Greinasafn fyrir merki: þjónusta

Sjálfboðaliðar

Mér er minnistæð umræða í flugvél vestur í Bandaríkjum fyrir nokkrum árum. Nokkur glæsileg ungmenni komu sér fyrir við ferðarupphaf. Þau voru sólbrennd og áberandi vel á sig komin. Þarna virtist kominn íþróttaflokkur á heimleið. Einn úr hópnum settist við hlið mér, var óragur og spurði snaggaralega hvaðan ég væri og hverra erinda. Samtalið spannst auðveldlega og hann sagði að hann og félagar hans væru læknar, sem væru að koma frá Afríku. Þar hefðu þau verið í hálfan mánuð sem sjálfboðaliðar og stýrt miklu bólusetningarátaki. Mér þótti sagan áhugaverð. Jú, jú, hann viðurkenndi að það væri spennandi og merkilegt að ferðast um fjarlæga heimsálfu. En það væri þó ekki aðalatriði hjá þessum hópi. Sameigilegt markmið væri að láta gott af sér leiða.

Í ljós kom að þessi ungi læknir var ekki aðeins að líknarstarfi í Afríku í sínum frítíma. Heima lagði hann góðum félagsmálum lið með sjálfboðaliðastarfi. Tvo klukkutíma í viku var hann að störfum að félagsstarfi unglinga í hverfinu sínu. Af hverju? Það væri skylda hans að leggja mennskunni lið. Hann var gagnrýninn á samfélagsskipan, misskiptingu auðs, misrétti alls konar. Hann átti sjálfur allt til alls og gat veitt sér það sem hann þarfnaðist, en skylda hans sem manneskju væri meðal annars fólgin í því að verja tíma og orku til að byggja upp, það væri eðlilegur þáttur í trúrækni hans. Hann sæi ekki eftir því að vera í launalausu starfi, yrði raunar gæðaríkari og vonaðist til að hann gerði gagn.

Íhugunin lifði og mér var sagt síðar að það væru milljónir Bandaríkjamanna sem hefðu tamið sér að verja tíma til sjálfboðaliðastarfa af mismunandi tagi. Ég veit að margir af mínum gömlu háskólakennurum vestra og fóru úr fílabeinsturnum sínum til samfélagsþjónustu. Meira að segja Andy Warhol, sérvitringurinn, sem málaði hinar kunnu Marilyn Monroemyndir fór í dularklæðum til matvæladreifingar meðal götubarna. Bandarískt samfélag er með öðru sniði en hið íslenska og við getum ekki yfirfært kerfi að vestan, það sem mér finnst hins vegar mikilvægt er þessi mótaða sjálfboðaliðahefð. Þar er nokkur lærdómur fólginn, sem við getum dregið heim til okkar.

Kirkjan þarnast sjálfboðaliðanna

Starf sjálfboðaliða er mikilvægur þáttur kirkjustarfs og ein af forsendum trausts kirkjulífs. Þúsundir Íslendinga sinna slíkum störfum innan íslensku þjóðkirkjunnar. Milli tvö og þrjú þúsund eru í sóknarnefndum og líklega nærri fimm þúsund í kórum. Það er alveg sama hversu marga starfsmenn kirkjan og einstakir söfnuðir ráða til starfa. Sjálfboðliðastarf, eða ólaunað kirkjustarf fellur aldrei úr gildi. Því má jafnvel halda fram að kirkja sem ekki nýtur þjónustu sjálfboðaliða sé veil og veik. Þó íslenska kirkjan muni á næstu árum ráða æ fleiri til launaðra starfa mega launastörfin ekki útrýma sjálfboðaliðastarfi. Erindi hennar er slíkt og svo altækt, að sem flestir verða að koma við þá sögu. Kirkjan þarfnast ykkar, kirkjan þarnast sjálfboðaliða. Og hún þarf að afla fleiri og efla þá til starfa. Því þurfum við jafnan að spyrja okkur hvernig á að efla sjálboðaliða til starfa og tryggja, að þeir hverfi ekki frá störfum vegna óánægju eða brenni út. Hér á eftir verða nokkur atriði nefnd, sem þjóna því markmiði – og þau eru af hagnýtistaginu.

