Greinasafn fyrir merki: Ísraelar

Deyja Kain og Abel báðir?

Íhugun dagsins er um átök Kain og Abel. Harmsaga þeirra er sem þrástef í sögu þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs og læðist inn í huga minn þegar Ísraelar og Palestínumenn fremja hryllingsverk liðna daga og fimm hundruð manns deyja í sprengingu í sjúkrahúsi á Gaza. Er óumflýjanlegt að blóð bræðra, kvenna og barna renni úr svöðusárum og í jörð allt til söguloka mannkyns? Í fjórða kafla 1Mós er þetta vers: „Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann.“ Kennimenn Gyðinga hafa löngum vitað að þessi hörmulega bræðrasaga er erkisaga og þar með táknsaga um deilu hópa og þjóða. Stríð Kain og Abel geisar enn í deilu Palestínumanna og Ísraela. Í gyðinglegu riti sem var skrifað fyrir upphaf Íslandsbyggðar var deila þeirra íhuguð og spurt um hvað þeir hafi rifist. Upphafið var að þeir ákváðu að skipta heiminum á milli sín. Sem sé hroki og sókn í vald og ríkidæmi. Það að fara yfir rétt og siðleg mörk. Annar tók landið og hinn tók lausafé. Annar sagði: „Ég á landið sem þú stendur á.“ En hinn sagði: „Ég á fötin sem þú ert í. Farðu úr þeim.“ Af varð rifrildi og Kain drap bróður sinn. Báðir fóru offari og þá kemur dauðinn snarlega. Svo eru til aðrar sögur um að bræðurnir hafi báðir dáið í átökunum. Það er hin hörmulega staða Ísraela og Palestínumanna. En er einhver önnur leið en að annar falli eða báðir? Er þjóðarmorð eina lausn stríðsins. Eða geta báðir lifað og lært að virða gildi hins og þeirra fólks? Er það ekki eina raunhæfa leiðin, að breyta stríðstólum í ræktunartæki og læra að elska ekki bara börnin sín heldur líka börnin í landinu.

Myndina tók ég við grafirnar í Jerúsalem vestan í olíufjallinu nærri Getsemanegarði.