Hoisin og hvítlauks-núðlur

Ég er búinn að elda kjötmáltíðir undanfarið því yngri karlarnir á heimilinu hafa unnið erfiðisvinnu og eru svangir og þreyttir þegar þeir koma heim. Svo kom ég auga á þessa bragðkitlandi uppskrift sem mér sýndist að gæti verið mótvægi við kjötflóðið. Og maður lifandi – hún heillaði mitt fólk. 

Fyrir 4

Innihald:

Salt og pipar

400 g þurrar hveiti- eða eggjanúðlur

60 ml hoisinsósa

2 msk sojasósa

1 msk sesamolía

2 tsk hlynsíróp eða hunang

jurtaolía til steikingar

6 hvítlauksrif, fínsöxuð

6 vorlaukar – saxið en greinið að hvítu og grænu hlutana

4 msk ristuð hvít sesamfræ

Aðferð:

  1. Sjóðið núðlurnar

Stór pottur með söltu vatni fyrir suðuna. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum þar til þær eru “al dente”. Hellið vatninu af og skolið undir köldu vatni þar til þær eru orðnar kaldar.

  1. Útbúið sósuna

Setjið í skál hoisinsósu, sojasósu, sesamolíu og hlynsíróp eða hunang. Hrærið saman og leggið svo til hliðar.

  1. Steikið hvítlauk og vorlauk

Hitið stóra pönnu (30 cm) á meðalháum hita í 2 mínútur. Bætið við 1–2 msk af jurtaolíu og setjið hvítlaukinn og hvíta hlutann af vorlauknum út í. Hrærið í u.þ.b. 30 sekúndur, þar til ilmar (en passið að hvítlaukurinn brenni ekki!).

  1. Bætið við núðlum og sósu

Hellið sósunni út á pönnuna og bætið svo núðlunum við. Hrærið vel svo þær þekjist jafnt með sósunni.

  1. Látið núðlurnar taka sig

Steikið núðlurnar í 2–3 mínútur, svo þær nái að stökkna aðeins – og verða létt karmellíseraðar. Smakkið og bætið við salti ef þarf – og svörtum pipar eftir smekk.

Skiptið í skálar og skreytið með ristuðum sesamfræjum og græna hluta vorlauksins. Fyrir þau sem vilja meira bragð má nota chiliolíu.

Meðlæti – frjálst val!

  1. Gufusoðið grænmeti með sesam

Brokkolí, blómkál eða pak choy gufusoðið og bragðaukið með sesamolíu, sojasósu og sesamfræjum.

  1. Ristaðir tofuteningar eða steikt egg

Skorin tofu (pressuð og marinéruð) eða egg með stökkum botni veita prótein og byggja réttinn upp sem aðalrétt.

  1. Agúrkusalat með hrísgrjónaediki

Ferskt, stökkt salat með þunnum agúrkuskífum, hrísgrjónaediki, sesamolíu og chili-flögum – dregur úr feiti og lyftir máltíðinni.

Bæn

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Ég fann þessa uppskrift Hetty Lui McKinnon á NYT. https://www.nytimes.com/2025/04/28/dining/fast-noodles-dinner-recipe.html

Flórens-kjúklingur með rjómasósu og spínati

Einföld pönnuuppskrift. Safaríkar kjúklingabringu í smjörkenndri hvítvíns-rjómasósu með spínati og rjómaosti. Rjómaosturinn gefur sósunni mýkt og fyllingu. Í stað spínats má nota sólþurrkaða tómata, steikta sveppi eða niðursoðin þistilhjörtu – eða bæta þeim við. Borið fram með stöppuðum eða ofnbökuðum kartöflum – en brauð er nauðsyn til að þerra síðustu sósudropana! Það er uppskófla eða scarpeda í ítölskunni. 

Hráefni:

60 ml hveiti (ca. ¼ bolli)

60 ml rifinn parmesanostur (ca. ¼ bolli), auk þess sem stráð er yfir í lokin fyrir áferð – lúkkið. 

Salt og nýmalaður pipar

4 þynntar, beinlausar kjúklingabringur – án húðar (um 450 g)

1 msk ólífuolía

4 msk smjör

1 meðalstór skalottulaukur, smátt saxaður – nú eða graslaukur/vorlaukur

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

120 ml þurrt hvítvín (½ bolli)

120 ml kjúklingasoð (½ bolli)

1 tsk þurrkuð basilíka (eða 1 msk ferskt, saxað)

1 tsk þurrkuð óreganó (eða 1 tsk ferskt, saxað)

120 ml rjómi (½ bolli)

60 g rjómaostur (við stofuhita)

2 bollar spínat (um 85 g)

Aðferð:

