Guðlaug Þórarinsdóttir – minningarorð

Í sálmaskránni eru hrífandi myndir af Guðlaugu – og ástvinum hennar. Myndin af henni í rútunni er skemmtilega laðandi. Þar stendur kona traustum fótum, styður höndum á stólbök. Stór rúta er umgjörðin og sterkir litir áklæðis og innréttingar mála bakgrunn Guðlaugar bílstjóra, Guðlaugar framkvæmdastjóra og Guðlaugar dugnaðarkonu.

Svo vakna aðrar áleitnar myndir þegar Guðlaugar er minnst. Ein myndin spratt fram í frásögn ástvina. Hún er ekki í sálmaskránni heldur í minni fjölskyldunnar og hugum þeirra sem hafa heyrt. Fjölskyldan í Fagurhlíð var segja skilið við heimasveit og að flytja út í Mosfellssveit. Elín, mamman, fór með systkinin í rútu út úr – eins og – Skaftfellingar segja, en Guðlaug var sú sem fór með pabbanum á vörubílnum yfir vötn og sand. Í Guðlaugu var dugur, geta, festa og máttur – henni var treyst til volkferðarinnar.

Myndin sem hefur verið uppteiknuð af Guðlaugu fyrir mig er af öflugum Skaftfellingi sem átti í sér margt af andlegum djásnum sem urðu til í glímu við máttuga náttúru. Svo agaði hún sjálfa sig til gæða og góðs lífs.

Uppaf og ætt

Guðlaug Þórarinsdóttir fæddist 7. desember árið 1925, í Fagurhlíð í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin og bændurnir Elín G. Sveinsdóttir og Þórarinn Auðunsson. Guðlaug var önnur í röð fjögurra systkina. Elst var Valgerður og yngri voru Ólöf og Sveinn. Þau eru nú öll látin.

Heimilsbragurinn í Fagurhlíð var fagur. Elín, mamman á heimilinu, var einstök kona, sem óf kærleika í fjölskylduvefinn. Foreldrarnir skópu gott heimilislíf og samskipti. Því var kært milli systkina. Guðlaug ólst upp í ástríkri og samheldinni fjölskyldu. Því minntist hún æskuára, Fagurhlíðar og æskustöðva með gleði. Hún talaði gjarnan um smágerða en jafnframt stórbrotna náttúruumgerð og einnig um dýrin. Í minningunni virtist henni að sólin hefði skinið samfellt á bernskuárum hennar eystra. Og á Þykkvabæ í Landbroti byrjaði hún skólanám sitt. Þangað var um tuttugu mínútna gangur frá Fagurhlíð.

Svo var dugur í öllu fólkinu hennar. Þórarinn, faðir Guðlaugar, var framkvæmdamaður og var með þeim fyrstu eystra, sem virkjaði bæjarlækinn og smíðaði líka spunavél til hagsbóta fyrir heimili. Hann var laghentur og kunnáttusamur í besta lagi. Guðlaug var alin upp við að lífið sækti fram og fólk gæti beitt sér og til bættra lífskjara.

Elín, móðir hennar – ættuð frá Reyni í Mýrdal, lýsti Guðlaugu sem ákveðinni og duglegri og að hún hafi alltaf sóst eftir að vera best í því sem hún tók sér fyrir hendur. Guðlaug vildi alltaf gera vel við fólk, heimafólk og alla gesti. Hún var jafnframt óhrædd að fara út fyrir ramma hins venjulega ef það þjónaði góðu markmiði. Í fjölskyldunni lifir saga um að þegar Guðlaug var barn vildi hún að mamma hennar bakaði lummur með kaffinu. Hún fékk þó þau svör að ekki væri til eldiviður til þess. Guðlaug brá sér frá, sótti dúkkurúmið sem pabbi hennar hafði smíðað, braut það og rétti móður sinni spýturnar með þeim orðum að nú væri kominn eldiviður!

