Einurð, Draumey Aradóttir

Einurð

Ljóðabók Draumeyjar Aradóttur, Einurð, kom mér mjög á óvart. Kannski ekki gæði bókarinnar, geta skáldsins eða öflugt skáldamál heldur fremur viðfangsefnið. Ég sá á flipanum að höfundur fjallaði um geðhrif, hughrif og kenndir og áhrif á einstklinginnn á fyrsta æviskeiði. Það eru ekki fyrstu árin heldur fósturtíminn í móðurlífi. Og ekki aðeins þeim megin – heldur hinum megin móðurnaflans líka. Gott og vel – hugsaði ég með mér. Já, vissulega áhugavert en samt var ég tortrygginn. En ljóðin gripu strax og vitundin flæddi í matrix lífsins.

„Langminnungar frumur líkama þíns færa mér

uppsafnaða reynslu formæðra okkar og forfeðra

 

langræknar flytjar þær mér áfram niður keðjuna

allar ástir og afrek

alla ósirgra og áföll

 

rista ljóðrúnir á legveggina

sem ég les mig í gegnum næstu vikur og mánuði

en endist ekki ævin til að ráða“ (s. 30)

Uppsöfnuð reynsla kynslóðanna er orðfærð, áhrif samfélags, viðburða og líka áfalla. Hvaða afleiðingar hefur dauðsfall á fóstur og tilfinningaþykkni og samlíf móður og hins nýja lífs. Ljóðin vísa til og tjá þá fléttu en ramma líka vel þagnarmálin.

Einurð er ekki ljóðsaga með póetískum prósatextum heldur nær því að vera marglaga söguljóð um upphaf manneskju og að auki í aðkrepptum aðstæðum. Þetta er þemabók um alvöruþema. Mér þótti stefjavinnan ganga upp. Þemað er unnið með ágætum.

Bókin varð mér persónulega nærgöngul því amma drengjanna minna varð til einhverjum klukkutímum áður en faðir hennar fór í hafið við Vestmannaeyjar. Hverjar eru afleiðingar áfalls, viðbragða og sorgarvinnu móður á hellisbúann nýkviknaða? Fæðingarreynsla er tjáð, inngrip, staða fósturs og síðan framhaldsmótun persónueiginda. Lýsingagnóttin er öflug og grípandi.

Til hamingju Draumey með þessa merkilegu bók. Hún kom inn um bréfalúguna kl. 10 að morgni og upp úr hádegi var ég búinn að lesa. Kona mín sagði vá þegar hún var búin að lesa fyrstu blaðsíðurnar!

Að baki þessari smellu eru upplýsingar um höfundinn. Gott viðtal við Draumeyju á Lifðu núna. Sæmundur gefur út og leggur metnað í útgáfuna sem er þakkarvert. Aðalsteinn Svanur Sigfússon vann bókina til prentunar og hann er landsliðinu í bókahönnun.