Greinasafn fyrir merki: Marta Elísabet Stefánsdóttir

Myndin af Hallgrími Péturssyni

Nágranni minn var að taka til heima hjá sér, grisja og taka niður myndir af vegg. Hann sá mig ganga fram hjá og hljóp út og kallaði til mín. „Má bjóða þér Hallgrím Pétursson?“ Ég sneri mér við og hváði. Svo kom hann út með prentaða mynd Samúels Eggertssonar teiknara og vildi færa mér þar sem ég þjónaði nú kirkjunni sem kennd væri við Hallgrím. Ég þáði með þökkum og þótti vænt um þennan kærleiksgjörning. Takk Sölvi.

Myndina gerði Samúel fyrir meira en öld síðan. Árið 1914 voru þrjú hundruð ár liðin frá fæðingu skáldprestsins og var hún prentuð að gefnu því tilefni.

Myndinni var ætlað að sýna hvernig Passíusálmarnir hefðu haldið nafni Hallgríms á lofti. Og þar sem myndin var prentuð í talsverðu upplagi varð hún stofustáss á heimilum um allt land.

Á súlunum og prédikunarstólnum eru vers úr Passíusálmunum. Á reitum báðum megin við prédikunarstólinn eru svo hendingar úr ljóði Matthíasar Jochumssonar um Hallgrím.

Á undirstöður súlnanna er skráð:

Þú skildir Kristí kvalaraun

Á krossins trúðir sigurlaun.

Þú vildir líða líkt sem hann

og lifa fyrir sannleikann.

Höfundur þessarar umsagnar var Marta Elísabet Stefánsdóttir en hún var eiginkona Samúels.

Himinboginn yfir Hallgrími táknar útgáfufjölda Passíusálmanna. En 1914 höfðu komið út 43 útgáfur frá því sálmarnir voru fyrst útgefnir á árinu 1666. Eftir það hafa sálmarnir verið gefnir reglulega út og nú 103 árum seinna er fjöldi útgáfa að nálgast eitt hundrað.

Samúel gerði stofuspjald til heiðurs Hallgrími. Kannski er nú komið að því að listamaður samtímans geri nýtt spjald fyrir nýja tíma? Eða verður það vídeóskot á samfélagsmiðlunum?