Greinasafn fyrir merki: sesam

Lakkríslax með sesam

Við Elín, skemmtilega konan mín, fórum á stefnumót við laxá. Við mokveiddum – 19 laxar á einum og hálfum degi. Elínu finnst betra að veiða vel. Og alltaf er tilefni til að fagna og þegar landburður er kominn í kokkhúsið er ráð að bjóða fólkinu sínu til veislu.

Öll börnin mín voru á landinu og bænum. Þau komu í mat, tengdasonur líka. Þau eru matgæðingar og gaman að gefa þeim eitthvað sem þau hafa ekki bragðað áður. Lakkrís – þ.e. anís – og sesam og fleira gott voru í uppskrift kvöldsins.

Laxaflak bein- og roðflett og skorið í hæfileg stykki.

Blanda saman ólívuolíu, tamarisósu og agave (hlutföllin 3 msk, 1 msk, 1 tsk – í þessari röð). Laxastykkin sett í blönduna og gjarnan látin standa í 1 klukkustund. Látið síðan drjúpa af fiskinum – en ekki þerra.

Strá anísfræjum og sesamfræjum yfir og einnig salti – helst Maldon – og pipar að vild.

Lagt á rist í vel heitan ofn í 8 mínútur eða á grill í 4 mín – eða þar til fiskurinn er steiktur. (Líka hægt að setja í eldfast fat).

Meðlæti salat, steiktar kartöflur eða hrísgrjón eða bulgur. Nú svo er hægt að nota poleraða Vallanesbyggið – það er dásamlegt. 

Köld jógúrt sósa með ferskum kryddjurtum, smá sítrónu, salti og pipar. Grísk jógurt hentar ágætlega. Sinnepssletta (t.d. hunangsdijon) má gjarnan líka fara í sósuna.

Þessi uppskrift hentar ágætlega fyrir alla aldurshópa og reynslan sýnir að börn og unglingar borða hana fúslega. Ég hef eldað þennan rétt fyrir tugi í fermingarfræðslu og foreldra fermingarungmenna. Sló í gegn ;).

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.