Greinasafn fyrir merki: Guð

Landsbjörg, mannbjörg – heimsbjörg

Bandaríski listamaður­inn Joey Syta var í heimsókn á Seyðisfirði síðastliðið vor. Hann fór í gönguferð en villtist. Hann klifraði upp hlíðar og fór yfir fjöll. Villuráfið endaði í Loðmundarfirði sem er norðan við Seyðisfjörð. Þar hrapaði hann og rotaðist. Þegar hann vaknaði til meðvitundar gerði hann sér grein fyrir að hann væri það illa meiddur að hann væri ófær um að ganga til baka. Síminn hans náði engu sambandi svo hann gat ekki hringt. Hann varð því að bíða og vonaði að farið yrði að leita að honum. Það sem átti að verða hressandi gönguferð í íslenskri undraveröld varð að fimm daga útlegð – vosbúð í marskulda – í íslenskum eyðifirði. Joey Syta nærðist á því sem hann sleit upp úr jörðu og fjöru og reyndi fáklæddur að halda á sér hita í kuldanum. Vinir hans héldu að hann væri í Seyðisfirði og leituðu hans þar. En björgunarsveitarmenn stækkuðu svo leitarsvæðið. Að morgni – eftir marga daga – heyrði Joey hljóð björgunarsveitarbáts og honum tókst að ná athygli bátsverja. Hann náði að stökkva af kletti út í bátinn og var svo komið til byggða og manna. Hann sem var týndur var fundinn – Joey Syta lifði af.[i]  Mannbjörg.

Hvenær erum við týnd?

Að týnast og finnast er meginþema í sögum og lífi heimsins og eitt af djúpsæknustu þemum Biblíunnar. Það er stefið sem ég tala um í dag – og engin tilviljun að Jesús sagði ekki bara eina heldur þrjár sögur um merkingu þess. Í Lúkasarguðspjalli eru sögur um týnda sauðinn, um týnda peninginn og svo líka um týnda soninn. Þær eru ekki bara krúttlegar sögur sem enda vel heldur fremur djúpsögur um merkingu lífs og heims. Þær eru ekki Munchausen-sögur um að við getum dregið okkur sjálf upp á hárinu. Þetta eru ekki sjálfshjálparsögur heldur sögur um að breyta um lífsskoðun. Sögurnar eru snúningssögur. Þær breyta sjónarhólum þeirra sem skilja þær. Þær breyta mannsýn, heimssýn og líka himinsýn. Þær úthverfa mannmiðlægni og tjá að menn séu ekki miðja heimsins heldur Guð. Sögurnar miðla að það séu ekki menn heldur Guð sem bjargi lífi og veöld. Og þessi Guð bíður ekki eftir að hinn týndi komi sjálfur heldur fer að leita, þolinmóður, þolgóður, þrautgóður og leitar og finnur. Þegar hinn týndi finnst eru engar skammir fyrir óvitaháttinn, fyrir að ana út í vitleysu – nei, heldur dásamlegur fögnuður og gleði.

Joey Syta var týndur og gat ekki bjargað sér sjálfur. Hann fannst og var fagnað. Við lendum öll í því í lífinu að villast, t.d. detta úr sambandi, týnast í verkefnum, fjármálum, vinnu eða skóla. Sum okkar villumst í óblíðri náttúru, önnur í geðbrenglun eða ástarlífinu, í fjölskylduharmleikjum, vinnu eða vímu. Við getum líka slitnað úr samandi við elskhuga lífsins – Guð. Þá missum við trúna. Veröldin klikkast og kerfi veraldar hrynja.

Hvenær erum við týnd? Og á bak við hana er önnur og ágeng spurning: Tökum við eftir því þegar við erum týnd? Þegar best lætur röknum við úr rotinu eins og Joey Syta – sambandslaus og bjargarlaus – en tilbúin að nema lífshljóðin – björgunarmerkin. Svo dró Jói saman lífsreynsluna og lærdóminn þegar Mogginn tók viðtal við hann: „Ef þú vilt ekki deyja, þá verðurðu að læra að lifa.“ Það er skarplega athugað. Hvernig lærir einstaklingur og heimur að lifa?

