Þórunn Friðriksdóttir – minningarorð

Hverjir eru bestir? Þannig hljóma köllin meðal stuðningsmanna og svarið kemur viðstöðulaust – KR – alla vega í vesturbænum. Og þannig er stemmingin oft á vellinum – ekki bara hér, heldur um land allt og reyndar um allan heim. Lið og einstaklingar fara út á völl til að skemmta sér, gera sem best, skila sínu og auðvitað til að vinna. Og það er hluti af þjálfuninni, að láta ekki jafntefli eða tap eyðileggja móralinn og reyna að gera betur næst, láta mótlætið bara styrkja og magna til átaka og sigurs.

Líf hvers fullorðins manns er vissulega langur leikur, með varnarbaráttu, sóknum, miðjumoði, áföllum, gulum spjöldum og svo stórkostlegum augnablikum þegar boltinn fer í netið og þegar flautað er til sigurloka í úrslitaleik.

Saga Þórunnar Friðriksdóttur er mikil – og um sumt einstök – saga um merkilega konu. Og það er gleði, birta og happ í sögu hennar, en líka áföll sem nísta. Undir lok lífsleiks hennar varð hún fyrir áföllum. Hún missti mikið – en ekki allt því hún átti börnin sín áfram, lífsandann í brjóstinu – en samt var hún slegin það illa að hún var sár síðan. Og þegar maður hefur meiðst verður leikgleðin ekki söm. En við megum gjarnan muna að skilgreina leikslok rétt og huga að raunverulegum úrslitum.

Biblían er ekki upphafið ritasafn um goð í fjarheimum, heldur fjallar hún um baráttu og líf raunverulegs fólks – eins baráttu og við öll lifum í vinnu, á heimilum, í leikjum okkar og núningi og átökum í samfélagi fólks. Í Jobsbók segir frá manni, sem naut lífsins. Honum var flest vel gefið, en svo missti hann sem næst allt, sem hægt var að missa í lífinu, börnin sín, eigur sínar og allt samhengi sitt. Og hann lenti í miklum blús, þungri hugarraun.

Af hverju eru svona álögur lagðar á fólk? Raun Jobs hið innra lauk með því að hann gerði sér grein fyrir, að Guð er góður þrátt fyrir mótlætið og öllum erfiðleikum var snúið til góðs. Við vitum svo sem, að það er enginn sigur til án þess að haft sér fyrir honum. Og sama hugsun er í grunnsögu kristninnnar. Hinn góði Jesús Kristur, sem ekkert hafði gert nema gott, lenti í mestu hremmingum, að honum var vegið, hann var ranglega dæmdur og að lokum hert að honum í þröngri gröf. En boðskapur kristnninnar er að leik er ekki lokið fyrr en flautað er. Og ef menn eru í liði Krists, sem á sér skammstöfunina Kr framan á altari þessarar kirkju, ja þá eru menn í sigurliði. Tapi er ekki í unað, ekki hætt fyrr en sigur er unnin. Það er í því stóra, djúpa og lífgefandi samhengi sem við megum íhuga og blessa líf Þórunnar Friðriksdóttur.

Æfi og stiklur

Tóta, eins og hún var kölluð, var vorkona og fæddist 9. apríl árið 1947. Foreldrar hennar voru Friðrik Einarsson og Hannesína Rut Þorbjörnsdóttir. Þau bjuggu börnum sínum heimili í Framfarafélagshúsinu á Vesturgötu 51c. Tóta var yngst fjögurra systkina. Strákarnir voru elstir, Þorbjörn var fyrstur í röðinni. Hann fæddist árið 1934 og svo kom Friðrik fjórum árum seinna. Guðbjörg fæddist í miðju stríðinu árið 1943 og svo kom Tóta fjórum árum þar á eftir.

Heimilislífið var gott og gjöfult. Mamman var heima og nærði og passaði hópinn sinn. Þótt pabbinn ynni mikið var vinnustaður hans, lýsisvinnslan, nærri heimili svo hann var nálægur pabbi og sá til þess að börnin hans fengju margt gott og þar með talið heimsins besta lýsi.

Allir tóku þátt í lífsbaráttunni og byrjuðu snemma að afla tekna. Friðrik fór til sjós en Þorbjörn var í landi á fullu í puði en líka í boltanum. Mannlífið var fjörugt á Vesturgötunni, umhverfið var gjöfult fyrir uppvaxandi börn, leiksvæðin allt í kring, mikið af ungviði til að leika sér með. Þetta var örvandi og hvetjandi samfélag, kraumandi af lífi. Tóta sótti skóla fyrst í Melaskóla en svo tók við Gaggó vest, sem hún var stolt að hafa sótt.

