Veistu ekki hver pabbi minn er?

Ég var einu sinni á næturvakt á tjaldsvæði þjóðgarðsins Þingvöllum. Hlutverk okkar starfsfólks var að tryggja næði og næturfrið. Í mörgum tjöldum voru ólæti þessa nótt og þurfti að hafa afskipti af mörgum gleðipinnum. Í flestum tilvikum var hægt að ræða málin og féll á ásættanlegur friður nema í einni tjaldþyrpingunni. Þar var vinahópur og forsprakkinn varð pirraður þegar kyrrðar var óskað. Honum var bent á að flestir tjaldbúar á svæðinu vildu sofa en hann espaðist bara. Hann kom ógnandi að mér og spurði hranalega með reiðiglampa í augum: „Veistu ekki hver ég er?” Þegar ég féll ekki flatur fyrir mikilfengleika tjaldbúans espaðist hann og hreytti út úr sér: „Veistu ekki hver pabbi minn er?” Lætin héldu áfram og ekki kyrrði í öllum tjöldum fyrr en undir morgun. Eitt af morgunverkum mínum var að hringja í pabbann þjóðþekkta. Hann brást vel við, kom austur og fór með sinn pilt. Sá var lúpulegur í morgunsólinni.

Þegar óróaseggurinn var fluttur suður sat ungur pabbi úti fyrir tjaldi sínu. Börn hans höfðu verið hrædd um nóttina og ég bað hann afsökunar á ónæðinu. Hann svaraði: „Hafðu engar áhyggjur. Þið hafið gert allt sem hægt var að gera. Þetta eru bara unglingar sem þurfa að reka sig á. Við höfum öll orðið að hlaupa af okkur hornin. Við bara sofum út í stað þess að fara á fætur kl. 7.”

Þessi pabbi varð þjóðþekktur líka. Ég minnist alltaf þeirra tveggja, ógnandi óróaseggsins og pabbans unga, þegar ég sé hann í sjónvarpinu. Siðferði er vissulega háð uppeldi en frægir pabbar auka hvorki réttindi fólks né minnka ábyrgð þess. Okkar er ábyrgðin en ekki pabba eða mömmu.