Greinasafn fyrir merki: Jesúsalmeför

Trúir þú á Guð?

trúHvað áttu mörg andartök eftir af þessu lífi? Andartökin eru vegna lífsins, nauðsynleg lífi manna og þegar lífi lýkur verða síðustu andartökin. Í prestsstarfinu hef ég kynnst fólki sem hefur kviðið þeirri stundu að finnast það vera kafna. Sum hafa sagt mér að þau óttist meira tilfinningu andnauðarinnar en því að lífið fjari út. Hvaða afstöðu hefur þú gagnvart dauða og málum eilífðar og trúar?

Jerúsalemferðin

Jesús var á leið til loka. För hans til Jersúalem er erindi dagsins. Síðustu andartök hans. Hann glímdi við erindi sitt, hlutverk í lífinu og trú sína. Við förum okkar ferðir. Jerúsalemgöngur eru okkar líka. Og ekkert okkar víkur sér undan lífslokum. Hvað gerist þegar þú tekur síðustu andartök þín? Er lífið þér þá búið? Áttu þér framhald eftir dauða eða trúir þú ekki að til sé framhaldslíf, eilíft líf?

Hljóðgangann og 640

Á listahátíð í ár var merkilegt leikverk flutt, Engram, sem var svonefnd hljóðganga um Hallgrímskirkju. Ég var svo lánsamur að njóta þeirrar áhrifaríku hljóðgöngu. Þau sem sóttu sýninguna fóru ekki í leikhús heldur komu í anddyri kirkjunnar. Þar fengum við heyrnartól og vorum beðin að setjast aftast í kirkjunni sunnanmegin og bíða raddar í heyrnartólunum. Við settumst öll niður innan um alla ferðalanga veraldar. Við vorum einn hópur af mörgum. Svo var þarna líka stór hópur stúdentsefna Kvennaskólans sem voru að æfa skólaslit. Við biðum átekta í sætum okkar, drógum djúpt andann, fundum til kyrrðar í kirkjunni en líka eftirvæntingar. Við vissum að við myndum verða leikendur í þessari sýningu og óvíst hvað við ættum gera, vera inni eða úti, upp í turni eða segja eitthvað frammi fyrir öðrum.

Svo byrjaði rödd að tala, blíð og hlý. Við fengum strax að vita að við tækjum þátt í ferðalagi – engu venjulegu ferðalagi heldur síðusta hluta æfinnar. Svo drógumst við inn í sögu sem varð brátt okkar saga og gerðum okkur grein fyrir að við ættum stuttan tíma eftir ólifaðan. Og ónotatilfinning hríslaðist um mörg okkar þegar okkur var sagt að við værum að deyja. Við ættum aðeins 640 andardrætti eftir. Hvað er það langur tími? Hjartað fór að slá hraðar. Síðan var áleitin saga sögð og við urðum hluti þeirrar sögu og höfðum hlutverkum að gegna í framvindunni.

Handritið var algerlega aðlagað kirkjuhúsinu og kirkjunni var vel lýst. Okkur var vísað út um neyðardyrnar á suðurveggnum í miðju kirkjuskipinu. Við fórum öll út og tókum þátt í gjörningi sunnan kirkjunnar. Svo var okkur boðið að fara út á Hallgrímstorg. Sögumaður hljóðleiksins lýsti fyrir okkur ferðamönnunum umhverfis okkur og við fengum að vita að andartökum okkar fækkaði. Saga sem sögð var grópaðist í sálina og við fundum til djúprar samsemdar með söguhetjunum sem við fylgdumst með. Tvö hundruð andardrættir eftir.

Við héldum áfram þessari undarlegu för mót endi og dauða, fórum á steinasvæðið norðan við Leifsstyttuna og þar áttum við aðeins þrjátíu andardrætti eftir. Svo var komið að lokum. Þegar við áttum eftir nokkra andardrætti vorum við beðin að snúa okkur að kirkjunni. Þegar við tókum síðustu andartökin skein sólin við okkur vinstra megin við turnspíruna. Við fundum fyrir hlýju sólarglennunnar, fyrir síðustu lífsmörkunum og svo tókum við síðasta andartak lífsins. Þar með var öllu lokið.

Þeirri reynslu verður ekki lýst og ekki heldur framvindu og fléttu sögunnar. En ég – og mörg önnur – upplifðum dauða og síðan upprisu. Reynslan var mögnuð – og ég gekk inn í kirkjuna þakklátur fyrir lífið og dýrmæti þess, undur og blessun. Ég var þakklátur fyrir að líf mitt er líf með Guði. Ég trúi á Guð sem umfaðmar okkur menn á lífsgöngu, gefur okkur andartök og er inntak lífs í lofti og loftleysi. Hvað gerir þú við andartökin sem þú átt eftir af lífinu? Hvernig leið þér þegar ástvinur þinn lést og þú heyrði síðasta andartakið?