  1. Blandað saman hveiti, parmesan, 1 tsk salti og 1 tsk pipar á disk. Kjúklingabringunum velt upp úr blöndunni þar til þær eru vel þaktar báðum megin.
  2. Stór panna hituð á meðalhita. Setjið ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnuna og bræðið saman. Steikið kjúklinginn í um það bil 4 mínútur á hvorri hlið, þar til hann er orðinn gullinbrúnn (en þó ekki eldaður í gegn). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.
  3. Bætið afganginum af smjörinu (2 msk) á pönnuna. Setjið skarlottulauk, hvítlauk og smávegis salt saman við. Hrærið í 2 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og hvítlaukurinn ilmar.
  4. Hellið hvítvíni og soði út á pönnuna. Bætið við basilíku og óreganó. Hrærið og skafið upp karamelliseruðu bitana af botninum. Látið sjóða niður í um helming (3–4 mínútur). Bætið þá við rjómanum og rjómaostinum. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað og sósan þykknar (um 6 mínútur).
  5. Bætið spínatinu við og hrærið þar til það hefur linast og blandast vel við sósuna (um 1 mínúta).
  6. Leggið kjúklinginn aftur á pönnuna og látið malla þar til hann er fulleldaður (4–5 mínútur). Takið af hitanum og berið strax fram með ferskum parmesanosti yfir.

Ljómandi að skreyta með ætum blómum á sumartímanum. 

Meðlæti við  hæfi – sem velja má úr 🙂

Stappaðar kartöflur með hvítlauk, salti og smjöri. Mjúkar og rjómakenndar kartöflur eru fullkomnar og þær draga í sig rjómasósuna. Bætið rifnum parmesan eða örlitlu múskati við til að ná fram ítölskum blæ.

Ofnbakaðar litlar kartöflur eða sætar kartöflur, kryddaðar með ólífuolíu, rósmarín og sjávarsalti.

Grillaðar eða gufusoðnar grænmetisspírur.

Grænmeti eins og brokkolí, blómkál, grænar baunir eða aspargus.

Bagettebrauð – til að þerra upp sósuna! Getur verið súrdeigsbrauð, focaccia eða einfaldlega brauð með hvítlauksolíu og kryddi.

Ferskt salat, t.d. rúkkola og kirsuberjatómatar með sítrónu-ólífuolíudressingu og parmesanflögum.

Grunnuppskriftina fann. ég í NYT.

Borðbæn

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

vor Drottinn Guð, af þínum auð.

Vort líf og eign og bústað blessa

og blessa nú oss máltíð þessa.

En gef vér aldrei gleymum þér

er gjafa þinna njótum vér.

V.B.

Sigurður Norland í Hindisvík – náttúruverndarfrömuður

Þórir Kr. Þórðarson, lærifaðir minn í Biblíufræðum, sagði mér frá því að hann og Jakobína Finnbogadóttir heimsóttu Sigurð Norland í Hindisvík. Þórir var hrifinn af klerkinum á Vatnsnesinu, lærdómi hans, náttúrspeki og heimssýn. Þau Bíbí töluðu svo eftirminnilega um Hindisvík og náttúrufegurð svæðisis að hrifning þeirra snart mig. Hafði umhverfisguðfræðingurinn Sigurður áhrif á umhverfissýn þeirra? Þórir Kr. hlustaði alltaf á vitringa.  

Við Jón Kristján, sonur minn, fórum saman um Hveravelli og norður Kjalveg. Hann langaði að skoða Húnavatnssýslur og við vitjuðum helgidóma og dýrmæta sýslunnar og fórum m.a. fyrir Vatnsnes. Ég sagði syni mínum m.a. frá prestunum sem höfðu þjónað Tjörn, m.a. þeim Róberti Jack, þeim kúnstuga knattspyrnuklerki, og Sigurði Norland. Við horfðum heim að Hindisvík og fórum að Tjörn. Kríurnar vöruðu eindregið við að við færum heim á staðinn en alla leið ætluðum við. Kirkjan var læst,  skellótt og döpur en kirkjugarðurinn var nýsleginn. Ég fann fljótt leiði Sigurðar Norland og sá líka leiði Friðriks og Agnesar sem dæmd voru fyrir morðin á Illugastöðum í sömu sveit (sem margir hafa skrifað um og Hannah Kent eftirminnilega í Náðarstund).

Sigurður Norland fæddist  í Hindisvík 16. mars, 1885. Hann varð stúdent frá MR vorið 1907 og hélt svo utan og fór fyrst til Skotlands og síðan til Íslendingabyggða í Kanada. Sigurður varð svo góður enskumaður að hann gat ort  eftirminnilega hringhendu á ensku til að útskýra gerð og snið ferskeytlunnar fyrir enskumælandi útlendinga:

She is fine as morn in May,

mild, divine and clever,

like a shining summer day,

she is mine forever.

