Matthías Johannessen og fegursta ástarljóð Íslendinga

Óendanlega smátt er sandkornið

á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,

kærleikur þinn hafið.

Matthías Johannessen var magnaður ferðafélagi. Ljós heimsins leituðu alltaf að honum þar sem hann fór. Hann varð því gjarnan miðja hverrar samkomu. Hann horfði djúpt í augu og brást við af alhygli. Hann svaraði hnyttilega og stundum rosalega. Ég hitti Matthías fyrst í hringiðu Moggans í Aðalstræti og síðan oft á fundum í Reykjavík og út á landi. Við ræddum margt en nánastir urðum við í úrvinnslu dauða Hönnu, konu hans. Við fórum þá saman austur að Fljótinu helga, Soginu. Við sátum við flauminn og töluðum – og þögðum líka. Matthías hafði engan áhuga á að veiða sem var okkur þó heimilt. Stangirnar lágu því á bakkanum en við önduðum að okkur sólskini og flutum inn í lífheim umhverfisins. Þá vildi Matthías tala um Hönnu, svo líka sefandi harmljóð fljótsins og haustið sem allra bíður.

Stórskáldið sat þarna á bakkanum og íhugaði einbeitt æðruleysið í Fljótsljóði Tómasar. Það er kraftmikið en meira og mýkra er sandkornsljóð Matthíasar. Hin þanda spenna líkingar þess hrífur og faðmar. Það er líka helgiljóð sem Matthías gaf út í Sálmum á atómöld. Þegar ljóðað er um ást lyftist sálin. Augu Matthíasar blikuðu þegar ég spurði hvort hann hefði ljóðað í sálminum til Hönnu sinnar eða Guðs. Hann svaraði ekki spurningunni því í þeim málum sá hann enga andstæðu. Þegar hann horfði á, talaði við eða ræddi um Hönnu var sál hans opin. Þegar hann talaði um Guð var eins og hann talaði um Hönnu líka. Hún var honum guðleg ásjóna. Þegar Hanna  sviðnuðu flugfjaðrir Matthíasar og urðu aldrei samar síðan. Missir hans var djúpsár, sorg er ástarskuggi. Eiginlega fór hluti af honum með henni inn í eilífðina. Og þar er bara himinsjór elskunnar. „Ég er sandkorn á ströndinni, kærleikur þinn er hafið.“ Fegursta ástarljóð Íslandssögunnar og sálmur líka. Guð geymi Hönnu og Matthías, blessi minningarnar um þau og styrki ástvini þeirra.  

Kennimyndina af Matthíasi tók ég í kjallara Neskirkju 2007. Hann talaði þá um skáldverk sín og las upp eigin ljóð. Myndina hér að ofan tók ég 22. febrúar 2009 á Torgi Neskirkju. Matthías var hugsi í umræðum um efnahagshrun Íslendinga. Minningarorð um Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen eru að baki þessari smellu