Þarfir og skýr verkaskipan

Þið eruð fólk með þarfir, sem muna verður eftir og taka tillit til. Þið eruð mikilvægar manneskjur en ekki ódýrt vinnuafl. Í hinum stóru söfnuðum kirkjunnar hittist hópur þeirra sem laun þiggja á fundum, sem sjálfboðaliðarnir sækja ekki. Launuðu starfsmennirnir taka flestar ákvarðanir um hvað gera skal og hvernig. Prestar og starfsmenn eru flestir mjög ásettir og hafa lítinn tíma aflögu fyrir sjálfboðaliðana. Gap á milli fólks myndast því snöggt ef ekki er að gáð.

Til að fyrirbyggja vandkvæði er mikilvægt að koma á skýrri starfsskipan og vinnufyrirkomulagi sjálfboðaliða. Til að starfsheildir dafni og eflist er nauðsynlegt að samhengi allra starfa sé skýrt, ljóst sé að hverju er unnið, hver markmiðin eru sem og leiðirnar.

Ef safnaðarstarfið er ekki skipulagt sem heild er mun líklegra að sjálfboðaliðastarfið verði í lausu lofti, tengslalítið og án festu. Það er eðlileg krafa sjálfboðaliða, að þeir fái í hendur skipurit og starfsskrá safnaðarins og geti séð starf sitt í því samhengi.

Tímarammi, yfirmaður og erindi

Þessu tengt er tímarammi. Mikilvægt er að sagt og ljóst sé, hversu lengi starf sjálfboðaliðans er vænst: Hvenær verkið hefst, hversu lengi í hvert sinn og hvenær því ljúki. Fólk á siðferðilega og hagnýta kröfu að vita, hvort um er að ræða tveggja tíma starf á viku, eitt síðdegi í mánuði eða þriggja daga törn á einhverjum ákveðnum tíma.

Þá er mikilvægt, að ljóst sé hver sé yfirmaður eða tilvísunaraðili. Hverjum starfsmanni ætti að setja skriflegt erindisbréf. Ef ekki er hægt að rita niður slíkt bréf er allt eins líklegt að annað sé óljóst í safnaðarstarfinu og öllum líði illa.

Manneskjan fyrst verkefnið svo

Ekkert mannlegt félag er svo illa komið, ekki kirkjan heldur, að ekki séu einhver óunnin verkefni. Freistandi er, þegar viljinn til verka er mikill en verkefnin óþrjótandi, að reyna að finna einhvern sem hægt er að lokka til starfa. Nútímasamfélagið vill gjarnan verkefnagreiningu, sem er skiljanlegt og réttmætt. En velferð kirkju sem og sjálfboðaliða krefst sértæks vinnulags – eiginlega þarf að snúa öllu á hvolf. Í stað þess að spyrja hvern sé hægt að virkja til þessa eða hins, ætti að byrja á fólki, hæfni þess og fegurð. Það er líklega gert hér, ef ég skil rétt.

Hvernig geta hæfileikar þínir orðið til sem mests gagns fyrir samfélgið?

Huga verður vel að líðan fólks og afstöðu. Margir vinna launalaust að góðu málefni árum saman af siðferðisástæðum einum. Það er vissulega göfugt og merkilegt. En best er þegar gagn og gleði fara saman. Fólk vinnur einfaldlega betur og lengur meðan það vinnur með skemmtilegu fólki, í góðum hópi og eflist sem einstaklingar. Reisið ykkur ekki hurðarás um öxl, takið ekki að ykkur verkefni, sem eru of erfið. Vissulega er ágætt að glíma við það sem eflir færni og þroska þess. Þegar munað er eftir vaxtar- og gleðiþættinum er líklegra að þú viljir starfa í mörg ár og smitir aðra með gleði þinni. Þetta sjá menn gerast í sterkum sjálfboðaliðahreyfingum.

Afmarkað verkefni en ekki allt

Fólk verður seint algerlega sammála um öll markmið og alla starfshætti kirkjunnar eða starfsmenn hennar. Þannig er og í smæstu og stærstu sóknum. En þó fólk sé ekki sammála öllu í kirkjustarfinu getur það lagt einhverju máli lið. Þú hefur kanski ekki jafn miklar mætur eða áhuga á öllu í söfnuðinum og starfi hans. Það þurfa prestarnir og annað forystufólk kirkjunnar að skilja. En kanski viltu leggja einhverju sértæku eða nokkrum starfsþáttum lið. Það er fullgott. Og þegar þú virkjar fleiri til liðs við verkefni þitt ertu ekki að biðja fólk um að vera í öllu starfi kirkjunnar, eða dragast inn í meira en beðið er um. Þetta er mikilvægt að muna.

