Greinasafn fyrir merki: þorskhnakkar

Þorskhnakkar í skinku

Þorskhnakkar eru hentugir í þennan spænska fiskrétt – og vafðir í góða Parmaskinku. Rétturinn er fljóteldaður – 45 mínútur – og öllum þykir þetta góður matur.

Fyrir 4

2 pakkar kirsuberja- eða kokteiltómatar

2 rauðlaukar

5 hvítlauksgeirar

1 lúka grænar ólífur

700-800 gr þorskhnakkar skornir í 4 bita

1 tsk fiskikrydd eða ½ tsk chilikrydd

4 hráskinkusneiðar

steinselja – eða dill

ólífuolía

salt og pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið rauðlauk og hvítlauk þunnt, tómata og ólífur í tvennt. Setjið í eldfast mót, 4 msk. af ólífuolíu, salt og pipar og blandið öllu vel saman. Bakað í ofni í 15-20 mínútur.

Kryddið fiskinn með pipar og smá chili (ef þið viljið bit) og pakkið síðan parmaskinku utan um hverja fisksneið og setjið þorskinn ofan á tómatana og aftur í ofninn í aðrar 15 mínútur – eða þar til þorskurinn er eldaður í gegn og parmaskinkan orðin aðeins stökk.

Stráið saxaðri steinselju eða dilli yfir fiskinn.

Berið fram salat með og gott súrdeigsbrauð til að skófla, þ.e. þurrka, upp dásamlegan vökvan (þetta sem Ítalir kalla scarpeda). Þau sem vilja geta soðið bygg eða hrísgrjón og haft sem meðlæti. 

Parmaskinkan gefur yfirleitt nægilegt saltbragð við bökunina.

Ég fékk uppskriftina úr mbl en breytti að eigin smekk. Uppskriftin er frá Mörtu Rún Ársælsdóttur sem greinilega er matgæðingur. 

Skinkuvafinn fiskur er þekktur og virtur kostur við Miðjarðarhafið. Og heitin eru alls konar og hér eru þrjár útgáfur: 

Ítalska Pesce avvolto nel prosciutto
Franska Poisson enrobé / en robe de jambon
Spænska Pescado envuelto en jamón

Dad gracias al Señor, porque él es bueno; porque para siempre es su misericordia. Amén.

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu, capers og ólífusmjöri

Ofurgóður þorskhnakki fyrir sælkera. F. 4.
100 gr smjör
50 gr. jómfrúarolía
6 ansjósuflök
2 msk capers
15 kalamata-ólífur
1/2 chilli-pipar
1 kg þorskhnakki
salt og pipar.
Setjið olíu og smjör í pott og bræðið smjör, lækið hitann og setjið söxuð ansjósflökin út í og látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smörið.
Bætið við kapers, smátt söxuðum chilli-pipar og ólífum eldið í áfram í 10 mínútur.
Skerið þorskahnakka í skammtastærðir og penslið með smjöri, salt og pipra. Grilla hnakkana undir ofngrilli – fiskurinn á að vera rétt ofan við miðjan ofn. Tilbúinn etir sjö-tíu mín. Raða á disk og hella smjöri yfir fiskinn. Berist fram með kartöflum – + grænmeti.
Þessi uppskrift er til í ýmsum útgáfum og með tilbrigðum – mig minnir að ég hafi fengið hana frá lækninum í eldhúsinu. 

Þorskur í puttanescasósu – kraftréttur vinnandi kvenna

Puttanescasósan er kennd við vinnandi konur í Napólí. Vinnandi konur eru alls konar og sósan er til í mörgum útgáfum. Ég nota fisk með þessari sósu en hún er oft notuð með kjúklingi eða pasta. Ég læt oft nægja að hafa grænt salat með. Kryddið er breytilegt og þegar graslaukur er nógur nota ég hann eða steinselju. Ofninn er settur á 180°C og svo er byrjað á vinnukonusósunni.

5 hvítlauksrif, pressuð

1 dós tómatdós – má notað kryddað tómatmauk t.d. m,eð basilíku, hvítlauk og oregano (400 g) þau sem vilja meiri sósu geta notað eina og hálfa dós. 

3 msk góðar ólífur

5-6 ansjósur smátt saxaðar

2 1/2 tsk kapers

1 tsk oreganó

1 tsk smátt saxað chili

2 msk basílíka fínt skorin

Hitið olíu í pönnu á meðalhita. Hvítlaukur og chili steiktur í 1 mínútu. Þá er ansjósunum bætt við og steikt áfram. Síðan fer tómatsósan yfir, þá ólífur, kapers og oreganó. Hrært lítillega og soðið á lágum hita þar grauturinn þykknar. Smakka til og salta og pipra að smekk. 

Ofnfast fat (ég nota tarínu) er smurt með olíu. Fiskstykkjunum ca 2 cm á þykkt er raðað í fatið, saltað og sósu hinna vinnandi kvenna síðan hellt yfir fiskinn. Fatið sett í ofn í 12 mínútur – eða þar til fiskurinn er tilbúinn.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Kíkið á fjölbreytnina á netinu – margar útgáfur. Hér er ein útgáfan:

 

Steikt­ur þorsk­ur með kremuðu byggi og rjóma-hvítvínssósu

Nýr þorskhnakki er dásamlegur matur. Kremað bygg og beurre blanc-sósa passa vel við.  Uppskriftin er miðuð við fjóra. Kolefnissporið er líka lágt með því að nota sem mest innlent hráefni. 

