Geir Jóhann Geirsson

„…það síðasta sem hvarf í djúpið var íslenski fáninn – og það get ég sagt þér að það var ógleymanleg tilfinning. Því verður ekki með orðum lýst – maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. Allt var svo snautt og autt og manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…” Útför Geirs Jóhanns Geirssonar, Hagamel 30, var gerð frá Neskirkju 9. ágúst 2005. Minningarorðin fara hér á eftir.

Ógn seinni heimstyrjaldar náði líka út á höfin. Geir var á Dettifossi, sem fór sinn síðasta túr frá Belfast í febrúarlok 1945. Hann var sofandi í klefa sínum miðskips þegar hann hrökk upp við þetta feiknarlega “dúndur” eins og hann orðaði það sjálfur. Hann snaraðist í lopapeysu, þykkar vaðmálsbuxur og svo í lífbelti. Síðan tók við barátta að komast uppá dekk. Með snarræði tókst að koma báti út og losa. Skipið sökk á innan við tíu mínútum. Festilínu úr skut björgunarbáts og yfir í brú var höggvin rétt áður en skipið fór niður, engu mátti muna.

Geir stóð svo í björgunarbátnum, horfði á eftir skipinu niður, heyrði sprengingar, fann loftþrýstinginn frá skipinu. Á niðurförinni snérist skrúfan enn. Geir vissi, að einhver höfðu ekki komist á fleka eða í bát. Hann sagði síðar svo frá: “…það síðasta sem hvarf í djúpið var íslenski fáninn – og það get ég sagt þér að það var ógleymanleg tilfinning. Því verður ekki með orðum lýst – maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. Allt var svo snautt og autt og manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…”

“Úr djúpinu ákalla ég þig.” Þegar allt er rifið burt, allt er á hverfanda hveli, vinir hverfa, félagar fara, skelin um lífið sekkur knýr á spurningin um lífið. Geir lýsir vel þessu ósegjanlega, tómur allur, allt snautt og autt. Þetta er harmurinn, þessi lamandi tilfinning fyrir dauðanum, sem slær. Þögnin eftir ofsann verður djúp. Þegar allt er rifið burt verður hún áleitin og fer inn í kvikuna.

Lífsstiklurnar

Geir Jóhann Geirsson fæddist á Siglufirði 31. október 1917. Foreldrar hans voru Geir Hróbjartsson, járnsmiður og sjómaður, og Helga Sigurðardóttir, húsmóðir. Faðir hans fórst áður en hann fæddist og því ber Geir nafn föður síns. Helga átti athvarf á Hraunum í Fljótum eftir að mannsefni hennar dó og drengurinn þeirra fæddist. Þar var hún í nær sex ár eða þar til þau Jón Guðjónsson hófu hjúskap á Hesteyri við Ísafjarðardjúp. Þar voru þá mikil umsvif, m.a. síldarverkun og Jón var loftskeytamaður á staðnum. Geir eignaðist fjögur hálfsystkin. Þau eru Pálína Jónsdóttir, Guðjón Jónsson, Kristjana Jónsdóttir og Jóhanna Edwald. Þau lifa öll bróður sinn.

Geir sótti skóla á Hesteyri, en fór sextán ára til Þingeyrar við Dýrafjörð, hóf þar vélsmíðanám og lauk þeim hluta sem hann gat vestra. Eftir fjögur ár á Þingeyri fór hann suður og hélt námi áfram í Reykjavík, fór á sjó, á síld, var jafnvel kyndari á togara um tíma í stríðsbyrjun. Á togaranum Júpiter var Geir í tvö ár, fór svo einn túr á Dettifossi til Ameríku og frá vordögum 1943 var hann síðan á því skipi og sigldi á Ameríku og Bretland, allt þar til skipið var skotið niður tæplega ári síðar. Síðan var Geir ráðinn 1. vélstjóri á Selfoss og Kötlu og var starfsmaður Eimskips í samtals 40 ár. Honum var treyst og var n.k. sendiherra Eimskips í Danmörk meðan tvö skip voru smíðuð þar á sjöunda áratugnum. Geir kom í land 1982 en sinnti nokkrum útköllum eftir það. Á árunum 1982-86 starfaði Geir svo hjá Nóa-Siríus.

Eybí og börnin

Eybjörg Sigurðardóttir sá glæsimennið Geir fyrst í Kaupmannahöfn og hvar annars staðar en niður við höfn. Það er rómantískt, að þau hittust þarna í þessari fyrrum höfuðborg okkar við Sundin. Þau hófu hjúskapinn í Sörlaskjólinu og börnin fóru brátt að koma í heiminn. Þegar farið var að byggja á Melunum tóku hjónin ákvörðun um húsbyggingu á Hagamel. Í því voru þau í samfloti með vinafólki sínu, Bjarna og Áslaugu, sem urðu frábærir nágrannar í áratugi. Geir og Bjarni gengu sem hamhleypur í verkin og létu ekki kranaleysi aftra sér. Byggingavinnan var að mestu með gamla talíuhættinum og steypuhræringu á staðnum. En upp fór húsið og Geir gat líka mótað að sínum hætti, jafnvel komið fyrir márískum bogum í stofu eins og hann hafði séð í Casa Blanca. Á Hagamel 30 hefur síðan fjölskyldan búið og þar lést Geir 2. ágúst síðastliðinn, áttatíu og sjö ára að aldri.

Elsta barn Geirs er Nína, sem hann átti fyrir hjónaband, og er hún búsett í Danmörk. Börn Geirs og Eybjargar eru: Þorvaldur, Geir Helgi, Lovísa og Valgerður. Barnabörnin og langafabörn eru samtals 12. Geir var lánsmaður í fjölskyldumálum, Eybí var honum öflug einkona og maki. Geir studdi sitt fólk, hafði gleði af afkomendum sínum – þau hafa öll misst mikið.

Myndin

Hvernig var hann Geir? Hvaða mynd áttu í hug þér? Jú, hann var afar þægilegur í samskiptum, alltaf tilbúinn til samræðu, fylginn sér í umræðum og skoðanaskiptum. Vegna samskiptahæfni kom hann sér hvarvetna vel. Og hann var flottur þegar hann klæddi sig í yfirvélstjórabúninginn og fór í land. Kíktu bara á myndina á sálmaskránni og ekki einkennilegt að vinkonur systra hans héldu að myndin af honum væri af Hollywoodleikara! Gott ef hann var ekki svolítið líkur Charlton Heston? Þegar hann gekk uppábúinn um eitthvert landleguplássið með glettni í augum og dulúðuga brosvipru fór ekki milli mála að þar var maður, sem varpaði ljóma á farmennsku. Og Geir tengdist fólki vel, hafði gaman af samskiptum við fólk og eignaðist stóran vina- og kunningjahóp.

Lífið nú á forsendur í fortíð

Alla tíð hafði Geir gaman af að bera saman tímana. Hann sagði fólkinu sínu frá kolamokstursþrældómi til að minna á að velferðin er ekki sjálfsögð, hann gat tíundað vélaþróun og ekki síst til að minna á að framfarir nútíma eiga sér fortíð og vinnu kynslóða að baki. Velsæld nútíðar er grundvölluð á fólki og vinnu í fortíð.

Geir hafði sjálfur orðið að vinna sig til manns og þroska. Hann varð að standa á eigin fótum í vélsmiðju Guðmundar á Þingeyri. Á bátum og togurum lærði hann að vinna, bæði skipulega, hratt og markvisst. Hann lærði líka að hlýða og varð það að orði síðar að sá gæti ekki verið yfirmaður, sem ekki hefði lært að hlýða. Undirmenn Geirs bera, að hann hefði verið bæði fær í faginu en einnig góður yfirmaður.

Verkmaðurinn öflugi

Geir var alla tíð verk- og eljumaður jafnframt því að vera nákvæmnismaður með verkskil. Hann var heilshugar fylgismaður vinnuafstöðu fyrri tíðar, að vanda skyldi það sem lengi ætti að standa, að gera eins vel og hægt væri, að verkin væru tákn innri manns. Hann beið helst alls ekki til morguns með það sem gera mátti samdægurs.

Honum lét vel að vera í khaki-gallanum í hópi manna í átaksvinnu. Honum þótti gaman að aðstoða sitt fólk í byggingarvinnu, var velvirkur og afkastaði oft meiru en þau sem voru helmingi yngri. Honum þótti gaman að hlaupa um í stillönsum við nýbyggingu sinna, vildi strax uppá þak heima ef grunur lék á viðgerðarþörf. Geir þótti miður þegar þrekið minnkaði. En auðvitað hélt hann sjó, var einbeittur í hverju sem var, hélt reisn sinni til hinsta dags og sló sinn túnblett tveimur dögum áður en hann lést.