Guðlaug var dugmikil til náms. Henni gekk vel í skóla, var leikin með tölur og hafði gaman af reikningi. Hún teiknaði mikið og eftir hana liggja náttúrumyndir. Á mörgum eru blóm og dýr fyrirmyndir. Þá var hún tónelsk. Á bernskuheimili hennar var mikið sungið og hún hafði æ síðan yndi af söng og tónlist. Hana langaði að læra á píanó en til þess voru ekki ráð á þeim tíma, en hún sá til þess að börnin hennar nytu þeirrar tónlistarmenntunar sem þau vildu.

Fjölskyldan fluttist frá Fagurhlíð árið 1940 að Skeggjastöðum. Á árunum 1941-1943 sótti Guðlaug nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Bóksækinn unglingurinn gladdist yfir skólaverunni. Henni leið vel á Laugarvartni, sóttist nám hið besta og var virk í söng og félagsstarfi.

Einmaður, fjölskylda og fyrirtæki

Á Laugarvatni kynntist hún eiginmanni sínum, Ingvari Sigurðssyni frá Efstadal (f. 18. Júlí 1919, d. 2. Júní 1990). Þau Guðlaug og Ingvar gengu í hjónaband þann 13. júní 1945 og hófu búskap í Reykjavík. Börn þeirra Guðlaugar eru Sigríður, lögfræðingur og fyrrverandi héraðsdómari. Maður hennar er Stefán Ingi Þórhallsson. Börn Sigríðar eru Þóranna og Ingvar. Þór er annar í röðinni og starfar sem framkvæmdastjóri Þingvallaleiðar. Kona hans er Ólafía Jóna Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Björg María, Róbert Þór, Reynir Ari og Guðlaug Rut. Elín er þriðja og hún starfar sem aðstoðarkona. Maður hennar er Karl Reykdal Sverrisson. Sigurður er svo yngstur. Hann er forstöðumaður á Keldum. Kona hans er Þórunn Marsilía Lárusdóttir. Þau eiga börnin Lárus, Tinnu og Val. Langömmubörn Guðlaugar eru 13 talsins.

Ingvar var bílstjóri og þau Guðlaug kynntust á Laugarvatni. Hann hreifst af því að hún dekraði við hann umfram allar hinar stúlkunar sem færðu bílstjórunum mat á hótelinu. Það var ekki ætlast til þess að þeir fengju annað en vatn með matnum en þegar hann leit til Guðlaugar með bros í fallegu augunum og hvíslaði: “Gulla áttu mjólk” – þá gaf hún honum mjólk með matnum. Þetta kunni hann að meta og þau felldu hugi saman.

Guðlaug og Ingvar festu kaup á fokheldri hæð í Drápuhlíð 17 þar sem þau bjuggu í tæp 40 ár. Börnin þeirra fjögur fæddust í Drápuhlíðinni og ólust þar upp. Þau fóru gjarnan með fjölskylduna í heimsókn í Efstadal og að Hlíð í Mosfellsbæ þar sem foreldrar Guðlaugar bjuggu eftir að hún flutti að heiman.

Guðlaug hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hvatti þau til náms og að stæla sig til þroska í skóla og lífi. Sjálf var hún traust og miðlaði festu til ástvina sinna.

Ingvar vann við akstur, bæði á hópferðabílum og einnig sem leigubílstjóri. Svo bauðst þeim Guðlaugu að kaupa sérleyfi og bíla og þau stofnuðu fyrirtækið Þingvallaleið, sem fékk nafn af sérleiðinni. En svo bættist sérleyfið til Grindavíkur við og þau Guðlaug voru samstiga og samhent. Ingvar ók mikið og var dugmikill. Guðlaug tók svo rútupróf, ein fyrst kvenna á Íslandi. Hún varð því fyrirmynd um að störf voru ekki einokuð af kynjum. Kona gat ekið eins vel og karl. Guðlaug ók bílum og rútum Þingvallaleiðar í áratugi og sinnti öllu því sem gera varð í akstri og rekstri fjölskyldufyrirtækisins. Og enn er Þingvallaleið til, hefur aðlagast nútímanum í rekstri og nafngift – Bus Travel og svo er þar líka Þingvallaleið. Allt til lífsloka lét Guðlaug sig varða hag og velferð Þingvallaleiðar – en nú hefur næsta kynslóð tekið við.

