Greinasafn fyrir merki: kyndilmessa

Kyndilmessa – veðrið í ár og heimsljós

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu.
Snjóa vænta máttu mest,
maður upp frá þessu.

Sól á kyndilmessu merkti skv. íslenskri þjóðtrú að vetrarlegt yrði áfram en sólarleysið væri fremur spá um þokkalegt veður næstu vikurnar. Mamma hafði oft yfir þessa vísu á kyndilmessu. Hún var frjáls í túlkun og varaði við að skilja vísuna of bókstaflega. Hún bætti raunar við að reynsla kynslóðanna hefði verið formgerð í vísunni og hægt væri að hafa gaman af að skoða hvort stæðist.

Á þýsku er kyndilmessa Lichtmeß og til er meðal þýskumælandi hliðstæð veðurvísun: „Sonnt sich der Dachs in der Lichtmeßwoche, so geht er auf vier Wochen wieder zu Loche.“ Í Englandi er til svipuð veðurvísun og á Íslandi og kemur fram í: If Candlemas is fair and clear / there’ll be twa winters in the year.“ Merkingin er sú að ef dagurinn er sólbjartur verði vetrarnapurt lengur en venjulega það árið. Á dönsku er hins vegar umsnúið: „Sne og uvejr på denne dag lover tidligt forår“ Illviðri á kyndilmessu sé ávísun á að vorið komi snemma.

Á kyndilmessu eru 40 dagar eru frá fæðingu Jesú Krists. Nafn messudagsins vísar til ljóss. Meðal kaþólskra hefur dagurinn líka verið hreinsunardagur Maríu, móður Jesú og í samræmi við 3Mós 12.2-4 að kona væri talin flekkuð í fjörutíu daga eftir að hún hafi fætt. Á kyndilmessu var og er gjarnan íhuguð fyrsta koma Jesúbarnsins í musterið í Jerúsalem. Óháð veðri eða verðurspám er dagurinn notaður í trúarlegum tilgangi til að íhuga heimsljósið, hvað er best í lífinu og hver lýsi okkur lífsleiðirnar.

Kyndilmessa