Greinasafn fyrir merki: trú

Málmhaus

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.

Mannsins vegna…

photo

Hljóðskrá að baki þessari smellu.

Fyrst er það upphafsspurning? Hver ykkar sem sitjið í kirkju í dag teljið að þið séuð alfrjáls í öllum efnum? Hver ykkar eru bundin af einhverju, þrælar einhvers, undir ofurvaldi einhvers? Leyfðu spurningunni um frelsi eða helsi að hvíla í hugskotinu – eða bak við betra eyrað í einhverjar mínútur.

Frelsisdrama

Á þriðjudaginn sátum við þrjú saman á Torginu í safnaðarheimilinu. Ég var farinn að huga að prédikunartexta dagsins og hugsa um hvað hefði forgang í lífi okkar. Í guðspjallinu minnir meistarinn á að hvíldardagurinn sé fyrir manninn en ekki öfugt. Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna. Við spyrjum um hvort sé á undan hænan eða eggið. Hvað er fyrst – hvað er mikilvægast og hvað setjum við í efsta sæti, í forgang?

Guðspjöllin segja frá ýmsum gerningum og andófi Jesú gegn þrældómi samfélags síns og presta vegna öfgafullrar helgidagalöggjafar. Jesú líkaði ekki og barðist gegn að settar væru óþarfa skorður um líf fólks sem ekki þjónuðu hamingju og hagsmunum þess. Hvort á manneskjan að þjóna formi eða formið að þjóna mönnum? Erum við þrælar einhvers í stað þess að njóta lífsins? Og enn og aftur má spyrja: Ertu frjáls eða þræll? Eða kannski frjáls í sumu og hamin í öðru? Jesús stóð alltaf með frelsinu. Hann var ekki aðeins frelsispostuli sem breytti menningarsögunni. Hann var og er frelsisguð sem gefur og vill að veröldin njóti. Hið kristna drama er frelsisdrama.

Ryðja burt hindrunum

Þegar við ræddum frelsi og helsi á Torginu komu tvær ungar konur til okkar. Þær höfðu fengið sér súpu og við heyrðum að það var gaman hjá þeim – þær hlógu svo hjartanlega. Mér varð að orði að það væri ánægjulegt að þær fögnuðu svona vel í kirkjunni. Þær tóku athugasemdum vel og sögðu að lífið væri svo skemmtilegt og engin ástæða til annars en að gleðjast. Önnur þeirra bætti við að það væri svo mikilvægt að ryðja því úr vegi því sem eyðileggur gleði í lífinu. Svo kom í ljós að þær höfðu verið að tala á líkum nótum og við sessunautar mínir höfðu verið að ræða við okkar borð. Lífið er dásamlegt, skemmtilegt og má vera það. En hvað hindrar, hvað eyðileggur lífsgleðina og veldur okkur vandkvæðum og blettar hamingjuna? Þetta var það sem Jesús glímdi við á sínum tíma. Þetta er verkefni allra kynslóða, allra manna – að greina ógnir frelsis og velja í frelsi það sem eflir og gleður. Erindi Jesú og líf hans var fólgið í að leysa fjötra, ryðja burt hindrunum, opna líf fólks til lífshamingju. Allt sem deyfir lífsgæðin þarf að hverfa.

Og Jesús sagði: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.“

Ertu frjáls? Þegar ég las lexíu, pistil og guðspjall þessa sunnudags fannst mér þeir leggja áherslu á leiðina frá hinu vonda til hins góða, frá helsi og til frelsis.

Lífsgæðalanghlaupið

Þrældómur fólks, menningar og þjóða getur verið með mismunandi móti. Eitthvað í menningu og samfélagsskipan getur valdið mismunun, kúgun, spillingu og mengun. Það getur líka verið eitthvað innra með okkur. Við getum verið matarfíklar, hömluð af áfengissókn eða lyfjasókn. Helsið getur verið sjálfsdýrkun og einhverjar sálarbeyglur. Í okkur getur búið mein – andlegt eða líkamlegt – sem við getum ekki eða höfum ekki náð að vinna með og losna við. Svo er hægt að týnast í fangelsi hluta og eigna. Sumir detta í lífsgæðalanghlaupinu. Aðrir eru þrælar ásýndardýrkunar og gera allt til að koma sér upp klisjumynd hins flekklausa sýndarveruleika. Þessi atriði – og önnur – geta orðið okkur vont yfirvald, ok sem Jesús talaði um. Þetta geta verið okkar “hvíldardagar” sem gefa enga hvíld, enga lífshamingju. En þessir persónulegu þrælapískarar eru ekki náttúrulögmál sem við þurfum að búa við og lúta. Berð þú ábyrgð á eigin lífi eða fær einhver annar eða annað að stjórna þér? Ertu frjáls?