Trúir þú?

Þegar dauðinn sækir að fólki opnast oft sálargáttir. Vitund fólks opnast gjarnan og vert er að virða hugsanir og tilfinningar gagnvart dauða. Samtöl við syrgjandi fólk rista oft djúpt og sum eru á himindýptina og alltaf lærdómsrík. Mörg eftirminnileg samtöl hef ég átt við fólk sem þoldi og þorði að glíma við eigin ótta, virti vonir sínar og spurði stórra spurninga. Eitt sinn ræddi ég við konu sem í skugga vinarmissis talaði um trú sína, sorg og líf. Allt í einu beindi hún orðum sínum að mér og spurði: „Trúir þú á Guð?“

Þegar ég er spurður þessarar spurningar lít ég svo á að fólk sýni mér tiltrú og traust til að tala um dýpstu hjartans mál. Trúarspurningin er eðlileg og flestir fara einhvern tíma á æfinni yfir eða meta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð. Þegar fólk hugsar um afdrif látinna ástvina og vill tala við prestinn um þau mál er ekki einkennilegt að spurningin hljómi. En hvort ég, presturinn, trúi á Guð kemur mér þó samt alltaf svolítið á óvart. Svarið er margmetið og margyfirfarið já. En ekkert er sjálfgefið í málum átúnaðar. Trú er gjöf, trú varðar tengsl og trú er traust. Menn geta bilað og brotnað og ég get líka tapað trausti og tengslum við Guð. En ég get ekki verið prestur kristinnar kirkju ef ég tapa trúnni, tengingu við Guð. Ég myndi segja af mér prestsþjónustu ef ég missti trúna. Guðssamband er ekki fasteign eða fasti heldur lifandi samband.

Ástarsamband

Ég skýrði út fyrir konunni að trú væri í mínu lífi ástarsamband, ástalíf og kærleikssamskipti. Ást getur dvínað og trú getur horfið rétt eins en ást í tengslum getur líka dafnað og trú getur styrkst. Trúin er samband lifandi aðila við annan rétt eins og ástin er lífssamband. Og konan spurði: En biður þú? Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir t.d. óhugsandi að tala ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Og þannig lifi ég trú sem hin dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín, nær en andartök mín eða hjartsláttur. Guð er inntak vitundar minnar, en líka máttur efnahvarfa og líkamsstarfsemi minnar. Anda Guðs upplifi ég alls staðar, ekki aðeins í ferlum náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni.

Svona upplifi ég og túlka veruleika Guðs – og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Og efinn og trúin eru í mér nánar systur og vinir. Efinn, kraftmikil gagnrýni og háskólanám urðu mér veganesti til að gera upp það sem mér sýnist úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er að mínu viti ekki mál og því síður vandamál trúarinnar. Trúmenn nútíma fagna nútímavísindum, ekki til að trúa blint heldur trúa vitlega. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð með Guði. Biblíuna þarf að lesa með köldum en frjálsum huga og trúarlærdóma þarf að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki óbreytanleg og verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því á að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum og opnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi valdi því ég tek mark á Jesú Kristi. Ég trúi honum og fylgi honum. Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. En Guð stressar sig örugglega ekki yfir óvitaskap okkar manna – held ég – þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð.

Til lífs
Konan spurði mig um trú mína. Jesús Kristur stefnir til Jerúsalem. Ferðamennirnir og sóknarfólkið í Hallgrímskirkju vill góðar ferðir í lífinu og spyr um tilgang lífsins. Allir anda en mæta að lokum dauða. Og mig langar til að spyrja þig um trú þína á þinni vegferð. Hvernig er trú þín eða vantrú? Þegar þú missir ástvin þinn, hvernig túlkar þú för hans eða hennar? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Nú áttu nokkur andartök eftir af lífi þínu. Og mátt æfa þig í að taka síðasta andartakið. Hver ertu? Trúir þú að einhvern tíma ljúki lífi þínu? Hver verður þú þá? Hverju trúir þú? Trúir þú á Guð?

Hallgrímskirkja, 2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 14. júní, 2015, B-röð.

  1. sd. e trin. Textaröð: B

Lexía: Okv 9.10-12
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31

Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62

Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.