veröld Guðs

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi, gosögum, hetjulund. Það er viska að nýta sér gleðiefni fortíðar og skemmta með. Það er viturlegt, að lesa landið og hvíla við brjóst hinnar stóru móður.  

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í urrandi vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula líf. Þú átt þína leið og Óli fór sína. Og við getum lært hvert af öðru í þeirri miklu lífskúnst að iðka lífsgæðin, að lyfta fyrir lífið.

 Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hugsum við um styrkleikann og veikleikann. Í dag heyrum við þetta hvísl alls sem sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.” Hver er máttur mannsins? Óli var sterkur, ógnarsterkur, en þó veikur þegar eyðingaröflin mættu honum með fullum þunga. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum á eftir. Allt, allt hverfur aftur til dufstins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?  

Hvað verður um hann Óla? Hvar er hann? Hann er ekki í þjóðlendunum, eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi, eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í, glitrandi undraveröld, sem tekur allri morgunskímu fram og er lyktarbetri en skurður í haustkælu. Þar er engin orkuþurrð, þar er almættið sjálft. Honum er lyft inn í orkubú eilífðar, þetta sem við köllum Guð. Í því er hin mesta viska að lyfta þeim skilningi upp í vitund, að í þessu lífi erum við sem fóstur. Svo fæðumst við til hins nýja, sem er flottara, öflugra og betra en þetta, vegna þess að til er Guð sem er orka og elska. Í því fangi má Ólafur ávallt búa. Þar er lífið.  

Minningarorð flutt við útför Ólafs Sigurgeirssonar í Hallgrímskirkja, 5. maí 2006.

Margrét Vallý Jóhannsdóttir

„Eigum við ekki að velta okkur út á helluna?“ spurði hún. Kaffilyktin fyllti eldhúsið á Kóngsstöðum. Sólin gægðist upp fyrir fjallsbrún og fyllti dalinn birtu. Lamb jarmaði hinum megin ár, jökullinn hló, milljarðar daggardropa léku sér með ljósið. Svo veltu Vallý og Páll sér út á helluna. Dagur í lífi tók þau í fangið og ljósið baðaði þau. Kannski fóru þau svo í göngutúr, skutust upp í Gloppu eða lásu í bók. Svo fóru þau einhvern daginn niður á Dæliseyrar, sviefluðu mjúklátum og sveigfúsum flugustöngum. Svo var á haustdögum rölt upp í Kóngstaðaháls, þetta “desert”land á heimsmælikvarða, berjum mokað í dalla, sest svo vestan við hús og borðað úti meðan kvöldsólar naut. Gaman að geta grillað fisk úr ánni og ekki síðra ef matargestir urðu berjabláir út að eyrum. Það er gott að velta sér á þessa hellu. Kóngsstaðir eru staður fyrir lífið, táknstaður um ljós og birtu lífsins, Skíðadalur er tákn um guðsríkið.

Í Davíðssálmum (121) segir: “Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himns og jarðar.”

Fjölskylda

Margrét Vallý Jóhannsdóttir fæddist á Akureyri 21. september árið 1948 og lést 1. maí síðastliðinn eftir skamma veikindabaráttu. Foreldrar hennar eru Friðrikka Elísabet Óskarsdóttir og Jóhann Björgvin Jónsson. Mamman var frá Kóngsstöðum og lifir dóttur sína, en pabbinn Dalvíkingur og er látinn. Systur Vallýjar eru Þuríður Jóna og Valgerður María. Fyrrri maður Vallýjar var Sigursveinn Friðriksson. Þeim fæddust þrjú börn. Þau eru Hlynur, Elísabet og Bjarki. Maður Elísabetar er Elías Þór Höskuldsson og kona Bjarka er Betina Carstens. Barnabörn Vallýjar eru samtals sex.  

Vallý ólst upp á Dalvík, bjó í Arnarhóli, en fór flest bernskuvorin fram í Kóngsstaði og var á sumrum hjá Snjólaugu, ömmu, og Óskari, afa. Þar framfrá tegndist hún náttúru dalsins, sögu síns fólks og sveitunga. Kannski tengdist hún líka eilífðinni, alla vega lifðu amma og afi lengur en flestir aðrir dauðlegir menn.  

Það hefur lengi verið haft á orði, að heilt þorp þurfi til að ala barn vel upp. Vallý naut uppvaxtar í stórneti þorpsins og gat veitt börnum sínum þorpsgæðin fyrstu árin. Fjölskylda hennar var og er samheldin og Vallý var öflug móðir og síðar amma. Hún var ekki aðeins stöndug fyrirmynd, setti mörk og efldi til þroska, heldur var líka það náin börnum sínum, að hún varð þeim vinur og gat miðlað visku til þeirra.  

Vallý var stolt af uppruna sínum. Hún hélt fast í hefðir sinna sveitunga og flutti þær suður, hvort sem það var nú veisluhald vegna vetrarloka, laufabrauðsgerð eða samskiptahættir. Hún var tengd sínu fólki og sinni mold. Við kveðjum hana hér syðra í dag en svo verður hún lögð til hinstu hvílu í svarfdælska mold. Hún verður jarðsett í Dalvíkurkirkjugarði meðal ættingja í samhengi þorpsins, dalsins, í miðju hins stóra lífhrings.

Mennun og störf

Börn, menntun þeirra og uppeldi heilluðu Vallý. Hún hafði sjálf áhuga á námi og gat sameinað hugðarefnum sínum. Hún fór í húsmæðraskóla, sem skilaði m.a. góðum kokki og mikilli hannyrðakonu. Svo var það Fóstruskóli Sumargjafar. Þaðan lauk hún prófi árið 1969. Með réttindi fór hún svo norður og þrátt fyrir eigin barnaannir hafði Vallý kraft og þor til að stofna eigin leikskóla 1972 og rak til 1975. Í þessu var hún á undan samtíð og samfélagi þar nyrðra. Vallý var líka frumkvöðull varðandi aðbúnað fatlaðra, þjónustu við þá og stuðning við fjölskyldur þeirra.

Atvinnumál Vallýjar voru gjarnan með því móti, að í hana var hóað. Hún var leiðtogi að upplagi, störf hennar og hæfni voru virt svo að til hennar var leitað með vinnu. Vallý var fyrsti fóstrumenntaði Dalvíkingurinn, sem kom heim að námi loknu. Foreldar og samfélag treystu henni til að stofna og stýra fyrsta leikskóla bæjarfélagsins.

Breytingar urðu í einkalífi hennar. Þau Sigursveinn skildu og Vallý tók þá afdrifaríku ákvörðun að fara suður með börnin. Syðra starfaði hún á Geðdeild barnaspítala Hringsins og var þar í tvö ár. Svo var þörf á öflugum stjórnanda á leikaskólanum Hamraborg. Þar var hún frá 1982-86. Samtímis sótti hún nám í Fósturskóla Íslands og bætti við sig í leikskólafræðum og stjórnun. Síðan varð hún stjórnandi á leikskólanum Birkiborg á Borgarspítalanum. Með þennan praxis í veganesti fór Vallý á fagdeild Leikskóla Reykjavíkur og var lengstum deildarstjóri fagdeildar og síðar leikskóladeildar. Frá árinu 2000 og til 2005 var hún forstöðumaður fagsviðs Leikskóla Reykjavíkur.

Leikskólar og stjórnandinn

Vallý kom til starfa við leikskóla í borginni á tíma breytinga. Á henni og hinum stjórnendum leikkólasviðs mæddi. Mikið lá undir, stefnumörkun, nýsköpun og svo bygging fjölda leikskóla. Leikskólarnir breyttust í skólastofnanir, sem störfuðu allan daginn. Með fagmennsku að leiðarljósi studdi hún starfsfólk, tók þátt í hugmyndavinnu á ýmsum stigum, hafði gaman af fjölbreytilegum verkefnum. Hún gerði sér grein fyrir, að henni var sjálfri þörf fyrir símenntun, tók sig upp og fór í framhaldsnám í Osló í stjórnun og handleiðslu.  

Vallý stýrði fagdeildinni vel og samviskusamlega. Í henni bjó tilfinningaleg staðfesta, sem stýrði samskiptum við fólk. Hún hafði í sér jafnvægi og frumtraust, sem gerði henni fært að mæta fjölbreytilegum verkefnum með óttalalausum, glaðsinna huga. Verkefni í vinnunni voru ríkuleg vegna nýrra laga um leikskólastigið, nýrrar námskrár, óska foreldra og mikillar fjölgunar leikskóla. Til að gera sér grein fyrir umfanginu er vert að minna á, að skólarnir í Reykjavík eru nú um áttatíu. Deildin hennar Vallýjar stóð sig vel. Hún tók oft þátt í starfi hönnunarhópa, sem undirbjuggu nýja leikskóla. Sem stjórnandi lagði hún ekki aðeins línur, heldur var góður samstarfsaðili á stórum kvennavinnustað. Hún hélt sínum stíl, talaði sína norðlensku, lagði sig alltaf fram og lagði upp úr að mál væru faglega meðhöndluð. Og hún var vel liðin í vinnunni.

Trúnaðarstörf hennar og félagsstörf voru gjarnan á sviði uppeldismála. Vallý gengdi stjórnunarstörfum í félagi fóstra, var formaður félags leikskólafulltrúa, var í dómnefndum vegna nýrra leikskóla, hún var í ráðgjafahópi á vegum menntamálaráðuneytis vegna reglugerðar um sérkennslu árið 1994.