Fundinn – Guð sem leitar – Guð sem finnur

Áherslan í sögunum í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls er ekki  ógn og skelfingu þess að týnast heldur fremur á gleði björgunarinnar. Ekki um drungann heldur von. Ekki um dauða heldur líf. Merkingarsnúningur þessara sagna er stóra bomban – að það eru ekki menn sem finna Guð – heldur Guð sem finnur og fagnar. Í því er úthverfing sagnanna fólgin. Það er hirðirinn sem skilur eftir 99 kindur og leitar einar. Það er konan sem sópar gólfið í leit að einum smápeningi. Hún finnur og gleðst. Og það er faðirinn sem stendur við veginn og horfir í fjarska og sér svínastíusoninn koma. Líkingarnar byrja í hinu mannlega en beina síðan sjónum að hinu dýpsta og mikilvægasta. 

Hvað finnst þér um það að snúa mannmiðlægni okkar og veröld á hvolf og gera veröldina guðmiðlæga í staðinn? Leyndarmál ástarríkis Guðs er að við erum metin og elskuð óháð göllum okkar. Gildi okkar er ekki háð okkur heldur erum við metin óháð sjálfsmynd og eigin mati. Það er Guð sem fer af stað og spyr ekki hvort við eða veröldin séu þess virði að eyða orkunni. Það er Guð sem ber okkur heim. Það er Guð sem fagnar okkur. Það er Guð sem leitar að hinu týnda og finnur en ekki að menn sem leita Guðs og finna. Guð hefur frumkvæði að leita okkar en ekki öfugt.[ii] Heimsbjörg.

Leit Guðs á okkar tímum

 Margir hafa misst tengsl við trú og týnst í einhverjum Loðmundarfirði lífsins. En Guð er ekki reiður – Guð biður ekki um skýrslu, að fólk hringi eða ýti á neyðarhnappinn. Guð fer af stað og finnur okkur. Mannbjörg. 

Jesús talar ekki um refsingar heldur um gleði. Hirðirinn fagnar. Konan kallar nágranna sína til sín svo þeir geti glaðst með henni. Ólánssonurinn sá að sér og kom heim og þá var ekki tími til að skamma strákinn heldur til að gleðjast og efna til veislu. Í þessum Jesúsögum er tjáð að Guð birtist ekki í mynd veisluspillis. Guð er þvert á móti sá máttur sem leysir úr vanda, leitar lausna, sér hið týnda sem Guð elskar alltaf og þorir svo að halda hátíð þegar það sem var týnt finnst. Guðstrú kristninnar er ekki kerfi eða siðalögmál heldur fögnuður. Guð leitar, finnur og fagnar. Og þótt menn bæði mengi og sprengi heiminn tekst okkur ekki að týnast Guði sem sleppir ekki. Fagnaðarerindi.

Samfélög brotna, hópar og þjóðir deila og við lifum skautun, grimmd og ofbeldi meðal manna. Samkennd rofnar, sundrung læðist um samfélög sem riðlast. Vonleysi magnast og lömunarsýki tilgangsleysis geisar. Á þessum tímum er hollt að horfa í dýptir og spyrja hverjir bjarga heiminum, lífríkinu, mannfólkinu – eru það menn?

Jói Sæti var strand. Hann hafði villst og slasast. Hann beið og vonaði – lærði að lifa. Ef björgunarsveitin hefði ekki leitað hefði hann farist. Þannig er það í stóru málum okkar og veraldarinnar. Það eru ekki menn sem bjarga týndri og villtri veröld heldur Guð. Guð er ekki bara uppruni okkar – Guð er besti vinur – mannbjörg, landsbjörg og heimsbjörg.

Amen.

Hallgrímskirkja, 3. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 6. Júlí, 2025.

Textar dagsins: Míka 7.18-19; Ef. 2.4-10; Lúk 15.1-10.

And for those of you who do not understand Icelandic:

I spoke about the biblical, social, political, and general theme of being lost and found. I mentioned an American man who went missing last March in an uninhabited area of eastern Iceland. No one knew where he was — but eventually, the national search and rescue team found him, and his life was saved.

The biblical stories emphasize that we are responsible for our lives, yet we are not able to save ourselves. In the parables of the lost and found, Jesus turns human-centered narratives inside out. The focus shifts: it is God who is the center of help. God is always on the alert — ready to rescue, without shaming those who did everything wrong.

No — God searches, finds, and then celebrates. The Christian pattern is clear: what was lost leads to joy. The earthly story becomes, at its core, a story of hope — a movement toward goodness and joy — because this world is a beautiful, grace-filled creation of God.

[i] Frásögn af ferð Joey Syta, hvað hann gerði og hvernig hann fannst er í Morgunblaðsgrein að baki þessari smellu.