Handarverkin

Það er ljóst af handarverkum Geirs að hann var völundur. Þegar hann var kominn í land og hafði ekki rennibekk eða aðstöðu til málmsmíða fór hann að smíða í tré. Ættmenni hans eiga fallega muni, sem sýna vel hve oddhagur hann var. Fánastengurnar, sem hann smíðaði úr málmi eru vönduð smíð. Vitinn, sem hann gaf Vélstjórafélaginu, er kjörgripur frá hans hendi. Margir þessara gripa hafa merkingu, því Geir lét sig lífið og tákn þess varða. Hann skildi vel táknmál einkennisbúninga, honum var annt um merki þess félags sem hann þjónaði í fjóra áratugi og hann smíðaði umgjörð um það tæki sem telur tímann, þ.e. klukkur. Hann smíðaði líka umgjörð um barómet, sem voru svo sannarlega öryggistæki, stangir fyrir borðfána en svo var auðvitað vitinn tákn, tákn um boða eða nes og viti var á tímanum fyrir GPS nýtanlegur sem stefnuviti, viðmið. Það sem hann vann var ekki tilgangslaust heldur með vísan í inntak og líf. Og svo smíðaði hann auðvitað brúkshluti til að bæta og fegra líf sinna.

Leikföng og lífsgleði

Hvað var nú skemmtilegast í lífi fjölskyldunnar á Hagamelnum? Jú, eins og í öðrum farmanns- og sjómanns-fjölskyldum var stórhátíð þegar skipið hans pabba kom. Þau fóru þá öll til ömmu og afa nálægt höfninni til að fylgjast með þegar tollskoðun lauk og skipinu var siglt að. Þá var fagnað, síðan farið heim í leigubíl, með kost og fangið fullt af gjöfum. Þá var hátíð, allir fengu eitthvað, enginn var útundan, þetta voru stóru stundirnar.

Djúpið

“Úr djúpinu ákalla ég þig Guð,” segir í Davíðssálmum. Það voru mörg djúpin í lífi Geirs Jóhanns Geirssonar. Ekki þekki ég þau öll. Enginn er svo opin und eða sál að allt verði séð. Geir var um margt dulur, var á dýptina og inná við eins og margir næmir menn, sem hafa orðið fyrir áraun.

Það er áleitin spurning, sem enginn getur svarað og aldrei verður skýrð nákvæmlega, hvaða afleiðingar það hafði, að Geir missti föður sinn þegar hann var í móðurkviði. Hvaða áhrif hefur það á ófríska konu að missa mannsefnið sitt? Hvaða áhrif hafði það síðan á viðkvæman uppvöxt hinna fyrstu ára? Það var Geir lán, að eignast góðan stjúpa sem var honum traustur vinur og faðir. Hann fór að heiman þegar á unglingsárum og varð að leggja á sín djúp sjálfur, treysta sitt sálarfley og bera vanda sinn og vegsemd einn og með fullri ábyrgð. Heimilisbragurinn á Hesteyri var léttur og Geir hafði gaman af hinu kátlega, því sem létti lund og líf.

Til lífs

Enginn veit betur en sjómaðurinn hversu þunn skelin er milli brimskafla og káetu, hversu örstutt er milli lífs og dauða. Fimmtán fórust með Dettifoss, “…maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. … manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…” Það er þessi tómi skuggi einstæðingsins sem teygir sig út yfir líf og vitund á skyggnistundum. Hvað er maðurinn þegar náttúruöflin eða hernaðarófreskjan slær hala sínum í allt kvikt, brennir allt sem fyrir verður, eirir engu, eyðir öllu. Þegar Dettifoss fór niður, vinirnir líka, upplifði Geir sína helför rétt eins og íbúar Hiroshima og Nagasaki fáum mánuðum síðar. Það var ekkert skrítið að hann neitaði alltaf að gefa drengjunum sínum byssur. Sá sem hefur upplifað stríð gefur ekki stríðstól og vill engum manni svo illt að veifa slíkum að óþörfu hvorki til leika eða alvöru.

Sá sem hefur lifað af slíka dauðans ógn veit hvað lífið er viðkvæmt. Geir vissi hvað gott líf er undursamlegt, hvað góð fjölskylda er mikil blessun, barnalán undur lífsins, kraftur til starfa mikilvægur, hversu skemmtilegt er að sýna sig og sjá aðra, eiga góða félaga og félagsskap, hvað vinnuþrek er til mikils unaðar og hvað hún Eybí var alla tíð góður vinur og lífsstoð.

Hvert?

Hver er áfangastaðurinn í þeirri för sem lagt er í þegar við deyjum? Hvert fór Geir faðir hans, hvert Helga móðir hans? Hvert fóru þau sem voru honum kær fyrr og síðar. Það er þetta lífshvísl sem Geir, ég og þú heyrum á skyggnistundum. Atlantsálarnir eru djúpir en þó er djúp elsku himinsins meira. Vegalengdin til Casa Blanka eða Bergen er talsverð en þó ekkert hjá víddum himinsins. Vélarhljóðin í skipsvélunum frá Burmaister & Wain eru fögur, en þó ekkert hjá hljómhviðum í hinni miklu vélasamstæðu, sem sköpunarverk Guðs er, hvað þá þeirri vel smurðu eilífðarvél sem kann ekkert nema líf og gleði.

Geir var munstraður í hina eilífu ferð á snöggu augabragði. Og þú mátt trúa því að það er ferð til góðs. Dragðu upp í vitund þína minningar þínar um öflugan mann, styrkan eiginmann, góðan dreng, kíminn afa, glaðan félaga og völund. Blessaðu myndina í huga þér og mundu að Guð elskar, umspennir Geir ávallt. Þar er enginn tómleiki, ekkert snautt eða autt, því þar eru aðeins fossar úr ljósi, gleði og gáska eilífðar.

Heimildir:

“Ánægður með lífsstarfið” Sjómannablaðið Víkingur, 6 tb. 1981, s. 11-13.

“Skrúfan snerist enn þegar skipið stakkst niður” Sjómannablaðið 1995, s. 49-54.

Minningarorð við útför Geirs Jóhanns Geirssonar, sem gerð var frá Neskirkju 9. ágúst 2005.

 

Unnur Þorsteinsdóttir

Þar sem Unnur var, þar ríkti gleði. Þegar hún kom í hús lifnaði yfir öllum og húsið fylltist glaðværð. Svo settist hún niður og hlátrarnir komu með góðum skilum, samræður lifnuðu og sögur flugu. Fólk kættist og svo ríkti gleðin. Þannig var það hér í kirkjunni. Unnur var hrókur alls fagnaðar. Þannig var það í vinahópum, og þannig var það í saumaklúbbnum. Unnur var kona gleðinnar, kona hins fagnaðarríka. Hún smitaði okkur hin og umvafði með kátínu og jákvæðni. Hún leitaði hins gleðilega og lífbætandi. 

Á skiladegi vitjum við hins jákvæða og gleðilega. Páll postuli ritaði til vina sinna í bænum Filippí í Litlu Asíu:

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.”

Unnur þekkti þessi orð og hún hafði með ýmsum hætti lært að spegla þau.

Upphaf og samhengi

Unnur Þorsteinsdóttir fæddist 10. desember, árið 1917 og lést hinn 23. maí síðastliðinn. Hún var því á 91 aldursári er hún féll frá. Foreldar hennar voru hjónin Ragnhildur Benediktsdóttir og Þorteinn F. Einarsson, hún ættuð úr Rangárvallasýslu og hann úr Árnessýslu. Unnur var þriðja barn þeirra hjóna, elstur var Guðmundur, og síðan kom Sigríður. Yngri voru Benedikta, Einar og Ingólfur sem dó ungur. Benedikta ein lifir systkini sín. Unnur og þau hin áttu upphaf sitt í Efri Brekku við Drafnarstíg í Reykjavík. Þar bjuggu þau fyrst en fóru svo þegar húsasmíðameistarinn faðir þeirra hafði byggt á Holtsgötu 16. Síðar fluttust þau svo um set og fóru yfir á nr. 37 við sömu götu.

Unnur sótti skóla í Miðbæjarbarnaskóla en fór síðan í Ingimarsskóla. Síðan tók lífið hana í fang sér og hún naut æsku, fjörs og lífs. Svo féll hún alveg fyrir listdansaranum frækna Jóni Bergsveinssyni, sem kom dansandi inn í líf hennar. Þau voru bæði góð á skautum og hittust á svellinu á Tjörninni, gengu svo um Kerlingafjöll, og skautuðu síðan saman í lífinu þar til hann féll frá fyrir aldur fram, aðeins 39 ára gamall, árið 1953. Jón vann í Burstagerðinni, var reglumaður, söngmaður og fangaði vel hláturmilda konu sína. Þau eignuðust tvö börn. Þorsteinn fæddist 1942 og Hildur kom í heiminn 1944. Þau voru foreldrum gleðigjafar og móðurinni lífssamhengi þegar hagir breyttust. Þorsteinn á þrjú börn uppkomin og sjö barnabörn. Hildur og hennar maður, Gunnlaugur Baldvinsson eiga líka þrjú börn og þeirra barnabörn eru sex. Af Unni eru því 15 afkomendur. Það er gleðilegt ríkidæmi.

