Nýtt líf

Liðið ár var viðburðaríkt í lífi fjölskyldu minnar. Á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans var kona mín skorin upp. Læknir seildist inn í kvið hennar og dró út lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp hljómuðu frá hjúkrunarfólkinu í stofunni. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við stráknum og bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var mikil reynsla að fá nýburann í fangið svo óvænt. Tárin streymdu. Smádrengurinn kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: „Guð minn góður gefi þér líf, allt sem þú þarft til að lifa.“ Í fanginu var lítill kroppur með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en barn sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég og við bregðumst vel við. Skyldi í svona reynslu vera eitthvað guðlegt?

Kross undir og ofan á

Í gamalli þjóðsögu segir frá álfkonum á ferð. Þær laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði: „Ekki má, ekki má. Kross er undir og ofan á. Tvævetlingur situr hjá og segir frá.“ Þær hættu við barnsránið. Nýja árið er sem hvítvoðungur sem þarf að krossa til að enginn steli og trylli heldur nái þroska og verði það sem verða má. Í texta nýársdags segir frá því að Jesús fékk nafn og að hann var umskorinn eins og allir gyðingadrengir á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurn væri. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða saman. Annar spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist vont að láta skera af typpinu. Jú, hann hélt það nú. „Það var svo sárt að ég gat ekki gengið í heilt ár á eftir!“

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú reyndir á liðnu ári? Þú hefur orðið fyrir reynslu af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk sem hafði áhrif á þig. Varðstu fyrir einhverju óvæntu sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum? Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem kallað er svo fallega að upplifa, lifa upp? Við áramótum megum við gjarnan gera upp reynslu liðins árs til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum. Leyfum okkur að fæðast til opins tíma.

Nýtt ár

Við lærum að skrifa nýtt ártal. Við æfum okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim boðskap áramótasálmsins. Aldrei til baka, algerlega farið og ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga og jafnvel líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Stundum erum við óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna huga okkar en nýtt ár er sem vonarbarn sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Við erum flest seigt íhald. Við höldum fast í hefðir og viljum ógjarnan verða öðruvísi og alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega hverfa. Svo kemur hið nýja ár möguleikanna.

Guðspjallstexti nýársdags

Dagurinn í dag heitir á kirkjumálinu áttidagur jóla. Vika er liðin frá aðfangadegi og dagurinn fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem var umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema. Svo var hann nefndur Jesús sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um hinn smurða konung sem muni frelsa. Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, þetta var jú sárt!

Nafngjöfin

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin skilgreinandi og fylgdi t.d. rándýrsnöfnum trú á að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um eigindir einstaklinga og hlutverk. Í Nýja testamentinu ber Jesús hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en Jesús fékk það. Hann einn uppfyllti erindið. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, hinum stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík og vilja að nöfnin hljómi glæsilega. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Nú á tímum vitjar látið fólk sjaldan nafs eins og algengt var á fyrri öldum. Fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þó að mannanafnavefir á netinu séu brunnar fróðleiks um merkingu heita og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir virðast íslenskir foreldrar hugsa meira um „lúkk“ og hljóm en merkingu, semantík og samhengi. Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar, hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Nöfn geta líka verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og guðshlátur

Litlu karlarnir mínir voru strax nefndir eftir fæðingu en eru skírðir á nýársdegi. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga síðustu aldir heldur er einnig notað víða á Vesturlöndum en í ýmsum útgáfum. Það birtist í Jean, John o. fl. og merkir að Guð er góður. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur Ísaka er sonur Söru og Abrahams. Nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkar, aldraðra foreldranna, yfir undrinu. Nöfn drengjanna eru úr hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í táknatferli prestsins sem í skírn krossar á enni og brjóst. Það gerðu foreldrar við börn sín er þau voru þvegin og það var einnig gert við mig ungan. Í signingunni er tengt við merkingu Jesúnafnsins. Eilífa lífið byrjar ekki í dauða heldur í skírn. Við erum börn heimsins og heimsborgarar en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra og veruleiki er þá í Jesú nafni.

Fangið fullt af lífi

Stundum hættir okkur við að smætta trú og Guð og horfa með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Miðja kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn þess sem best túlkar guð kristninnar er Jesús og merking og nafn hans er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur sem við þurfum að heyra við áramót. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hvernig getur þú losnað úr viðjum og lifað vel og í hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska: að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn með von og huggun.

Þegar barn var lagt í fang mitt öðlaðist ég ekki aðeins lífsreynslu heldur fylgdi líka með vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt mennskt endurómar hið guðlega. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef við getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur Guð að samgleðjast okkur. Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun að prufa hvort treysta megi möguleikunum sem opnast: sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga eða hlaupa. Þar megum við sprikla og læra að tala og sjá tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján. Þar mátt þú líka hjala og vera í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Nýársdagur 2006. Slm 90.1–4; Gal 3.23–29; Lúk 2.21.