[ii] Jón Gnarr skrifaði eitt sinn í blaðagrein að hann hafi leitað að Guði en ekki fundið. Hann dró þá ályktun að Guð væri ekki til. Ég fjallaði um skrif hans og benti á viðsnúninginn, að það væri Guð sem leitaði manna og líka að Jóni Gnarr. Grein mín um túlkun Jóns Gnarr var á visir.is og er að baki þessari smellu.

Myndina tók ég í ferð vinafjölskyldna í Austur-Skaftafellssýslu. Fjallsárlón. 

Manngildið og ástarhaf

Mörg börn heimsins hafa legið á bakinu, horft upp í himininn, dáðst að stjörnumergðinni og rekið upp undrunaróp þegar loftsteinn strikar næturhimininn. Og þegar bætt er við tölum eða vitund um stærð vetrarbrautarinnar og geimsins sjálfs, verður jarðarkúlan lítil — og manneskjan, sem liggur á bakinu og leyfir sér að „synda“ á yfirborði þessa afgrunns, verður sem smásteinn í fjöru.

Matthías Johannessen líkti í einu ljóða sinna mannverunni við sandkorn á ströndinni og bætti við að kærleikur Guðs væri sem hafið. Við erum óteljandi börn lífsins á strönd tímans — mannabörn sem leikum og lifum í flæðarmáli. Og það er undursamleg von og trú að við séum ekki leiksoppar rænulauss öldugangs, án tilgangs, heldur umvafin lífi, í kærleiksfangi.

Annað skáld, mun eldra — höfundur 8. Davíðssálms Biblíunnar — vísar líka til hinnar sammannlegu reynslu að horfa upp í himininn, undrast og velta fyrir sér smæð mannsins:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans,

og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð,

með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Hvað er maðurinn? Hvað ert þú?

Öll erum við dýrmæt. Hin kristna nálgun og afstaða er að hver einasta mannvera sé undursamleg og stórkostleg. Jesús Kristur hvetur alla menn til að meta eigið líf, og umgangast aðra sem djásn og vini Guðs. Og þannig megum við íhuga hið merkilega líf fólks — að Guð minnist allra, Guð varðveitir alla.

Þakkarandvarp sálmaskáldsins fyrir þúsundum ára var, og má enn hljóma þegar börn — eða við öll — íhugum dýptir og hæðir, stjörnur, sandkorn, tungl og sólir:

Guð, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Sólin

Tate Modern á 25 ára afmæli og the Guardian rifjar upp merkustu sýningarnar í túrbínusalnum sunnan Thames. Sól Ólafs Elíassonar í veðurverkinu er ein – ef ekki sú – merkasta í sögunni. Við feðgar hentumst inn í sólartúrbínuna á sínum tíma. Þessi hugleiðing um áhrif og þanka rataði óvænt upp á skjáinn hjá mér og er ekki á vefnum svo ég set hana hér inn Tate til lofs og Ólafi Elíassyni líka:

Sólin

Oft hugsaði ég um það sem barn að undarlegt væri að Guð skyldi vera skipta sér af okkur mönnum sem værum óþekk og lítt guðleg í lífinu. Hvaða máli skiptum við þessi peð í milljónahafinu? Skiptir þessi jarðarkúla og líf á þessum hnetti Guð máli? Okkur verður svimhætt á vetrarkvöldum þegar við leggjumst á bakið á stjörnubjartri nótt og sjáum hvelfinguna. Þú hefur eflaust fetað álíka hugarbrautir. Við verðum smá. Kannski er það merkilegt andóf af okkar hálfu að við hættum að mæna upp í himininn á þann hátt, þegar við eldumst? Eða hræðsla?

