Sauð vatnið upp á bak örninni – og 60 laxar

Ernir verptu við Sogið og nærri Alviðru fram eftir tuttugustu öld, fyrst í hólma í Álftavatni og síðan í klettum í norð-austurhluta Ingólfsfjalls. Lax og silungur í Soginu var ekki aðeins mikilvægur fyrir mannfólkið heldur líka ernina. Afstaða íbúa í nágrenninu til þessara miklu fugla og veiði þeirra var mismunandi. Sumir grunuðu þá um lambarán en aðrir vörðu ernina og rökstuddu afstöðu sína í ljósi reynslu og samskipta. Árni Jónsson (7. okt. 1880 – 6. okt. 1966) var bóndi í Alviðru fram yfir miðja tuttugustu öld. Hann tók saman ítarlega örnefnaskrá fyrir Alviðru. Í greinargerð Árna segir hann frá viðburðum og minningum sínum sem tengjast örnefnunum. Meðal annars segir hann frá arnarvarpi í landi Alviðru. Í frásögn Árna koma líka fram upplýsingar um fálka og fiskveiðar. Málfar hans er varðveitt sem er áhugavert. Arnarhólmi er í Álftavatni. Eftirfarandi texti er hafður eftir Árna og skjalið varðveitt á Örnefnastofnun:

„Í eggjunum fyrir norðan Hádegisholtsgil er Langibás. Þar verpti örnin eftir það, að hún fór úr Arnarhólma. Langibás er í Torfastaðalandi. Þegar ég var ungur, verpti örnin í Arnarhólma á Strýtukletti, norðast í hólmanum, í landi Torfastaða. Örnin veiddi silung og lax í vatninu. Eitt sinn var komið að örninni við vatnið, og var hún þá búin að veiða 2ja fjórðunga lax og éta hann hálfan. Öðru sinni sá Þórður bóndi á Tannastöðum til hennar við ármótin á Sogi og Hvítá, að hún flaug yfir og setti klær í lax, sem synti ofarlega í ánni. Laxinn tók kast og vildi stinga sér, en örnin hélt á móti. Sauð vatnið upp á bak örninni, og leit út fyrir, að laxinn myndi keyra hana í kaf. En eftir dálitla stund er örnin búin að draga hann upp á eyri og drepa hann. Örnin hristir sig og lagar og flýgur í burt; kemur eftir litla stund aftur, er þá með tvær arnir með sér. Þœr setjast að laxinum og éta hann upp.

Eitt sinn komu menn frá Vaðnesi og báðu Torfastaðabændur um að steypa undan örninni í hólmanum, en þeir sögðust ekki gera það, því að hún tæki aldrei lömb frá þeim, þó svo að þau væru að leika sér við hreiðrið hennar, og svo lengi sem hún sæi lömbin í friði, hreyfðu þeir ekki við eggjum eða ungum arnanna í hólmanum. En Vaðnesmenn grunuðu örnina um að taka lömb frá þeim og færa þau ungunum sínum. Hún sótti stundum lömb og bar þau í hreiðrið, en má eins búast við, að það hafi verið dauð lömb, sem hún tók, því arnir átu dauðar kindur.

Eitt sinn bjó bóndi á Torfastöðum, sem Guðmundur hét Loftsson. Hann rændi örnina í hólmanum 2 eggjum, fór með þau á Eyrarbakka og seldi Nielsen verzlunarstjóra þau á 2 krónur. Nielsen lét eggin á eggjasafn, sem hann síðar hafði gefið barnaskóla á Eyrarbakka. En eftir þetta verpti örnin aldrei í hólmanum, en flutti sig í ógenga hamra í Langabás í fjallinu. Þar komst enginn til hennar nema fuglinn fljúgandi. Gjótan, sem hún var í, var svo vel löguð, að hún flaug þar inn með útbreidda vængina. Oftast kom hún út 2ur ungum, sem komu úr hreiðri um höfuðdag, þá eins stórir sem fullorðnir ernir. Það var sagt, að þá hrinti hún þeim úr hreiðrinu og ef þeir gætu ekki bjargað sér, þá dræpust þeir eða rotuðust. En það hefur þurft mikinn aðdrátt handa fjórum örnum.

Þegar ég var unglingur að smala kvíaám, sátu arnirnar oft á Hádegisholti. Virtust ungarnir ekki hræddir við mig og sátu kyrrir, þó að ég kæmi nærri þeim. Ef gömlu örnunum þótti þeir of nærri mér, komu þeir og ráku ungana upp, en skiptu sér ekkert af mér. En er á sumarið leið, hurfu ungarnir og sáust ekki meir, en gömlu arnirnar héldu sig á sínum fornu slóðum. Sama var að segja um hrafnsungana, sem komust fram í fjallinu. Þeir hurfu, er á sumarið leið, og sáust ekki meir, en gömlu hrafnarnir héldu sig í fjallinu, oft á nóttum nálægt hreiðrinu sínu. En hvað varð af öllum þessum ungum, vissum við ekki.

Það var ungur maður í Tungu í Grafningi, sem Þorsteinn hét Þorsteinsson … … sá sem mest veiddi í ádrátt laxinn á svokölluðum Tungudráttum. Hann byrjaði að veiða 18 vikur af sumri og dró á fram undir jól, er góð var tíðin. Kom fyrir, að hann fékk 60 laxa á einu kveldi og hlóð ferjubát, er hann átti. Laxinn var saltaður í öll ílát, sem til voru, og svo saltaður í stafla í skemmuna, sem tíðkaðist með þorsk við sjó. Þorsteinn Þorsteinsson var eitt sinn á gangi með Soginu. Finnur hann þá örn með aðra klóna fasta í laxi, en hina klóna fasta í torfbakka við Sogið. Laxinn var lifandi. Hann náði örninni og laxinum, skar stykki úr laxinum og lét örnina hafa það, sem hún hélt í klónni, og sleppti henni svo.

Einu sinni var ég á ferð hjá Hádegisholti. Kom ég frá Torfastöðum. Kemur þá fljúgandi fálki ofan úr Ingólfsfjalli, kastar sér yfir víkina í Álftavatni, slær þar önd, sem var á víkinni, grípur hana áður, en hún dettur á vatnið, og snýr til fjalls. En á sömu stund kemur annar fálki ofan úr fjalli, ræðst á þann, sem var með öndina, setur í hana klærnar, og svo togast þeir á í loftinu. Þá hleyp ég til og datt í hug, að ég myndi ná öllu saman, því að þeir voru skammt frá jörð og ýlfruðu mikið. En er ég kom nær, slepptu þeir báðir öndinni og flugu til fjalls, en ég hafði öndina. Fálkinn hafði slegið öndina á hálsinn, svo að hausinn hékk við hana á svolítilli skinnrönd. Svona slær fálkinn hausa af fuglum. Til dæmis hef ég séð fálka slá haus af rjúpu, svo að haus og kroppur hafa fallið til jarðar hvort í sínu lagi.“

Samkvæmt túlkun Magnúsar Más Lárussonar í Kuluturhistorisk Lexikon for Nordisk Middelalder hefur fiskurinn sem assan náði á land verið um 17 pund. 

Meðfylgjandi ljósmynd Jóhanns Óla Hilmarssonar sem hann sendi mér og heimilaði mér notkun á.