Tóta var bráðþroska og eins og lífsklukka hennar gengi hraðar en annars fólks. Hún var hraðlifandi og bráðlifandi, fljót til barneigna. Hún varð með yngstu ömmum í landinu, var fljót í förum, fór víða og svo fer hún inn í himininn fyrir aldur fram. Þegar aðrar stúlkur voru bara að byrja skoða stráka var Tóta búin að eignast sitt fyrsta barn. Hún varð ástfanginn af Kristjáni Ólafssyni og þau fengu, þrátt fyrir æsku, opinbert leyfi til að ganga í hjúskap. Þau giftu sig 1966. Þetta var þegar ungt fólk bar langa svarta trefla um hálsinn, skipti sér í fylkingar með Rolling Stones eða Bítlunum, og Stevie Wonder, Simon og Garfunkel, the Supremes og Jimi Hendrix börðust um toppsætin á poplistunum. Þetta var árið sem England vann Þjóðverja í dramatískum úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í fótbolta.

Fullorðinslífið og fjölskylda

Tóta fór snemma að vinna eins og allt dugnaðarfólkið í kringum hana. Fyrst fór hún að vinna í Sveinsbakaríi eins og margar vinkonur hennar á Vesturgötunni.

Ástin blómstraði og Tóta var tilbúin að taka við ungu lífi og annast börn. Hún var barnagæla, elskaði börn og vann við alla tíð við að efla börn til lífs.

Ólafur, elsta barn þeirra Kristjáns, kom í heiminn árið 1964. Kona hans er Katrín Snæhólm Baldursdóttir og þau eiga fjögur börn og fyrir hjónaband átti Ólafur einn son.

Hannes fæddist árið 1968. Hans kona er Hulda Bergrós Stefánsdóttir og þau eiga tvo syni.

Eygló fæddist 1974 og hennar maður er Bjarki Þór Magnússon og þeirra börn eru þrjú.

Björn er yngstur. Hann fæddist árið 1979 og kona hans er Silvía Björk Birkisdóttir.

Tóta bjó við mikið ríkidæmi í fólkinu sínu. Börnin hennar eru fjögur, barnabörnin tíu og langömmubörnin fjögur.

Með tvö ung börn var ljóst að fjölskyldan þurfti stöðugar tekjur. Þau Tóta réðu af að fara vestur í Stórholt í Saurbæ þar sem bróðir Kristjáns bjó. Það var heilmikil reynsla fyrir unga konu úr margmenninu á Vesturgötunni að kom í fásinnið í sveit. Kristján fór svo að smíða og spila en Tóta sá um heimilið. Svo fóru þau í Búðardal – ekki undir áhrif frá Lónlí Blú Bojs – því þetta var áður en allir fóru að syngja um staðinn. Þau leigðu hús í miðju þorpinu. Það var kannski ekki flottasta húsið þegar þau komu þangað og mestu spaugararnir í fjölskyldunni meina að á moldargólfinu hafi allir vanist að vera í skóm og haldið þeim sið síðan hversu flott og bónuð sem gólfin eru! Ungu hjónin tóku snarlega til hendi, löguðu húsið, keyptu og byggðu við. Tóta fór að vinna, lagði símstöðinni lið um tíma sem og vann einnig í mjólkurstöðinni. Hún hlúði að börnum í leikskóla og var líka dagmamma. Í Búðardal var fjölskyldan til 1983 þegar Hveragerði kallaði.

Eigindir og hæfni

Þó Tóta byggi lengstum langt utan KR hverfis Vesturbæjarins var hún þó á aldrei á útivelli í samskitpum. Hún var alls staðar á heimavelli þar sem hún bjó því hún var félagslynd og hæf í samskiptum. Hún beitti sér gjarnan í samfélagi sínu. Hún hafði ákveðnar skoðanir í stjórnmálum, hvað heyrði til framfara, hvað væri börnum best, hvernig þyrfti að skipa málum svo fólki liði vel. Í Búðardal tók Tóta þátt í mannlífinu með fjölbreytilegum hætti og var meðal annars í leikfélaginu. Í Hveragerði vann hún fyrst á pósthúsinu en for síðan að hlúa að börnum. Hún vann í leikskólanum Undralandi og síðan var hún stuðningsfulltrúi í grunnskólanum í Hveragerði og naut vinnu sinnar svo mjög að hún lagði á sig að fara í Fjölbraut á Selfossi til að læra greinar sem kæmu henni að gagni við kennsluna. Tóta tók þátt í pólitíkinni og henni voru falin trúnaðarstörf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Helstu hugðarefni Tótu lutu að þörfum barnanna. Hún var skýrmælt um þeirra hag og reiðubúin að leggja mikið á sig í þeirra þágu, hvort sem það var að standa að leikfangaátaki eða hlúa að lúðrasveitinni. Tóta var virk í foreldrafélögum og beitti sér þar sem hún taldi að hún gæti orðið að liði. Hún var vinmörg og lífsglöð og var alls staðar þar sem hún fór gleðigjafi.