Þetta „she is mine forever“ varðaði ekki hjónalíf því enga átti Sigurður konu og ekki börn heldur önnur en sóknarfólkið. En Guð, söfnuðir hans, hestar, selir og náttúran í öllum sínum undravíddum voru viðmælendur Sigurðar í Hindisvík. Hann nam klerkleg fræði í Prestaskólanum og var sá síðasti sem útskrifaðist frá þeirri merku menntastofnun áður en hún rann inn í Háskóla Íslands við stofnun hans og þá sem guðfræðideild. Sigurður var vígður til prestsþjónustu í Vopnafirði en fór svo í heimahagana á Vatnsnesi. Hann vildi ekki sitja prestssetursjörðina á Tjörn heldur valdi að búa með móður sinni í Hindisvík utar á nesinu. Sigurður keypti svo jörðina þegar móðir hans lést árið 1919. Um tíma var hann prestur í Rangárvallasýslu en leitaði heim á ný og þjónaði Vatnsnesingum til ársins 1955. Ættmenni Sigurðar eiga paradísina Hindisvík nú. 

Sigurður var hestamaður og ræktaði frægt kyn sem var kennt við Hindisvík. Einhvers staðar sá ég að bláeygir hestar væru til í þeim stofni en ég veit fyrir víst að Sigurður var ekki talinn bláeygur í lífinu. Sigurður var hugsjónamaður og kunnur fyrir tillögur um verndun sela og hvala. Árið 1940 friðaði hann selalalátrið í Hindisvík. Sigurður var þekktur fyrir framúrstefnulegar hugmyndir sínar um náttúruvernd og var af ýmsum talinn fyrsti náttúruverndarmaður Íslands. Vænn þjónn Guðs, manna og náttúru. Guð blessi minningu Sigurðar Norland.

Mynd mín af legsteini sr. Sigurðar í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi, 20. júlí 2025.

Ef einhver lesenda þessarar greinar man Sigurð eða kann sögur um hann og hans fólk þætti mér vænt um að fá tilskrif á s@sigurdurarni.is

 

 

 

Listaverkin í Hrauntúni

Hrauntúnsfólkið í Þingvallahrauni iðkaði hleðslulist. Halldór Jónsson, sem fyrstur var bóndi í Hrauntúni á 19. öld, var svo kunnur fyrir meistarahleðslur að hann hafði atvinnu af. Þessi túngarðshleðsla í Hrauntúni í Þingvallahrauni er listaverk. Hrafnabjörg í baksýn. Með lögum um helgistað þjóðarinnar á Þingvöllum var fjárbúskapur lagður af innan marka þjóðgarðins. Engin búskapur hefur verið í Hrauntúni frá 1936 og hleðslurnar hafa staðist hristing jarðar og skjálfta tímans.

Einfaldast er að ganga í Hrauntún frá Sleðaás-bílastæðinu austan við Bolabás. Þar byrjar svonefnd Réttargata sem sameinast svo reiðleiðinni frá Ármannsfelli. Lengd Réttargötu í Hrauntún er 1,4 km.  Og þau sem vilja ganga lengri leiðir er t.d. hægt að ganga í Skógarkot frá Hrauntúni. Hrauntún og Skógarkot eru miðjur alheimsins þegar gengið er um Þingvallahraun. Útsýn er stórkostleg til fjallanna sem ramma inn Þingvallakvosina. Og í þeim fjallahring eru sjö gerðir eldfjalla!

Heimagerð skordýrafæla – chili–hvítlaukur-edik

Salatræktun okkar er lífræn og því sækja skordýr í plöntunar. Til að varna árásum er hægt að nota lífrænar varnir. Hér er uppksirft að ljómandi góðri skordýrafælu. 

2–3 stór hvítlauksrif, rifin eða pressuð

1 lítill rauður chili (eða ½–1 tsk chili-duft)

1 lítri volgt vatn

1 teskeið mild uppþvottasápa (ilmlaus – hjálpar úðanum að loða við kálblöðin)

1 tsk eplaedik

 

Leiðbeiningar

Hvítlaukur og chili sett í pott með vatni – sjóða í 5–10 mínútur.

Vökinn látinn kólna og agnirnar síðan sigtaðar frá.

Vökvinn settur í úðabrúsa og hrist fyrir notkun.

Notkun

Úðað beint á laufblöð, bæði ofan á og undir.

Endurtekið 1–2 sinnum í viku eftir þörfum.

Prófa fyrst á lítinn hluta plöntunnar til að tryggja að hún þoli úðann.

Ekki er úðað í sólskini – getur valdið brunablettum.

Látta líða 1–2 daga frá úðun áður en salatið er borðað og skola vel fyrir neyslu. Verði ykkur að góðu.