Endurnýjun

Í tvær vikur hef ég tekið þátt í námskeiði sem hefur haft mikil áhrif á mig. Ég hef fastað. Fyrir hálfum mánuði kom hópur saman í heimahúsi á Tómasarhaga til að fræðast um mat og áhrif á líkamann og síðan hófst fastan. Þetta er ekki strangur kúr til að megrast heldur til að hreinsa og endurnýja líkamann. Maturinn er góður og engin er svangur. Við borðum ríkulega af grænmeti og ávöxtum en látum kjöt, fisk, kaffi, sykur og hveiti alveg vera.

Margt kom mér á óvart á þessari föstu. Ég hélt ég ætti erfitt með að láta kaffið vera og hina fæðuflokkana líka. En svo var ekki. Mér kom líka á óvart hve líkaminn brást vel við, að orkubúskapurinn breyttist og krafturinn varð meiri en áður. Svo breyttist ég hið innra líka. Ég notaði tækifærið til að vinna með mitt innra líf, líka hið tilfinningalega, vinnulega og félagslega. Og ýmsir fjötrar féllu.

Tveir flokkar fæðu – frumfæði og líkamsfæði

Föstustjórinn okkar, Margrét Leifsdóttir, hélt vekjandi íhuganir um samspil fæðu og annarra þátta lífsins og minnti á að líkamsfæðan er aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem eru okkur nauðsynjamál. Hún talaði um primary food og secondary food, grunnfæði og líkamsfæði. Hver er grunnfæða, frumfæðan? Ekki fiskur eða kjöt heldur aðalmál lífshamingjunnar: Í fyrsta lagi tengsl við fólkið okkar og ástvini. Í öðru lagi hreyfing – við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga. Svo er þriðji þátturinn vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn – og að mínu viti sá mikilvægasti – er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars. Frumfæða mennskunnar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt – og líkamsfæðan er svo hin fæðuvíddin. Hana þarf að vanda jafnvel og frumfæðuna.

Helsi eða frelsi

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? Eða vinnulífið? Hvernig er með fæðumálin þín – er kannski hægt að bæta þann þátt? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju. Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum? Form eða inntak, helsi eða frelsi. Hefur einhver lagt á þig ok?

Þrældómur er ekki lögmál. Þú þarft ekki að fylgja forskriftum annarra, hefðar eða kerfa. Þú þarft ekki að láta auglýsendur, framleiðendur, stórfyritæki eða almenningsálit stjórna þér. Hver stjórnar þér? Ertu við stjórnvöl í þínu eigin lífi eða ertu háður eða háð og undir ofurstjórn einhvers? Þú ert valdur og völd að hamingju þinni. Grunnfæða og líkamsfæða eru nærri en þú mátt velja. Og svo er Guð nær en hugur þinn, reiðubúinn að taka þátt í samtali, stuðningi og samvistum – gleði þinni. Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Þú getur rutt úr vegi hindrunum og verið frjáls af því Guð er máttur frelsis. Þú getur af því þér er gefið allt sem þú þarft til þess lífs. Mannssonurinn er herra hvíldardagsins, frumfæðu, líkamsfæðu – alls sem er.

Amen

Prédikun í Neskirkju 22. september 2013, 17. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B-textaröð.

Lexían; Jes. 1. 16-17

Þvoið yður, hreinsið yður.

Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum.

Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!

Leitið þess, sem rétt er.
Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður.
Rekið réttar hins munaðarlausa.
Verjið málefni ekkjunnar. 

Pistillinn: Gal. 5. 1-6

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Guðspjallið: Mark. 2. 14-28

Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?

Jesús svaraði þeim: Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.

Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.

Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?

Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.

Náttúruhátíð og heimsljósið

Hljóðskrá prédikunar á Jónsmessu

Messa hvaða Jóns er þessi Jónsmessa? Er það Jón Vídalín? Nei og ekki Jón Arason eða Jón Vilhjálmsson. Og ekki heldur Jón Gnarr. Messa Jóns er messa skírarans Jóhannesar Sakaríasonar, þess sem skírði bæði Jesú og fjölda fólks iðrunarskírn. Nafnið Jóhannes er til í mörgum útgáfum t.d. Jón, Hans, John eða Jon. Já, Jónsmessa er messudagur Jóhannesar skírara. Til hans er sjónum beint um allan hinn kristna heim á þessum tíma kirkjuársins. Lesa áfram Náttúruhátíð og heimsljósið