Líf og vinna

Skömmu eftir að Jón féll frá fór Unnur til kaupmannahafnar og á Ríkisspítalanum var hjartað í henni stórbætt. En svo mæddi á henni móðurdauði líka. Ekki var nema ár á milli maka- og móðurmissis. Þegar bóndans naut ekki lengur flutti Unnur heim í foreldrahús með börnin sín og átti skjól hjá föður sínum, sem var henni mikilvægt á álagstíma. Hún fór að vinna í versluninni Helmu, álnavöruverslun upp á Þórsgötu. Þar var hún í nokkur ár. Síðar vann Unnur í minjagripaversluninni og lobbýinu á Hótel Sögu. Á Sögu réð Konráð frændi hennar ríkjum. Og um tíma vann hún í Breiðagerðisskóla.

Bjartur 

Síðari manni sínum kynntist Unnur árið 1957. Hann hét Guðbjartur Þorgilsson og starfaði hjá Skeljungi. Hann átti tvær dætur. Þau Unnur og Guðbjartur nutu samvista í liðlega tvo áratugi, en Bjartur lést 1979. Fyrst bjuggu þau á Holtsgötunni, síðan á Unnarbraut 12 og fóru svo þaðan í Sörlaskjól. Þegar hún var orðin ein keypti Unnur sér íbúð á Hagamel en var svo síðast í Tjarnarbóli á Seltjarnarnesi. Vert er að geta hinna góðu granna hennar þar, þeirra Margrétar og Guðmundar, sem reyndust Unni afar vel. Unnur fór niður til þeirra og átti með þeim gæðastundir og oft eldaði Margrét fyrir hana og Guðmundur fór upp með matinn til Unnar. Fyrir hlýju og þjónustu þeirra vilja ástvinir Unnar þakka.

Gleðin

“Verið glöð,” sagði postulinn. “Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Verið ekki hugsjúk um neitt. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.”

Verið glöð. Unnur miðlaði gleðinni og fyllti tilveru sína og sinna með fegurð. Hún var listræn, fjölhæf húsmóðir, góður kokkur og bakari. Hún var gjafmild, elskuleg og gestrisin. Hún var mikil hannyrðakona, prjónaði af miklum krafti og kúnst, lopapeysur, húfur og sokka, seldi í Rammagerðina og tryggði að börnunum, sem henni voru vandabundin, varð ekki kalt í öllum plöggunum sem hún gaf þeim. Unnur veitti gleði í samskipti fólks, hún var umtalsfróm og talaði vel um allt fólk, enda hélst henni vel á vinum og margar af bestu vinkonum hennar eignaðist hún í bernsku og saman höfðu þær myndað saumaklúbb. En nú hefur sá klúbbur saumað sín síðustu spor og engar sögur eru lengur sagðar. Unnur var sú síðasta.

Tónlistin

Unnur naut hins fagra og leitaði í listir og naut margra vídda. Hún hafði gaman af leikhúsi og þær systur, Unnur og Benedikta, áttu fastan miða í Þjóðleikhúsinu. En líklega stóð tónlistin hjarta hennar næst. Hún naut tónlistar og músíkin lifði með henni þar sem hún var. Heima setti hún gjarnan plötu á fón eða disk í spilara og músíkin hljómaði. Það var gaman hér í kjallara kirkjunnar, þegar hún settist við píanóið og spilaði fyrir gamla fólkið eins og hún orðaði það. Margt af því var mikla yngra en hún. Það mátti alltaf treysta að Unnur léki undir sönginn. Og svo spilaði hún eitthvað fallegt þegar kaffið var framreitt. Og það var gaman að sjá til hennar, þar sem hún sat við hljóðfærið, alltaf búin sem drottning, glæsileg og vel til höfð.

Kirkjulífið

Unnur tók mikinn þátt í safnaðarlífi Nessóknar og var virk í kirkjulífinu. Hún var vinur sr. Franks M. Halldórssonar, fór í ferðalögin sem hann skipulagði og stýrði með miklum dug. Og hann var henni góður prestur og vinur og hún studdi það starf, sem hann og söfnuðurinn gekkst fyrir og þjónaði vel, ekki síst með tónlistariðkuninni. Vinafólk og ekki síst vinkonur hennar voru gjarnan tengdar kirkjunni. Unnur var dugmikill bílstjóri og það var gaman að fylgjast með henni þegar hún kom að kirkjunni. Bíllinn hennar var gjarnan fullur af glöðu fólki, sem kom út blaðskellandi og kátt og tók svo þátt í starfinu og okkur hinum til yndisauka og eflingar. Hún var selskapsmanneskja og á síðustu árum tók hún þátt í hinu öfluga félagslífi eldri borgara á Aflagranda.

Unnur þjónaði mörgum, ekki bara í orði, með háttvísi og hlýlegri framkomu heldur bjó til ævintýri. Ef hún ætlaði í Bónus fengu einhverjir að fljóta með henni og stundum var bara farið í Bónus í Keflavík og úr einfaldri innkaupaferð varð mikið ævintýri og gleðireisa. Unnur átti í sér þetta þrek til gleðinnar og framtakssemi fagnaðarins. Og er ekki mikilvægt að rækta með sér þetta einfalda, sem er ekkert sjálfsagt, æfa sig í gleðinni og lífsgæðunum. Í því var Unnur okkur öllum góð fyrirmynd.

Hrókur alls fagnaðar

Verið glöð. Unnur var gjarnan hrókur alls fagnaðar. Barnabörnin hennar nutu þessa og í minnum er haft þegar hún var með þeim austur í Fljótshlíð, á slóðum móður sinnar, reytti af sér skemmtilegheitin, sagði sögur af öllum bæjum og fólki. Og hún var vel tengd líka hér í bænum, kunni ókjör af skemmtilegum sögum af fólki og lagði gott til. Það þurfti ekki að draga úr Unni sögur og hún tengdi átaklaust og vissi um tengsl fólks þar sem við hin vorum blönk. Hún var því okkur prestunum mikill visku og þekkingarbrunnur.

Að sjá á bak vinum

Það hefur löngum verið hvað þungbærast við langlífi að sjá á eftir ástvinum, vinum og vandamönnum. Unnur lifði góðu lífi, naut margs, átti láni að fagna í flestu. Hún vildi gleði og líf, en þegar fór verulega að sneyðast um félagsskapinn, vinirnir flestir farnir, vinkonurnar dánar og systkinin flest einnig fóru lífsgæðin þverrandi. „Verið glöð,“ sagði postulinn. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Verið ekki hugsjúk um neitt. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Efsta Brekka

Hlátrarnir hennar Unnar fylla ekki tilveru okkar lengur. Hún segir engar góðar og lífgefandi sögur meir. Hún ekur ekki fólki lengur til skemmtilegra mannfunda og efnir ekki til ótrúlegra Bónusferða, með viðkomu í öðrum sóknum. Hvað var nú það skemmtilegasta, sem þú manst eftir í fari hennar? Rifjaðu upp og fagnaðu svolítið innan í þér, leyfðu öllu þessu góða að lifa. Lærðu af henni, að iðka hið gæfulega, skemmtilega og lífgefandi. Æfðu þig í gleðimálum. Verið ávallt glöð, já iðkið ljúflyndi, látið ekki neitt sýkja hugann. Af hverju? Vegna þess að grunngerð þessarar tilveru er góð en ekki ill, gleðileg en ekki harmþrungin. Frumsaga kristninnar er um, að lífið er gott og eilífðin jafnvel enn betri. Frumsagan er ekki um, að Guð flýr veröldina, heldur kom inn í hana til að bæta hana, efla, frelsa og veita hlátri og gleði inn í mannheim. Jesús var maður gleðinnar, Páll postuli skipar fólki að gleðjast. Og Unnur var alveg til í að taka þátt í þeirri miklu skemmtun sem lífið býður til. Og hvað svo: Jú, lífið faðmar eilífð í guðlegum gleðidansi. Í gömlum húsgangi segir að heimurinn sé sem hála gler og við skyldum hugsa um það sem á eftir fer. Það gerði Unnur. Hún skautaði gleðilega og svo megum við trúa því að hún sé komin ekki bara í Efri Brekku heldur efstu brekku himinsins. Það er staður fagnaðar og gleði. Og í því er fegurð og fögnuður trúarinnar fólginn m.a. að við megum vænta þess að Unnur hitti þar fyrir sitt fólk, sé í miðju fagnaðarins, þar ríki hlátur og gaman. Himnaríki er ekki til án gleði.

Góður Guð varðveiti Unni Þorsteinsdóttur um alla eilífð. Góður Guð varðveiti þig og efli lífsgleði þína. 

Neskirkja, 29. maí, 2008.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir – minningarorð

Getur verið að elska Guðrúnar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma komi úr lífsmiðjunni sjálfri? Útför Guðrúnar var gerð frá Neskirkju 27. maí 2008.

 Elskaði Guð

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem margir þekkja og Lúther kallaði Litlu Biblíuna. „Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? „Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? „…til að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.”

Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldarinnar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið gagnvart öllum og þannig var Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir líka.  