Andalæri á blini eða lummum

Þetta er undursamlegur smáréttur. Ég byrja á því að baka blini eða lummur. Ef rétturinn á að vera fingrafæði er hægt að hafa blinistærðina og einfalda áleggið en lummustærðin með öllu dýrðarálegginu er hentugri fyrir dögurð-bröns. Þegar búið er að baka er farið í að undirbúa áleggið, sem auðvitað er hægt að breyta að smekk. Ég nota wasabiþykkni til að blanda út í léttmajones. En hægt er að fara aðrar leiðir, jafnvel nota chili-majó eða aðra uppáhaldssósu.

Hentar fyrir 6 og jafnvel fleirum ef margir smáréttir fylgja með.

4 stk. anda­læri úr dós

200 gr hois­insósa

1 dl kjúk­linga­soð

sítr­ónusafi

graslauk­ur eða vorlaukur

stein­selja

langskornar gulrótarflísar og agúrkustrimlar

sesamfræ

Aðferð

Ég set andalærisdós­ina í heitt vatnsbað (vask eða stóran pott) til að bræða vel andafituna. Taka anda­lærin úr fit­unni, hreinsa skinn og bein frá og merja með puttunum kjötvöðvana sundur. Geyma andafit­una (t.d. frysta) og nota til steik­ing­ar síðar. Setja hois­in-sósu í pott með kjúk­linga­soði, hita upp ró­lega og bæta kjötinu svo út í og leyfa því að hitna og taka til sín sósuna.

Blini – lummur

1 bolli hveiti

1/2 tsk salt

1 egg

2 msk góð olía

2/3 bolli mjólk

1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu saman og steikið blinis eða lummurnar á pönnu. Látið kólna. Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.

Wasa­bimajo­nes

1msk wasa­bipaste

3 dl léttmaj­o­nes

Öllu blandað sam­an og sett í sprautu­poka

Á blini-lummurnar eru settir gulrótar- og ágúrkustrimlarnir. Þá kemur hrúga af andalærinu. Wasabimajonesinu sprautað yfir og síðan kemur graslaukur eða vorlaukur yfir og svo sesamfræ. 

Bliniuppskriftin frá Albert eldar og andalærisuppskriftin af mbl. Takk fyrir. 

Jólasveinar meðal okkar

Jólasveinarnir eru á leiðinni og svo koma jólin. Sveinarnir eru af ýmsum sauðahúsum. Kanski spegla þeir menningargerðir? Til eru skandinavískir nissar, sem eru gjarnan stríðnispúkar. Ameríska kláusa sjáum við í draumamyndum Disney. Síðan eru til íslensku leppalúðarnir, sem eru áhugaverðastir þegar grannt er skoðað. Jólasveinaímyndir fyrri tíðar skemmta, en þær eru líka gluggi að veruleikatúlkun og trúarlífi, sem ástæða er til staldra við.

Norrænir sveinar

Upphaf íslensku jólasveinanna má líklega rekja til vana, sem urðu undir í baráttu við heiðin goð og þá löngu fyrir kristni. Þeir eru því leifar trúarbreytingar. Tröllin í þjóðtrúnni eru náskyld jólasveinum og Grýla var móðir þeirra. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um, að íslensku sveinarnir eru með öllu óskyldir hinum hollenska biskup og gjafara, sem varð að heilögum Kláusi. Þann fjólubláa og síðan skrærrauða, hvítskeggjaða biskup hafa amerískir sölumenn magnað með dyggri hjálp höndlara margra þjóða. Íslenskir jólasveinarnir gáfu aldrei neitt og voru ekki í neinu sambandi við kristilegt siðgæði, samfélagsábyrgð og gjafmildi. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kanski skuggsælni, sem gerir þá svo merkilegt íhugunarefni.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta” eins og segir í kvæði, sem sungið er á jólaböllum barna. Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Til samanburðar má minna á, að lærisveinar Jesú fóru tveir og tveir saman, sem er tákn hins góða og samstöðu manna. Maður styrkir mann og heldur að heilbrigði, þetta að gæta bróður síns. En einfararnir, jólasveinarnir, komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda.