Sólin og leikurinn

Ég sá sýningu Ólafs Elíassonar í Tate Modern í London, þessa með sólinni í miðjum túrbínusal orkuvers. Við feðgar hlupum inn úr desembersuddanum og vissum ekki hvers við áttum von í þessu stóra húsi við hlið risaskorsteins á suðurbakka Thames. Það var eins og að verða fyrir hamskiptum að fara um dyrnar. Inni var mistur, litlar mannverur skruppu saman í gríðarlegu rými og fyrir enda var þessi risasól, hin algera miðja þessa stóra rýmis. Við gengum inn löturhægt, sáum allt fólkið, sem var eins og í leiðslu, fórum til að skoða hvernig sólarflekinn væri unnin. Við uppgötvuðum okkur til undrunar að sólin var aðeins hálf og hitt var speglun. Ólafur hafði í fundvísi sinni tvöfaldað stærð túrbínuhússins, sem þó er stærra en kirkjuskip Hallgrímskirkju. Hafði látið koma fyrir speglum í allt loftið og tvöfaldað þannig upplifun hæðarinnar. Þar með var aðeins nauðsynlegt að hafa sólina hálfa, en speglahallinn var réttur við enda salarins og sólin virtist heil. Hugvitið heillaði, hugsunin var stórkostleg og þetta listaverk er eitthvert það allra öflugasta sem ég hef upplifað. En svo fórum við að gefa fólkinu gaum. Á einum stað var hópur kátra háskólanema. Þau skríktu þegar hnjáliðir þeirra kiknuðu og létu sig falla á gólfið. Svo horfðu þau upp í loftið, sáu sjálf sig eins og smáverur í grassverði, sprikluðu, spörkuðu fótum upp og til hliða, mynduðu bylgjur og mynstur. Á öðrum stað voru nokkrir virðulegir karlar að benda upp í loftið, svo hljóp strákurinn í þá og þeir dönsuðu lítilega um leið og þeir horfðu upp í loftið og sáu spegilmynd sína. Hópur pelsklæddra kvenna kom líðandi. Það var heillandi að sjá þær leka niður í hláturgusum, leggjast í miljónaflíkum sínum á slípaða steinsteypuna og sprikla. Þær höfðu kastað hamnum, voru eins og tíu ára gamlar. Sólarverkið hans Ólafs var hugsað sem veðurverk og er merkilegt sem slíkt. En það á sér líklega dýpsta merkingu í að vera leikverk, listaverk sem kallar fram barnið í fólki, leyfir því að kasta belgnum, af hvaða tagi sem hann er, verða barn að nýju og leika sér. Einu gildir þótt höfundur hafi ekki gert sér grein fyrir því við hönnun þess. Listaverk eiga sér eigið líf eins og dæmin fyrr og síðar sanna. Sólin fer á loft í Tate og barnið vaknar. Mér fannst eins og þessi Tatesýning vera stórkostlegur undirbúningur fyrir jólin. Góð aðventusýning fyrir mig, sem var að stilla sálarstrengi fyrir Jesúkomuna. Jólasólin, jólastjarnan skín en barnið í okkur vaknar, dottandi vitundin vaknar, kætin brýst fram og við þurfum ekki annað en kikna í hnjáliðum, láta okkur falla aftur á bak, horfa upp í himininn, sprikla og taka við. Það er undursamlegt að leyfa lífinu og leiknum þannig að koma til okkar. Eða hvað?

Guð sem kemur

Guð elskar svo takmarkalaust að hann afskrýðist konungsskrúða sínum og tekur á sig mynd mannsins í sinni ófullkomnustu, reyndar sláandi fögru mynd. Í því er fólgin einhver dýpsta tjáning himinsins á mikilvægi þínu. Guði er svo í mun að koma til þín, kalla til þín, vekja athygli þína á kjörum þínum og tilgangi allrar tilverunnar, að hann kemur sem ungt líf. Kallar til alls þess sem innst er í þér, kallar þig til eigin sjálfs, til þess sem er kjarnlægast í hugskoti þínu og brjósti. Guð vill tala við þig, eiga fund með þér. Guð kemur aftur og aftur, talar við þig um hver jól, kallar fram eitthvað undarlegt, sem við náum ekki að skýra og skilgreina. Yndisleiki, tvíræðni og torræðni jólanna er slík. Jólin eru þó ekki aðeins atburður, sem er endurtekinn árlega. Guð er ekki eins og starfsmaður stórfyrirtækis sem er á þönum milli útibúa og útstöðva fyrirtækisins. Guð er alltaf nærri, alltaf viðstaddur, alltaf hjá þér og er ávallt til reiðu þegar á bjátar. En Guð er hjá þér biðjandi, ber fram bón um að þú verðir samstarfsaðili Guðs, biður þig að vakna til vitundar um ábyrgð þína.