Heiðarleiki

Heiðarleikinn er aðalatriði og einn meginþáttur hans er að rugla ekki, hvorki sjáfan sig eða aðra. Í kirkjulegum efnum gildir sem annars staðar: Blekkið ekki sjálf ykkur eða hvert annað. Gerið ykkur skýra grein fyrir umfangi vinnu og álags. Ef þörf er á kvöldfundi í hverri viku í 66 vikur er afar mikilvægt að það sé sagt í upphafi. Ef verkefnið krefst fjögurra helga á ári er nauðsynlegt að það sé klárt frá byrjun. Sjálfboðaliðar mega aldrei fá tilfinningu fyrir að kirkjan táldragi. Afstaðan „þetta tekur engan tíma“ er ekki góð, heldur er mikilvægt að raunveruleikinn sé klár. Ef fólk almennt sýnir áhuga en víkur sér undan verkum vegna þess að það hefur ekki svo mikinn tíma, er ráðlegt að finna fremur verk handa því sem eru ekki eins tímafrek. Þú ert ekki neydd eða neyddur til starfa. Og starf kirkjunnar á allt að vera starf í frelsi og til gleði. Þá verður að muna eftir ábyrgð. Að taka að sér ákveðinn þátt þýðir ekki að þú eigir þar með að ganga í öll störf.

Í upphafi starfs

Það er mikilvægt að muna eftir því að þegar maður byrjar í nýju verkefni eða starfi þarnast maður sérlegs stuðnings eða aðlögunar. Oft gera menn þá skyssu fá einhvern til að setjast í stjórn, taka kosningu í nefnd eða lofa að sinna einhverjum starfsþætti og svo er ekkert gert til að hjálpa fólki að taka fyrstu skrefin. Sjálboðaliðar þurfa þjálfun, upplýsingar og stuðning. Kirkjan má ekki vera eins og net sem veiðir og hendir síðan aflanum hugsunarlaust í starfspottinn. Æskilegt er að margir hópar sjálboðaliða séu að störfum í söfnuðum, alla vega þeim fjölmennari. Ef svo er er nauðsynlegt að hverjum hóp sé settur tengill sóknarnefndar til halds og trausts. Þetta er ómetanlegt. Þetta þjónar starfsgæðum og starfsgildi en einnig einstaklingsvexti, og gefur ykkur einnig aukið öryggi í störfum. Þetta er þekkt meðal þeirra sem sinna æskulýðsstörfum, en ætti að innleiða gagnvart fólki á öðrum starfssviðum kirkjunnar. Þið þurfið og eigið að fá stuðning og ráð.

Sjálfboðaliðar eru fólk með þarfir og réttindi

Starf sjálboðaliða er ekki sjálfsagt mál. Það ber að þakka, sem má gera á margvíslegan hátt. Þið sem eruð starfsmenn safnaðarins: Sýnið sóknarnefndarfólkinu og sjálfboðaliðum þá virðingu að grennslast fyrir um starf þeirra, hvernig gangi, hvernig sé hægt að efla þau til starfa. Misvirðið aldrei fólk á þann hátt að stinga skýrslu ólesinni eða án viðbragða í tunnu eða tætarann. Finnið fólki verk við hæfi. En umfram allt munið að þið erum öll fólk sem gerið ykkar besta, en þið þurfið að fá strokur, huggun, klapp og einnig gagnrýni. Vettvangurinn er mikill og stór og það er rúm fyrir ykkur öll og þið hafið öll hlutverkum að gegna. Þetta er og í anda okkar lúthersku kirkjudeildar. Lúther minnti gjarnan á að bóndinn og húsmóðirin gerði jafn mikið gagn og presturinn. Allir hafa hlutverkum að gegna til góðs fyrir fólk og kirkju.

Kirkjan þarnast þín – ykkar allra.

 

Skot í mark

skot í mark

Sumardagurinn fyrsti, kosningar og messudagur hafa fléttast saman. Í dag er Sara Karítas skírð og svo gifti ég hér í kirkjunni eftir hádegið á fimmtudeginum og allt hefur orðið að fléttu í mínum huga.