Samband Guðs við veröld og menn er ástarsaga, saga um lífsgleði, sem umvefur allt og líka þessa góðu konu, sem við kveðjum í dag. Hún var boðberi þeirra góðu afstöðu, að þessi heimur er gerður fyrir líf og gleði þrátt fyrir, að margir gleymi því í erli og átökum daganna.

Ætt og uppruni

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir fæddist á Ferjubakka í Öxarfirði 27. maí 1920 og er jarðsett á afmælisdegi sínum.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Mikael Gamalíelsson og Aðalheiður Björnsdóttir. Hún var miðbarn þeirra. Elst er Birna og yngstur var, Arnbjörn, sem er látinn. Birna lifir ein systkini sín.  

Guðrún ólst upp í Öxarfirði. Ferjubakki var menningarheimili. Þegar foreldrarnir, Ólafur og Aðalheiður, hófu búskap þar var ekki lengur þörf á að ferja fólk og fé yfir Jöklu því  hún var þegar brúuð og hafði verið frá upphafi 20 aldar. Ferjubakki var í þjóðbraut. Stutt var einnig í prestssetrið á Skinnastað. Systurnar áttu oft leið þangað og pössuðu börn prestshjónanna. Sr. Páll Þorleifsson, sá merki klerkur, hafði ekki ætlað að vera lengi í Öxarfirði, en sagði síðar að þegar hann hafði kynnst menningarbrag fólksins  hafi hann uppgötvað að hann hefði ekkert betra að sækja burt. Þetta segir það, sem segja þarf til skilnings á uppeldisumhverfi. Sveitarbragur í Skinnastaðaprestakalli var rismikill. Bækur veraldar áttu leið í Öxarfjörð og rötuðu líka í Ferjubakka. Foreldrarnir tóku vel við, voru bókhneigð og börnunum var innrættur manndómur, fróðleikssókn og ljóðelska. Pabbinn var hagmæltur. Heimilisbragurinn var hlýlegur, hjónaband foreldranna var gott. Tengsl voru því gjöful. Guðrún gerði sér æ betur grein fyrir hvað gott heimilislíf merkir þegar hún bar rótslitin heimili við lífið heima. Á Ferjubakka var lögð áhersla á að fólk ekki aðeins borðaði saman heldur deildi geði, hugmyndum, tilfinningum og sögum. Þegar úti- eða heimilis-verkin kölluðu ekki var setið lengi og mörgu miðlað.

Auk hefðbundins búsmala átti Ferjubakkafólkið geitur, sem ungviðið á bænum kunni vel að meta og þótti gaman að fara uppá hól og kalla „kiða kið” sem skepnurnar gegndu.

Skóli og vinna

Skóla sótti Guðrún í Lund. Þar réð ríkjum Aðaldælingurinn, Dagur Sigurjónsson frá Sandi. Í skóla var Guðrún í þrjá vetur og lauk sínu grunnnámi fyrir fermingu. Hún var síðan heima og þjónaði sínu fólki.

En svo fóru þær systur að sækja suður. Þær unnu um tíma í Farsóttarhúsinu, hjá Maríu Maack, en smituðust af mislingum og fóru heim. En svo gerðu þær aðra tilraun, og fengu vinnu í West End í Reykjavík, sem var auðvitað vestast á Vesturgötunni. Brynja var í sjoppunni á jarðhæð en Guðrún vann við matsölu í sama húsi. Um þetta leyti hófst þrautaskeið í lífi Guðrúnar. Hún fór að finna til í baki, en enginn læknir fann ástæðu verkjanna. Að lokum og eftir ítrekaðar skoðanir kom í ljós, að hún var með berkla. Guðrún fór á Landakot. Þegar hún komst til nokkurrar heilsu fór hún heim í Ferjubakka til að ná sér. En síðan veiktist hún aftur og var ár á Landakoti. Víst er, að verkirnir hafa verið reynt í henni stálið. Og þá lærði Guðrún að stjórna geði sínu og tilfinningum og varð stillt og æðrulaus.

Steinþórunn – sólargeislinn

En meðfram líkamsáraun styrktist Guðrún hið innra og þroskaðist. Hún var tilbúin til að takast á við stórvirki ævi sinnar. Steinþórunn Karólína Steinþórsdóttir, frænka hennar kom barnung í Ferjubakka og Guðrún, ásamt gömlu hjónunum, tóku hana að sér. Guðrún varð svo ábyrg fyrir þeirri stuttu, sem kallaði hana Guldu. Og Steinþórunn var sólargeislinn hennar og Gulda varð samhengi hennar, fang og móðir.  

Framnesvegurinn

Fyrstu árin voru þær fyrir norðan heima á Ferjubakka til 1964 er þær fóru suður, bjuggu fyrst á Smáragötunni og svo keypti Guðrún íbúð vestur í bæ, á Framnesvegi 10. Foreldrar Guðrúnar brugðu búi, komu suður og saman fluttu þau öll inn í íbúðina á Framnesvegi.

Þjóðleikhúskjallarinn og Grund

Áður hafði Guðrún unnið á prjónastofu en fór svo að vinna í Þjóðleikhúskjallaranum. Frá 1967 vann hún svo á elliheimilinu Grund, líkaði vel vistin og kærleiksþel hennar fékk notið sín við þjónustu við gamla fólkið. Á Grund vann Guðrún þar til hún var orðin 71 árs, eða 24 ár.  

Elskusemin

Það er gott að hlusta á fólkið hennar Guðrúnar tala um hana og eigindir hennar. Eldri sem yngri ber saman um elskusemi hennar. Hún var dýravinur og lagði áherslu á helgi lífsins og vel væri farið með allar skepnur. Og hún var mannvinur. Allir voru velkomnir í hennar hús, krakkarnir í hverfinu sóttu í að fá að koma til Guldu og hún átti oftast kakó og bakkelsi handa þeim.

Faðmur kynslóða

Hún endurgalt uppeldi og elsku foreldrahúsa og studdi foreldra sína aldraða. Guðrún kom Steinþórunni til manns, studdi hana með öllum sínum ráðum og dáð. Svo þegar hún stóð á krossgötum í lífinu tók hún við henni með tvö börn. Guðrún Heiða og Ólafur Fáfnir nutu Guldu. Hún hafði þol og langlyndi til alls, sem bernska þeirra bar með sér. Svo þegar þau uxu úr grasi opnaði hún fangið gagnvart enn nýrri kynslóð. Ólafur og Sigrún eiga Snorra Má. Og Guðrún Heiða og Bjarni maður hennar eiga Alexöndru og Sindra Frey. Þau urðu Guðrúnu augasteinar. Og þau missa líka mikið. Þau hafa mikið að þakka og einnig átti Guðmundur Valberg, maður Steinþórunnar, góð samskipti við Guðrúnu. Öllu þessu fólki er við leiðarlok þakkað allt það góða sem það tjáði Guðrúnu og endurgalt í samskiptum.

Styrkur og tengsl

Guðrún var seig, elskuleg, stóð með öðrum, ekki síst sínu fólki. Hún var glaðlynd og spaugsöm. Hún var skapstyrk en skapgóð, rólynd, vann vel úr málum, jafnlynd, trygg og samviskusöm. Hlý og góð við alla, bæði menn og málleysingja. Hún hugsaði ógjarnan um sjálfa sig, kvartaði ekki, vildi ekki að aðrir hefðu áhyggjur af sér.

Guðrún var bóksækin, fróð og vel að sér um flest. Hún sinnti símenntun, var t.d. í námsflokkunum, lærði ensku og fleira. Kunnáttan skilaði sér í uppfræðslu ungmenna, sem henni stóðu nærri. Hún kenndi börnunum á bók og miðlaði þeim fróðleik, kenndi þeim lífskúnstir, hvort sem það var nú að reima skó eða lesa. Hún var góður kennari og verðlaunaði þegar nemendum hennar tókst vel. Hún hafði hæfni til að umgangast alla aldurshópa. En hún naut líka samskiptanna við fólkið sitt og þær systur, Birna og hún, töluðu saman á hverjum degi, jafnvel oft á dag.  

Hún tók eftir því sem var gott, var sjálf vitnisburður um, að lífið er skemmtilegt. Guðrún var fólki vottur um þann meginboðskap, að lífið er gott.  

Á Hjallaveginn

Guðrún bjó á Framnesvegi til ársins 2000. Þá flutti hún til dótturdóttur, Guðrúnar yngri, á Hjallaveg 4. Þar bjuggu kynslóðir saman. Guðrún eldri fékk notið sín, tók til hendi, naut samvista við sitt fólk og hafði hlutverk. Börnin nutu hennar, hún gaf þeim tengsl við ættarsöguna, fortíðina, menninguna, og gaf þeim innsýn í hvernig fyrri kynslóðir hugsuðu og jafnvel elduðu heimilismat 20. aldarinnar. Unga fólkið gaf henni hlutverk og hún gat stutt þau í námi, tekið á móti þeim þegar þau komu úr skóla og veitti þeim nánd og öryggi.