Stærðir veraldar og maðurinn

Sólin í Tate er stór, en stærri er vetrarhimininn, þegar maður verður skelfilega lítill. En þá fyrst verður maðurinn smár gagnvart lífinu þegar fer að daga á mann stærðir veraldarinnar allrar. Stjörnufjöldinn gefur vísbendinu. Bara í okkar sólkerfi, Vetrarbrautinni, eru líkast til hundruðir milljarða stjarna. En síðan er ótrúlegur fjöldi annarra vetrarbrauta til í alheiminum, líklega 100 milljarðar. Ef við gerum ráð fyrir að meðalfjöldi stjarna í vetrarbrautum sé svipaður fjöldanum í okkar vetrarbraut má ætla að fjöldi stjarna sé nærri 20.000 milljarðar milljarða eða 20.000 trilljónir. Þessar tölur hafa litla merkingu í huga okkar og eru óskiljanlegar en gefa okkur þó einhverja tilfinningu fyrir að jörðin okkar er eins og títuprjónshaus og við mannfólkið sem míkróskópískt smælki í óravíddum geimsins. Sá Guð sem er að baki slíku vetrarbrautaverkstæði er mikill. Er líklegt að skapari að starfi við milljarða sólna líti til manna og komi jafnvel sjálfur. Allra sérkennilegast er þó að Guð velji að koma í mynd barns við hinar erfiðustu og niðurlægjandi aðstæður. Í þessu er tjáð þverstæða hins kristna boðskapar, að Guð hafi valið sér þessa ótrúlegu aðferð til að koma til þín, í mynd barns.

Sól í Tate – jólasól í heimi

Tatesýningin er opinberandi fyrir þarfir manna, til að vera í samræmi við sitt innra eðli, en einnig að sjá sig í einhverjum speglum sem sýna fólk. Þeir speglar eru hin kristna hefð. Við megum spegla okkur í mynstri og formum. Þar er kirkjan að starfi í safnaðarlífinu. Við megum spegla gildi okkar og langanir í trúarlífi og túlkun aldanna. Tatesýningin góða verður tekin niður. Hver gerði þetta spurði lítill enskur strákur pabba sinn. „Some Icelander,“ sagði pabbinn. En svo hverfa þessi tjöld um bernskt líf og veður, en eftir situr vitneskjan um list, ávirkni og líf okkar. Eru jólin með sama móti í þínu lífi? Eru þau sýning sem varir aðeins um tíma og svo tekur þú niður stjörnur og ljós og pakkar jólabarninu þínu, sjálfum þér, tilfinningum þínum niður í kassa sem bíður næstu jóla? Sól í Tate og fólkið fór að leika. Sól Guðs rennur upp á himinn heimsins og þá er allri heimsbyggðinni boðið til bernsku og leika. Tilefnið til leiks er ærið í Tate, en tilefnið er gríðarlegt í tilverunni sjálfri. Guð kemur, Guð barn í heimi, Guð fæðist til að koma. Og þegar það verður má varpa öllu frá sér og spegla sig í öllum speglum himinsins.

Myndina, sem fangar vel áhrif veðurverks Ólafs á fólk í túrbínusalnum, tók Dan Chung/Guardian. 

Trú að hverfa?

Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.

Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.

Trú á breytingaskeiði?

Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.

Lífsfestan sjálf

Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.

Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.

Takk fyrir …

Guð ég þakka þér fyrir lífið og þessa undursamlegu litríku veröld. Takk fyrir síkvika verðandi spriklandi af möguleikum, fyrir dansandi sól, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað. Guð ég þakka þér hljóma heimsins, hvísl stráanna, ýlið í gluggum húsanna, blæstrokur í hári, alla tónlist heimsins. Guð ég þakka þér fyrir foreldra og tilraunir þeirra til uppeldis hvort sem þær tókust eða ekki, afa og ömmur, vini, börn og félaga. Takk fyrir elskuna sem við höfum notið í lífinu, gáfurnar sem þú hefur gefið okkur rausnarlega, hæfileikana, hjartsláttinn, hugsanirnar, lífsplúsa og púlsa. Takk fyrir vetur og árstíðir, breytilegan ljósgang, djúpmyrkur og jólaljós, matarlykt í nefi og bragðundur í munni. Takk fyrir getuna til máls og hugsunar og líka fyrir hendur til að gæla við ástvini, þvo þvotta, elda mat, prjóna, smíða, þrífa, skapa listaverk og músík. Takk fyrir krydd lífsins og munnsins, ljóð og sögur, ævintýri, gleðiefni og hlátra. Takk fyrir leik barnanna, spilandi kátínu daganna, styrka hönd í áföllum og faðm þinn í dýpstu sorgum. Takk fyrir dagana sem við njótum, tilfinningar, tengsl og gjafir sem þú og vinir lífsins gefið. Takk fyrir að við megum vera í þessari miklu fylkingu lífsins sem veitir af sér, miðlar og þakkar …