Sumardagurinn fyrsti er gjafadagur á mínum heimili. Drengirnir mínir fengu boga í sumargjöf. Boginn er fallegur, leðurbryddaður, úr góðum viði og fer vel í hendi. Drengirnir voru spenntir og fengu úthlutað skotsvæði. Ég hreifst af spenningi þeirra og vildi miðla þeim hvernig á boga er haldið, hvernig líkama er beitt, hvernig ör er haldið við streng og hvernig hún á að liggja. Bogmennska er list. Bogfimi þarfnast þjálfunar, spenna þarf boga hæfilega svo örin fljúgi rétt og í passandi sveig. Þegar skotið er um langan veg þarf að áætla fall örvarinnar miðað við fjarlægð og skotstyrk. Þessi viska bernskunnar rifjaðist upp við að kenna skottæknina.

Á fyrsta skotdegi voru drengirnir þó ekki tilbúnir til mikils náms. Þeir vildu helst bara skjóta og var alveg sama um skotstíl og tækni. Í upphafi var ekki þörf á mikilli kennslu heldur að taka þátt í gleðinni. Þjálfun, ögun og framfarir koma seinna og smátt og smátt. Nú, nokkrum dögum síðar, eru þeir tilbúnir til að læra ný trix og sjá bogmennsku í nýju ljósi. Þeir hafa gert sér grein fyrir takmörkum sínum og bætt skotmennskuna með því að læra og taka leiðbeiningum.

Markhittni verður ekki nema með æfingum, elju og þolinmæði. Bogfimi er líka mál hins innri manns og hvernig þessum tækjum er beitt gagnvart lífi og í umhvefi. Þetta skilja þau sem stundað hafa af kappi einhvera íþrótt eða agaða list. Að skjóta er lítið mál, að skjóta nærri marki er meira mál en að hitta í mark oft og reglulega er mál ögunar og samstillingar anda og líkama. Og þetta er baksvið umræðu um guðspjall og kosningar.

Í kjölfar kosninga
Dagurinn eftir kjördag. Við erum mörg búin fara “í kjósina” – eins og ferð á kjörstað er kölluð á mínu heimili – og skjóta okkar atkvæði í kassann í kjörklefanum. Þar vorum við ein og x-uðum í samræmi við okkar samfélagslestur, mark og mið. Í kjörklefanum vorum við ein en í úrslitum erum við þjóð. Við erum aðilar að vali og leggjum okkar til og skrifum okkar x en síðan er unnið úr samkvæmt lögum og leikreglum hefðarinnar.

Guðspjallstexti dagsins er hnyttinn og við hæfi á sunnudegi eftir kosningar. Í textanum segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður.“ Kjósendur hafa útvalið – sett x-ið. Nú eru komin úrslit. Þau ber að virða. Markmið stjórnmála og þar með kosninga er að skipa málum og stjórn í samræmi við réttlæti og hlutverk fulltrúa almennings er að þjóna vilja fólks. Stjórnmálamenn eru þjónar. Aðferðin er að almenningur í landinu velur fulltrúa sína en það eru ekki stjórnmálaöflin sem eiga að velja sér Ísland.

Í guðspjallstexta þessa 4. sunnudags eftir páska er speki og hafdjúp visku sem hentar á tímanum að baki kosningum. Og hentar reyndar alltaf því boðskapurinn er: Elskið hvert annað. Niðurstaða, erindi og boðskapur kirkjunnar á þessum degi er elska, umhyggja og þjónusta. Og Jesús lagði meira segja svo mikla áherslu á ástina að hann minnti á hina algeru þjónustu sína. Hann væri tilbúinn að fórna sér, öllu, – líka lífinu. Lífið sjálft er hið mesta dýrmæti og þegar fólk er tilbúið að fórna lífinu verður ekki sterkar elskað.

Elska og þjónusta
Skiptir afstaða fólks í þjónustustörfum máli? Fólk getur gegnt opinberum störfum og lokið ýmsum verkum þó það hafi í sér litla umhyggju og sé jafnvel í nöp við þá sem það starfar fyrir. Fólk getur líka misskilið hlutverk sitt eða reynt að umbreyta því í annað en það er.

Stjórnmálastarf er þjónustustarf en ekki starf yfirráða. Það er starf í þágu samfélags og réttlætis þess. Embættisstörf eru störf í þágu annarra en ekki störf sem veita heimild til að stjórna stjórnunar vegna. Markmið ráðuneyta og opinberra stofnana er ekki að stýra málum eða til að veita embættismönnum möguleika til að láta ljós, snilli, og visku sína skína sem skærast. Hlutverk hins opinbera er stuðla að réttlæti, fara að lögum og hlýta vilja almennings í landinu og ganga erinda hans. Og það er ekki aðeins í skotæfingum ungsveina sem marks er misst. Svo er einnig í pólitík, í störfum hins opinbera, já hvarvetna þar sem fólk er – að skotið er fram hjá marki.

