Greinasafn fyrir merki: Kórónaveira

Kórónaveiran er að breyta útfararsiðum Íslendinga til frambúðar

Sóknarprestur í Hallgrímskirkju er viss um að útfararsiðir Íslendinga muni breytast til frambúðar af völdum þeirra samkomutakmarkana sem hafa verið í gildi vegna kórónuveirufaraldursins.

Séra Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, kveðst sannfærður um að útfararsiðir Íslendinga muni breytast til frambúðar af völdum þeirra fjöldatakmarkana á samkomuhaldi landsmanna sem verið hafa við lýði mikinn hluta þessa árs.

Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Árna í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi, en þar segist hann hafa orðið þess áskynja að æ fleiri landsmenn séu að verða vanir – og sáttir – við einfaldar og fámennar útfarir.

Fólk sé að uppgötva það í ríkari mæli að hægt sé að kveðja ástvin sinn áþekkt því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum, þar sem aðeins nánasta fjölskyldan kemur saman á útfarardegi. Það sé ekki lengur jafn sjálfsagt og áður að kalla til mörg hundruð manns úr nærumhverfinu á þessum kveðjustundum, svo sem þekkst hefur frá því gamla sveitasamfélagið var og hét á Íslandi, heldur geti það allt eins verið persónulegra og þægilegra að efna til fámennrar útfarar.

Hér skipti kostnaðurinn við útförina líka miklu máli, en hefðbundin, fjölmenn útför þar sem fjöldi listamanna kemur fram og efnt er til mörg hundruð manna erfidrykkju á eftir, sé mörgu fólki ofviða af augljósum ástæðum.

Af þessum sökum, segir séra Sigurður Árni, muni æ fleiri landsmenn kjósa það eftirleiðis að kveðja ástvin sinn í fámennum athöfnum nánustu ættingja, í anda þess sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Tónninn hafi verið sleginn til frambúðar; fólki finnist það ekki lengur óeðlilegt eða bera vott um virðingarleysi að kveðja ástvin í þröngra vina hópi, í stað þess að fylla kirkjuna af fjarskyldara fólki með tilheyrandi umstangi og kostnaði.

Fjöldatakmarkanir á tímum kórónaveirufaraldursins kalli fram nýja siði.

Viðtal við Sigmund Erni Rúnarsson á Hringbraut 3. nóvember. Sjá frétt í Fréttablaðinu.  

Myndina tók ég af líkkistu sem ástvinir höfðu þrykkt handarförum sínum á.