Eigindir

Guðlaug var glaðsinna og félagslynd. Hún hafði mikinn áhuga á söng og lengi æfði kór á heimili hennar því þar var píanó. Svo söng hún við húsverkin. Guðlaug lét til sín taka í félagsstarfi kvenfélags Háteigssóknar og sinnti einnig sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn.

Hún var trúrækin og kirkjurækin – bjó löngum í Hlíðunum og því tengdist hún Háteigskirkju. Guðlaug hafði gaman af dansi og yngri árum tók hún m.a. þátt í starfi Þjóðdansafélagsins.

Heimili Guðlaugar og Ingvars var stórt og gestkvæmt. Flest börn þeirra hófu búskap í Drápuhlíðinni hjá þeim og bjuggu þar fyrstu árin með maka og jafnvel börn. Þá áttu ýmsir vinir og ástvinir þar heimili um skeið, m.a. Elín móðir Guðlaugar, Ólöf systir hennar ásamt manni og tveimur sonum, nokkur systkinabörn þeirra Guðlaugar og Ingvars, ættingjar tengdabarna og fleiri.

Svo komu barnabörnin inn á heimilið og Guðlaug taldi ekki eftir sér að gæta að ömmudreng um leið og hún reddaði einhverjum ferðum fyrir Þingvallaleið eða sinnti skrifstofustörfum fyrirtækisins. Svo sá hún um fjármál sonar síns og leigði húsnæði unga fólksins þegar þau bjuggu erlendis. Hún var rismikill forstjóri á heimili, í fyrirtæki og meðal ættmenna sinna.

Veisluhöld og ræktarsemi við fjölskyldu og vini voru henni mikilvæg. Þá las hún mikið og sagði sjálf að hún væri alæta á bækur.  Þá hafði hún einnig gaman að því að grípa í spil.

Guðlaug var listfeng og hannyrðir léku í höndum á henni. Hún fór létt með að sníða og sauma allar flíkur á sjálfa sig og fjölskylduna. Þá liggur eftir hana heilmikill útsaumur og prjónaskapur.

Guðlaugar verður minnst sem einstakrar konu og stórbrotins persónuleika. Hún var í senn frumkvöðull, brautryðjandi og fyrirmynd, kraftmikil, ákveðin og stórtæk, gestrisin, gjafmild og hlý.

Eilífðin

Og nú hefur hún farið síðasta túrinn. Ekki lengur austur í Þingvallasveit eða til Grindvíkur, heldur inn í himininn, hina bestu Fagurhlíð. Þar eru góðir vegir, fín sérleyfi og gaman að keyra ef að líkum lætur. Engar afkomuáhyggjur, sprungin dekk eða bílstjórar sem ekki koma á vaktina. Þar hefur Guðlaug hitt allt sitt fólk og alla ástvini.

Guð geymi hana og varðveiti ykkur ástvini hennar.

Tinna Sigurðardóttir, barnabarn – í Ástralíu – biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Minningarorð við útför í Háteigskirkju á siðbótardeginum 2014, 31. október.

Guðlastarinn Jesús Kristur?

grid-cell-18468-1382382792-14Mér þykir dapurlegt þegar fólk missir stjórn á skapi sínu og hellir úr skálum reiði sinnar, æpir ókvæðisorð til fólks, hvort sem það er innan ramma fjölskyldunnar eða á almannafæri. Mér var í bernsku uppálagt að gæta orða minna og það var í sama anda sem afinn í barnabókinni Salómon svarti sagði við drenginn: „Vandaðu málfar þitt drengur minn.“ 

Á veraldarvefnum bulla margir landsmenn okkar, hella sér yfir aðra og tala niðrandi til fólks. Þar er stór hópur sem talar iðrandi um Guð, hnjóðar í trúarlegt atferli, lastar trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smánar trúarefni með ýmsum hætti. Ef ríkissaksóknari hefði ekki annað þarfara að gera væri hægt að sækja marga til saka. Sem betur fer eltir embættið þó ekki kjánaskap þessa reiða fólks.

Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Sumt af skætingi í garð trúar og trúarefna á sér rætur í slæmum smekk og/eða lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman! Og sumt af þeim aur, sem skvett er í garð trúarhugmynda, á sér baksvið í vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð vondra uppeldisaðila, ofbeldismanna eða slæmra fulltrúa trúar. Það sem sýnist vera guðlast er oft tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku. Trúmenn ættu ekki að reiðast særðu fólki.

Guðspjall dagsins vekur spurningar um guðlast. Lögfræðingar samtíma Jesú töldu að hann guðlastaði. Um það var löggjöf Gyðinga býsna skýr og lagaskýringar ljósar. Það var á hreinu hvenær menn fóru yfir strikið, gerðu eitthvað eða sögðu sem Guði væri ekki þóknanlegt. Allir vissu að það væri guðlast að setja sig í sæti Guðs. Og lagaspekingar hins gyðinglega samfélags töldu að Jesús ögraði, væri guðlastari og “brotaviljinn” væri svo ítrekaður, að að sækja yrði hann til saka. Því var hann líflátinn. Guðlast og líflát hafa löngum farið saman. Jesús gerði uppreisn gegn guðlastslöggjöf síns tíma. Jesús ögraði kerfi trúar og samfélags síns tíma.

Niðrandi tal um Guð

Hvað er þetta guðlast? Nokkur orð um sögu og félagsvídd guðlastsins. Orðabókin skýrir merkinguna, að guðlast sé að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Um aldir hefur verið reynt að sporna við bölvi fólks með því að benda á að ragnið væri brot á fyrsta og öðru boðorðinu. Hugtakið guðlast hefur því löngum verið túlkað sem óvirðulegt, niðrandi tal um Guð.

Guðlast var alvarlegur glæpur meðal hinna fornu Hebrea. Í þriðju Mósebók 24.16 er sagt að sá er fremji guðlast skuli grýttur. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. Englendingar afnámu t.d. ekki dauðarefsingu vegna guðlasts fyrr en á sautjándu öld og Skotar ekki fyrr en á þeirri átjándu.

Mér sýnist flestir sagnfræðingar séu sammála um, að þessi refsiharka hafi ekki verið vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna stjórnmála og valdamanna. Árás á trúargildi var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi samfélag og stjórnvöld. Trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var ekki aðeins það að ráðast á trúarefni, heldur ekki síður að lasta valdstjórn eða mikilvæga þætti samfélagsins. Guðlast var eiginlega þjóðarlast. Guðlast var óbeint níð um samfélag og ekki liðið þess vegna. Refsingin var alltaf hörð og oft dauði. Þetta er mikilvæg og merkileg samfélags- og þjóðfélagsvídd guðlastsins. Enginn skyldi því halda að guðlast hafi bara verið grín.

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer lagt af dauðarefsingar við ógætilegu hjali. Við njótum nú mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið fram átakalaust. Og allir skyldu gera sér grein fyrir að þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.

Íslenskt guðlast

Þá ofurlítið um lögfræðina. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði, sem úrskurða þá athöfn refsiverða, sem smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags (125 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940). Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti sem m.a. er kenndur er við tímaritið Spegilinn. Í Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Af dómsorðunum má líka ráða, að það sé refsiverð háttsemi að grínast með kjarnaatriði tiltekinnar trúar eða trúfélaga.

Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað í ritmiðlum, á netinu, flutt í útvarpi eða í sjónvarpi, sem hefur verið handan hins siðlega. En fleiri dómar hafa þó ekki gengið í guðlastsmálum – mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt dómar væru felldir varðandi guðlast. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef grínistar, uppstandarar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og allra síst hefði Guði verið sómi sýndur. Að dæma menn fyrir guðlast bætir ekki guðsdýrkun eða samfélag.

Af hverju?

Í sálgæslu hef ég oft séð inn í heima þjáningar. Einkenni margra brotinna fjölskyldna og líðandi einstaklinga er tóm eða skortur. Ég var lengi að átta mig á hvers eðlis vöntunin væri, af hverju markaleysi margra væri svo skefjalaust, af hverju allt flyti, af hverju allt væri leyfilegt með óumflýjanlegum endi óhamingju og áfalla. Aðstæður fólks eru vissulega mismunandi og verða ekki skýrðar með einföldum hætti, en mér sýnist einkenna líf margra að þau skorti gildi, tilfinningu fyrir að til er dýpri réttur en einstaklingsrétturinn eða/og máttur hnefans. Sumt af þessu fólki, sem hefur ekki lært að gera greinarmun á réttu og röngu, að greina mikilvæg gildi frá yfirborðsgildum, hefur ekki hlotið djúpa elsku sem veganesti bernskunnar og skilur ekki muninn á spennu og ást, aga og frelsi, grunnþörfum og yfirboðsþáttum, inntaki og yfirborði.

Af hverju hafa hæðir og lægðir lífsins flast út í lífi svo margra? Niðurstaða mín er, að heilagleikinn hafi horfið úr lífi of stórs hluta samfélagsins, vitundin um að til eru gildi sem hafa gildi handan hagsmuna einstaklinga – gildi sem eru æðri einstaklingum. Í trúarsamhengi merkir það að til er Guð, sem vill að við umgöngumst lífið sem heilagar gjafir, en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Þegar Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum rýrni gildin, daprist munur góðs og ills, siðgreind fólks veiklist og þar með verði flest eða allt leyfilegt. Kannski er þá aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingins. Þegar einstaklingshyggjan ríkir rýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur, sem ekki má takmarka. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi – limbói, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða gildi, sem allt annað verði að lúta. Mér sýnist að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks og samfélags.

Hvað er þér heilagt, hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Þar er hið trúarlega í lífi þínu! Ef þú hefur ekkert af slíku er hætt við að margt og jafnvel allt fari á flot. Allir verða þá viðfang samkeppni, allir á bullandi siglingu á sjó eigin langana, reyna að fróa eigin sjálfi og duttlungum.

Tala, gera – vera

“Hann guðlastar” hugsuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði: Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp? Jesús var hnyttinn og spurði hvort væri auðveldara að orða fyrirgefningu eða lækna. Og þar sem Jesús læknaði manninn snarlega var komið að hinni spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlegur! Gagnvart Jesú springa allir lagabókstafir um guðlast. Hann setur sig í Guðssætið. Hvort það er réttlætanlegt eða ekki er til sérstakur dómu. Það erum við sem fellum dóm. Guðlastaði Jesús eða ekki? Guðlöstum við eða ekki? Hundeltum ekki þau sem guðlasta. Hugum fremur að guðlastinu í okkur sjálfum og hvort við heyrum orð Jesú um fyrirgefning og lækningu.

Amen

  1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Neskirkju, 26. október, 2014.

Í liðinni viku keypti Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lénið www.guðlast.is og sagði í því sambandi að fólk hefði ekki rétt til að móðgast ekki orðum annarra. Ég er Helga Hrafni sammála, fólk ber ekki skilyrðislaus réttur til að móðgast ekki í almannarýminu! En ég held að hann misskilji tilgang 125. greinar hegningarlaganna og of tengda einstaklingum. Löggjöf varðar dýpri rök en vernd einstaklinga, rökin varða fremur samfélag og hið opna rými, jákvæð þjóðfélagsgildi og m.a. að hatursorðræða sé ekki leyfileg. Á Íslandi eru – sem betur fer – orðasóðar ekki hundeltir og þeim refsað.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Jóhann Þorsteinsson – minningarorð

Jóhann hafði gaman tækjum og gerði sér grein fyrir möguleikum tækninýjunga og hann nýtti þær. Jóhann var ágætlega hæfur í notkun á tölvum og gat jafnvel tekið sundur bilaða tölvu til að laga. Engin hræðsla eða ótti við sýndarheima og tækniveröld. Það var gaman að hlusta á fólkið hans Jóhann segja frá getu hans til að fanga nýungar. „Þú hefðir átt að vinna við tölvur“ var sagt við hann þegar hann var í Boston og tjáði getu hans til skapandi vinnu á tæknisviðinu.

Svo hlustaði ég á dætur hans segja frá myndasmiðnum Jóhanni. „Merkilegt“ hugsaði ég. Jóhann hafði auga fyrir hinu sérstaka og vildi fanga augnablikið. Hann fór því að taka myndir, tók myndir á súper 8 filmu, síðan vídeómyndir og svo kom tölvufærnin honum til góða og hann færði gömlu myndirnar yfir á vídeospólur og síðan yfir á DVD-form. Gömlu myndirnar voru uppfærðar, myndir og myndskeið af fólkinu hans voru endurnýjaðar á því sniði sem notað var á hverjum tíma. Og breytingarnar hafa verið hraðar eins og þau vita sem fylgst hafa með byltingunni, sem hefur orðið í myndageiranum, frá tímum filmu til starfrænnar töku og vinnslu. Og Jóhann tók myndir af mörgum ykkar og náði að vera skrásetjari stórfjöskyldunnar, sem hefur líklega ekki verið upphaflegt markmið hans. Myndasafnið hans er dýrmætt og ber að varðveita og endurnýja ef hægt er – taka afrit af því og helst setja á vefinn og þar með að smella myndskeiðunum á youtube!

Mynd af Jóhanni myndasmið varð mér áleitin. Hann tók ekki aðeins myndir af skýjum, fjöllum eða viðburðum í þjóðfélaginu. Hann var ekki fréttaljósmyndari eða landslagsljósmyndari. Hann tók myndir af fólkinu sínu, heima og heiman, í fjölskylduboðum og á ferðalögum. Hvernig er ljósmyndari? Jafnan aftan við tækið, stendur oftast utan sjónsviðs myndavélarinnar, beinir linsunni að viðfangsefni og myndefni. Kannski var það sjálfvalin staða Jóhanns að taka af öðrum eða öðru og vinna síðan með það efni. Stundum fór Jóhann einförum, fáir sáu hann allan eðu þekktu djúp sálar hans. Hann fór sinna ferða og kynntist mörgum, en fáir urðu honum nánir eða náðu til hans að baki linsu lífsins. En hann beindi sjónum og sjónglerjum sínum til þín, til fjölskyldunnar, hafði það mikinn áhuga á ykkur að hann vildi taka af ykkur myndir. Og þessar myndir eru síðan erfðagjöf hans til ykkar, til fólksins sem lifir hann. Hann þjónaði ákveðnu hlutverki í lífi ykkar og svo skilar hann af sér.

Hver skyldi vera mesti myndasmiður þessarar veraldar. Það er ekki einher ljósmyndari í sögu sjónlista. Heldur hver? Guð – sem sér þessa veröld, skugga og ljós. Er ljósgjafinn sem lýsir upp myndsviðið allt, sér alla leikarana og beinir sjónglerjum sínum að lífinu. Ekki til að sjá misfellur, bresti og áföll, heldur til að gefa líf. Guð skannar ekki aðeins, tekur ekki aðeins mynd af fólki og veröldinni. Guð sá allt og kom svo sjálfur í rammann til að tryggja að allt færi vel.

Við sjáum í Jóhanni mynd manns sem gat svo margt og m.a. sá fólk en var líka mennskur í því að hann náði aldrei að leysa alla hnúta. En svo er hann farinn inn í stóran himinn og þar er Guð sem leysir allt, sér allt og tekur nýja mynd af heiminum sem er betri en allar aðrar.

Og nú er komið að því að við lyftum upp nokkrum mynd af Jóhanni Þorsteinssyni, lífi hans, ferli og upplifunum þínum af honum.

Upphaf og samhengi

Jóhann Þorsteinsson fæddist í Stykkishólmi 5. nóvember árið 1935. Þetta var tíminn milli stríða. Stykkið var á sínum stað og hæðir og hólar Hólmsins urðu skjól til lífs og leikja. Svo var stutt í töfrastaðinn Helgafell. Það var gaman að vaxa úr grasi í Stykkishólmi og mannlífið var fjölbreytilegt, myndríkt og gott.

Foreldrar Jóhanns voru Veronika Konráðsdóttir (1909) og Þorsteinn G. Þorsteinsson (1906). Hún var úr Ólafsvík, en ólst upp í Hólminum hjá Jósafat Hjaltalín og Ingveldi Jónsdóttur. Þorsteinn var úr Hafnarfirði. Veronika og Þorsteinn kynntust fyrir sunnan en þegar Ingveldur, fósturmóðir Veroniku, lést bað Jósafat, fóstri hennar, unga fólkið að koma og það varð úr. Þau tóku sig upp og fóru í Stykkishólm.

Pétur var elstur þeirra systkina og fæddist árið 1929, og síðan kom María í heiminn tæpum tveimur árum síðar. Jóhann var þriðji í röðinni en yngstur var Sveinn sem kom í heiminn árið 1937. Þau eru nú öll farin inn í himininn. Jóhann var síðastur í röðinni.

Foreldrarnir vildu að börnin þeirra nytu skólagöngu og menntuðust. Jóhann gekkst við þeirra þrá. Hann gekk fyrst í skóla fyrir vestan. En svo var komið að því að Pétur færi í skóla fyrir sunnan og þá voru góð ráð dýr. Þau Þorsteinn og Veronika seldu eignir sínar á Snæfellsnesi og keyptu sér hús í Efstasundi. En tíminn var erfiður og vegna atvinnuleysis sáu þau á bak húsi sínu í Sundunum. Þá bar auðnan þau hingað vestur í bæ og í þann sögufræga Camp Knox. Jóhann fór í Melaskóla. Síðan flutti fjölskyldan inn í Hlíðar og Bogahlíð 18 varð eins konar fjölskyldumiðstöð allt þar til Þorsteinn og Verónika létust.

Þegar Jóhann hafði lokið grunnnámi voru ýmsir kostir í stöðunni en niðurstaðan var að hann fór vestur í Núp við Dýrafjörð og var þar tvo vetur, frá 1949-51. Á Núpi lauk hann landsprófi. Síðan fór hann strax í Samvinnuskólann í Reykjavík og starfaði síðan í Ríkisbókhaldi til ársins 1956. Þaðan lá leiðin vestur í Ólafsvík en þar var kaupfélagið Dagsbrún og varð starfsstöð Jóhanns í tvö ár. Þá tók við sjósókn sem síðan leiddi til náms í Sjómannaskólanum.

Vegna þessarar breiðu menntunar og starfsreynslu voru Jóhanni margir vegir færir. Hann hafði stýrimannsréttindi og var því á sjó og stýrði bátum. Hann vann líka á landi og við verslunarstörf.

Dætur hans Jóhanns

Pétur, bróðir Jóhanns, var kaupfélagsstjóri vestur á Bíldudal. Það varð úr að Jóhann fór til bróður síns og vann við kaupfélagið á virkum dögum. En svo var það hinn músiklipri Jóhann sem spilaði á harmónikuna um helgar og lék fyrir dansi. Og líf Jóhanns var ekki aðeins fjölbreytilegt hvað vinnu varðar heldur hafði áhrif á líf hans með margvíslegum hætti. Hann kynntist færeyskri stúlku á Bíldudal. Hún heitir Nicolina Susanna og er Bjarnason Hojgård og þau eignuðust dóttur 4. febrúar árið 1958. Hún fæddist í Færeyjum og heitir Sólrit og býr í Þórshöfn. Bjarni Berg er maður hennar. Sólrit er hjúkrunarfræðingur og hann tónlistarmaður. Þau eiga fjögur börn. Þau eru Runa, Ingmar, Björk og Tóki.

Nicolina og Jóhann bjuggu ekki saman og hún fór til Færeyja áður en dóttir þeirra fæddist og því varð langt milli Sólrit og föður hennar og samband komst ekki á fyrr en á fullorðinsárum hennar. Jóhann sendi Sólrit skeyti þegar hún var átján ára og sendandinn var pabbinn á Íslandi. Þaðan í frá uxu tengsl og með auknum samskiptum.

Jóhann tók saman við Halldóru Sveinbjörgu Gunnarsdóttur. Hún var frá Bíldudal. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband á þjóðhátíðardeginum 1964. Þau Halldóra og Jóhann eignuðust eina dóttur. Hún heitir Arnbjörg Linda og fæddist 27. september árið 1959. Linda er nálastungu- og grasalæknir og kennari í þeim fræðum. Börn hennar eru Halldóra, Yvonne og Irene. Halldóra og Jóhann skildu eftir liðlega tuttugu ára hjúskap.