 Guðrún naut góðrar heilsu lengstum og var ern til lífsloka, fór sinna ferða og oft með strætó niður í miðbæ Reykjavíkur. Hún var á leið heim úr innkaupaleiðangri 2. maí síðastliðinn þegar hún fékk áfall, fór á sjúkrahús og lést svo 13. maí síðastliðinn.

Táknsaga og lífháttur

Við sjáum á bak konu, sem ber líka í sér táknsögu Íslands, – flutti úr sveit í borg og birtir með búsetusögu og atvinnusögu sinni líf- og breytinga-sögu þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hún var fjölskyldu sinni samhengi og tengdi saman eldri og yngri kynslóð og var fastur punktur tilverunnar.  

En svo var hún í lífsháttum sínum líka fulltrúi fyrir þroskaða afstöðu. Hvað er það í lífi Guðrúnar, sem þú getur lært af? Þú getur rifjað upp minnisstæð atvik úr samskiptum ykkar. En getur verið, að þú lærir svolítið um Guð í leiðinni? Getur verið að elska hennar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma, fegurðarskyn komi úr næmu hjarta lífsmiðjunnar sjálfrar?

Því svo elskaði Guð

Er ekki lífið fyrir elskuna? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. “Því svo elskaði…” elskaði hvað? Því svo elskaði Guð Guðrúnu… að hún speglaði elsku til allra. Því svo elskaði Guð þig…. til, að þú verðir farvegur lífsins, ástríkis, birtu og vona.

Hendurnar hennar faðma ekki lengur. Fallegu augun hennar horfa ekki lengur í augu þín. Þú getur ekki lengur hringt í hana eða farið til hennar. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Hún er hinum megin við brúna miklu, í Ferjubakka himinsins, þar sem er bara hlátur, góðar fréttir, birta og gaman. Leyfðu minningunni um Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur að lifa í huga þér og næra lífsmátt þinn.

Því svo elskaði Guð, elskaði svo mikið að Guð kom sjálfur til að brúa jöklur heimsins, bjarga okkur öllum. Guðrún minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um hana má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við vel og leggjum okkar í ástarsögu Guðrúnar.

 Líkræða: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.  

Útför frá Neskirkju 27. maí 2008.

Baldur Jónsson – minningarorð

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorti. Lofsöngur Matthíasar varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í Davíðssálminum segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Lífið, tíminn, verðandi veraldar og íslensk saga kalla: “Kynslóðir koma, kynslóðir fara” – og minna svo á annað líka – hvað er – og hefur verið – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná ekki þroska. Og ívaf sögu okkar allra er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þrungin og þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað.

Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, lífsblöðin sem nú lifna – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Allt sem er í þessum heimi er fagurt, undursamlegt en þó markað forgengileika, takmarkað.

Uppruni og ætt

Baldur Jónsson fæddist 6. september árið 1926. Hann var elsti sonur Ólafar Bjarnadóttur (1895-1988) og Jóns Hallvarðssonar (1899-1968). Báðum megin eru öflugir frændgarðar, mikið hæfileikafólk og mannval. Systkini Baldurs eru Bjarni Bragi, Sigríður og Svava og Bjarni Bragi lifir einn systkini sín.

Fyrstu árin bjó Baldur í stórfjölskylduhúsinu á Kárastíg 11 í Reykjavík. Síðan fór fólkið hans til Vestmannaeyja árið 1932 og Baldur var orðinn nægilega áttaður til að sjá nýja veröld og horfa á hana opnum augum og með vitund. Pabbanum var síðan veitt sýslumannsembætti í Stykkishólmi og þar bjó fjölskyldan til ársins 1941 er hún flutti til Reykjavíkur.

Uppvöxtur og mótun

Þroskasaga Baldurs varð snemma sérstök. Hann vakti aðdáun og eftirtekt sem barn. Hann var talinn fríður, skýr og skemmtilegur í tali. Hann naut þess að baða sig í ljóma aðdáunar og þótti súrt að missa athygli þegar systkinin bættust við. Baldur tók til að við að stýra þessu yngra liði, gerði tilraunir með stjórnunarhætti sem aðeins brýndi þau stuttu og hvatti til dáða. Síðan atti Baldur bróður sínum fram fyrir sig og það varð til að tengja Bjarna Braga við umheiminn – en kannski líka samtímis að fjarlægja hann sjálfan og inn í eigin heim?

Íhuganir mínar hef ég frá Bjarna Braga Jónssyni og hann getur þess í ritaðri hugleiðingu um Baldur, bróður sinn, að á barnsaldri hafi hann leitað athvarfs í undarlegum, innhverfum látbragðsleik með blýant. Hendur hans skiptust á að halda á blýantinum og væri Baldur truflaður í leiknum varð hann feiminn, en vildi ekki skýra í hverju þessar handaskiptingar væru fólgnar og hvað þær merktu. Var hann að hverfa æ meir inn í eigin heim í stað þess að tengjast sameiginlegri veröld manna og sköpunarverks? Voru þetta vitnisburðir um einhverfu á einhverju stigi? Það vitum við ekki og getum ekki annað en íhugað og getið í eyður.

Mál

Baldur náði ágætum málþroska en hafði enga þörf fyrir að nýta sér málhæfni í hópum og á mannfundum. Hann ræktaði sitt með sjálfum sér, lifði tilfinningabylgjur hið innra, en bjó við nokkuð einbeitingarleysi og varð fælinn á sumt í mannfélagi, t.d. hitt kynið. Blíðuhót karls og konu átti hann t.d. erfitt með að horfa á.

Eftir að Baldur lauk fullnaðarprófi í Hólminum hélt hann suður – og á undan sínu fólki. Hann byrjað í gagnfræðaskóla. Sr. Jakob Jónsson í Hallgrímssöfnuði hreifst af atgervi Baldurs og bað hann um að flytja ræðu um friðarboðskap kristindómsins á ungmennasamkomu. Það voru orð í tíma töluð á upphafsárum seinni heimsstyrjaldar. Á þeirri samkomu byrjaði og lauk Baldur eiginlega tveimur þáttum lífsins, opinberri ræðumennsku og trúartjáningu. Eftir þetta talaði hann ekki opinberlega og fór síðan nokkuð á svig við arfbundinn kristindóm einnig.

Fé og nám

Guðrún, frænka Baldurs, studdi drenginn til festu og reglu. Vegna vinnu Baldurs á unglingsárum safnaðist honum fé á bók. En þegar Baldur fékk nokkru ráðið – og Guðrún minna – gekk hratt á sjóðinn. Samgangur og eftirlátssemi við slarkfengna vini urðu síðan til að girða fyrir fjárhagslegt sjálfstæði hans æ síðan.

Þegar Baldur hafði lokið Ingimarsskóla fór hann í þriðja bekk MR. Var Baldur nokkuð á eigin vegum bæði í námi og lífi á þeim árum. Hann las ekki kerfisbundið eða skipulega og gaf sig ekki að marki heldur að félagsstörfum. Guðrún frænka hafði nokkrar áhyggjur af og deildi þeim með rektor og foreldrum. Hún tók Baldur í gjörgæslu og hann lauk stúdentsprófinu árið 1946, á eitt hundrað ára afmæli skólans.

Innri glóð og rithneigð bjó í Baldri. Alla tíð var hann bókhneigður og las gjarnan fagurbókmenntir. Ungur ól hann með sér draum um ritstörf. Eina ritgerð birti hann í skólablaðinu og hét hún “Ástin sigraði.” Þá skrifaði hann ítarlega ferðasögu stúdentsárgangsins um för nýstúdentanna um Skandinavíu og Færeyjar. Frásögn hans var svo prentuð í hátíðarútgáfu Skólablaðsins í október, sama ár og hann útskrifaðist. En þó Baldur birti ekki ritverk sín opinberlega síðan hélt hann skrifum áfram og ritaði íhuganir sínar í kompur og stílabækur, skrifaði niður drauma sína, afstöðu til samfélagsmála, langanir og það sem honum datt í hug. Ritunarháttur hans minnir helst á það sem bloggarar samtíðar aðhafast. En tíð Baldurs leyfði lítt meira en kompur, en nú er hægt að birta allt á æðaveggjum veraldarvefsins. En Baldur var ritandi ljósvíkingur og kannski andlega skyldur frænda hans Magnúsi Hjaltasyni, fyrirmynd Laxness að Ólafi Karasyni. Sumt af kompum hans glötuðust en þyrfti að varðveita hitt og leyfa einhverjum að greina. Samanburður við nútímablogg væri áhugavert masters- og kannski doktorsverkefni framtíðar!

Námslok, vinna og líf

Eftir stúdentspróf hóf Baldur læknisnám, lauk forspjallsvísindum, en hætti svo læknisnámi. Gekk á ýmsu hjá honum í atvinnumálum og var honum ekki sýnt um að marka sér bás eða skýra stefnu. Um tíma lagði hann fyrir sig kennslu, norður á Geitaskarði í Húnaþingi, og í Grundarfirði. Þar lagði hann m.a. til að framhaldsskóli yrði stofnaður. En í því var hann fullkomlega á skjön við smærra þenkjandi samferðamenn og “hagsýni” þeirrar tíðar. Það var ekki fyrr en á síðustu árum, sem hugmynd Baldurs hafði spírað nægilega vel til að eitthvað yrði úr og nú er rekinn metnaðarfullur og nútímalegur framhaldsskóli í því plássi.