Tóta bjó fjölskyldu sinni gæfulegt umhverfi. Hún hafði mikið umburðarlyndi gagnvart leikja- og hreyfiþörf barna, sinna eigin og annarra. Hún skildi að börn þyrftu bolta en vildi síður að gluggarúður væru brotnar reglulega, hvort sem það var nú að innan frá eða utan. Það er skiljanlegt! Og svo átti hún leikföng sem öll heimsins börn höfðu gaman af og hún gat dregið stóran kassa með legókubbum undan rúmi eða galdrað fram púsl, leiki, spil eða gestaþrautir sem heilluðu. Alltaf gerði Tóta ráð fyrir börnum, leikþörf þeirra og leikgetu. Og það var fjör þar sem Tóta var.

Í Hveragerði bjó fjölskyldan til 1990 þegar Kristján fór að kenna tónlist í Mýrdal. Þau Tóta fluttu austur, fyrst í Sólheimatungu og síðan í Vík. Tóta hélt sér við unga fólkið og fór að vinna í leikskólanum í Vík. Börnin hennar flugu úr hreiðrinu og lífið einfaldaðist um tíma. En svo dundu áföllin yfir eitt af öðru.

Tóta missti bæði mann og heilsuna. Kristján og hún skildu og hún greindist með hvítblæði árið 1995. Á blóðkrabbanum vann hún sigur á með hjálp systur sinnar Guðbjargar, sem gaf henni það sem hún þurfti til endurnýjunar blóðs. Oft hafði Tóta hlaupið á eftir Göggu í bernsku og viljað njóta allra félagsgæða hennar og athygli. Og svo gaf Gagga henni lífsmátt. Þær fóru til Svíþjóðar og sátu svo við skiljurnar til að Tóta næði bata. Það tókst og Tóta á Guðbjörgu og manni hennar mikið að þakka fyrir aðstoð og lífgjöf. Vert er að þakka á þessari stundu fórnfýsi og óhvikulan stuðning. Þá skal minnt á að sr. Haraldur Kristjánsson í Vík fór með Tótu til að veita henni stuðning og lagði á sig erfiði umfram allar skyldur. Svo kom Tóta heim til að jafna sig, fór austur í Vík. Hún náði ekki heilsu til að halda fullum dampi í leikskólanum. Árið 2001 flutti hún út í Hveragerði og bjó þar uns hún fluttist í hús Sjálfsbjargar í Hátúni 12 árið 2008. Á stuttum tíma varð Tóta fyrir fjölþættu áfalli. Hún náði í kjölfar þess aldrei fullri heilsu. Blæðingar og lyf veikluðu einnig og heilsu Tótu hrakaði. Hún lést 22. ágúst.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðjur frá: Sunnevu Sirrý Ólafsdóttur og fjölskyldu í Englandi, Hannesi Þór Sigurðssyni og fjölskyldu í Danmörk og Einari Vigni í Noregi.

Nú eru skil orðin og hvernig á að gera upp líf og leið? Gleðistundirnar hafa margar verið stórkostlegar, margar sendingarnar flottar, en svo varð margt erfitt. Og liðið hennar Tótu, fólkið hennar hefur staðið saman öll sem eitt. Og hvenær er flautað til loka? Þá er komið að því hvernig skipulagið er. Þau, sem vilja bara vera í einfalda boltanum heyra bara flautið í lok seinni hálfleiks. En hin sem hafa trú á að lífið sé stórt en ekki smátt – hafa heyrt að sagan um Job endaði vel. Og hvernig var aftur sagan um Jesú? Ekki endaði hún í gröf heldur í lífi og gleði hinum megin við deauða. Og það er boðskapurinn, sem Tóta innrætti börnum sínum og kenndi þeim að reikna með, að lífið er stórt og gott, mikið og framhald, þrátt fyrir erfiðleika og áföll. Og það er í því samhengi, sem við megum vita að það verður flautað til framhalds í eilífð himinsins. Og hvað kemur út úr þeim leik er aðalatriðið. Þeim leik lýkur með að allir eru bestir og allir fá að vera með í því liði sem lyftir bikarnum. Valitorbikarinn er góður og meistaratitlarnir líka, bestir eru þessir himnesku, guðlegu ofurbikarar sem gefa hamingju. Þeir eru vegna lífsins.

Tóta hefur lokið sínu. Hún kennir ekki lengur að klappa fyrir KR, dregur ekki fram spil og kubba og skipuleggur ekki söfnun eða átak eða sýnir snilldartakta í þágu barna. Enginn hlátur lengur. Hún er farin inn í himin Guðs. Og þú mátt leyfa henni að fara en leyfa minningunni að lifa í hjarta þér um staðfestu hennar, gleði, elskusemi og umhyggju. Þú mátt leyfa því öllu að verða þér til að eflast í lífi en líka trúa, að Tótu líði vel í hinum himneska leik, þar sem öll ná þroska, allir eru glaðir og allt er verulega gott og skemmtilegt.

Útför frá Neskirkju 30. ágúst 2011.  Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði.