Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

+ Helgi Valdimarsson +

Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vorum systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir elskuðu hann og hossuðu honum ungum og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum, en við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarfdælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólfur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var afburða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lestur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Laxdælu eða Eglu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökulum augum fararstjórans.

Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið og var fjölgáfaður. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rannsóknarstofunni eða við skáktölvuna sína.

Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur í samkvæmum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþróttagarpur en líka fíngerður tilfinningamaður, háskólamaður en einnig bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menningarinnar.

Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir.

Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ættfólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla, þjónaði fólkinu hans og annaðist hann síðan stórkostlega síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi þeirra Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi kindagötur eilífðar með Helga Þresti Valdimarssyni og geymi ástvini hans.

Minningargrein mín um Helga í Morgunblaðinu 17. ágúst 2018. Meðfylgjandi mynd tók ég af Helga á Hvarfshnjúk í Svarfaðardal. 

Liðsheildin á HM í Rússlandi

Þátttaka Íslands á HM 2018 var hrífandi. Liðið tryggði þátttökuna með glæsibrag. Það var ekkert gefið í undankeppninni og enginn veitti smáþjóðinni afslátt. Mörg okkar fylgdumst með undirbúningnum og svo hófst keppnin í Rússlandi. Jafnteflið við Argentínu í fyrsta leiknum var stórkostlegur árangur. Eftir tapið á móti spræku liði Nígeríu var allt lagt undir í lokaleiknum gegn Krótaíu. Leikur Íslendingana var í raun sigur. Liðið spilaði glæsilegan fótbolta og var óheppið að sigra ekki þann leik. Það vantaði aðeins herslumuninn að komast upp úr riðlinum. En það er ekki hægt að kvarta. Íslendingar eru í góðum hóp, sem er á heimleið, með Pólverjum og heimsmeisturum Þjóðverja ofl. Þetta heimsmeistaramót sýnir breiddina og dýptina á heimsfótboltanum. Engar þjóðir eiga neitt öruggt lengur. Fótboltinn hefur þróast svo að engar þjóðir eiga áskrift að árangri, sætum eða bikurum. Flestir leikir eru orðnir eru eins og úrslitaleikir, slík eru gæðin. Öll lið á HM eru frábær, líka okkar. Nútímafótbolti bestu liðanna er skapandi listgjörningur, eiginlega listsýningar.

Ég vek athygli á að það er fleira dásamlegt á þessu móti en töfrar í tám leikmanna. Það sem hefur hrifið mig mest við íslenska liðið er samheldni, virðingin í hópnum og samvinna. Stjörnustælarnir eru ekki sýnilegir í liðinu. Allir virðast vinna saman. Leikmennirnir vita, að þeir eru kannski ekki mestu listamenn fótboltans, en þeir eru hins vegar sannfærðir um að þeir geta flest, ef ekki allt, sem hópur. Samvinna, hópvinnan, hefur komið þeim á heimsmeistaramót sem milljónaþjóðum hefur ekki lánast. Þeir tala fallega hver um annan, rækta gleðina, grínast, hlægja, rækta félagsskapinn, tala liðið upp en ekki niður. Þeir brjóta ekki á liðsstjórninni heldur styðja ákvarðanir sem vissulega má deila um (sbr. leikskipulag Nígeríuleiksins).

Snilld íslenska fótboltalandsliðins er liðsheildin. Hún er til fyrirmyndar og eftir er tekið. Leikmennirnir hafa þegar unnið með efasemdir, tilfinningalega þröskulda og stefnumál. Þeir efast ekki um að þeir geti á góðum dögum unnið alla leiki. Þeir ætla sér alltaf langt. Enginn í liðinu ætlar sér eða reynir að lyfta sjálfum sér á kostnað annarra. Þeir gera þetta saman. Og ef hallað er á einhvern í liðinu er öllu liðinu að mæta. Enginn er gerður að blórabögli. Þeir eru samábyrgir.

Við getum lært margt af íslenska landsliðinu. Ekki aðeins fótbolta heldur hvernig má ná árangri. Vinnustaðir, félög, samfélög, söfnuðir, skólar, íslenskt samfélag – já heimsbyggðin – getur lært mikið af okkar landsliðum í fótbolota. Liðsheild verður ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. En lið geta orðið ógnarsterk ef unnið er með veikleikana, ef allir eru með og styrkleikar allra nýtast. Áfram Ísland og takk.

 

 

 

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018

Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.

Allir fingur upp til Guðs

Hvernig eru hendur þínar? Snúðu þeim og horfðu á þær. Þú þekkir handarbökin, sem blasa við þér og þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo eru lófarnir. Kannski hefur þú spáð í líflínu og myndagátu lófa þíns. Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handabandið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Hendur eru starfstæki okkar. En þegar við leggjum hendur saman er það gjarnan til að kyrra huga. En hendurnar þurfa ekki að vera alveg kyrrar eða ónytsamlegar þegar við tölum við Guð. Við getum notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Í dag er bænadagur og við íhugum bæn og bænahætti. Og mig langar til að kenna ykkur að nota hendur til bænaiðju.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðir þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Fingurinn gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Ef börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal getum við notað hann til að skófla upp trúarlegri merkingu líka.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á þau sem liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur baugur, hringur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er á flestum kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum. Vitja þeirra Guð, sem hafa verið umkringd af hinu rangláta. Og svo biðjum við fyrir syrjandi, deyjandi og þeim sem líður illa.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið. Er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú borðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í erli daganna, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona. Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Jákvæð lífsiðja

Jesús minnti fólk á mikilvægi bænarinnar. Hann sagði gjarnan: “Biðjið ...”Já við ættum að biðja, biðja mikið. Bænir eru eðlilegur þáttur í kirkjulífi og á afmörkuðum stundum dags og æfinnar. En bæn má verða eins eðlilegur þáttur lífsins og andardráttur. Það er ekki einkennilegt, að bænin er nefnd andardráttur trúarinnar. Og þar sem bænin má vefjast inn í allt lífið, verða meginþáttur í lífi okkar megum við gjarnan leyfa okkur skapandi bænastöðu. Við megum bæði draga lærdóm af bænafólki í eigin trúarhefð en líka öðrum trúarhefðum. Margt í bænta- eða íhugunarstellingum hinna miklu trúarhefða má nota til eflingar eigin bænaiðju. Við megum gjarnan nota það sem höfðar til fegurðarskyns okkar og vefja inn í bænagerðina. Ljós skiptir trú og trúartúlkunmáli, notið kerti – en gætið að eldinum!

Bænaiðja er atferli sem er eins og allt annað í lífinu. Stundum er auðvelt að biðja, stundum erfitt. Stundum er eins og himininn sé tómur og stundum verðum við hrifin í sjöunda himinn og öllu er svarað greiðlega sem við ræðum við Guð. Oflæti í bænaiðju er kannski ekki það sem reynist best. Hið smáa er bæði fallegt og farsælt. Góðir hlutir gerast hægt. En engin bæn er sóun, engin bæn fellur óheyrð, ekkert orð týnist í hávaða veraldar. Guð heyrir ofurvel. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ Spáðu í handverk bænarinnar og mundu líka að bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.