Í nokkur ár vann Baldur í fiskvinnslu, einkum eða eingöngu í Grindavík. Líf í fiski varð Baldri hugleikið og í mörg ár vann hann við fiskirækt í sumarparadís fjölskyldunnar á Seljum. Um árabil bar iðja hans góðan ávöxt og laxastofninn sem hann kom upp gaf árangur, en hnignaði þegar seiðsleppingu lauk. Af laxinum og veiðiskapnum hafði Baldur tekjur og unað af sambúð með náttúrunni. Og hann naut líka heimsókna vina og kunningja, sem sóttu í dýrðina á Mýrunum.

Eftir að Jón, faðir hans, féll frá árið 1968 varð móðirin hans helsta stoð. Baldur gat alveg tjáð henni þakklæti fyrir elskusemi og umhyggju. Hann færði henni blóm á tyllidögum og naut hennar í mörgu til 1988, þegar hún lést. Þá var Baldur metinn til örorku og fékk aðstöðu í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Þegar Baldur var orðinn sjötugur kom veruleg heilabilun í ljós við vistunarmat. Hann þekktist vistun á Kumbaravogi á Stokkseyri í október 1999. Þar var hann allt til loka, með nokkrum hléum og nokkrum Reykjavíkurferðum. Síðustu árin dró af honum og hann varð linur til gangs fyrir um tveimur árum, líkamsheilsa hans tók að versna og undir lokin var hann hættur að stíga í fætur. Baldur lést 8. maí síðastliðinn. Vert er við þessi skil, að minna á þjónustu starfsfólks á Kumbaravogi við Baldur, þakka hana og hlýju þeirra og elskusemi. Þá er vert að þakka fjölskyldunni fyrir umhyggju þeirra og allt það sem þau hafa gert Baldri gott til.

Viturt hjarta – veröld Guðs

Nú eruð þið komin saman í dag til að kveðja. Líf Baldurs var ekki samfelld sólarganga. Hann upplifði oft vætusama tíð. Og lægðahryssingurinn gekk bæði yfir hann, vini og fjölskyldu. En svo gátu allir rétt úr sér, notið góðu daganna og brosað. Enginn fæðist á röngum tíma, en ljóst er að fræði nútímans hefðu líklega greint vanda og hæfni Baldurs betur en hægt var fyrir áratugum. En þó er ekki víst, að hann hefði orðið hamingjusamari. En líklega hefðuð þið vinir hans, fjölskylda og ástvinir fengið betri skýringar, sem hefðu hjálpað í viðbrögðum og aukið skilning á hvað var hvað – og hvers vegna gerði Baldur þetta en ekki hitt.

Og hvað svo? Hvað gerir þú við eftirsjá, sorg, þínar innri kenndir og íhuganir? Þú getur ekkert lengur gert fyrir Baldur, þú horfir á bak honum – en þú átt þitt eigið líf og ástvini. Mikil lífskúnst er að reyna að læra af öðrum til að bæta eigið líf, gera ekki sömu mistökin og aðrir, reyna að draga heim lærdóm til góðs, greina í sjálfum sér arf eða hneigðir, sem má vinna með og reyna að láta ekki yfirskyggja eigin hamingju eða annarra.

Glöggum hefur löngum verið ljóst, að við menn erum ekki leiksoppar lífsins og viðburða veraldar nema að hluta. Við erum kölluð til ábyrgðar, til að móta eigin líf, til að velja. Og við erum ekki síst kölluð til að lifa vel, með fullu viti, nýta hæfni okkar og einnig til góðs fyrir fólk, fyrir okkar samfélag, þjóðfélag, sinna vel okkar fræðum og lifa svo að við skilum vel af okkur. Við erum öll kölluð til að gera eins vel og okkur er unnt. Meira er ekki krafist.

Í sálmi þjóðarinnar segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.”

Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi. Það er viska að bera virðingu fyrir öllum mönnum, hvernig sem þeir eru.

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula. Við getum lært hvert af öðru í þeirri kúnst að iðka lífsgæðin, að leyfa ástinni að sigra í lífinu. Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hvíslar náttúran gleðisálma lífsins, en svo heyrist líka þetta hvísl alls sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.”

Hver er máttur mannsins? Baldri var margt gefið en svo voru í honum snöggir blettir. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum í þessari athöfn. Allt, allt hverfur aftur til duftsins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?

Ein spurning af sama meið er hvað verði um hann Baldur? Hvar er hann? Hver er trú þín? Þú mátt trúa því, að Baldur fær að gista þá sali sem hæfa, jafnvel manni með guðsnafn. Hann má dvelja í hinum himneska Hólmi, himneskum Vogi, þar sem hann getur opinberað alla skynjun sína, þar sem blýantaleikurinn verður skiljanlegur, þar sem hann nær að tengja, fær orð og getu til að vera það sem hann vildi. Í því er fólgin djúp hugfró að skilja það gleðisamhengi og sjá ástvini sína í því. Gildi trúar verður hvað ljósast, þegar við vinnum með sorg, áföll og missi – þessi afstaða traustsins – að lífið er gott, gleðilegt og vonarríkt – þrátt fyrir skugga og dauða. Þar verður ferðasaga hans, ferðasaga okkar allra, að tíma ástarinnar sem sigrar allt, dauða og sorgir.

Leyfðu Baldri að hverfa inn ljósið. Trúðu á Guð sem er ástin sem sigrar allt. Í því fangi má Baldur ávallt búa.

Minningarorð flutt við útför Baldurs Jónssonar, Fossvogi 16. maí 2008.

Lifa vel og deyja vel – Gunnar Örn minning

Hann var dásamlega opinn, hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu. Minningarorð um Gunnar Örn eru orðmyndir, flutt við útför hans 11. apríl, 2008.

Gunnar Örn tók öllum heiðarlegum spurningum vel, hló hjartanlega þegar spurt var á ská og með gleði. Tæknilegum spurningum svaraði hann með hraði en upplifunar- og dýptar-spurningum með meiri hægð og íhygli en oft með óvæntum hætti.

Á síðustu páskum sátu nafnar, afi og afadrengur saman og sá yngri spurði: “Afi, hvernig heldurðu það sé að deyja?” Og Gunnar Örn svaraði án hiks: “Æðislegt.” Unglingurinn á þetta svar og fylgir afa sínum með allt öðrum hætti en ef hann hefði sagt að það væri átakanlegt, ömurlegt eða fúlt. Sama gildir um þau hin í fjölskyldunni. Afinn var húmoristi, en alltaf heiðarlegur – við sjálfan sig, fólkið sitt, við vini sína, skjólstæðinga, já alla og þar með listina og Guð.

Æðislegt – og svo sagði hann vini sínum, að hann ætti von á “ljósashowi!” Gunnar Örn átti ekki til tepruskap. Hann gat því skellt slanguryrðum að stóru spurningunum um líf og dauða og þar með kallað fram nýja íhugun. Gunnar var dásamlega opinn. Hann hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því betur séð tækifæri og ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu.

Upphaf

Gunnar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík 2. desember árið 1946. Hann var aðeins 61 árs er hann lést 28. mars sl. Æska hans var flókin og stálið var hert í honum strax í bernsku. Móðir hans var Guðríður Pétursdóttir og faðirinn Gunnar Óskarsson, bæði látin. Gunnar Örn átti einn albróður og sér yngri, Þórð Steinar. Þeir Þórður ólust ekki upp saman, en urðu nánir sem fullorðnir menn. Auk þeirra átti Guðríður Davíð Eyrbekk og Pétur Meekosha. Þá á Gunnar Örn þrjú systkin samfeðra, þau Finnboga, Sigríði Jóhönnu og Sigurð Má.

Foreldrar Gunnars skildu þegar hann var fimm ára. Hann var þá sendur suður í Garð til afa og ömmu. Afinn var ekki alltaf tilfinningalega nálægur en amman, Munda í Höfn, var honum og öðru fólki sínu lífsakkeri. Davíð, sem var eldri en Gunnar, var með honum og mikilvægur bróðurnum. Lítil tengsl voru við pabbann og þegar Guðríður, Gunnarsmóðir, giftist til Englands var Gunnar 14 ára og varð eiginlega sjálfs síns ráðandi og á eigin vegum þaðan í frá.

Gunnar Örn var forkur og snarráður, en fáir fara að vinna og eiga börn rétt fermdir eins og hann. Hann fór á sjó á Gísla Árna og var á loðnu og síld. Gunnar var aðeins 16 ára þegar hann varð pabbi og Sigríður kom í heiminn. Móðir hennar er Þuríður Sölvadóttir og var jafngömul barnsföðurnum. Þau bjuggu saman um tíma en svo slitnuðu tengslin. Gunnar hafði lítið af dótturinni að segja fyrstu árin, en svo urðu þau náin síðar.