Atvinna og störf

Jóhann var fjölhæfur og gat margt. Með Samvinnuskólapróf stóðu honum margar dyr opnar. Hann starfaði ekki aðeins við kaupfélagið á Bíldudal. Um tíma var hann kaupfélagsstjóri í Vestannaeyjum. Jóhann var oft á vertíðum á yngri árum, m.a. í Grindavík. Og útgerðin heillaði þá bræður Pétur og Jóhann svo að þeir gerðust útgerðarmenn og Jóhann var oft við stjórnvölinn á bátunum sem þeir gerðu út, 40-60 tonna bátum.

Svo fór Jóhann í land og rak frystihús um tíma við Súðavogi. Og Jóhann lærði þar með á alla þætti fiskveiða og fiskvinnslu og varð verðmætur starfsmaður með yfirlit og tækniþekkingu í útgerðar- og vinnslugeiranum. Jóhanni bauðst vinna í frystihúsi í Masachusetts í Bandaríkjunum. Hann fór utan árið 1979 til að miðla íslensku fiskvinnsluviti. Og vestra saug hann í sig það sem efst var á baugi, kynnti sér viðmið í menningu og nýjungar í tækni. Meðal annars hreifst hann af bílaþvottaaðferðum í Bandaríkjunum.

Þegar Jóhann kom heim um 1984 slitu þau Halldóra samvistir.

Jóhann flutti í fjölskylduhúsið í Bogahlíðinni. Þá var þar í húsinu Björg Björgvinsdóttir, jafnaldra Jóhanns. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku og kynntust að nýju, hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki sem seldi “heita potta.” Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005 er þau seldu reksturinn. Árið 2006 greindist Björg með krabbamein, náði heilsu um tíma en svo tók mein sig upp að nýju og ekki var við neitt ráðið. Björg lést árið 2012.

Myndirnar

Þetta eru nokkrar myndir úr lífi Jóhanns. Hvaða myndir lifa í huga þér og hvaða myndir hefur þú tekið af honum og vilt varðveita?

Manstu tímaskyn hans? Jóhann gat sprottið upp seint að kvöldi og farið í bíltúr!

Hann var ákveðinn og stefnufastur. Einu sinni varð eftir hjá honum bók sem hann gluggaði í: The easy way to stop smoking. Og hann tók efnið til sín og steinhætti að reykja, og hafði þó reykt mikið áður.

Manstu hvernig hann leit út? Fötin hans. Tengslin við hann? Manstu áherslu hans á frelsi manna og pólitískar skoðanir hans? Manstu eftir bókunum hans og um hvað hann talaði? Manstu eftir ferðum hans niður að höfn? Manstu eftir bílstjóranum, sem keyrði hratt og hve lipur hann var þrátt fyrir hraðann? Manstu tengsl hans við systkini hans og fjölskyldustíllinn?

Og manstu eftir ljósmyndaranum Jóhanni að beina linsu að þér? Nú beinir þú þinni lífslinsu að Jóhanni og skoðar myndirnar á þessum tímamótum. Hverjar eru góðar og hugnast þér? Þú heldur í þær, hinar sem eru síðri falla í gleymsku tímans. Farðu vel með myndasafnið og lærðu að vinna með það, ekki bara myndasafn í tölvum og albúmum – heldur myndasafn tilfinninga, afstöðu og innri manns. Lærðu að halda í það sem er gott og mikilvægt en gerðu upp við hitt. Í því er viskan fólgin. Hvað lærðir þú af Jóhanni sem var gott og getur dugað þér til lífs með öðrum?

Jóhann tekur ekki fleiri myndir, skoðar enga tölvu og færir ekkert á milli tækniveralda lengur. Hann er farinn inn í vinnsluminni himinsins – sem á sér engin takmörk og þar verður aldrei kerfishrun.

Svo er besti myndasmiðurinn Guð. Guð beinir allri sinni athygli að mönnunum og þar með Jóhanni, sér hann allan og vinnur með mynd hans. Og Guð horfir alltaf með elsku. Linsur hans eru linsur kærleikans. Og Guð beinir sjónum sínum að þér og horfir á þig með kærleiksaugum og yfirgefur þig aldrei.

Guð geymi Jóhann og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja hjá Veroniku og Ólafi í Urriðakvísl 4.

Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.