Þorsk­ur­

800 g þorsk­hnakki

10 ml steikingarolía

30 g smjör

Krydd og salt eft­ir smekk

Skerið þorsk­hnakk­ann í hæfilega bita. Steikarolía er sett á pönnu. Þegar pann­an er orðinn fun­heit eru þorsk­stykkin sett á pönn­una og steikt. Þegar önn­ur hliðin er orðin vel brúnuð er fisk­in­um snúið við. Þá er smjör­inu bætt á pönn­una og lokið við að elda fisk­inn. Steikingin ætti að taka um fimm mín­út­ur.

Kremað bygg

200 gr perlu­bygg (gerið svo vel að nota bygg frá Vallanesi. Það er dásamlegt. Meðfylgjandi mynd tók ég á akrinum í Vallanesi)

400 ml vatn

150 ml rjómi

50 gr par­mes­an

50 gr graslauk­ur

50 gr skalot­lauk­ur

Krydd og salt skv. smekk. 

Byggið er soðið í 20 mín­út­ur. Meðan byggið er soðið er graslaukur og skalottlaukur fínt saxaður. Rjómanum er síðan hellt í byggið og eldað þar til það byrjar að kremast. Þá er parmesanosti, graslauk og skalott­lauk blandað sam­an við og smakkað til með salti og pip­ar.

Beur­re blanc-sósan

200 ml hvít­vín

200 ml rjómi

200 gr smjör (skorið í kubba)

30 gr capers

Hvítvínið er soðið niður þar til lítið er eftir í pott­in­um. Rjóminn er þá settur í pottinn og saman við hvítvínsleifarnar. Þegar rjóm­inn byrj­ar að sjóða er smjör­inu hrært saman. Einn og einn smjörkubbur út í einu og hræra sem næst stans­laust. Bætið capers við í lokin og smakk síðan sós­una til með salti.

Blóm­kál­stopp­ar

1 stk blóm­káls­haus

20 ml olía

niðurrifinn parmesan

10 g salt

Skera blómin af stofni blóm­kálsins og gufusjóða í tíu mínútur. Hita ofn­inn í 180°C. Eftir gufusuðuna eru blómkálið sett í eld­fast mót. Oa, salt, parmesan og uppáhaldsgrænmetiskrydd sett á blóm­kálið og bakað inni í ofni í um það bil 10 mín­út­ur á 180°C hita.

Þessi réttur er afar bragðgóður en ekki litríkur. Ég mæli með að poppa með litum. Á sumrin þegar við ræktum bergfléttur og fjólur skreytum við salöt og mat með þeim. Á veturna er litríkt paprikusalat tækt, fallegt salatblað eða blöð eða eitthvað annað sem gleður auga og rímar við matinn. Svo eru litríkir diskar alltaf ævintýralegir.

Uppskriftin upprunalega í mbl og frá Úlfari Erni Úlfarssyni en ég lagaði hana skv. eigin smekk.  Myndina af bygginu tók ég í Vallanesi á byggakri Vallanesbænda og fjólurnar eru heimaræktaðar – og til átu. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Þorskur í paprikusósu

Þegar ég var búinn að puða í ræðuskrifum síðdegis skaust ég í fiskbúðina og keypti góðan þorsk. Tvistaði fiskuppskrift úr mbl. Skemmtileg uppskrift fyr­ir fjóra.

800 g þorsk­hnakk­ar

100 gr. smjör

1 stór gul­ur lauk­ur

6 hvít­lauksrif

2 rauðar paprik­ur

2 msk. tóm­at­þykkni – pa­ste

2 tsk. papriku­duft – notaði ofurlítið reykta papriku líka

1 tsk sumac

400 gr niðursoðnir tóm­at­ar

300 ml mat­reiðslur­jómi

1 tsk. grænmetiskraft­ur

1 msk. sæta t.d. hunang

salt og pip­ar

fersk­ur graslauk­ur að smekk

kirsu­berjatóm­at­ar

Skerið fisk­inn í pass­lega bita, saltið og piprið létt og setjið til hliðar.

Saxið paprik­ur, lauk og hvít­lauk fremur smátt og steikið á pönnu upp úr smjör­inu þar til allt mýk­ist.

Bætið við kryddinu, tóm­at­þykkni, niðursoðnu tómöt­unum og mat­reiðslur­jómanum á pönnuna og hleypið suðunni upp.

Kryddið með grænmetiskraftinum, sætunni, salti og pip­ar eft­ir smekk og leyfið að malla í 8-9 mín­út­ur eða þar til sós­an þykkn­ar vel.

Leggið fisk­bit­ana í sós­una og ýtið aðeins niður.

Dreifið kirsu­berjatómöt­um yfir eft­ir smekk og leyfa að sjóða við væg­an hita í 6-7 mín­út­ur eða þar til fisk­ur­inn er eldaður í gegn. Hægt að setja lok á pönnuna ef þið viljið að tómatarnir maukist og vökvinn verði meiri í réttinum. 

Stráið síðan fersk­um graslauk yfir og síðan eru herlegheitin borin fram.

Meðlæti góð hrísgrjón og grænt salat.

PS Meðmælanlegt: Hægt að nota sósuna og grænmetið í sósunni daginn eftir í rækjurétt. Tveggja daga matur og góður í bæði skiptin.