Skotið inn í líf hins fullorðna

Gunnari Erni var eiginlega skotið úr hlaupi aðkrepptrar bernsku yfir unglingsárin og inn í fullorðinslíf. Hann tapaði fínstillingartíma persónumótunar. Hann var því eiginlega alla æfi að stilla og tjúna og varð því mun meira spennandi karakter en flest okkar hinna. Hann spurði sjálfan sig: “Hvað vil ég, hvað ætti ég að verða?” Myndlist og músík kölluðu. Hann langaði til að láta reyna á tónlistarnám. Meðan dóttir hans dafnaði í móðurkviði mundaði Gunnar Örn sellóbogann í  Kaupmannahöfn. En fljótt uppgötvaði hann að honum leiddist að spila bara það, sem aðrir sömdu og gerði sér grein fyrir að sellisti gæti ekki bara spilað eigin lög! Það er ekki sjálfgefið að menn viðurkenni á hvaða hillu þeir geta ekki verið á. Allt of margir eru í þeirri stöðu, en þora ekki að hoppa niður og lifa því á skjön við sjálfa sig. Gunnar var ekki þeirrar gerðar. Hann var lesblindur og skólamenning þeirrar tíðar skákaði slíkum mönnum í horn tossanna. En Gunnar Örn lét ekki stúka sig af hvorki þá né nokkurn tíma síðar. Að kreppa er tækifæri var inngreypt í afstöðu hans.

Þar sem allar nánar fyrirmyndir skorti varð Gunnar Örn að gera sínar eigin myndlistartilraunir og að mestu leiðsagnarlaus. En barn, sem ekki brotnar í miklu bernskuálagi, er borið til seiglu. Gunnar vissi að uppgjöf var ekki valkostur og hafði í sér næmi til að hlusta á sinn innri mann, tók mark á tilfinningum og vitjaði drauma sinna með ákefð.

Myndir urðu til

Hann fór að skoða myndir, teiknaði og varð sér út um pensla og liti og æskuverkin urðu til. Allir listamenn eiga einhverja litríka upphafs- og gerninga-sögu og auðvitað á Gunnar sína útgáfu. Hann málaði allt, sem hann náði í, masonít og krossvið, þegar annað var ekki við hendi. Svo fór hann að banka upp á hjá útgerðarmönnum í Garðinum og bauð þeim myndir á kjarakjörum. Þeir brugðust yfirleitt vel við og keyptu af Gunnari skiliríin.

Á þessum árum voru Gunnar og Þorbjörg Birgisdóttir hjón. Vilhjálmur Jón fæddist þeim árið 1965, Gunnar Guðsteinn þremur árum síðar og síðan Rósalind María árið 1972. Á þessum barnsfæðingarárum var Gunnar á fullu í myndlistinni. Hann hélt fyrstu sýningu sína í Unuhúsi 1970. Svo fóru þau Þorbjörg til Danmerkur 1973 og Gunnar vann fyrir sér og sínum. Í frístundum málaði hann svo heima í stofu. En svo fór hann heim 1975 og hélt áfram að sýna.

Líkamsslitur

Skólagangan fór fyrir bí, en íslenskir listmálarar voru nægilega stórir í sér til að þola að sjálfmenntaður maður fengi pláss og inngöngu í gildi listamanna. Þeir dáðust að verkum hans, færni og dug. Margir uppgötvuðu Gunnar Örn sem málara á sýningum í Norræna húsinu í byrjun áttunda áratugarins. Hinar stórkostlegu kviðristumyndir og líkamsslitur voru eins og sprengjur. Unglingar þess tíma, aldir upp við sófamálverk Freymóðs og Matthíasar, urðu fyrir fagurfræðilegu sjokki og tilfinningalegri upplifun. Þótt stöðugt yrðu breytingar í list Gunnar eru margir, sem þekkja myndir hans úr fjarska og í sjónhendingu, svo sérstakt er handbragðið og höfundareinkennin sterk.

Þanið líf

Fyrri hluti lífs Gunnars Arnar var eiginlega tilraun um manninn og þanþol mennskunnar. Gunnar reyndi að sjá fjölskyldunni farborða, halda áfram í málverkinu, finna næði til vinnu, stilla tilfinningavíddirnar og lifa. En drykkjuboltastíll fer illa með alla og verst með hinn innri mann. Aldrei skyldi skýra myndir Gunnars Arnar aðeins með vísan í hvort hann var hátt uppi eða langt niðri. Myndir hans eru ekki vísitölur eða línurit sálar hans. En myndir þessara ára sýna þó að hann var sálarsligaður. Þrátt fyrir velgengnina hallaði undan hjá honum. Leiðir hans, barnanna og Þorbjargar skildu og hann var á krossgötum. Fyrri hálfleik var lokið í lífinu, komið var að skilum og uppgjöri. Ætlaði hann að lifa, vera, mála og gleðjast? Í aðkrepptum aðstæðum voru kostirnir aðeins tveir, annar til lífs og hinn til dauða. Gunnar Örn þorði alltaf að velja, og stefndi í átt að litum og ljósi.

Meðferð og Dísa

Gunnar hitti Dísu og svo fór hann í meðferð. Meðferðin tókst og Dísa var æðisleg. Seinni hálfleikurinn í lífi hans er tími æðruleysis, gleði, sáttar, vaxtar, leitar, hamingju, afkasta og líknar. Vinir Gunnars skildu ekki hvað Þórdís Ingólfsdóttir vildi með þennan erfiða manna hafa. En Dísa elskaði Gunnar og hann hana. Hún sá í honum gullið og hann í henni dýrðina. Gunnar Örn hætti ekki að vera sérsinna og fara sínar leiðir og Dísa hafði enga þörf fyrir að hafa múl á honum. Þegar hann fór í sínar fagurfræðilegu skógarferðir, myndlistarkollhnísa, andlegu langferðir eða langdvalir erlendis var hún kyrr og hún var alltaf viðmið hans og fasti punktur tilverunnar. Af því að hann hafði afhent henni lífsþræði sína gat hann alltaf ratað til baka með því að fara til hennar.

Þau Dísa eignuðust tvær dætur, Maríu Björku 1980 og Snæbjörgu Guðmundu 1991. Þeim reyndist Gunnar góður faðir og við sem nutum þess að fá jólakort frá Kambi vitum vel hversu barnhrifinn Gunnar var. Og hann þjálfaði sig í föðurelskunni og færði út kvíar, teygði sig í átt til barnanna, sem hann hafði farið á mis við eða misst af. Hann eignaðist góð tengdabörn sem hann tók vel og níu mannvænleg barnabörn, sem hann dáði og mat  mikils.

Kambur

Gunnar Örn og Dísa keyptu Kamb í Holtum fyrir 22 árum, fluttu austur og þar varð himnaríki hamingju þeirra. Dísa átti líka nógu stóran faðm til að taka á móti hinum börnum Gunnars. Þau lærðu smám saman og æ betur leiðina austur, lærðu að tengja og meta, virða og elska. Gunnar Örn hellti sér í viðgerðir húsanna á Kambi, í skógrækt og nýbyggingar. Alltaf var stórfjölskyldan velkomin í verkin og furðu margir sóttust í að komast í það, sem þau kalla með brosi “þrælabúðirnar.” En nú er Kambur gróðursæl paradís og að auki listamiðstöð.

Síðasta framkvæmdin var ný vinnustofa. Gunnar sagði mér sjálfur fyrir stuttu að þetta væri hamingjuhús. Það hefði verið gaman að byggja, þau voru svo mörg sem komu að verki, það hefði verið svo glatt á hjalla og hús sem væri byggt með því móti yrði hús hamingjunnar. Þetta var í hnotskurn vinnusálfræði hans: Leggja lífið í gleðina, átökin, ástríðurnar og samfélagið.

Gunnar Örn naut margs góðs í einkalífinu, leitaði alltaf hamingjunnar. Hann gaf mikið af sér og uppskar ríkulega. Hann var alltaf reiðubúinn til að opna fangið fyrir þeim sem leituðu hans. Ólafur Elíasson, myndlistarmaður, sagði mér hvernig Gunnar Örn hefði gengið honum í föður stað þegar faðir hans féll frá. Ólafur harmar að geta ekki fylgt vini sínum en biður fyrir þakkir sínar vegna alls, sem Gunnar var honum og kveðjur til þessa safnaðar.

Dönsku vinirnir, galleristarnir og myndlistarfólkið sem standa að og tengjast Stalkegelleríinu hafa beðið fyrir kveðjur og þakkir fyrir kynni og ljósið sem Gunnar lýsti þeim með. Sömuleiðis biðja Atli Þór Samúelsson og fjölskylda í Danmörk fyrir kveðjur.