Því er ábending Jesú svo mikilvæg – boðið um elsku. Þjónustan verður ekki alger nema elskan stýri og móti. Elskan, kærleikurinn, þjónustuviljinn gerir kraftaverk í þjónustustarfi. Í nýjum stjórnarsáttmála ætti að vera elskuákvæði. Ráðherrar eiga að elska fólk í landinu en líta ekki á það sem stjórnviðfang. Stjórnvöld eiga að beita sér fyrir að samfélagi séð þjónað með kærleika og réttlæti að leiðarljósi. Ég óska eftir að næsta ríkisstjórn verði elskuleg stjórn – ástarstjórnin 2013-17.

Ungt fólk gekk fyrir altarið á fimmtudag og sagði já og svo kysstust þau hjartanlega. Þau eiga ástina í hjarta og sambandið blómstrar. Sara Karítas var borin að skírnarlauginni áðan og Guð segir sitt stjóra elskujá. Hún er elskuð og velkomin. Og það skiptir máli hvernig líf þessa fólks er og hverngi það lifir og fer með líf sitt.

Skotmennskan
Þegar ég fór að aðstoða skotmennina ungu og skoða bogfimi þeirra kom í ljós að þeir vildu vel, reyndu að skjóta vel. En þeir kunnu ekki bogfimi. Þeir gerðu mistök og uppgötvuðu að þeir gætu lært af öðrum sér til eflingar. Drengirnir verða kannski ekki jafnokar Kyoto-bogmanna, meistara bogfiminnar. En mér er í mun að mínir karlar læri að skjóta eins vel og þeim er fært, læri að samstilla hug og hönd, læri siðfræði bogmennskunnar og þar með gæti að því að meiða aldrei og særa aðra með ógætilegum skotum. Bogmennskan er ögunarmál. Svo er einnig um pólitíkina og samfélagsmál. Það verður ekki sátt í landinu ef stjórnvöld starfa ekki í anda umhyggju og réttlætis. Stjórnvöld eiga að hitta í rétt mark. Ef ekki – fer illa, eins og dæmin sanna í pólitík og samfélagsrekstri áratuganna.

Missa marks eða hitta
Gríska orðið að syndga, drýgja synd, er hamartía, άμαρτία. Það orð kemur upprunalega úr máli íþróttanna en rataði í heimspekirit t.d. Aristótelesar og einnig í Nýja testamentið. Hamartía merkir að skjóta fram hjá. Að syndga er að hitta ekki og vera misheppnaður. Þegar menn gera mistök í lífinu brenna menn af. Í einkalífinu, í vinnu og í samfélagi klúðrum við stundum málum og skorum ekki. Þá daprast lífslán og lífsgæði skerðast. Í pólitík er hægt að skjóta illa fram hjá, þá verður óréttlæti og hrun. Í stjórnsýslu er hægt að skjóta fram hjá þegar þjónustan verður ekki í samræmi við lög og réttlæti og tapar ástinni. Í einkalífinu getur þú syndgað þegar þú bregst þér eða öðrum, gerir rangt eða aðhefst ekki þegar þér er skylt. Í huganum missir þú marks, syndgar, þegar þér tekur rangar ákvarðanir.

Kosningar veita tilefni til ígrundunar um þjóðarkúltur og lífshætti. Þegar menn hitta ekki í afstöðu og samskiptum við aðra menn fer illa. Það er hamartía, skortur á fagmennsku og klúður. Verst er þegar menn halda fram hjá sjálfum sér og tapa þar með tengslum við Guð og lífið.

Í lífi og samfélagi gerum við oft mistök, tökum rangar ákvarðanir og pönkumst í röngum málum. Við gerum tilraunir sem mistakast og skjótum jafnvel langt frá markinu. Hvað er til ráða: Elskið, elskið, elskið. Þar er hin sanna pólitík, sanna bogmennska, samfélagssalvi og til blessunar. Ástin lifi – því hún er frá Guði. Skot og mark.

Amen

28. apríl, 2013 – 4. sunnudagur eftir páska.

Fjórði sunnudagur eftir páska (Cantate)

Textaröð: B

Lexía: 5Mós 1.29-33
Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.