 Palli minn

Þau Vallý og Páll Magnússon byrjuðu að vinna á Barna- og unglinga-geðdeildinni á sama tíma. Þau komu bæði að “utan,” hann úr frönskum kúltúr og hún úr “öndvegi íslenskra dala.” Í vinnunni var það fyrsta verkið að Páll skyldi uppfræða Vallý um einhverfu. Þau skutust út á lóð, en sátu lengur á sandkassabrúninni en að var stefnt. Þau náðu vel saman og  heilluðust af hvort öðru. Páll komst að því, að Vallý var ekki alveg ein í veröldinni, átti þrjú börn, var hluti af stórfjölskyldu sem var svo náin að þær systur bjuggu helst saman og tóku karlana til sín, inn í fjölskyldufaðminn. Að því dró, að Páll varð að gera upp við sig hvort hann vildi búa með þessari konu eða ekki. Það var talsverð hetjuákvörðun að flytja inn til kommúnunnar í Eskihlíð. En hann var maður til að standa með ákvörðun sinni, gekk börnum Vallýjar í fóstrastað, varð vinur systra hennar og svilanna líka og fjölskyldunnar. Hann lærði að skilja, að Svarfaðardalur er kraftblettur veraldar og  Kóngsstaðir hásæti.

Fyrir tuttugu árum keyptu þau Vallý sér íbúð á Bragagötu, börnin fóru með þangað. Þau gerðu sér fallegt heimili, sem ber fegurðarskini þeirra beggja gott vitni.  

Vallý elskaði Palla sinn. Hann endurgalt elskuna, var henni blíður og umhyggjusamur, studdi hana með góðum ráðum og aðdáun. Augun hans lifnuðu þegar hún skvetti skemmtisögum og gleðiyrðum. Þau áttu skap saman. Það sem hún kunni og unni varð hans gleðiefni. Það sem gladdi hann varð hennar hugðarefni. Þau elduðu fyrir hvort annað, veiddu saman, þau gátu þagað saman, fóru undraferðir innan lands og utan, höfðu lag á að deila tilfinningum og fóstruðu hvort annað með nærfærnum fingrum, blíðu og virðingu. 

Sumar og líf

Þegar Vallý fór að hugsa um þessa kveðjuathöfn vildi hún, að hún yrði í anda vorsins og minnti á sumarið og lífið. Þess vegna er sungið um hríslu og læk, voryl og liðinn sumardag og vonina um nýjan dag. Þess vegna munum við líka syngja um líf lausnarans, sem jafnframt er trúartjáning um líf að þessu loknu. Vallý var umhugað um vöxtinn, lífið og ljósið. Hún beitti sér alla tíð fyrir lífsgæðum síns fólks. Lærði ung að ekkert er sjálfgefið í málum hamingjunnar. Hún tók ákvörðun um, að leggja sínu fólki það gott, sem hún gæti. Hún var flottur stjórnandi, útdeildi bæði ábyrgð og frelsi, en líka hvatningu. Samstarfsfólk hennar naut góðs stjórnanda, börnin nutu góðs atlætis. Samferðamenn hennar nutu góðs fósturs. En hvað svo? Hvað situr eftir þegar þegar þú hugsar til Vallýjar? Dragðu fram ásjónu hennar í hugann, íhugaðu skemmtilegustu viðburðina með henni og festu í huga og gleðstu yfir.  

Hún hugsaði um ljósið og lífið. En getum við hugsað á þeim nótum þegar skuggaskilin eru svo skýr á þessum björtu dögum? Þá er komið að því að við gerum upp afstöðu til lífsloka, skila milli þessa heims og þess sem á eftir kemur. Hvert er Vallý farin? Hvernig er hægt að gera upp við sorgina? Hvað vitum við um eilífðina og hvað getum við ímyndað okkur?

Fósturskynjun og eilífð

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls. Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsuðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina eða Skíðadal, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér og stór flokkur af himinfóstrum tekið við þér. Himnaríki er þar sem leikurinn ríkir.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg njóta ákvörðunar Vallýjar að hugsa um birtuna þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta ljóshús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf, trú og von fólks.

Hún velti sér út á bæjarhellu í Skíðadal til að taka á móti deginum. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Vallý hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem kenndur er við Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, þar sem er meira ljós en morgunljós í norðlenskum dal, þar sem daggir eru sólkerfi, þar sem jökulskallarnir eru himneskir gimsteinar, þar sem sólirnar eru slíkar að hægt er að vera norðan við, austan við, sunnan undir og vestan við samtímis. Það er flottur veltustaður. Þar er gott að vera. Þar er Guð og því er himininn Kóngsstaðir eilífðar.  

Guð geymi Margréti Vallý Jóhannsdóttur og varðveiti um alla eilífð. Guð geymi ykkur og líkni.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 9. maí, 2006.