Tveir fyrstu jólasveinarnir, Stekkjarstaur og Giljagaur, komu ekki í hýbýli mannanna heldur réðust að skepnunum, lífsgrundvelli fólks. Búsmalinn var undirstaða atvinnulífsins, eins og nútímapólitíkusar myndu segja. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði peningi og vinnufólki illt. Fyrst var vegið að undirstöðum og ytri ramma, en síðan fóru sveinarnir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum og þeir voru sérhæfðir! Sérhæfing er engin nútímauppfinning. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin voru ekki sett hjá, því Askasleikir stal innansleikjum, sem dýrum voru ætlaðar. Hurðarskellir leitaðist við að hindra svefn vinnulúinna manna. Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkvaður táradalur heldur staður vona og þegar dýpst er skoðað, veruleiki þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Heimur hinna lágu torfbæja, þunnu þekju og ljóslitlu hýbýla er að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu, sífelldrar baráttu og aðgæslu. Aðseðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt. Með það í huga verður að skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum, í skepnuhjörðina, mat og hjálparefni fólks. Jólasveinarnir eru því ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þyrfti vel að dýrum, passa þyrfti matinn og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn, einnig í lágan bæ sem skotið var út undir ysta haf, eins og Jón Vídalín komst að orði. Táknskynug kynslóð eldri tíðar trúði ekki á jólasveinanna. Fólk vissi vel að sögurnar um þessa skrítnu sveina voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli og táknvef. Það skildi að þetta voru kennslusögur, uppeldissögur og áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra og undirbúnings í andanum.

Eru jólasveinar hér eða í þér?

Aðstæður hafa breyst. Húsakynnin eru betri en áður og atvinnulífið er með ólíku sniði. En er víst, að heimurinn sé svo breyttur, að aðeins platjólasveinar með bómullarhýjung á vélsleðum fari um? Er atvinna okkar allra gulltryggð? Er lífsbjörgin okkar án aðsóknar? Eru ferðir okkar tryggar og farkostir einnig? Hverjir eru gæslumenn hagsmuna þinna? Hvernig stjórna þeir, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er jólaundirbúningur þinn algerlega snurðulaus. Er engin streita í samlífi fjölskyldunnar þinnar? Er enginn, sem reynir að narra þig og plata á þessum sölutíma? Er alveg víst að fjárhagur þinn hinum megin við jólin verði jafntryggur og fyrir? Ef þú þarft að hafa áhyggjur af einhverjum af þesum þáttum, er sótt að þér úr einhverri átt. Staldraðu við og reyndu að gera þér grein fyrir hvað það er sem hrellir. Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér!?

Hverjum tekur þú á móti?

Íslendingar eiga merkilega spekisögu fyrir jólaundirbúninginn, skemmtilega jú jú, og jafnvel nokkuð kaldlynda líka. En fyrst og fremst er sveinasagan öll ótrúlega raunsæ. Yfir það sést okkur oft í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Alvaran er sú, að ef þú ekki staldrar við og spyrð þig hverjir séu jólasveinar samtíðarinnar, er ekki víst að þú upplifir jólin í fyllingu sinni. Hvað er að, hvað kreppir að atvinnu, heimilum og þínum innri friði og gleði? Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hvernig væri að nýta aðventuna til að undirbúa, vænta og bíða jólanna með því að tala um það sem er að baki öllu táknmálinu, sem er orðið svo verslunarvætt. Hvernig væri að nota aðventuna til aðgæslu og undirbúnings hugar og hjarta? Hverjum tekur þú á móti: Jólasveinum, sem taka frá þér ljósið, eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós?

Helgisaga sem ástarsaga

Helgisögur eru aldrei bara umbúðir heldur mun fremur inntak. Þær hafa gjarnan glit og glans eins og flottir jólapakkar en það er betra að taka utan af slíkri sögu og skoða innihaldið. Fæðingarsaga Jesú er helgisaga með inntaki. Jesúsagan er ekki um hvernig heldur til hvers, ekki um hvað heldur hvers vegna, ekki um yfirborð heldur merkingu. Jólasagan er ekki frétt í blaði heldur frétt um tilgang alls sem er. Hún tjáir að tilveran er björt og góð. Hún er ekki bisnissaga eða stjórnmálasaga, ekki spekisaga né heldur dæmisaga, skáldsaga eða ljóð. Sagan um fæðingu Jesú er fyrst og fremst ástarsaga. 

Sjoppuránið í Nashville – K&M

Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.“ Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með framvindunni. Ég vissi ekki hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran brjóstverk og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.

Skömmu síðar sá ég í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvar í Nashville að rán hefði verið framið um kvöldið og svo var sýnt frá sjoppunni okkar hinum megin götunnar. Ég fór að glugganum og sá að maður lá á gangstéttinni. Afgreiðslumaðurinn hafði náð að ýta á öryggishnapp og lögreglan kom strax. Ránsmaðurinn féll í skotbardaga. Ég stóð við gluggann og spurði mig hvort þetta væri sá sami.

Ég var að skoða gamlar filmur frá skólaveru minni vestra og sá þá mynd af framhlið sjoppurnar. Ég umbreytti negatívunni og skoðaði myndina. Atburðurinn rifjaðist upp og verkurinn kom í hnakkann. 

Minning frá skólaárum í Nashville, TN, BNA