Líknarþjónusta

Mörg ykkar þekkið samfélagsþjónustu Gunnars. Hann fór í gegnum sporin sín og vann með sitt innra. Hann opnaði algerlega og var alltaf til reiðu. Hann starfaði í AA hreyfingunni og þjónaði þeim, sem höfðu ratað í ógöngur. Það er stór hópur, sem á Gunnari Erni mikið að þakka fyrir stuðning, viskuyrði, löng símtöl, ferðir til að styðja vímuruglaða og örvæntingarfullar fjölskyldur þeirra. Aldrei taldi hann eftir sér, aldrei hikaði hann, var alltaf tilbúinn. Jafnvel í Bónus borgaði hann reikning fyrir konuna sem var á undan honum í röðinni og átti ekki fyrir innkaupunum. En honum brá þegar hann gerði sér grein fyrir að konan hafði keypt fyrir 23 þúsund kr. og sagði sínu fólki frá með kátlegum hætti.   

Þegar Gunnar Örn kafaði á djúpmið sálarinnar og efldist sem vitringur var hann reiðubúinn að bera fólk á bænarörmum til blessunar og heilsu. Fólk gat ekki annað en treyst þessum manni, sem átti í sér djúp stillingar og kyrru sem Gunnar Örn. Líknarþjónusta hans varðar þúsundir og hér get ég fyrir hönd allra þeirra þakkað elsku hans. Margir eiga honum líf og lán að þakka.

Já það voru skeið í lífi Gunnars, stundum hlé. Og nú gerum við hlé á minningarorðum, hlýðum á hinn rismikla Matthíasarsálm við lag Þorkels Sigurbjörnssonar: Til þín, Drottinn hnatta og heima… 

    Skeiðin og túlkun

    Já það voru skeið í lífi Gunnars og hann gerði myndir af heiminum á öllum skeiðum. Myndirnar hans eru um fleira en plöntu í skógi, kú í engi, fjall í fjarska og hús við ás. Allt lífsins undur er í myndum hans. Heimur, lífið, tilfinningarnar, himinn og skelfing líka. Gunnar var alla tíð maður litríkis. Hann naut sterkra lita og líka spennu í samspili þeirra. Hann gerði tilraunir með form og var alla tíð að prófa nýtt.

    Þegar æskuskeiðinu lauk og líka því, sem hann kallaði stundum í gamni Kviðristukobbaskeiðinu komu ormar inn í list hans. Flatatungufjalirnar eignuðust í honum öflugan nýtúlkanda. Ormurinn leynir á sér, leitar í okkur öll. Gunnar Örn veik sér aldrei undan stóru málunum. Á fyrstu Kambsárunum urðu til margar myndir undir stefinu maður og land. Gunnar fór reglulega í gegnum Kjarval, sem varð hans helsti myndmentor. Gunnar sá landið með augum margsýninnar, sá verur og lífhvata, þetta sem er svo mikilvægt ef við eigum ekki að deyja tæknidauða gagnvart lífsundrinu.

    Frá hinum kraftmiklu og margræðu myndum um mann og land hélt hann inn í tímabil örveranna. Þá kom svarta tímabilið, gamlar hleðslur, mold og tilraunir. Svo komu sálirnar. Þeirra var tímabil einföldunar og könnunar lífsins innan frá. Litirnir dofnuðu, hvítan jókst og einfaldleikinn var strangagaður. Þegar Gunnar Örn var kominn á brún sálarklungra var hann líka á brún málverksins og lengst gekk hann í hvítum myndum, sem voru eins og spádómur um dauða og annað líf. Gunnar Örn skoðaði reglulega nöf.

    Sjö árin

    Gunnar gekk alltaf í gegnum endurnýjun, eiginlega á sjö ára tímabilum. Hraði nýunganna var slíkur að aðdáendur Gunnars voru rétt búnir að sætta sig við nýnæmið þegar hann var komin í allt annað. Breytingarnar voru Gunnari ekki léttúðarmál og reyndu oft mjög á hann. En því stærri er hann sem listamaður að hann gat og þorði. Aldrei á ævinni málaði hann til að selja, hann lét aldrei undan markaðsfreistingum. Ég fylgdist náið með, og las öll bréfin, þegar Gunnar gerði upp við mikilvægan erlendan listhöndlara, sem hefði getað fært honum ríkidæmi og öryggi. Þar ríkti stefnufastur trúnaður við listina. Gunnar var alltaf heill og hefði ekki getað selt frelsi sitt, sálu sína. Þrællyndi var ekki til í honum og því ekki heldur sókn eftir ytri gæðum.

    Nokkur helstu listasöfn heimsins eignuðust myndir Gunnars, hann varð einhver þekktasti málari Íslendinga. Hann málaði mikið í þrjá áratugi, en svo varð þurrð. Gunnar Örn málaði ekkert í tvö ár. Hann losaði sig við megnið af myndunum sínum, sópaði borðið, hreinsaði sálina, gerði upp lífið, sættist við allt og alla. Úr þeirri för kom hann svo nýr og enn betri, hamingjusamur, nýtti vel tímann í faðmi fjölskyldunnar. Hann átti löng samtöl við fólkið sitt um lífið, tilganginn, trúna, sáttina, litina og tengslin. Hann ræktaði kyrruna í sálinni, hugleiddi og bað, hætti að láta tíma angra sig en naut hans og leyfði öðrum að lifa stórar stundir af því hann var svo nálægur viðmælanda sínum tilfinningalega. Eilífiðin hafði sest að í sál hans. Og svo byrjaði hann að mála aftur. Hann var kominn heim og síðustu myndirnar málaði hann eins og upp úr sverðinum heima. Þetta eru myndir af  hjartablóði moldarinnar.

    Kominn heim og í svörðinn

    Myndin á norðurveggnum hér frammi í safnaðarheimilinu, er ein af síðustu myndunum, sem hann málaði, mynd úr mýrinni á Kambi. Farið að henni og sjáið elskuna. Svo eru nokkrar nýlegar myndir þarna líka, merkilegar glímur við stórmálin. Sálirnar hans Gunnars eru ekki myndir af heiminum heldur túlkun á afstöðu. Gunnar Örn var þroskaður maður, hafði unnið sína heimavinnu og var galopinn gagnvart æðri mætti. Það er fallegt, að fólkið hans Gunnars hengdi upp myndir hér frammi, sem þið getið skoðað. Útför hans er líka opnun sýningar.

    Jafnvel kistan er listaverk. Fólkið hans Gunnars elskaði hann. Saman komu afkomendur hans að kistunni, völdu sér lit, máluðu hendur sínar og handþrykktu svo á kistuna hans. Þetta er bernsk og yndisleg tjáning ástarinnar. Svo eru handaför Dísu á gaflinum, sem blasir við söfnuðinum. Þessi litríka tjáning er sefandi þegar Gunnar Örn er slitin úr fangi þeirra, já okkar allra.  

    Myndin af heiminum. Gunnar Örn málar ekki meira en sál hans lifir. Það er vel, að ein sál er á sálmaskránni og sálirnar eru frammi líka. “Afi, hvernig heldur þú að það sé að deyja?” Já, beygurinn var að baki, hann albúinn að verða. Gunnar þorði að opna fyrir litríki lífsins og vissi vel, að maðurinn er ekki algildur mælikvarði alls sem er. “Hvernig getum við þekkt veginn?” spurði Tómas postuli forðum. Jesús sagði honum skýrt og klárlega, að hann væri vegur, sannleikur og lífið.

    Fósturmyndir

    Hvaða hugmynd hafðir þú um veröldina þegar þú varst í móðurkviði? Jú, þú heyrðir einhver hljóð, hátíðnisuð í blóðæðum móður þinnar. En þú hafðir enga hugmynd um liti, hnött, sól, flugur, Kamb eða undur lífsins utan strengds móðurkviðar. Þú fæddist til þessa fjölbreytilega lífs og óháð væntingum. Gunnar hafði skilið þetta fæðingarferli sálna. Hann hafði skilið, að tilveran er stærri en skynjun og vænting eins manns. Jafnvel villtustu draumar fóstursins spanna ekki lífheim okkar hvað þá geiminn allan. Hliðstæðuna megum við hugsa, megum líkja okkur við fóstur gagnvart eilífðinni? Er ekki afstaða Gunnars Arnars sú líflegasta, að búast við fagurfræðilegri reynslu, ríkulegri upplifun, góðu ferðalagi, kátlegum félagsskap og hamingju? Myndríkidæmi trúarbókmenntanna varðar einmitt þessa afstöðu. Þorum við að opna?

    Þegar þessi yndislegi, væni og þroskaði maður Gunnar Örn Gunnarsson var kominn á spítala með verk fyrir brjóstinu, sagði hann gáskafullur: “Ég á eftir að mála eina mynd!” Já, hún var eftir, myndin af sálarferðinni og himninum. Hann var tilbúinn og Kambur eilífðar er stór og góður. Lífið er æðislegt. Lærðu líka að fara þá viskugöngu og hræðstu ekki fæðingu til Guðs góðu veraldar, sem heitir himinn og er eilífð.

    Guð laun fyrir Gunnar Örn. Guð geymi hann eilíflega í ríki sínu. Guð varðveiti þig. Amen.

    Gunnar Örn var jarðsunginn frá Neskirku 11. apríl 2008 og jarðsettur í Hagakirkjugarði í Holtum í Rangárvallaprófastsdæmi.